Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 8 ára.
Litförótt hross á uppleið
Á faglegum nótum 16. júlí 2015

Litförótt hross á uppleið

Höfundur: Guðrún Hulda Pálsdóttir

Litförótt litmynstur er líklega fágætasta afbrigðið í litaflóru íslenskra hrossa, en hefur átt undir högg að sækja innanlands. Erlendis virðist þó vera áhugi fyrir litföróttum hrossum því slík hross seljast auðveldlega úr landi.

„Hvers vegna ættum við ekki að halda upp á sérkennilegt, fagurt, tilbreytingaríkt og sjaldgæft fyrirbæri í hrossastofninum okkar, stofni sem þúsundir manna dá og dýrka og verið hefur hreinn og óblandaður í 1100 ár, ef við vitum að það stendur höllum fæti?“ spyr Páll Imsland, jarðfræðingur og sérfræðingur um litförótt hross, aðspurður um ástæður fyrir því að viðhalda þessu fyrirbæri í stofninum. Hann segir mörg rök hníga að því að viðhalda þessu sérstaka litmynstri í íslenska hrossastofninum.

„Fyrirbærið er líffræðilega merkilegt. Það er fagurt að margra mati og prýði á stofninum. Fyrirbærið er augnayndi og spilar á geðhrif manna. Það er sjaldgæft í flestum vestrænum hrossakynjum, og ekki til í mörgum þeirra. Það er liður í erfðaauðlegð íslenska hrossastofnsins. Það er fjárhagslega jákvætt. Þá er þetta fyrirbæri hluti af menningarerfð okkar og hefur alltaf verið hér í hrossum, frá fyrstu tíð. Að tapa því úr stofninum er menningarslys, Íslandssögulegt slys og líffræðilegt slys.“

Fallvölt staða

Feldur litföróttra hrossa hefur tvær mislitar háragerðir; dökk  vindhár, t.d. brún, rauð eða mósótt, og svo hvít undirhár. Hrossið endurnýjar feldinn hár eftir ákveðnu mynstri þannig að stundum er hvíti feldurinn áberandi og stundum dökki feldurinn. Þannig skipta hrossin sífellt árstíðabundið um lit. Sitt sýnist hverjum um fegurð litmynstursins, en eitt er þó víst, litafjölbreytni er eitt af megineinkennum íslenska hrossastofnsins.

Árið 1995 voru ekki nema um 50 frjó litförótt hross í landinu. Hrossin voru staðsett hjá örfáum bændum og á fáum árum hættu nokkrir þeirra búskap. Stefndi í algera útrýmingu gensins úr stofninum hér innanlands. Fyrir tilstilli og þrautseigju áhugamanna um litamynstrið var komið í veg fyrir það.

Í dag er áætlað að rúm 1.385 litförótt íslensk hross séu lifandi í heiminum, innan við helmingur þeirra á Íslandi eða 521 samkvæmt WorldFeng, upprunaættbók íslenska hestsins Áætlað er að um 250 hryssur á folaldseignaaldri séu hér innanlands auk nokkurra yngri hryssna og um 20 ógeltir folar. Staða litmynstursins er þó fallvölt. Almennt virðist meiri áhugi vera fyrir litföróttu litmynstri erlendis en hér heima því bestu litföróttu hrossin hafa jafnan verið seld úr landi. Einnig seljast litförótt folöld gjarnan út. Auk þess koma fleiri litförótt hross til dóms í Evrópu en á Íslandi.

Styrkveitingar og verðlaun

Árið 1999 hét Fagráð í hrossarækt einni milljón króna til styrkingar litförótts í stofninum. Þrír fyrstu stóðhestar til að ná tilskildum lágmörkum inn á landsmót skyldu hljóta 300 þúsund krónur hver í verðlaun, og restina af upphæðinni, 100 þúsund krónur, skyldi nota til þess að greiða niður sýningargjöld á litföróttum hrossum. Aðeins hefur einn stóðhestur, Gjafar frá Eyrarbakka, hlotið þessi verðlaun. Enn bíður því fjármagn fyrir eigendur vænlegra litföróttra fola. Síðan þessari fjárhæð var heitið hafa nokkrar litföróttar hryssur komið til dóms hér á landi og notið góðs af niðurgreiðslu sýningargjalda.

Þá hefur verið komið á fót tveimur farandbikurum sem hugsaðar eru sem hvati til eigenda litföróttra hrossa til þess að temja, sýna þau og rækta fram. Í Þýskalandi veita aðstandendur tímaritsins IslandpferdeZucht farandbikar, því litförótta hrossi, sem hæstan kynbótadóm hlýtur á meginlandi Evrópu. Litfari vom Röschbacherhof hlaut þann grip fyrir sýningarárið 2014 en hann hlaut 8,19 í aðaleinkunn, 7,85 fyrir sköpulag og 8,42 fyrir kosti.

Sambærilegum verðlaunagrip, í nafni JötunnVéla á Selfossi, var komið á fót hér á landi árið 2013, en bikarinn fer til þeirrar litföróttu hryssu sem hæstan kynbótadóm hlýtur ár hvert. Bikarinn í fyrra hlaut hryssan Maja frá Búðardal, en hún hlaut hæst 8,27 í aðaleinkunn árið 2014, 8,08 fyrir sköpulag og 8,39 fyrir kosti.

Uppgangur í ræktun

Endurnýjun og viðhald litföróttra hrossa veltur á notkun þeirra í ræktunarstarfi. Um tuttugu litföróttir graðfolar eru staðsettir á Íslandi. Ber einna mest á  Mola frá Hömluholti, en eigendafélag hans er ötult við að koma ungfolanum á framfæri. Ekki er nema von, Moli ber hæst kynbótamat litföróttra graðfola á undaneldisaldri hér á landi, 110 stig. Hann hefur hlotið verðlaun á ungfolasýningu. Hér er því um vonarstjörnu að ræða. Páll er einn eigenda Mola, sem eru fimm talsins og kalla þeir sig Molafélagið.

„Moli er með tíu hryssur hjá sér núna. Komin eru öll folöld undan honum sem fæðast í sumar og eru falleg. Ekki er vitað hve mörg eru litförótt, þar sem það sést ekki á folöldunum svo óyggjandi fyrr en síðsumars, þegar þau ganga úr fæðingarsnoðinu,“ segir Páll. Moli er bleikblesóttur litföróttur. Hann er arfblendinn um litföróttar erfðir og því eru helmingslíkur á því í hvert sinn sem hann fyljar að afkvæmið verði litförótt. Um Mola og litförótt hross má lesa meira á heimasíðunni litfari.is.

Fyrirspurnir frá útlöndum

Heimir Logi Gunnarsson er eigandi Loka frá Böðvarshólum, sem er fimm vetra brúnlitföróttur sokkóttur stóðhestur. Hann segir að af hálfgerðri tilviljun taki hann þátt í því hugsjónastarfi að viðhalda litmynstrinu. Hann eignaðist skjótta litförótta hryssu en Loki er undan henni og fyrstu verðlauna stóðhestinum Gammi frá Steinnesi.

„Litaflóran í öllum íslenska búsmalanum er dýrmæt. Hlutfall litföróttra hrossa í stofninum er minna en 1% og hlutfallið er að sjálfsögðu enn minna af skjóttum litföróttum hrossum, sem er það sem ég er að eltast við.“ Þess má geta að hross sem er bæði skjótt og litförótt er þess eðlis að það gefur alltaf frá sér annaðhvort skjóttan lit eða litföróttan, og því eru litlar sem engar líkur á einlitu undan þeim. Því eru þau sérstaklega heppileg fyrir þá sem vilja síður einlit hross.

Þótt liturinn sé óalgengur segir Heimir Logi litla ásókn vera í að halda undir Loka.
„Ég hef ekkert auglýst hann. Það er fyrst núna sem verið er að halda honum í þeim tilgangi að koma folöldum á legg.“ Heimir segist þó hafa fengið fyrirspurnir um folann frá áhugasömum erlendum hestamönnum.

„Ég hef þó ekki verið tilbúinn að sleppa honum úr landi strax,“ segir Heimir en stefnt er á að sýna Loka á kynbótasýningu á næsta ári.

Skylt efni: Hestar | Hrossarækt | hrossalitir

Sumarkomunni fagnað
Fréttir 25. apríl 2024

Sumarkomunni fagnað

Að venju verður opið hús í Garðyrkjuskólanum á Reykjum á sumardaginn fyrsta, fim...

Burðarhjálp: Leiðbeiningarmyndbönd
Fréttir 24. apríl 2024

Burðarhjálp: Leiðbeiningarmyndbönd

Síðan 2019 geta bændur og aðstoðarfólk notað fjölda leiðbeiningarmyndbanda, sem ...

Afurðamestu sauðfjárbúin
Fréttir 24. apríl 2024

Afurðamestu sauðfjárbúin

Í niðurstöðum skýrsluhalds í sauðfjárrækt fyrir síðasta ár, sem eru birtar hér í...

SS segir of flókið að upprunamerkja
Fréttir 24. apríl 2024

SS segir of flókið að upprunamerkja

Sláturfélag Suðurlands (SS) sér ekki hag í að upprunamerkja svínakjöt frá Korngr...

Hraðhlaðið við Galdrasafnið
Fréttir 23. apríl 2024

Hraðhlaðið við Galdrasafnið

Orkubú Vestfjarða hefur sett upp nýja 400 kW hraðhleðslustöð við Galdrasafnið á ...

Hámarksmagn minnkað í matvælum
Fréttir 23. apríl 2024

Hámarksmagn minnkað í matvælum

Innan skamms taka gildi breytingar á reglugerð þar sem leyfilegt hámarksmagn nít...

Greiða götu viðskiptasambanda við Indland
Fréttir 22. apríl 2024

Greiða götu viðskiptasambanda við Indland

Bæði þjónustu- og vöruviðskipti við Indland munu að öllum líkindum aukast á næst...

Jarðræktarmiðstöðin rís
Fréttir 22. apríl 2024

Jarðræktarmiðstöðin rís

Jarðræktarmiðstöð Landbúnaðarháskóla Íslands mun verða tilbúin árið 2027 gangi á...