Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 8 ára.
Ný stjórn vill aukna framleiðni í landbúnaði, draga úr sértækum búgreinastyrkjum og endurskoða ráðstöfun tollkvóta
Fréttir 12. janúar 2017

Ný stjórn vill aukna framleiðni í landbúnaði, draga úr sértækum búgreinastyrkjum og endurskoða ráðstöfun tollkvóta

Höfundur: Hörður Kristjánsson / Vilmundur Hansen

Ný ríkisstjórn undir forsæti Bjarna Benediktssonar, formanns Sjálfstæðisflokksins, hefur tekið til starfa. Í stjórninni sitja ellefu ráðherrar og þar er Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir úr Viðreisn í sæti sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra.

Auk Bjarna og Þorgerðar Katrínar er Benedikt Jóhannesson, formaður Viðreisnar, fjármálaráðherra, Óttarr Proppé, formaður Bjartrar framtíðar, er heilbrigðisráðherra, Kristján Þór Júlíusson, Sjálfstæðisflokki, er menntamálaráðherra, Björt Ólafsdóttir, Bjartri framtíð, er umhverfis- og  auðlindaráðherra, Jón Gunnarsson, Sjálfstæðisflokki, er samgöngu-, fjarskipta- og byggðamálaráðherra, Þorsteinn Víglundsson, Viðreisn, er félagsmálaráðherra, Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir, Sjálfstæðisflokki, er ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, Sigríður Á. Andersen, Sjálfstæðisflokki, er dómsmálaráðherra og Guðlaugur Þór Þórðarson, Sjálfstæðisflokki, er utanríkisráðherra.

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, nýskipaður sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, sagði í tíufréttum í Sjónvarpinu (RÚV) á þriðjudagskvöld, að hennar fyrsta verk í embætti verði að skipa að nýju í nefndina sem á að endurskoða búvörusamninginn.

Í stuttu samtali við Bændablaðið í gærmorgun sagði Þorgerður að áherslur hennar í landbúnaðarmálum séu í samræmi við það sem kemur fram í stjórnarsáttmálanum.

„Þar á ég við að meira tillit verði tekið til sjónarmiða neytenda og að ýtt verði undir meiri sátt um greinina. Búvörusamningurinn er til staðar og það verður áfram unnið eftir honum. Ég tel bara að það sé hægt að gera það í enn meiri sátt en ríkir í dag.“

Framleiðsla heilnæmra, innlendra afurða

Í landbúnaðarkafla stjórnarsáttmála, eða stefnuyfirlýsingar nýju stjórnarinnar, segir að áfram skuli lögð áhersla á framleiðslu heilnæmra, innlendra afurða í umhverfisvænum og samkeppnishæfum landbúnaði. Velferð dýra verði í hávegum höfð. Skilvirkt eftirlit með dýrum og matvælaframleiðslu verði tryggt, sem og gætt að neytendavernd.

Áhersla á aukna framleiðni

Þá segir að breytingar á búvörusamningi og búvörulögum skuli miðaðar að því að leggja áherslu á aukna framleiðni, hagsmuni og valfrelsi neytenda og bænda og fjölbreytt vöruúrval. Jafnframt verði horft til samkeppnisstöðu landbúnaðar á Íslandi vegna legu landsins, veðurfars og takmarkaðra landgæða.
Síðan segri að hreinn landbúnaður, þegar litið er til afurða og umhverfis, og minni kolefnislosun verði ásamt framangreindum þáttum leiðarljósið í landbúnaðarstefnu stjórnvalda. Leggja beri áherslu á að draga ekki úr hagkvæmni og styðja áfram við jafna stöðu bænda eins og kostur er.
Draga á úr sértækum búgreinastyrkjum

Endurskoðun búvörusamnings verður grunnur að nýju samkomulagi við bændur sem miðað er við að ljúki eigi síðar en árið 2019. Verður af hálfu stjórnvalda hvatt til að vægi almennari stuðnings verði aukið, svo sem til jarðræktar, fjárfestingar, nýsköpunar, umhverfisverndar og nýliðunar, en dregið úr sértækum búgreinastyrkjum.

Þá segir að endurskoða þurfi  ráðstöfun innflutningskvóta og greina forsendur fyrir frávikum frá samkeppnislögum fyrir mjólkuriðnaðinn og gera viðeigandi breytingar. Ekki fer á milli mála að þar er átt við Mjólkur­samsöluna (MS). 

Skylt efni: Landbúnaður | stjórnvöld

Glæsilegt Íslandsmót í hestaíþróttum
Fréttir 11. júlí 2025

Glæsilegt Íslandsmót í hestaíþróttum

Íslandsmót fullorðinna og ungmenna var haldið á Brávöllum á Selfossi dagana 25. ...

Sýklalyfjaónæmar bakteríur í íslenskum svínum
Fréttir 11. júlí 2025

Sýklalyfjaónæmar bakteríur í íslenskum svínum

Matvælastofnun (MAST) greindi frá því í byrjun mánaðar að MÓSA bakteríur hefðu g...

Ársfundi LSB frestað aftur
Fréttir 11. júlí 2025

Ársfundi LSB frestað aftur

Í sumar hefur þurft að fresta ársfundi Lífeyrissjóðs bænda tvisvar.

Þrjár varnarlínur lagðar niður og hólfum fækkað
Fréttir 11. júlí 2025

Þrjár varnarlínur lagðar niður og hólfum fækkað

Þrjár sauðfjárveikivarnarlínur hafa verið lagðar niður og fækkar varnarhólfum um...

Hvíla þarf kartöflugarða í Þykkvabænum í þrjú ár
Fréttir 11. júlí 2025

Hvíla þarf kartöflugarða í Þykkvabænum í þrjú ár

Atvinnuvegaráðuneytið hefur sent kartöflubændunum í Hrauk í Þykkvabænum fyrirmæl...

Ný nálgun í vörnum gegn dýrasjúkdómum
Fréttir 10. júlí 2025

Ný nálgun í vörnum gegn dýrasjúkdómum

Róttækar breytingar eru að verða á regluverki varna gegn dýrasjúkdómum.

Salmonella á Kvíabóli
Fréttir 10. júlí 2025

Salmonella á Kvíabóli

Matvælastofnun (MAST) hefur sent út tilkynningu um að salmonella hafi greinst á ...

Rekstrarvandi vegna samdráttar í útflutningi
Fréttir 10. júlí 2025

Rekstrarvandi vegna samdráttar í útflutningi

Eftir þungan rekstur síðasta vetur glímir ullarvinnslufyrirtækið Ístex við fjárh...