Kosið um sameiningu Dalabyggðar og Húnaþings
Dalabyggð og Húnaþing vestra eru nú á fullu í sameiningarviðræðum en ákveðið hefur verið að íbúar kjósi um sameiningu sveitarfélaganna dagana 28. nóvember til 13. desember næstkomandi.
Kosningaaldur verður 16 ára. Sérstök samstarfsnefnd var skipuð þar sem í sitja tveir fulltrúar frá hvoru sveitarfélagi og samið var við KPMG um verkefnisstjórn og ráðgjöf. Sveitarstjórar sveitarfélaganna starfa með nefndinni og sitja fundi hennar með málfrelsi og tillögurétt. Ef íbúar samþykkja sameiningu verður skipuð undirbúningsstjórn, sem undirbýr gildistöku nýs sveitarfélags, sem tæki væntanlega til starfa eftir sveitarstjórnarkosningarnar vorið 2026.
Rólegt yfir íbúum sveitarfélaganna
„Umræðan er enn sem komið er frekar róleg en mögulega er hún komin af stað heima fyrir og á einstaka kaffistofum, a.m.k. vona ég það,“ segir Björn Bjarki Þorsteinsson, sveitarstjóri Dalabyggðar. „Það er mikilvægt að fá góða þátttöku í kosningunum þannig að vilji meirihluta íbúa sé skýr, í hvora átt sem úrslitin verða. Samstarfsnefndin skilaði í síðustu viku tillögu sinni um kosningar til sveitarstjórnanna beggja og nú er unnið að undirbúningi á framkvæmd kosninganna af hálfu kjörstjórna. Haldnir verða íbúafundir í hvoru sveitarfélagi dagana 17. og 18. nóvember og verið er að vinna kynningarefni. Einnig höfum við sent á innviðaráðherra og þingmenn kjördæmisins minnisblað með þeim áherslum sem samstarfsnefnd og sveitarstjórnir leggja áherslu á að fá stuðning við samhliða þeirri vinnu sem er í gangi varðandi mögulega sameiningu.“
Unnur Valborg Hilmarsdóttir, sveitarstjóri Húnaþings vestra, bætir við: „Það sama á við í Húnaþingi vestra. Umræðan hefur verið lítil framan af en er að fara af stað enda er stutt síðan forsendur og álit sameiningarnefndar var tekið fyrir í sveitarstjórnum. Fólk er að byrja að kynna sér málið og ég vona sannarlega að umræður eigi eftir að vera líflegar. Þetta er stórt mál og eðlilegt að ýmis sjónarmið takist á.“
Björn Bjarki segir að ef sameiningin verður samþykkt þá verði íbúar nýs sveitarfélags um 1.850 og sveitarfélagið það sjötta landstærsta, eða alls um 5450 km2 . Ný sveitarstjórn mun finna nafn á nýja sveitarfélagið verði sameiningin samþykkt. Niðurstaða kosninganna er bindandi en einfaldur meirihluti kjósenda í hvoru sveitarfélagi fyrir sig þarf að samþykkja sameiningu til að af henni verði.
En hvað gera bændur ef sameiningunni verður hafnað?
„Þá bara halda bændur áfram sínu striki í sínu sveitarfélagi og ganga til kosninga í vor í því landslagi sem um ræðir. Hvorugt sveitarfélagið er í vandræðum eða verður að sameina, sveitarstjórnirnar vilja engu að síður láta á þetta reyna í kosningu og það eru ýmis samlegðaráhrif og tækifæri sem í þessu samtali felast að mínu mati,“ segir sveitarstjóri Dalabyggðar og Unnur Valborg tekur heils hugar undir þetta. „Við í Húnaþingi vestra höfum lagt áherslu á að þrátt fyrir að sameiningarviðræður standi yfir verði engin mál sett „á bið“ meðan á samtalinu stendur. Við höfum haldið ótrauð áfram í okkar verkefnum, hvort sem um er að ræða framkvæmdir, ráðningar eða annað. Ef sameining verður felld þá höldum við einfaldlega okkar striki. Sveitarfélögin standa bæði vel og eru vel rekin, það er ekkert sem segir að svo verði ekki áfram þó allt bendi til þess að sameining myndi styrkja sameinað sveitarfélag fjárhagslega, efla stjórnsýsluna og auka slagkraftinn í hagsmunabaráttunni fyrir svæðið eins og fram kemur í áliti sameiningarnefndar,“ segir Unnur Valborg.
