Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 4 ára.
Matvælaframleiðsla á Íslandi
Lesendarýni 23. september 2019

Matvælaframleiðsla á Íslandi

Höfundur: Ari Trausti Guðmundsson
Matvælaframleiðsla á Íslandi hefur nær alla okkar sögu verið bæði til neyslu innanlands og til útflutnings. Þáttur útflutnings hefur orðið mjög gildur. Á tímum loftslagsbreytinga og sístækkandi mannheima getur hann vaxið verulega. Náttúrufar, þekking, mannafli og auðlindir á borð við neysluvatn, endurnýjanlega orku og dýrastofna ásamt gróðri, eru rammi matvælaframleiðslunnar. 
 
Við getum framleitt hráefni í matvæli eða fullunna neysluvöru til að svara kalli tímans. Það bergmálar kröfuna um sjálfbærni og hagkerfi sem hvílir á endurvinnslu, vöruhringrás og völtu jafnvægi milli náttúrunytja og náttúruverndar. Og því til viðbótar: Á skyldu til að seðja fleiri munna en okkar eigin, ef vel á að fara.
 
Vaxtarmöguleikar
 
Lykilorð í matvælaframleiðslu á Íslandi, hvað vöruflokka varðar, eru svipuð og víða í strandaríkjum: Fiskur, ýmiskonar hryggleysingjar í sjó, sjávargróður, kjöt, egg, mjólkurvörur, korn og grænmeti, auk ávaxta, aðallega ýmis konar berja. Lega landsins, í hlýnandi heimi, setur okkur skorður. Fiskveiðar á heimsvísu hafa næstum náð þolmörkum. Hörfun hafíss getur breytt því að einhverju leyti nyrst og syðst. Reynslan hefur sýnt að nýting sjávarspendýra er aðeins kleif að mjög takmörkuðu leyti, í þágu jafnvægis vistkerfa. Vöxtur fiskneyslu felst í fiskeldi að stærstum hluta. Framleiðsla dýraafurða, sjálfbær og byggð á dýravernd, verður ávallt takmörkuð hér vegna aðstæðna. Kornrækt verður einnig takmörkuð en aðrar matvörur úr gróðri geta náð miklum hæðum og magni vegna hreinleika lofts og vatns og aðgengi að jarðvarma.
 
Nýsköpun
 
Löngu er komið fram að nýsköpun er helsti lykillinn að öflugri matvælaframleiðslu til að seðja okkur sjálf og til vöruþróunar vegna útflutnings. Gildir einu hvort bent er á ný fæðubótarefni, endurbætt byggyrki, tölvukerfi í mjólkurvöruframleiðslu eða hátæknigræjur í fiskverkun. Erlend nýsköpun, til dæmis við hönnun gróðurhúsa og rekstrarkerfi þeirra kemur líka við sögu. Nýsköpun getur gert okkur að matvælaframleiðendum á allstóran mælikvarða í samfélagi þjóðanna.
 
Matvælaþörf heimsins
 
Margvíslegar tölur eru til um matvælaþörf heimsins, þar sem enn sveltir sægur manna. Þær rek ég ekki. Oft er til þess tekið að þolmörk hnattarins leyfi mannkyn af stærðargráðunni 11 til 12 milljarða manna. Leyfum okkur að telja að vel fari og sú verði smám saman raunin á næstu áratugum og öldum.  Ísland getur leikið mikilvægt hlutverk í þessum efnum. Við að miðla þekkingu á matvælaöflun, einkum í þróunarlöndum, og við að framleiða matvæli til útflutnings en líka til heimabrúks. Fólksfjölgun á Íslandi verður mun hraðari en núverandi spár birta, meðal annars vegna vinsælda meðal þjóða með háar eða meðalháar rauntekjur á mann.
 
Atvinnuþróun á Íslandi
 
Frumframleiðsla allra samfélaga er mikilvæg. Okkar byggir á fáum en góðum auðlindum og snýr fyrst og fremst að orku og matvælum. Í mínum huga verðum að afmiðja samfélagið og einnig vöruframleiðslu að nokkru marki. Það gerist ekki með valdboðum heldur hvötum. Ég á við styrkari og stærri byggðir utan SV-hornsins, eflingu lítilla og meðalstórra framleiðslueininga, styttri flutningsleiðir, greiðari samskipti, skilvirkari gæðastýringu og betri tækifæri til menntunnar á landsbyggðinni. Þannig getum við skotið stoðum undir aukna frumframleiðslu  og nýsköpun betur en með endalausri hagræðingu. Þjónusta og verslun fylgja þessari þróun, jafn mikilvægar og þær eru. Matarholan Ísland er ekki tálsýn. Mikil framleiðsla til útflutnings á að vera markmið og eitt helsta keppikefli samfélagsins, samhliða kolefnishlutlausu landi fyrir 2040.
 
Framtíðarsýn
 
Kjötrækt og annar matur búinn til með frumuræktun er fjarlæg sýn. Hún á að aftengja mann og náttúru, hver svo sem tilgangurinn er. Við náttúrunytjar eftir ólíkum land- og hafsvæðum hljóta matvæli að vera bæði úr jurta- og dýraríkinu. Fita, prótein og kolvetni eiga við mannfólkið og öll náttúran er undir við öflun þeirra. Vistspor eru ávallt fyrir hendi en sjálfbærni, hvarf frá jarðefnaeldsneyti og kolefnisjöfnun mótvægið. Grænmeti úr sjó og af landi getur seint eða aldrei frelsað fólk frá lifandi próteingjöfum úr sjó eða af landi. Vissulega sum okkar (og það er ágætt) en aðeins hluta mannkyns. Meginástæðan er þessi: Haf þekur 2/3 jarðar en land 1/3. Við verðum að sjá til þess að víðerni, skógar, fjölbreytt landvistkerfi og vötn hafi nægt rými til viðbótar við fólk og aðrar lífverur á þurrlendinu sem að hluta er óbyggilegt vegna hæðar yfir sjó. Hafið, sem seint verður heimkynni manna, er gríðarlega mikilvægt sem uppspretta fæðu, einkum próteins og fitu.
 
Ari Trausti Guðmundsson, 
Höfundur er þingmaður Vinstrihreyfingarinnar
- græns framboðs
Stækka ræktarland og fjölga vörutegundum
Fréttir 20. júní 2024

Stækka ræktarland og fjölga vörutegundum

Hvítlauksbændurnir í Neðri-Brekku í Dölum fengu nýlega tvo styrki úr Matvælasjóð...

Verðlaunuðu góðan árangur
Fréttir 20. júní 2024

Verðlaunuðu góðan árangur

Tabea Elisabeth Schneider hlaut verðlaun fyrir besta árangur á B.S. prófi þegar ...

Fuglum fækkar vegna óveðurs
Fréttir 20. júní 2024

Fuglum fækkar vegna óveðurs

Samkvæmt fuglatalningu varð algjört hrun í fjölda fugla á Norðausturlandi þegar ...

Óhrædd að takast á við áskoranir
Fréttir 19. júní 2024

Óhrædd að takast á við áskoranir

Tilkynnt var um ráðningu Margrétar Ágústu Sigurðardóttur í starf framkvæmdastjór...

Halla færir út kvíarnar
Fréttir 19. júní 2024

Halla færir út kvíarnar

Halla Sif Svansdóttir Hölludóttir, garðyrkjuframleiðandi og eigandi garðyrkjustö...

Sala Búvís stöðvuð
Fréttir 19. júní 2024

Sala Búvís stöðvuð

Samkeppniseftirlitið hefur komið í veg fyrir að Skeljungur kaupi Búvís ehf. þar ...

Heitt vatn óskast
Fréttir 19. júní 2024

Heitt vatn óskast

Bláskógaveita, sem er í eigu sveitarfélagsins Bláskógabyggð, hefur óskað eftir t...

Minni innflutningur og meiri framleiðsla
Fréttir 19. júní 2024

Minni innflutningur og meiri framleiðsla

Um 300 tonn af nautakjöti voru flutt inn á fyrstu fjórum mánuðum ársins 2024.