Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 3 ára.
Markmið að viðhalda lágu hlutfalli ónæmis í landinu
Mynd / smh
Fréttir 23. desember 2019

Markmið að viðhalda lágu hlutfalli ónæmis í landinu

Höfundur: smh
Rannsóknarteymi íslenskra og bandarískra vísindamanna hefur verið sett saman í þeim tilgangi að rannsaka sýklalyfjaónæmi á Íslandi, en landið er talið ákjósanlegur vettvangur til að rannsaka þessa vaxandi ógn við lýðheilsu í heiminum vegna sérstöðu þess.
 
Meginmarkmið teymisins er að að skapa þekkingu sem gæti nýst til þess að móta mótvægisaðgerðir byggða á gagnreyndum vísindum, til að viðhalda lágu hlutfalli ónæmis á Íslandi og vinna gegn þróun ónæmis annars staðar í heiminum. 
 
Tekur til manna, dýra, matvæla og umhverfis
 
Rannsóknin byggir á aðferðafræði sem kölluð er „ein heilsa“ og tekur til manna, dýra, matvæla og umhverfis á landsvísu, með það að markmiði að auka þekkingu á því hvernig sýklalyfjaónæmar bakteríur breiðast út. Ætlunin er að ná til sem flestra þátta með því að rannsaka E. coli bakteríuna sem finnst í búfénaði, umhverfi, svo og í innlendum og innfluttum kjötvörum – og bera þær saman við E. coli bakteríur sem greinast í sýkingum í mönnum.
 
Að sögn Karls G. Kristinssonar, frá sýkla- og veirufræðideild Landspítalans og læknadeild Háskóla Íslands, hafa takmarkaðar rannsóknir verið gerðar á því að hve miklu leyti sýklalyfjaónæmi geti borist með dýrum og matvælum til manna, þótt vitað sé að það geti gerst. „Þar skipta aðstæður á hverjum stað miklu máli, svo og neysluvenjur,“ segir Karl. 
 
Aðstæður á Íslandi einstaklega góðar
 
„Dr. Lance Price er sá aðili sem hefur verið hvað fremstur í rannsóknum á þessu sviði, og hefur flutt fjölda fyrirlestra um málið auk þess að birta greinar í vísindaritum. Hann kom og hélt fyrirlestur á Hótel Sögu fyrr á þessu ári og var þá meðal annars tekið viðtal við hann í Bændablaðinu. Við Lance hittumst fyrst á árinu 2015 og töluðum saman um rannsóknir okkar og aðstæður á Íslandi. Aðstæður á Íslandi væru einstaklega góðar til að framkvæma rannsókn svipaða og hann hafði gert í Arizona í Bandaríkjunum nokkru fyrr. Það var svo á árinu 2016 sem var ákveðið að kanna möguleikann á að gera slíka rannsókn á Íslandi og þá enn víðtækari en í fyrri rannsóknum. Þá má segja að rannsóknahópurinn hafi verið settur saman með fulltrúum frá helstu viðeigandi stofnunum hér á landi. Það hefur síðan tekið þennan tíma að setja saman rannsóknaráætlun og fá samþykki viðeigandi aðila og stofnana til þess að framkvæma rannsóknina,“ segir Karl um forsögu þessa rannsóknarteymis.
 
„Leitað verður að E. coli bakteríunni í sýnum frá mönnum, dýrum, matvælum og umhverfi á Íslandi. Sýklalyfjanæmi þessara stofna verður skoðað og hluti þeirra heilgenamengisraðgreindur hér á landi. Flestir stofnanna verða væntanlega raðgreindir á rannsóknastofu Lance Price og Cindy Liu í Washington, svo og úrvinnsla þeirra niðurstaðna, meðal annars hver sé líklegur uppruni þeirra.“
 
Í tilkynningu um stofnun rannsóknarteymisins segir að sú „sérstaða sem gerir Ísland bæði einstakt og ákjósanlegt til slíkra rannsókna er landfræðileg einangrun, íbúafjöldinn og hversu auðvelt er að fylgjast með sýklalyfjanotkun og sýklalyfja­ónæmi bæði hjá mönnum og dýrum. Sýklalyfjaónæmi í landinu er með því lægsta sem þekkist í heiminum, en þeirri öfundsverðu stöðu er nú ógnað. Vaxandi ferðamannaiðnaður með meira en 2 milljónir ferðamanna til lands með íbúafjölda um 360.000, auknar ferðir Íslendinga til svæða með meira sýklalyfjaónæmi og vaxandi innflutningur á landbúnaðarafurðum eins og fersku kjöti og grænmeti.“
 
Hlutfall ónæmra baktería á Íslandi með því lægsta
 
„Mikilvægt er að átta sig á því hvers vegna hlutfall sýklalyfja­ónæmra baktería á Íslandi er með því lægsta sem þekkist í heiminum í dag, þrátt fyrir að við notum meira af sýklalyfjum í menn en gert er í nágrannalöndum okkar. Við notum hins vegar mun minna af sýkla­lyfjum í landbúnaði en þekkist víðast hvar annars staðar. Við vonumst til að sú þekking sem fæst með þessari rannsókn hjálpi til við að viðhalda lágu hlutfalli ónæmis í landinu. Sú vitneskja gæti einnig hjálpað til að vinna gegn ónæmisþróun annars staðar í heiminum,“ segir í tilkynningunni.
 
Þverfaglegir sérfræðingar
 
Rannsóknarteymið er skipað þverfaglegum sérfræðingum sem rannsaka munu vistfræði baktería og sýklalyfjaónæmis svo og áhrif þess á dýr, matvæli og menn. Þær stofnanir sem koma að rannsókninni eru Sýkla- og veirufræðideild Landspítalans, Tilraunastöð Háskóla Íslands í meinafræði að Keldum, Matís, Matvælastofnun; Aðgerðarstofnun gegn sýklalyfjaónæmi, George Washington University, Washington DC (ARAC) og Vísindastofnun vistkerfis og þjóðfélags, Northern Arizona University, Arizona (ECOSS). Í íslenska rannsóknarteyminu með Karli eru þau Þórunn Rafnar Þorsteinsdóttir, Tilraunastöð Háskóla Íslands í meinafræði að Keldum, Viggó Marteinsson frá Matís og Vigdís Tryggvadóttir frá Matvælastofnun. 
 

Skylt efni: sýklalyfjaónæmi

Framleiðsla á náttúrulegum plöntuvarnarefnum
Fréttir 28. september 2023

Framleiðsla á náttúrulegum plöntuvarnarefnum

Algalíf, íslenska líftæknifyrirtækið, stefnir á að hasla sér völl í framleiðslu ...

Innviðauppbygging til 2025
Fréttir 28. september 2023

Innviðauppbygging til 2025

Fara á í 127 verkefni fram til ársins 2025 við uppbyggingu innviða til að mæta á...

Samfélagsleg ábyrgð í forgrunni
Fréttir 28. september 2023

Samfélagsleg ábyrgð í forgrunni

Sjávarútvegsráðstefnan 2023 verður haldin 2.–3. nóvember í Hörpu. Áhersluatriði ...

Heilt sumar eyðilagt hjá geitabóndanum Höllu
Fréttir 27. september 2023

Heilt sumar eyðilagt hjá geitabóndanum Höllu

Í síðasta tölublaði Bændablaðsins greindum við frá því að Halla Sigríður Steinól...

Vex fiskur um hrygg í rannsóknum, tilraunum og erlendu samstarfi
Fréttir 26. september 2023

Vex fiskur um hrygg í rannsóknum, tilraunum og erlendu samstarfi

Nemendur Landbúnaðarháskóla Íslands vinna fjölbreyttar rannsóknir og tilraunaver...

2.500 tonna kornþurrkstöð borgi sig frekar
Fréttir 26. september 2023

2.500 tonna kornþurrkstöð borgi sig frekar

25 af 33 eyfirskum bændum sem spurðir voru, sögðu að þeir myndu myndu nýta sér k...

Lífræni dagurinn haldinn hátíðlegur í Kaffi Flóru
Fréttir 25. september 2023

Lífræni dagurinn haldinn hátíðlegur í Kaffi Flóru

Lífræni dagurinn var haldinn hátíðlegur víðs vegar um landið laugardaginn 16. se...

Ágúst verður forstöðumaður
Fréttir 25. september 2023

Ágúst verður forstöðumaður

Ágúst Sigurðsson hefur verið skipaður forstöðumaður Lands og skógar, nýrrar stof...