Neysluverð matvæla hefur hækkað umfram framleiðsluverð matvæla
Neytendur hafa orðið varir við hækkandi matvælaverð, ekki hvað síst á síðustu þremur árum. Hvað veldur hækkuninni?

Rétt innan við 13% af útgjöldum heimila er varið í matarinnkaup að meðaltali samkvæmt upplýsingum Hagstofunnar, fyrir utan það sem heimili verja í matarútgjöld á veitingahúsum og skyndibitastöðum.
Hagstofan birtir einnig reglulega upplýsingar um þróun verðlags á ýmsum liðum og þannig hefur verð á mat og drykkjarvörum hækkað um ríflega 47% frá desember 2017 til desember 2024. Eðlilega velta neytendur fyrir sér hvað liggur til grundvallar slíkum hækkunum. Hefur álagning hækkað meira en eðlilegt má teljast eða hefur kostnaður við framleiðslu matvæla hækkað?
Ein leið til að nálgast svar við þessu er að rýna í þróun vísitölu á framleiðsluverði matvæla sem einnig er aðgengileg á heimasíðu
Hagstofunnar. Nokkur fylgni hefur verið í þróun vísitölubreytinga á neysluverði matvæla annars vegar og framleiðsluverði matvæla hins
vegar. Þó hefur framleiðsluverð matvæla hækkað minna frá árinu 2022 til 2024 en neysluverð matvæla og frá desember 2017 til desember 2024 hefur framleiðsluverð matvæla hækkað um 42,5%.
Breytingar á neysluverði matvæla eru mældar út frá meðaltali verðlagsbreytinga á matarkörfu heimila. Í þeim útreikningum eru bæði innlendar landbúnaðarvörur sem og innflutt matvæli en hlutfall innfluttra matvæla í matarkörfu heimila hefur aukist að undanförnu.
Erfitt getur verið að nálgast upplýsingar um hvort aukin álagning á heildsölu eða smásölu megi rekja til þess að neysluverð matvæla hækkaði umfram framleiðsluverð matvæla á þessu sjö ára tímabili. Horfa þarf til breytinga á samsetningu sem og einstakra liða innan matarkörfunnar.
Þegar litið er til framleiðslukostnaðar landbúnaðar eru kostnaðarþættir að koma inn með mismunandi hætti. Þannig hafa ylræktarbændur fengið stóran skell nú undanfarið með hækkun raforkuverðs þar sem raforkukostnaður er stór liður í rekstri ylræktar. Kjöt- og mjólkurframleiðsla er hins vegar mjög háð verðbreytingum á fóðri og áburði sem og eldsneytis til reksturs búvéla.
Því urðu bændur fyrir miklum búsifjum þegar verð á innfluttu fóðri, áburði og eldsneyti hækkaði allverulega í kjölfar heimsfaraldursins sem og Úkraínustríðsins. Þannig hækkaði verð á innfluttu fóðri um 70% frá 2017 til 2022, verð á innfluttum áburði hækkaði enn meira, eða um 170% fyrir sama tímabil, og eldsneyti um 153%. Frá árinu 2022 hafa þessar verðhækkanir gengið að einhverju leyti til baka en fyrir tímabilið 2017 til 2024 eru gengisvísitölur fyrir þessa liði samt sem áður verulega hærri en gengisvísitala neysluverðs matvæla.
Í þessari samantekt er verið að greina þróun verðlags á ákveðnum þáttum yfir sjö ára tímabil. Áhugavert verður að sjá hvernig sú þróun verður áfram en jafnframt mikilvægt að greina fleiri þætti eins og kostur er til að tryggja sem best gagnsæi í verðbreytingum til neytenda.
En ekki síður að upplýsa um þær áskoranir sem bændur standa frammi fyrir í viðkvæmu rekstrarumhverfi.