Kúrsinn tekinn til framtíðar
Þingeyjarsveit hefur samþykkt nýja heildarstefnu fyrir sveitarfélagið fram til ársins 2030.
Fram kemur í nýrri stefnu Þingeyjarsveitar að helstu styrkleikar sveitarfélagsins séu m.a. taldir vera óteljandi náttúruperlur innan vébanda þess, fyrsta flokks skólastarf, blómleg ferðaþjónusta og öflugur landbúnaður, orkuauðlindir og dugmikið, drífandi fólk. Veikleikar eru taldir vera skortur á íbúðum, að mæta aukinni eftirspurn eftir þjónustu, einsleit atvinnutækifæri og þjónusta í dreifðum byggðum.
Sér sveitarfélagið tækifæri í að nýta betur orkuauðlindir, auka samstarf við landeigendur um landnýtingu, ná fram tekjuaukningu í ferðaþjónustunni og nýta innviði frekar. Helstu áskoranir svæðisins eru taldar vera víðfeðmi og vegalengdir, að halda úti þróttmiklu menningarstarfi, ágangur á helstu náttúruperlur, samgöngur og öldrun íbúa. Meðal áherslna sveitarfélagsins er að styðja við aukna sjálfbærni í matvælaframleiðslu og stuðning við sérstöðu í þeim efnum og efling samstarfs og samvinna við landeigendur um uppbyggingu í þágu samfélagsins. Ráðgjafarfyrirtæki var fengið til að halda utan um gerð stefnunnar og voru haldnir þrír íbúafundir og fundað með fulltrúum atvinnulífs og starfsfólki sveitarfélagsins, auk annars samráðs, við gerð stefnunnar. Var hún kynnt rafrænt fyrir íbúum laust fyrir jól og er birt á vef Þingeyjarsveitar.