Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 2 mánaða.
Um 56 prósent losunar gróðurhúsalofttegunda frá landbúnaði er vegna sauðfjár- og nautgriparæktar.
Um 56 prósent losunar gróðurhúsalofttegunda frá landbúnaði er vegna sauðfjár- og nautgriparæktar.
Mynd / smh
Fréttir 29. janúar 2024

Losun minnkar frá landbúnaði í takti við fækkun sauðfjár

Höfundur: Sigurður Már Harðarson

Í nýlegum niðurstöðum Umhverfisstofnunar um losun gróðurhúsalofttegunda frá landbúnaði árið 2022 kemur fram að hún dróst saman um 2,5 prósent frá árinu á undan.

Diljá Helgadóttir.
Mynd / Aðsend

Er talið að samdráttinn megi að mestu leyti rekja til fækkunar sauðfjár á milli áranna, en gripum fækkaði þá um 17 þúsund, eða 4,4 prósent, samkvæmt gögnum stofnunarinnar.

Nautgripir losa mest

Losun frá landbúnaði taldist vera um 22 prósent af þeirri losun sem fellur undir beina ábyrgð Íslands árið 2022. Til samanburðar var losun vegna vegasamgangna um 33 prósent af losun á beinni ábyrgð Íslands það ár. Heildarlosun frá landbúnaði er skipt niður í sex undirflokka; mest losa nautgripir, eða 30,6 prósent, sauðfé síðan með 24,6 prósent og áburðarnotkun með 22,4 prósent. Framræst ræktarland er með 12,4 prósent af heildarlosun, hestar með 6,4 prósent og önnur losun flokkast með 3,6 prósent.

Losun frá vinnuvélum í landbúnaði er ekki flokkuð með losun í landbúnaði, heldur fellur hún undir losun frá orkugeiranum. Sú losun er metin um fjögur prósent af heildarlosun frá landbúnaði.

Losun gróðurhúsalofttegunda frá landbúnaði á Íslandi 2022 skipt eftir undirflokkum. Mynd / Umhverfisstofnun
Einungis hláturgas frá framræstu ræktarlandi

Í undirflokknum „framræst ræktarland“ er í losunartölum fyrir landbúnað eingöngu um að ræða mælingar á losun gróðurhúsalofttegundarinnar hláturgass (N2O), sem er mjög áhrifamikil. Mest er losun frá framræstum ræktarlöndum á koldíoxíð (CO2) en sú losun er talin fram í landnotkunar- og skógræktarhluta loftslagsbókhaldsins, sem ekki er á beinni ábyrgð stjórnvalda.

Diljá Helgadóttir, sérfræðingur hjá Umhverfisstofnun, segir að í þeirra útreikningum sé tilmælum Milliríkjanefndar Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar (IPCC) fylgt, spurð um ástæður þess að losun frá framræstu ræktarlandi sé flokkuð með tvenns konar hætti.

„Þessi flokkun er aðeins öðruvísi en í flestum tilvikum þar sem mismunandi lofttegundir falla undir mismunandi flokka. Ef umfang losunar þessara tveggja lofttegunda frá framræstu ræktarlandi er borið saman í CO2-ígildum sést að koldíoxíð-losunin er mun meiri en hláturgas-losunin, eða 1.637 tonn CO2, en 68 tonn CO2-ígildi af hláturgasi. Vissulega getur verið snúið að setja þetta fram á skýran hátt þar sem losun frá sömu uppsprettu fellur undir tvo mismunandi skuldbindingaflokka, en við erum einfaldlega háð takmörkum þessara tilmæla sem IPCC gefur út og okkur ber að starfa samkvæmt,“ segir Diljá.

Byggt á innlendum og erlendum losunarstuðlum

Spurð um forsendur útreikninganna á losun frá undirflokkunum, segir Diljá að bæði sé notast við losunarstuðla frá IPCC og losunarstuðla sem byggja á innlendum rannsóknum og gögnum. „Stuðlar frá IPCC eru notaðir við útreikninga á losun frá áburðarnotkun í landbúnaði, hestum og öðrum uppsprettum. Innlendir stuðlar eru notaðir við útreikninga á losun frá nautgripum, sauðfé og framræstu ræktarlandi.

Í þeim tilvikum sem við notum losunarstuðla frá IPCC reynum við ef hægt er að velja stuðla sem eiga við um aðstæður sem eru sem líkastar þeim sem finnast hérlendis. Til dæmis notum við losunarstuðulinn fyrir Vestur-Evrópu við útreikninga á losun áburðarnotkunar í landbúnaði þar sem aðstæður á Íslandi eru hvað líkastar aðstæðum í þessum heimshluta.

Í þeim tilvikum þar sem innlendir losunarstuðlar eru notaðir þá taka þeir mið af íslenskum aðstæðum og gögnum. Til dæmis, við útreikninga á losun vegna nautgripa og sauðfjár, hafa innlendir losunarstuðlar verið hannaðir út frá rannsóknum á meðalstærð gripa hérlendis, fóðurinntöku, lengd fóðurtímabils, fæðingarþyngd og meðgönguhlutföll. Innlendir losunarstuðlar eru því yfirleitt nákvæmari en stuðlar sem fengnir eru frá IPCC. Stöðug vinna er í gangi við að bæta gæði okkar útreikninga og sem felst meðal annars í því að búa til fleiri innlenda losunarstuðla,“ útskýrir Diljá.

Losun gróðurhúsalofttegunda frá landbúnaði á Íslandi 1990-2022 og áætlun til 2030, skipt eftir losunarflokkum. Mynd / Umhverfisstofnun

Ekki mikill samdráttur fram undan

Í framreikningum Umhverfisstofnunar frá síðasta ári, sem eru byggðir á núgildandi aðgerðaráætlun í loftslagsmálum frá 2020, er ekki gert ráð fyrir miklum samdrætti í losun frá landbúnaði til ársins 2030. Diljá segir að líklegt sé að útreikningar taki breytingum í samræmi við uppfærða aðgerðaráætlun sem sé í vinnslu.

Þegar Diljá er spurð um möguleika bænda til kolefnisjöfnunar, til að leggja inn í bókhaldið, segir hún að það sé eitthvað sem falli ekki undir það losunarbókhald Íslands sem Umhverfisstofnun heldur utan um. „Það eru miklir möguleikar hér og erlendis til að kolefnisjafna hvers kyns rekstur með landgræðslu og skógræktaraðgerðum. Ef bændur fara til að mynda í skógræktarverkefni hér á landi til þess að gera upp, eða kolefnisjafna sinn rekstur, þá birtist sú binding sem til verður í LULUCF hluta losunarbókhalds Íslands. Hins vegar er það ekki svo að það dragi úr losun eða kolefnisjafni losun frá landbúnaði í losunarbókhaldi Íslands þar sem bókhaldið er fyrst og fremst framtal en ekki uppgjör.“

Afurðahæsta sauðfjárbúið í níu skipti á síðustu tíu árum
Fréttir 26. apríl 2024

Afurðahæsta sauðfjárbúið í níu skipti á síðustu tíu árum

Gýgjarhólskot í Biskupstungum var útnefnt ræktunarbú síðasta árs á fagfundi sauð...

Sumarkomunni fagnað
Fréttir 25. apríl 2024

Sumarkomunni fagnað

Að venju verður opið hús í Garðyrkjuskólanum á Reykjum á sumardaginn fyrsta, fim...

Burðarhjálp: Leiðbeiningarmyndbönd
Fréttir 24. apríl 2024

Burðarhjálp: Leiðbeiningarmyndbönd

Síðan 2019 geta bændur og aðstoðarfólk notað fjölda leiðbeiningarmyndbanda, sem ...

Afurðamestu sauðfjárbúin
Fréttir 24. apríl 2024

Afurðamestu sauðfjárbúin

Í niðurstöðum skýrsluhalds í sauðfjárrækt fyrir síðasta ár, sem eru birtar hér í...

SS segir of flókið að upprunamerkja
Fréttir 24. apríl 2024

SS segir of flókið að upprunamerkja

Sláturfélag Suðurlands (SS) sér ekki hag í að upprunamerkja svínakjöt frá Korngr...

Hraðhlaðið við Galdrasafnið
Fréttir 23. apríl 2024

Hraðhlaðið við Galdrasafnið

Orkubú Vestfjarða hefur sett upp nýja 400 kW hraðhleðslustöð við Galdrasafnið á ...

Hámarksmagn minnkað í matvælum
Fréttir 23. apríl 2024

Hámarksmagn minnkað í matvælum

Innan skamms taka gildi breytingar á reglugerð þar sem leyfilegt hámarksmagn nít...

Greiða götu viðskiptasambanda við Indland
Fréttir 22. apríl 2024

Greiða götu viðskiptasambanda við Indland

Bæði þjónustu- og vöruviðskipti við Indland munu að öllum líkindum aukast á næst...