Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 6 ára.
Ný áhöfn
Mynd / BBL
Skoðun 2. nóvember 2017

Ný áhöfn

Höfundur: Sindri Sigurgerisson
Kosningar eru afstaðnar og skiluðu ekki mjög afgerandi niðurstöðu um hver kjósendur vilji að sé leiðandi við stjórn landsins á næsta kjörtímabili. Nýkjörnir þingmenn standa því frammi fyrir erfiðu verkefni við að ná saman um áherslur fyrir samfélag okkar á næstu árum.   
 
Margir hafa samt haft á orði að þeim sé ljós sú ábyrgð að vinna og tala meira saman.  Svo sannarlega skal tekið undir vonir um að það takist fljótt og vel. Um leið er öllum ný- og endurkjörnum þingmönnum óskað velfarnaðar í starfi og þeim sem hverfa af þingi er sömuleiðis óskað alls hins besta við ný verkefni.
 
Stöðugleiki og fyrirsjáanleiki er nauðsynlegur
 
Óvissa er aldrei góð í neinum rekstri og ekki síst í landbúnaðinum þar sem framleiðsluferlar eru lengri en í flestum öðrum atvinnugreinum.  Stöðugleiki og fyrirsjáanleiki er landbúnaðinum gríðarlega nauðsynlegur, ef vel á að vera. Það gildir auðvitað líka um aðra atvinnustarfsemi, en þegar um er að ræða ræktun lifandi dýra og hagnýtingu náttúrugæða þá hefur það meiri þýðingu en í mörgum öðrum greinum.  
 
Þegar slitnar upp úr stjórnarsamstarfi, eins og gerðist nú í haust, þá fara mjög mörg verkefni í bið. Ríkisstjórn og Alþingi sem er að hverfa frá geta litlu komið til leiðar.  Jafnvel verkefni sem allir eru sammála um stöðvast líka. Fæstir vilja taka ákvarðanir undir þeim kringumstæðum.  Síðan þegar kosningum lýkur þá taka við stjórnarmyndunarviðræður sem tóku rúma tvo mánuði í fyrra, en vonandi styttri tíma nú. Meðan á þeim stendur gerist líka fátt.  En svo þegar ríkisstjórn hefur verið mynduð og ráðherrar sestir í stóla sína þá þurfa þeir líka tíma til að setja sig inn í þá málaflokka sem þeim er treyst fyrir. Það getur liðið þó nokkur tími þar til að tími ákvarðana rennur upp og þá eru kannski liðnir nokkuð margir aðgerðalausir eða aðgerðalitlir mánuðir. Þess vegna er ekki sérlega skynsamlegt að kjósa á hverju hausti þó að ýmsir telji það kannski prýðilegt.
 
Vandi bænda eykst meðan beðið er
 
Þessar kosningar komu illa niður á vanda sauðfjárbænda í haust. Engar aðgerðir náðu fram þeim til hjálpar fyrir sláturtíðina og útilokað má telja að neitt nýtt gerist áður en henni lýkur endanlega í næstu viku. Það verður hins vegar að verða eitt af fyrstu verkefnum nýrrar stjórnar að taka þessi mál til meðferðar og komast fljótt að niðurstöðu. Vandinn hefur svo sannarlega ekki farið neitt meðan á þessari biðstöðu stóð, heldur orðið stærri. 
 
Þessa dagana eru sauðfjárbændur einmitt að berjast við að standa við skuldbindingar sínar.  Eins og kom fram í viðræðum við fráfarandi stjórn og opinberlega fyrr á árinu þá eru yfirleitt stór útgjöld á gjalddaga á þessum árstíma, enda fást afurðatekjurnar greiddar þá. Nú duga þær ekki til, hvað þá að neitt sé afgangs. Þetta er að gerast núna.
 
Mörg framboð töluðu vel til landbúnaðarins í aðdraganda kosninganna eins og fram kom í svörum þeirra við spurningum Bændablaðsins sem birtust í síðasta blaði og á bbl.is. Ástæða er til þess að hvetja lesendur til að halda þeim svörum til haga við þá flokka sem setjast munu í ríkisstjórn, eftir því sem kjörtímabilinu vindur fram. Það munu Bændasamtökin gera. 
 
Sjónarmiða landbúnaðarins gæti í nýjum stjórnarsáttmála
 
Bændur vænta þess að þeirra sjónarmiða sem þar komu fram gæti í stjórnarsáttmála nýrrar ríkisstjórnar, hverjir sem hana munu skipa að lokum. Það bíður svo líka ríkisstjórnarinnar að annast endurskoðun búvörusamninga árið 2019 fyrir hönd ríkisins. Áherslur ríkisins við þá endurskoðun hljóta eðlilega að byggja á því sem fram kom í áðurnefndum svörum og það skal endurtekið sem fram kom í síðasta blaði að þær áherslur þurfa enn fremur að byggja á heildarhagsmunum, ekki tilviljana- og yfirborðskenndum inngripum. Við þurfum stöðugleika og við þurfum framtíðarsýn. Bændur eru sannarlega tilbúnir til samtals um þau markmið við nýja ríkisstjórn þegar hún tekur til starfa.
Endurvinnslan er mest innanlands
Fréttir 29. febrúar 2024

Endurvinnslan er mest innanlands

Guðlaugur Gylfi Sverrisson, rekstrarstjóri Úrvinnslusjóðs, segir stjórn sjóðsins...

Háskóladagurinn á fjórum stöðum
Fréttir 29. febrúar 2024

Háskóladagurinn á fjórum stöðum

Háskóladagurinn verður haldinn í Reykjavík laugardaginn 2. mars.Þá gefst fólki k...

Rýnt í lagaumgjörð hvalveiða
Fréttir 29. febrúar 2024

Rýnt í lagaumgjörð hvalveiða

Forsætisráðherra hefur skipað starfshóp sem falið er að skoða lagaumgjörð hvalve...

Rækta má hundruð kílóa kjöts af einni stofnfrumu
Fréttir 28. febrúar 2024

Rækta má hundruð kílóa kjöts af einni stofnfrumu

Vistkjöt var boðið til smökkunar í Kópavoginum um miðjan mánuð, í fyrsta sinn í ...

Lambhagi notar „Íslenskt staðfest“
Fréttir 28. febrúar 2024

Lambhagi notar „Íslenskt staðfest“

Vigdís Häsler, framkvæmdastjóri Bændasamtaka Íslands, og Hafberg Þórisson, eigan...

Samræmt söfnunarkerfi
Fréttir 27. febrúar 2024

Samræmt söfnunarkerfi

Vinna á tillögu um útfærslu fyrir samræmt söfnunarkerfi dýraleifa á landsvísu se...

Áhyggjur af myglu, tollum og garðyrkjunámi
Fréttir 27. febrúar 2024

Áhyggjur af myglu, tollum og garðyrkjunámi

Deildarfundur garðyrkjubænda innan Bændasamtaka Íslands var haldinn 12. febrúar ...

Fjölbreytt verkefni
Fréttir 27. febrúar 2024

Fjölbreytt verkefni

Margþættar umræður sköpuðust á deildarfundi hrossabænda. Stofnverndarsjóður, hro...