Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 7 ára.
Launagreiðslur og tryggingar verða að vera í lagi
Fréttir 28. apríl 2016

Launagreiðslur og tryggingar verða að vera í lagi

Höfundur: Vilmundur Hansen

Stórlega hefur færst í vöxt að hingað til lands komi ungt fólk til að ferðast og skoða landið í nokkrar vikur eða mánuði. Bændasamtök Íslands og Starfs­greinasamband Íslands ætla í sameiningu að vinna að betra aðgengi á upplýsingum, á íslensku og ensku, um réttindi og skyldur starfsmanna og launagreiðenda á heimasíðum beggja sambandanna.

Algengt er að fólkið fjármagni veru sína hér með því að bjóða fram starfskrafta sína sem sjálfboðaliðar í sveit gegn fæði og húsnæði. Einnig hefur færst í vöxt að bændur, ekki síst ferðaþjónustubændur, auglýsi eftir slíkum starfskrafti.

Ólöglegt að borga ekki laun

Aðalsteinn Árni Baldursson, formaður Framsýnar stéttarfélags á Norðurlandi, segir það ekki skipta máli hvort fólk bjóðist sjálft til að starfa tímabundið fyrir fæði og húsnæði eða hvort atvinnuveitendur auglýsi eftir því. Starfsemin er jafn ólögleg þrátt fyrir það.

„Verkalýðshreyfingin hefur í auknum mæli orðið vör við að hingað komi fólk sem er að leita sér eftir vinnu tímabundið og fer svo eitthvað annað og er steinhissa á að það þurfi að borga skatta og gjöld meðan á dvöl þeirra stendur.“

Tryggingarmálin verða líka að vera í lagi

„Annað sem skiptir gríðarlegu máli er að tryggingarmál starfsmanna séu í lagi og ef fólk er ekki skráð og borgar ekki sín gjöld er það væntanlega ekki tryggt með viðeigandi hætti. Slasist sjálfboðaliðar við störf getur það auk líkamlegra áverka reynst þeim fjárhagslega dýrt,“ segir Aðalsteinn.

Viðskipti á vefsíðum

Oftar en ekki fara ráðningar af þessu tagi fram í gegnum vefsíður þar sem fólk býður þjónustu sína eða auglýst er eftir sjálfboðaliðum.

Upplýsingar til fólks um réttindi þess og skyldur á þessum síðum eru oft takmarkaðar og jafnvel villandi, að sögn Halldóru Sigríðar Sveinsdóttur, formanns Bárunnar stéttarfélags á Suðurlandi.

Réttindalaus og ótryggð í tæpt ár

Fyrir skömmu kom fram í fjölmiðlum rúmlega tvítug stúlka frá Ungverjalandi sem starfaði á sveitabæ á Suðurlandi í tæpt ár. Í máli stúlkunnar kom fram að hún hafi verið án ráðningarsamnings, ótryggð og réttlaus. Þann tíma sem hún var á bænum vann hún að sögn allt að tólf tíma á dag við þrif, matargerð, barnaumönnun og gegningar í fjósi og fékk milli 40 og 60 þúsund krónur í laun á mánuði. Starfið hafði hún fengið í gegnum hóp á Facebook sem heitir Farm and Aupair jobs in Iceland.

Fyrir nokkrum árum kom upp svipað mál þar sem finnsk stúlka sagði farir sínar ekki sléttar. Í því tilfelli mun stúlkan hafa átt að vinna átta tíma á dag og eiga frí tvo daga í viku. Raunin var aftur á móti sú, að sögn stúlkunnar, að henni var ætlað að vinna tólf tíma á dag og atvinnuveitandinn ákvað hvenær hún fékk frí.

Að sögn Halldóru er mál ungversku stúlkunnar flókið og enn unnið að greiningu þess.
„Lýsingin í Fréttablaðinu er einhliða og ekki má ganga út frá því að hún sé að öllu leyti sönn. Í svona máli er nauðsynlegt að báðir aðilar fái að tjá sig áður en fólk fer að mynda sér skoðanir. Því miður var farið með málið í fjölmiðla áður en haft var samband við okkur. Við stefnum að því að ná lendingu í því eins fljótt og hægt er.“

Samstarf Bændasamtakanna og Starfsgreinasambandsins

Halldóra segist hafa átt fund með Bændasamtökum Íslands um þetta og önnur mál svipaðs eðlis í lok síðustu viku. Halldóra segir að því miður hafi félagið fengið ótal svona mál inn á borð hjá sér í gegnum árin. Að sögn Halldóru var fundurinn mjög góður og gagnlegur.

„Sindri Sigurgeirsson, formaður Bændasamtakanna, hafði samband við mig strax eftir að viðtalið við ungversku stúlkuna birtist í Fréttablaðinu. Hann sagði að Bændasamtökin vildu alls ekki hafa málin með þeim hætti eins og lýst er í blaðinu.“

Halldóra segir að á fundinum með Bændasamtökunum hafi verið ákveðið að Bændasamtökin og Starfsgreinasamband Íslands vinni í sameiningu að betra aðgengi að upplýsingum um réttindi og skyldur starfsmanna og launagreiðenda til sveita. Upplýsingarnar munu verða aðgengilegar á íslensku og ensku, á heimasíðum beggja sambandanna. Þar eiga vinnuveitendur og þeir sem eru í atvinnuleit að geta fundið upplýsingar um réttindi sín og skyldur. Auk þess ætla Bændasamtökin í herferð hjá sínum félagsmönnum til að kynna þessi mál.

Fyrsti umplöntunarróbóti landsins
Fréttir 19. apríl 2024

Fyrsti umplöntunarróbóti landsins

Í maí í fyrra var settur upp umplöntunarróbóti á gróðrarstöðinni Sólskógum í Kja...

Ólöglegur frágangur á dýrahræjum
Fréttir 19. apríl 2024

Ólöglegur frágangur á dýrahræjum

Opinn gámur, yfirfullur af dýrahræjum, stóð á dögunum á steyptu bílastæði við in...

Verslunarrekstur í dreifbýli er samfélagsverkefni
Fréttir 18. apríl 2024

Verslunarrekstur í dreifbýli er samfélagsverkefni

Vegamót á Bíldudal er matvöruverslun og veitingastaður. Gísli Ægir Ágústsson, ve...

„Allt of fáar messur“
Fréttir 18. apríl 2024

„Allt of fáar messur“

Tryggvi Sveinn Eyjólfsson, sem er á sautjánda aldursári, hefur vakið athygli fyr...

Íslenskar sængur um allan heim
Fréttir 18. apríl 2024

Íslenskar sængur um allan heim

Íslenskur dúnn ehf. selur æðardúnsængur beint til viðskiptavina um heim allan. Þ...

Vörðust ásælni ríkisins í jarðareign
Fréttir 17. apríl 2024

Vörðust ásælni ríkisins í jarðareign

Kristín Lárusdóttir og Guðbrandur Magnússon, bændur að Syðri- Fljótum í Meðallan...

Breyttar reglur um flutning líflamba
Fréttir 17. apríl 2024

Breyttar reglur um flutning líflamba

Verklagsreglur hafa verið endurskoðaðar um flutning á lömbum með verndandi eða m...

Gýgjarhólskot ræktunarbú ársins
Fréttir 16. apríl 2024

Gýgjarhólskot ræktunarbú ársins

Á fagfundi sauðfjárræktarinnar sem haldinn var á dögunum var Gýgjarhólskot í Bis...