Norrænt samstarf um neytendavernd
Fulltrúar norrænna neytendayfirvalda hittast árlega til að styrkja samstarf sitt. Í ár var lögð áhersla á að bæta stefnur og aðferðafræði í neytendamálum.
Neytendayfirvöld í Danmörku, Færeyjum, Finnlandi, á Grænlandi, Íslandi, í Noregi og Svíþjóð hafa um árabil átt í samstarfi um neytendavernd. Stofnanirnar hittast reglulega og deila reynslu sinni og hugmyndum um hvernig sé hægt að styrkja neytendavernd á Norðurlöndunum.
Segir í fregn Neytendastofu að í ár hafi fundurinn farið fram í Svíþjóð og þar verið farið yfir ýmis málefni, s.s. notkun gervigreindar til að styrkja eftirlit á internetinu og reynslu stofnananna af því að takast á við svik á netinu. Sérstaklega hafi verið farið yfir stefnumótandi samstarf, þ.m.t. hlutverk neytendayfirvalda í stefnumótun neytendamála og innleiðingu og framkvæmd nýrrar löggjafar. Dæmi um árangursríkt samstarf á norrænum vettvangi sé óformlegt bréf (e. non-paper) um stefnur í neytendamálum birt af ESB/EES-meðlimum norræna samstarfsins fyrr á þessu ári.
Á fundinum í Svíþjóð var ákveðið að styrkja samstarf stofnananna enn frekar með því að koma á fót teymi um stefnumál og aðferðafræði. Teymið mun verða viðbót við þegar starfandi hópa um stafræn málefni, umhverfisfullyrðingar, verðupplýsingar, verndun barna og fjárhagsþjónustu.
Segir í fregninni að samstarf norrænna neytendayfirvalda við að bæta stefnur og aðferðafræði í neytendamálum kunni ekki aðeins að hafa jákvæð áhrif á norræna markaði heldur einnig þá evrópsku.
