Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 1 árs.
Anna Guðrún Torfadóttir stödd í fjárhúsinu hjá vinum sínum á Eystra-Miðfelli innan um sauðféð en hún er að gera áhugavert verkefni um litbrigðafjölda í sauðfé í Lundarreykjadal í Borgarfirði.
Anna Guðrún Torfadóttir stödd í fjárhúsinu hjá vinum sínum á Eystra-Miðfelli innan um sauðféð en hún er að gera áhugavert verkefni um litbrigðafjölda í sauðfé í Lundarreykjadal í Borgarfirði.
Mynd / Aðsend
Fréttir 12. mars 2024

Kannar litbrigðafjölda í sauðfé

Höfundur: Magnús Hlynur Hreiðarsson

Nýlega veitti Uppbyggingarsjóður Vesturlands styrki til 75 verkefna. Eitt af þeim er verkefni Önnu Guðrúnar Torfadóttur, sem ætlar sér að kanna litbrigðafjölda í sauðfé í Lundarreykjadal.

Anna Guðrún býr í Melahverfi í Hvalfjarðarsveit ásamt Gunnari J. Straumland, eiginmanni sínum, kettinum Loga og fimm landnámshænum. Hjónin kláruðu á sínum tíma nám í Myndlistar- og handíðaskóla Íslands og eru starfandi myndlistarmenn.

Litaafbrigði fyrir myndlist og ljóðlist

Þegar Anna er spurð um verkefnið segi hún að þau hjónin séu í Kvæðamannafélaginu Snorra í Reykholti og þar hafi þau kynnst Óskari Halldórssyni, bónda á Krossi í Lundareykjadal. Óskar hefur það áhugamál að rækta alla liti íslensku sauðkindarinnar en hjá honum má finna öll litbrigði, nema eitt.

„Mér datt í hug að það gæti verið áhugavert að nota litarafbrigði og litamynstur, sem vettvang fyrir myndlist og ljóðlist. Þar sem Gunnar er skáld ætlar hann að yrkja vísur um litina og jafnvel gæti ljóðabók orðið til,“ segir Anna Guðrún. Hún segir að til séu rannsóknarskýrslur og ritgerðir fræðafólks um litarafbrigði íslensku sauðkindarinnar en það sé ekki fyrir hvern sem er að muna allar samsetningarnar og litbrigði. Þá sé gott að geta notið góðs af BA-ritgerð Sigurborgar Hönnu Sigurðardóttur sem staðreyndagrunn fyrir viðfangsefnið, en hún styðst við litaheiti dr. Stefáns Aðalsteinssonar.

Hliðstæð litarafbrigðum hunda og hesta

Þegar Anna Guðrún er spurð um tilgang og markmið verkefnisins er hún fljót til svars. „Að vekja áhuga á nöfnunum á litafjölbreytninni, öllum orðunum sem fáir nota almennt en eru hliðstæður nafna á litarafbrigðum hunda og hesta.

Ég tel að við framsetningu okkar á þeim auðuga arfi, sem litarafbrigði íslensks sauðfjár er, þá sérstaklega litarafbrigði sauðfjár sem finna má í tilteknum borgfirskum dal, komi til með að vekja áhuga á mikilvægum þætti menningar og atvinnusögu Vesturlands,“ segir hún.

Mismunandi gerðir af tvílitum 32

Sauðalitirnir skiptast í þrjá flokka, tegundir lita, litamynstur og tvíliti. Litirnir eru hvítur, gulur, rauðgulur, svartur, úlfgrár og mórauður og svo eru sex litamynstur og hafa litamynstrin áhrif á litina.

„Það eru til 32 mismunandi gerðir af tvílitum þar sem hver gerð hefur sitt sérstaka heiti. Ég held að menningarlegt og samfélagslegt gildi verkefnisins hjá mér sé ótvírætt. Hér verður bætt myndarlega við það menningarefni sem á boðstólum er fyrir Vestlendinga og einnig má ætla að sérstaklega íslenskir ferðamenn, sem á Vesturland koma, muni þykja þetta vera góð viðbót við það menningarefni sem í héraðinu má njóta. Til þess að list geti haft erindi út fyrir sjálfa sig er grundvallaratriði að hún hafi sterkar þjóðlegar rætur. Þjóðleg jarðtenging, tengsl við hið sérstaka og sértæka í menningu okkar, er oft fjörefni fyrir frumlega og nýstárlega listsköpun,“ segir Anna Guðrún.

Þetta var tíunda árið sem Uppbyggingarsjóður Vesturlands úthlutar styrkjum og var heildarupphæð styrkja 46,4 milljónir króna.

Veittir eru styrkir til annars vegar menningarverkefna og hins vegar atvinnu- og nýsköpunarverkefna, en sjóðurinn er hluti af Sóknaráætlun Vesturlands.

Verndun vatns og vistkerfa þess
Fréttir 20. janúar 2026

Verndun vatns og vistkerfa þess

Markmið nýs frumvarps um vatnamál, sem nú er í samráðsgátt stjórnvalda, er einku...

Nýtt mælaborð BÍ tekið í notkun
Fréttir 20. janúar 2026

Nýtt mælaborð BÍ tekið í notkun

Nýtt mælaborð hefur verið tekið í notkun hjá Bændasamtökum Íslands (BÍ) sem á að...

Fuglar í vaxandi útrýmingarhættu
Fréttir 20. janúar 2026

Fuglar í vaxandi útrýmingarhættu

Nýr válisti íslenskra fugla leiðir í ljós að 43 tegundir eru á válista, þar af 3...

Greiðir tæplega helming skuldar við bændur
Fréttir 16. janúar 2026

Greiðir tæplega helming skuldar við bændur

Vegna rekstrarvanda á undanförnum misserum náði Ístex ekki að standa í skilum vi...

Ingólfur sæmdur fálkaorðunni
Fréttir 16. janúar 2026

Ingólfur sæmdur fálkaorðunni

Halla Tómasdóttir, forseti Íslands, sæmdi fjórtán Íslendinga heiðursmerki hinnar...

Mata fær langmest af kjötkvóta
Fréttir 16. janúar 2026

Mata fær langmest af kjötkvóta

Búið er að úthluta tollkvótum fyrir landbúnaðarvörur frá Evrópusambandinu fyrir ...

2025 hlýjast frá upphafi mælinga
Fréttir 16. janúar 2026

2025 hlýjast frá upphafi mælinga

Árið 2025 var hlýjasta árið á Íslandi frá upphafi mælinga samkvæmt upplýsingum f...

Dæmdur fyrir vanrækslu nautgripa
Fréttir 16. janúar 2026

Dæmdur fyrir vanrækslu nautgripa

Héraðsdómur Norðurlands vestra dæmdi nautgripabónda til sex mánaða skilorðsbundi...