Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 2 ára.
Valur Ásmundsson og Elva Díana Davíðsdóttir, Haukur Skúli, Hafþór Bjarki, Ólöf Milla og Kristján Atli taka þátt í ratleik á Æskulýðsdögum Norðurlands á Melgerðismelum.
Valur Ásmundsson og Elva Díana Davíðsdóttir, Haukur Skúli, Hafþór Bjarki, Ólöf Milla og Kristján Atli taka þátt í ratleik á Æskulýðsdögum Norðurlands á Melgerðismelum.
Mynd / Valur Ásmundsson
Fréttir 3. september 2020

Knýjandi þörf að færa alla ríðandi umferð af og frá akvegum

Höfundur: Margrét Þóra Þórsdóttir

„Það er knýjandi þörf á að færa ríðandi umferð af og frá akvegum. Umferð um Eyjafjörð hefur aukist mikið á liðnum árum, stór hluti vega er nú með bundnu slitlagi og því fylgir aukinn umferðarhraði. Það tíðkaðist hér áður fyrr að menn riðu eftir malarvegum um alla sveit, en slíkt er beinlínis hættuspil eins og staðan er nú,“ segir Valur Ásmundsson, formaður reiðveganefndar Hestamannafélagsins Funa í Eyjafjarðarsveit.

Fulltrúar Funa og Eyjafjarðar-sveitar hafa skrifað undir áframhaldandi samstarfssamning um uppbyggingu reiðvega í sveitarfélaginu. Leggur Eyjafjarðarsveit til allt að tvær milljónir króna á ári til ársloka 2023 gegn mótframlagi úr reiðvegasjóði. Um er að ræða framlengingu á samningi sem áður var í gildi.

Fulltrúar Funa og Eyjafjarðarsveitar hafa skrifað undir áframhaldandi samstarfssamning um uppbyggingu reiðvega í sveitarfélaginu. Hér er unnið að reiðvegagerð í sveitarfélaginu.

Mikil uppbygging og aukið umferðaröryggi

Vel hefur gengið undanfarin ár að byggja upp reiðvegi í sveitarfélaginu og auka með því umferðaröryggi á svæðinu svo sem er tilgangur verk-efnisins. Funamenn eru stórhuga þegar kemur að uppbyggingu reiðvega, næsta verkefni þeirra er að byggja upp reiðvegi í efri byggð sveitarfélagsins og einnig við Eyjafjarðarbraut Eystri.

„Við höfum síðastliðin ár gert átak í gerð reiðvega í okkar sveitarfélagi, Eyjafjarðarsveit hefur jafnað framlag Vegagerðarinnar til framkvæmda,“ segir Valur, en Funi hefur haft yfirumsjón með verkefninu í samstarfi við sveitarfélagið og Vegagerðina. „Hefðin er sú hér á landi að hesta-mannafélögin hafa borið hitann og þungann af reiðvegagerðinni, þannig að við erum lánsöm hér um slóðir. Hinir ýmsu verktakar úr sveitinni hafa um árin tekið þátt í uppbyggingunni með okkur og það samstarf hefur verið aldeilis frábært, það er mikilvægt að gera sem mest úr því sem við höfum úr að moða. Þá hafa landeigendur einnig sýnt verkefninu mikinn skilning og hjálpað til við að finna bestu lausnir við framkvæmdina hverju sinni.“

Valur Ásmundsson, formaður reiðveganefndar Hesta-manna-félagsins Funa, segir ánægjulegt að Eyjafjarðarsveit og Vegagerðin taki höndum saman um uppbyggingu reið-vegakerfis í sveitarfélaginu, öryggismál og framþróun hestamennsku sé háð uppbyggingu reiðveganna. Mynd / Valur Ásmundsson

Yfir fjórar einbreiðar brýr að fara

Valur segir að hestamennska sé talsvert stunduð í Eyjafjarðarsveit en að auki hafi félagar í Hestamanna-félaginu Létti á Akureyri aðstöðu á Kaupvangsbökkum, rétt sunnan við Akureyri, sem og einnig á Melgerðismelum. Þar er félagsheimili Funa, hesthús, reiðhöll, keppnissvæði, beitarhólf og stóðréttarbygging. Melgerðismelar séu þannig miðstöð hestamennsku í héraði og sannkölluð vin ferðalanga sem ferðist um á hestum.

Áhersla hefur á liðnum árum verið lögð á að byggja upp myndar-legan reiðveg til framtíðar milli Miðbrautar við Hrafnagil og inn á Melgerðismela. Valur segir að sú leið sé nú orðin góð, þó alltaf þurfi eitthvað að laga nýframkvæmdir og viðhalda eldri leiðum. „Nú má segja að helstu hætturnar á þessari leið séu hvorki meira né minna en fjórar einbreiðar brýr sem ríðandi umferð þarf að fara yfir á. Hestamenn og sveitarfélagið voru með metnaðarfulla áætlun hér á árum áður að fara meðfram ánni að austanverðu eins og gert er norðan Miðbrautar en því miður náðist ekki samkomulag við landeiganda svo þær áætlanir runnu út í sandinn. Sú framkvæmd hefði verið langsamlega öruggasta leiðin og nánast engin skörun við akandi umferð og mjög hagkvæm leið,“ segir hann.

Fulltrúar Funa og Eyjafjarðarsveitar handsala undirritaðan samning um uppbyggingu reiðvega í sveitarfélaginu. Eyjafjarðarsveit leggur til allt að tvær milljónir króna á ári til ársloka 2023 gegn mótframlagi úr reiðvegasjóði. Um er að ræða framlengingu á samningi sem áður var í gildi. Mynd / Eyjafjarðarsveit

Tengja Efri-byggðina við reiðvegakerfið

Núverandi áætlanir miðast fyrst og fremst við að vera á veghelgunarsvæði sem Valur segir vissulega hafa sína kosti. Þær leiðir þjóni vel þeim sem búa nærri þeim og eins þeim sem stunda útreiðar út af bæjum sínum.

Nú í sumar var hafist handa við að leggja reiðveg í svokallaðri „Efri-byggð“ sem tengist svo reiðvegi sem liggur fram að Melgerðismelum. Þannig tengjast bæirnir á því svæði reiðvegakerfi sem tengist Melgerðismelum, til Akureyrar og þaðan austur í Þingeyjarsýslur og norður eftir Eyjafirði.

Þá segir Valur að meðal verkefna á dagskrá næstu ára sé að byggja upp reiðvegi í veghelgunarsvæðinu meðfram Eyjafjarðarbraut Eystri en þar er víða nánast ófært fyrir ríðandi umferð um sveitina nema þá að fara eftir vegkanti sem sums staðar er malbikaður. Hið sama megi segja um sveitina inna við Melgerðismela og leiðina upp á hálendið. Þar sé langur kafli þar sem ríðandi umferð þurfi að fara eftir akvegi eða um illfært land meðfram honum. „Það væri sannarlega ánægjulegt ef hestamenn gætu farið að ríða niður í Eyjafjörð af hálendinu á góðum og öruggum stíg,“ segir hann.

Skortur á reiðvegasamgöngum stendur ferðaþjónustu fyrir þrifum

Valur nefnir að hestatengd starfsemi hafi þróast mjög á síðustu árum, hvort sem um er að ræða ferðaþjónustu eða faglegt starf við þjálfun hesta eða reiðkennslu. Í Eyjafjarðarsveit hefur Funi haldið úti reiðkennslu fyrir börn og fullorðna en einnig hafa verið starfræktir nokkrir reiðskólar fyrir börn í sveitinni. „Uppbygging reiðvega bætir vissulega aðstæður þessara skóla sem svo aftur stuðlar að aukinni nýliðun í greininni. Sama má segja um hestatengda ferðaþjónustu en skortur á reiðvegasamgöngum fram að þessu hefur hreinlega staðið ferðaþjónustunni fyrir þrifum,“ segir hann.

„Sveitin hefur upp á margt að bjóða til að aðstaða til hestamennsku geti verið mögnuð og ef við náum að byggja upp gott reiðvegakerfi skapast hér forsendur fyrir jákvæðri þróun hestamennsku, auk þess sem öryggi ríðandi og akandi umferðar verður meira. Það er ekki nokkur vafi í mínum huga að hestamennskan er frábær viðbót í æskulýðs- og íþróttastarf hvers samfélags því hestamennskan er í senn holl hreyfing, útivist og frábær vettvangur fyrir samvist með fjölskyldu og vinum,“ segir Valur og bætir við að öryggsmál og framþróun hestamennskunnar sé háð uppbyggingu  reiðvegakerfisins.

„Það er mikið gleðiefni að sveitarfélagið og Vegagerðin sýni því skilning og setji pening í þetta verkefni.“ 

Skylt efni: hestamennska | Hestamenn

Samstaða framleiðenda afar mikilvæg
Fréttir 9. júní 2023

Samstaða framleiðenda afar mikilvæg

Jóhanna Bergmann Þorvaldsdóttir, geitfjárbóndi á Háafelli í Hvítársíðu, var kjör...

Flutningur nautgripa yfir varnarlínur
Fréttir 9. júní 2023

Flutningur nautgripa yfir varnarlínur

Nokkuð hefur borið á misskilningi eftir að reglum um flutning nautgripa yfir var...

Kornræktendur fá fyrirframgreiðslu
Fréttir 9. júní 2023

Kornræktendur fá fyrirframgreiðslu

Opnað var fyrir umsóknir um jarðræktarstyrki og landgreiðslur þann 1. júní sl.

Þrír handhafar landgræðsluverðlauna
Fréttir 9. júní 2023

Þrír handhafar landgræðsluverðlauna

Októ Einarsson, Skógræktarfélag Kópavogs og ferðaþjónustufyrirtækið Midgard eru ...

Auknar fjárveitingar til viðhalds varnarlína í Miðfjarðarhólfi
Fréttir 8. júní 2023

Auknar fjárveitingar til viðhalds varnarlína í Miðfjarðarhólfi

Fjárveitingar til viðhalds á tveimur varnarlínum sauðfjársjúkdóma milli Miðfjarð...

Nýr lausapenni
Fréttir 8. júní 2023

Nýr lausapenni

Umfangsmeira Bændablað kallar á mannafla og er Þórdís Anna Gylfadóttir nýr liðsf...

Dregur úr innlendri framleiðslu nautakjöts
Fréttir 8. júní 2023

Dregur úr innlendri framleiðslu nautakjöts

Samdráttur í nautakjötsframleiðslu nú er afleiðing lægra afurðaverðs árið 2021 a...

Eitt sýni jákvætt á Urriðaá
Fréttir 8. júní 2023

Eitt sýni jákvætt á Urriðaá

Nú er ljóst að eina staðfesta riðuveikitilfellið á Urriðaá í Miðfirði var í kind...