Nýr hagfræðingur til Bændasamtakanna
Harpa Ólafsdóttir hefur verið ráðin sem hagfræðingur Bændasamtaka Íslands og hóf hún störf í byrjun þessa árs.
Harpa er með MBA í mannauðsfræði frá Háskóla Íslands og lauk grunn- og framhaldsnámi í þjóðhagfræði frá Georg-August- háskólanum í Göttingen í Þýskalandi árið 1991. Hún hefur að auki réttindi sem leiðsögumaður.
Harpa hefur víðtæka þekkingu á m.a. greiningarvinnu og stefnumótun, málefnum vinnumarkaðarins og kjarasamningum. Hún starfaði áður sem sviðsstjóri kjara- og réttindasviðs Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga, frá 2022 og var skrifstofustjóri kjaramála hjá Reykjavíkurborg, á mannauðs- og starfsumhverfissviði, fram að því, frá 2018. Um fimmtán ára skeið starfaði Harpa hjá stéttarfélaginu Eflingu sem sviðsstjóri kjaramála. Hún sat í stjórn Gildis-lífeyrissjóðs í sjö ár, sem formaður og varaformaður, og í stjórn Landssamtaka lífeyrissjóða um skeið.
„Ég tek m.a. með mér í nýtt starf að sjá ýmsar hliðar á öllum málum. Hlutverk mitt hefur verið að sjá ólíkar sviðsmyndir og geta svolítið bakkað til baka ef hlutirnir virðast alveg ófærir og sjá þá nýja fleti á málum. Það hefur jafnan verið minn styrkleiki,“ segir hún.
Harpa er fædd árið 1965 og á uppkomna tvíburasyni. Hún ólst upp í Reykjavík. Faðir hennar var frá Sauðanesi í Torfalækjarhreppi en móðir frá Böðmóðsstöðum í Laugardal en þau kynntust í Reykjavík í lok síðari heimsstyrjaldar.