Niðurstöður viðhorfskönnunar áhyggjuefni
Meirihluti bænda telur stuðningskerfi landbúnaðar flókið en aðeins tæp 14% telja það einfalt, samkvæmt niðurstöðum viðhorfskönnunar sem matvælaráðuneytið lét framkvæma meðal bænda.
Markmið könnunarinnar var að afla upplýsinga um stöðu bænda og viðhorf þeirra til stuðningskerfis landbúnaðarins. „Tæp 30% telja kerfið þjóna hagsmunum þeirra vel en tæp 23% illa. Afgangurinn telur það vera í meðallagi,“ segir í tilkynningu ráðuneytisins. Þar kemur fram að meginniðurstöður könnunarinnar séu þær að mikilvægt sé að bæta stuðningskerfið og einfalda það þar sem meirihluti bænda telur það of flókið. Einnig að vaxandi þörf sé á rekstrarráðgjöf, sérstaklega fyrir þá bændur sem eigi í fjárhagslegum erfiðleikum. Þá séu umhverfismál orðin stór þáttur í búrekstri, en margir bændur hafa þegar gripið til aðgerða. Þótt bjartsýni sé nokkur meðal bænda, er þó stór hópur sem hefur áhyggjur af framtíð búrekstursins. Einnig er tiltekin sú meginniðurstaða að mikilvægt sé að þróa áfram stuðningskerfið með hagsmuni bænda í huga og skapa betri skilyrði fyrir sjálfbæran og hagkvæman landbúnað á Íslandi.
Forgangsverkefni að auðvelda nýliðun og kynslóðaskipti
Haft er eftir Hönnu Katrínu Friðriksson matvælaráðherra að niðurstöður könnunarinnar séu áhyggjuefni og ljóst að margar áskoranir séu í núverandi rekstrarumhverfi bænda.
„Í stefnuyfirlýsingu nýrrar ríkisstjórnar er kveðið á um nokkur forgangsverkefni á sviði landbúnaðar sem eru að auðvelda nýliðun og kynslóðaskipti og breyta jarðalögum til að vinna gegn samþjöppun og stuðla að nýtingu á ræktarlandi til búrekstrar. Auk þessa munum við sérstaklega huga að stöðu ungra bænda. Það þarf að vera raunhæft og eftirsóknarvert fyrir ungt fólk að koma undir sig fótunum í búskap,“ er haft eftir Hönnu Katrínu.
Spurt var einnig um mat bænda á horfum næstu fimm árin og bjartsýni gagnvart rekstrinum. „Í báðum tilvikum reyndust um 30% á sitt hvorum kantinum þ.e. svipað stórir hópar svarenda telja að umsvif muni aukast og að þau muni dragast sama og sömu hópar koma fram þegar spurt er um bjartsýni eða svartsýni í rekstri.“
Fjórðungur nýtir sér rekstrarráðgjöf
Þá var spurt um erfiðleika við að ná endum saman í rekstri á síðustu tólf mánuðum. „Um 44% sögðust hafa átt í litlum eða engum erfiðleikum, 26% í meðallagi en 30% sögðust hafa átt í miklum erfiðleikum. Um fjórðungur hafði nýtt sér rekstrarráðgjöf á síðasta ári, 30% hafði ekki gert það en hafði áhuga. 45% hafði ekki gert það og hafði ekki áhuga.“
Einnig segir að tæpur fimmtungur svarenda segist hafa gert miklar breytingar á búrekstrinum til að draga úr umhverfis- og loftslagsáhrifum, 36% einhverjar breytingar en aðrir litlar eða engar.
„Helstu aðgerðir sem bændur hafa gripið til eru meðal annars:
- Minnkuð áburðarnotkun og notkun lífræns áburðar
- Skógrækt og landgræðsla
- Minni notkun jarðefnaeldsneytis
- Skipulagsbreytingar til að auka sjálfbærni
- Betri nýting búfjáráburðar
Könnunin var framkvæmd af Maskínu með það að markmiði að afla upplýsinga um stöðu bænda og viðhorf þeirra til stuðningskerfis landbúnaðarins. Könnunin var lögð fyrir félagsmenn Bændasamtakanna í nóvember og desember 2024. Svarhlutfall var 52%. Í könnuninni voru spurningar frá fleiri aðilum en matvælaráðuneytinu,“ segir í fréttatilkynningu frá ráðuneytinu.