Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 8 ára.
Landnýting í sátt við náttúruna
Fréttir 4. nóvember 2015

Landnýting í sátt við náttúruna

Höfundur: smh
Ólafur A. Jónsson starfar sem sviðsstjóri á sviði náttúru hjá Umhverfisstofnun, en sviðið fer meðal annars með umsjón með friðlýstum svæðum á Íslandi – fyrir utan Vatnajökulsþjóðgarð og þjóðgarðinn á Þingvöllum. 
 
Á Umhverfisþingi á dögunum flutti hann erindi undir yfirskriftinni Landnýting í sátt við náttúruna - Landslagsverndarsvæði samkvæmt skilgreiningu IUCN, þar sem hann útskýrði meðal annars þetta hugtak Alþjóðlegu náttúruverndarsamtakanna (IUCN). 
 
Ólafur A. Jónsson á Umhverfisþingi.
„Samkvæmt skilgreiningu IUCN þá er landslagsverndarsvæði svæði þar sem lögð er áhersla á verndun mikilvægs landslags sem hefur náttúruverndargildi og mótast hefur í gegnum tímann vegna samspils manns og náttúru og þeirrar hefðbundnu nýtingar sem viðhelst á svæðinu. Landnýtingin þarf alltaf að vera í sátt við náttúruna til að geta flokkast undir landslagsverndarsvæði, það þýðir að hún þarf að vera sjálfbær og hafa ekki áhrif á það landslag sem lagt er upp með að vernda,“ segir Ólafur.
 
Að sögn Ólafs skilgreinir Umhverfisstofnun hvaða svæði falla undir landslagsverndarsvæði IUCN, hafi það ekki verið ákveðið í upphafi friðlýsingar. „Þessar skilgreiningar eru svo sendar til Umhverfisstofnunar Evrópu sem heldur utan um tölfræðilegar upplýsingar um stöðu friðlýstra svæða í Evrópu. 
 
IUCN (International Union for Conservation of Nature), eða Alþjóðlegu náttúruverndarsamtökin, eru elstu og stærstu umhverfisverndarsamtök í heimi og vinna meðal annars að því að vernda og meta verndargildi náttúrunnar, að tryggja verndun líffræðilegs fjölbreytileika, að tryggja verndun og sjálfbærni, bæði á hnattrænum skala og í heimabyggð. IUCN heldur skrá yfir tegundir sem eru í útrýmingarhættu, styður við sjálfboðaliðastörf í náttúruvernd og veitir stjórnvöldum ráðgjöf er varðar alþjóðlega umhverfissáttmála, stefnur og löggjöf,“ útskýrir Ólafur.
 
Hann segir ástæðuna fyrir því að hann ákvað að útskýra þessi hugtök á Umhverfisþinginu vera margþætta. „Annars vegar hefur friðlýsing landsvæðis haft það orð á sér að ekkert megi gera eftir að svæði er friðlýst þó svo að raunin sé allt önnur í reynd. Umræddur flokkur friðlýsinga felur í sér að svæðið sé nýtt og að sú nýting setji svip sinn á landslag svæðisins. Gert er ráð fyrir að nýting haldi áfram eftir að búið er að friðlýsa svæðið. Hins vegar var verið að kynna þennan nýja flokk friðlýsinga í lögum um náttúruvernd, sem eru nú til endurskoðunar hjá Alþingi. Hann er víða nýttur erlendis, til dæmis í Bretlandi. Þessi friðlýsingarflokkur verður nýmæli í íslenskum lögum.  
 
Flokkar friðlýsinga
 
En hverjir skyldu þá vera aðrir flokkar friðlýsinga? Ólafur segir að þeir séu í grunninn sjö talsins. „Í fyrsta lagi má telja náttúruvé. Um er að ræða svæði þar sem ekki er gert ráð fyrir almennri umferð. Svæðið er friðlýst vegna einstakrar náttúru sem ber að varðveita óbreytta. Umferð um svæðið er mjög takmarkað og jafnvel einungis gert ráð fyrir umferð vísindamanna um svæðið. Dæmi um slíkt svæði er til dæmis Surtsey. Næst má nefna óbyggð víðerni. Þar er um að ræða stórt samfellt svæði þar sem ekki gætir áhrifa mannsins. Svæðið er tekið frá til að varðveita slík óröskuð landsvæði.  Mannvirki eru nánast ekki til og ekki gert ráð fyrir neinni uppbyggingu. Dæmi um slíkt svæði er til dæmis Hornstrandir. Þá skal telja þjóðgarða. Svæði með einstaka náttúru sem tekin eru frá til að vernda viðkomandi svæði en einnig til að gestir svæðisins geti notið þess og kynnst náttúru. Miklu máli skiptir að upplýsa fólk um náttúru svæðisins og verndun þess til dæmis með byggingu gestastofu og/eða uppsetningu fræðsluskilta. Dæmi um slíkt svæði gæti verið Þjóðgarðurinn Snæfellsjökull. Náttúruvætti eru einstakar náttúruperlur sem þykir vert að varðveita, til dæmis hverasvæði, fundarstaðir steinda og steingervinga, fossar, hraunmyndanir og svo framvegis.  Dæmi um slíkt svæði er til dæmis Skógafoss. Búsvæða- eða tegundafriðlýsing er sú friðlýsing sem felur í sér verndun einstakra búsvæða eða tegunda dýra eða plantna. Áhersla er lögð á verndun heimkynna umræddra lífvera. Dæmi um slíkt svæði væri til dæmis Skerjafjörður og Tjarnir á Hálsum, ofan Djúpavogs. Landslagsverndarsvæði eru svæði þar sem landslag, bæði náttúrulegt landslag og mannvistarlandslag, nýtur verndar vegna sérstöðu þess. Lögð er áhersla á að sú sjálfbæra nýting sem viðheldur viðkomandi landslagi og einkennir það haldist áfram. Dæmi um slíkt svæði gæti til dæmis verið Bláfjallafólkvangur, Krossanesborgir og fleiri svæði. Verndarsvæði með sjálfbærri nýtingu auðlinda er nýjasti flokkur friðlýstra svæða hjá IUCN en um er að ræða flokk sem gerir ráð fyrir verndun einstakra tegunda eða búsvæða en þó þannig að gert er ráð fyrir hefðbundinni sjálfbærri nýtingu tiltekinna stofna. Um er að ræða stór landsvæði sem eru að mestu lítt snortin.  Dæmi um slík svæði gætu til dæmis verið Melrakkaey og Flatey,“ segir Ólafur.
 
Fólkvangar og friðlönd
 
Landslagsverndarsvæði er nýr flokkur friðlýsinga í íslenskri löggjöf en að sögn Ólafs hafa fólkvangar og friðlönd ekki haft samnefnara í flokkum IUCN. „Því getur verið að mörg friðlönd og fólkvangar geti flokkast undir sama friðlýsingarflokk ef og þegar lögum um náttúruvernd verður breytt.
Landslagsverndarsvæðisflokkurinn hjálpar okkur að setja ramma utan um stjórnunarfyrirkomulagið og stefnu svæðisins, það er hver stefnan er fyrir viðkomandi svæði. Þegar búið er að flokka svæðið þá höfum við leiðarljós til að fylgja í gerð verndaráætlunar og skipulags fyrir viðkomandi svæði. 
 
Eðli friðlanda og fólkvanga getur verið sambærilegt – með tilliti til náttúruverndargildis og stefnu um verndun – en helsti munur á þeim svæðum er sá að stofnað er til fólkvanga samkvæmt beiðnum frá viðkomandi sveitarfélögum og sjá þau um allan kostnað vegna reksturs og umsjónar viðkomandi svæðis. Enn fremur er stofnað til fólkvanga í þeim tilgangi að taka frá landsvæðið þar sem íbúum sveitarfélaganna er gefið tækifæri til útivistar,“ segir Ólafur að lokum um muninn á þessum tveimur friðlýsingum. 
Fyrsti umplöntunarróbóti landsins
Fréttir 19. apríl 2024

Fyrsti umplöntunarróbóti landsins

Í maí í fyrra var settur upp umplöntunarróbóti á gróðrarstöðinni Sólskógum í Kja...

Ólöglegur frágangur á dýrahræjum
Fréttir 19. apríl 2024

Ólöglegur frágangur á dýrahræjum

Opinn gámur, yfirfullur af dýrahræjum, stóð á dögunum á steyptu bílastæði við in...

Verslunarrekstur í dreifbýli er samfélagsverkefni
Fréttir 18. apríl 2024

Verslunarrekstur í dreifbýli er samfélagsverkefni

Vegamót á Bíldudal er matvöruverslun og veitingastaður. Gísli Ægir Ágústsson, ve...

„Allt of fáar messur“
Fréttir 18. apríl 2024

„Allt of fáar messur“

Tryggvi Sveinn Eyjólfsson, sem er á sautjánda aldursári, hefur vakið athygli fyr...

Íslenskar sængur um allan heim
Fréttir 18. apríl 2024

Íslenskar sængur um allan heim

Íslenskur dúnn ehf. selur æðardúnsængur beint til viðskiptavina um heim allan. Þ...

Vörðust ásælni ríkisins í jarðareign
Fréttir 17. apríl 2024

Vörðust ásælni ríkisins í jarðareign

Kristín Lárusdóttir og Guðbrandur Magnússon, bændur að Syðri- Fljótum í Meðallan...

Breyttar reglur um flutning líflamba
Fréttir 17. apríl 2024

Breyttar reglur um flutning líflamba

Verklagsreglur hafa verið endurskoðaðar um flutning á lömbum með verndandi eða m...

Gýgjarhólskot ræktunarbú ársins
Fréttir 16. apríl 2024

Gýgjarhólskot ræktunarbú ársins

Á fagfundi sauðfjárræktarinnar sem haldinn var á dögunum var Gýgjarhólskot í Bis...