Felld voru í haust 769 hreindýr af þeim 776 sem mátti fella.
Felld voru í haust 769 hreindýr af þeim 776 sem mátti fella.
Mynd / Úr safni
Fréttir 30. september 2024

Mest af kvótanum veiddist en dýrin leita norðar

Höfundur: Steinunn Ásmundsdóttir

Hreindýraveiðum er lokið að sinni. Alls veiddust 769 dýr af þeim 776 sem mátti fella.

„Nú er hreindýraveiðum lokið þar til í nóvember,“ segir Jóhann G. Gunnarsson, sérfræðingur í teymi lífríkis og veiðistjórnunar hjá Umhverfisstofnun. „Kvóti á 24 hreinkýr er gefinn út í nóvember á tveimur syðstu veiðisvæðunum, svæðum 8 og 9 í Sveitarfélaginu Hornafirði. Þetta er gert til að náist að veiða úr þeim hópum sem halda sig hátt til fjalla á þessum svæðum á hinum eiginlega haustveiðitíma,“ útskýrir Jóhann.

Veiðum á törfum lauk 15. september og náðist að veiða á öll útgefin veiðileyfi nema þrjú. Tveir tarfar náðust ekki á svæði 1 og einn á svæði 5. Kúaveiðum lauk svo 20. september og þar náðist að veiða á öll útgefin veiðileyfi nema fjögur. Tvö á veiðisvæði 4, eitt á veiðisvæði 5 og eitt á veiðisvæði 6. Alls voru því felld nú í haust 769 hreindýr af þeim 776 sem átti að fella á hinum hefðbundna tíma.

Þoka lék menn grátt

Jóhann segir veiðar almennt hafa gengið vel og dýrin verið mjög vel á sig komin að sögn þeirra sem reki verkunarstöðvar, þar sem tekið er á móti dýrum í fláningu. Nokkrir tarfar sem vigtuðu yfir 120 kg hafi verið felldir.

„Veðurfar var veiðimönnum erfitt á veiðitímanum, þokusælt víða, og nokkrir þurftu frá að hverfa vegna þessa og óvenjumargir veiðimenn skiluðu sínum veiðileyfum inn þegar langt var liðið á veiðitímann,“ segir hann. Þeir sem það geri fái endurgreitt 75% leyfisgjaldsins ef tekst að endurúthluta leyfunum til þeirra veiðimanna sem eru á biðlistum eftir leyfi.

„Flestum þessara leyfa tókst að endurúthluta og var seinasta kýrleyfinu endurúthlutað á hádegi síðasta veiðidaginn og sá bjartsýni veiðimaður náði sínu dýri fyrir kl. sex þann dag,“ bætir Jóhann við.

Hreindýrin leituðu norðar

„Það sem var sérstakt við þetta veiðitímabil var að hreindýrin sem ganga á veiðsvæði eitt, sem er fyrir norðan Jökulsá á Dal og allt norður í Langanesbyggð, leituðu mun norðar en áður hefur gerst á veiðitíma. Sennilega var það langvarandi norðan- og norðaustlæg vindátt sem olli því.

Voru felld nokkur dýr á landi jarða sem ekki eru inni á ágangssvæði eitt því þar hefur ekki verið metinn hreindýraágangur. Þær jarðir fá þó greidd felligjöld fyrir þessi dýr þó þær séu ekki skráðar inn í svokallaðan arðsgrunn vegna ágangs hreindýra,“ útskýrir Jóhann.

Mikilvægt sé að jarðeigendur á þessu svæði láti vöktunaraðila dýranna, Náttúrustofu Austurlands, vita ef hreindýr fara að venja komur sínar svo norðarlega svo hægt verði í framtíðinni að meta ágang á þessar jarðir og bæta þeim þá inn í þann flokk jarða sem verða fyrir ágangi hreindýra.

Jóhann segir engin landfræðileg mörk á þessu svæði sem komi í veg fyrir að hreindýrin gangi norðar. Á undanförnum árum hafi veiðikvóti á svæðinu verið nokkuð stór meðal annars til að hreindýrum fjölgi ekki um of á svæðinu.

Námskeið fyrir alla umsækjendur

Nokkur vandræði hafa verið vegna námskeiðshalds fyrir verðandi leiðsögumenn með hreindýraveiðum. Umhverfisstofnun hélt slíkt námskeið og voru þá 32, sem stofnunin taldi hæfasta, valdir til þátttöku en um 70 sátu eftir með sárt ennið.

Varð það tilefni harðrar gagnrýni og var loks kært fyrr á árinu og því borið við að Umhverfisstofnun væri óheimilt að takmarka fjöldann þar sem ekki væru að baki lagaheimildir til slíkra skilyrðinga. Umsækjendur þurftu m.a. meðmæli frá starfandi leiðsögumönnum, auk annarra skilyrða.

Umhverfisráðuneytið úrskurðaði nýlega að Umhverfisstofnun hefði verið óheimilt að útiloka fólk frá námskeiðinu. Verður stofnunin því að halda námskeið fyrir alla þá sem vísað var frá. Gæti fjöldi leiðsögumanna því aukist til muna og það mögulega valdið því að of margir séu að veiðum á sama tíma og miklu álagi á hjarðir.

Skylt efni: hreindýraveiðar

Skógarfura í Varmahlíð föngulegust
Fréttir 4. október 2024

Skógarfura í Varmahlíð föngulegust

Skógræktarfélag Íslands hefur valið skógarfuru í Varmahlíð tré ársins 2024.

Þrír forstjórar skipaðir fyrir nýjar ríkisstofnanir
Fréttir 4. október 2024

Þrír forstjórar skipaðir fyrir nýjar ríkisstofnanir

Nýlega voru skipaði þrír forstjórar fyrir nýjar ríkisstofnanir sem urðu til með ...

Eftirlíking af hálfri kú
Fréttir 4. október 2024

Eftirlíking af hálfri kú

Nautastöð Bændasamtaka Íslands tók á dögunum í notkun eftirlíkingu af kú sem er ...

Gagnrýna nýjar reglur um hollustuhætti
Fréttir 3. október 2024

Gagnrýna nýjar reglur um hollustuhætti

Heilbrigðisnefndir kringum landið hafa gagnrýnt skort á kynningu á nýrri regluge...

Aðgerðaáætlun gefin út
Fréttir 3. október 2024

Aðgerðaáætlun gefin út

Matvælaráðherra, Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, hefur gefið út aðgerðaáætlun fyrir...

Grasrótin gaumgæfir atvinnulíf og nýsköpun
Fréttir 3. október 2024

Grasrótin gaumgæfir atvinnulíf og nýsköpun

Verkefnið Vatnaskil á Austurlandi miðar að því að efla nýsköpun og stuðla að fjö...

Áburðarverkefni í uppnámi
Fréttir 3. október 2024

Áburðarverkefni í uppnámi

Áburðarverkefni í Syðra-Holti í Svarfaðardal, sem gengur út á moltugerð úr nærsa...

Aukinn innflutningur á lægri tollum
Fréttir 2. október 2024

Aukinn innflutningur á lægri tollum

Ekki er hægt að fá uppgefna þá aðila sem standa að baki innflutningi á landbúnað...