Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 2 mánaða.
Kakóverð hækkar meðal annars vegna skorts á framboði á heimsvísu vegna sjúkdóma og loftslagsbreytinga og langvarandi vanfjárfestingar í kakóbúum. Það er að verða á pari við gull í verði. Hér er kakóbóndi í Ekvador að tína fræbelg af kakótré og í honum gætu leynst á milli 20 og 60 fræ, eða kakóbaunir í daglegu tali.
Kakóverð hækkar meðal annars vegna skorts á framboði á heimsvísu vegna sjúkdóma og loftslagsbreytinga og langvarandi vanfjárfestingar í kakóbúum. Það er að verða á pari við gull í verði. Hér er kakóbóndi í Ekvador að tína fræbelg af kakótré og í honum gætu leynst á milli 20 og 60 fræ, eða kakóbaunir í daglegu tali.
Mynd / Pixabay
Fréttir 19. febrúar 2025

Kakó er að verða dýrara en gull

Höfundur: Steinunn Ásmundsdóttir

Verð á hrávörum á alþjóðamarkaði fer almennt lækkandi. Verð á t.d. kakóbaunum, kaffibaunum, vanillu og appelsínum er hins vegar í hæstu hæðum og fyrir því eru gildar ástæður.

Í spám Alþjóðabankans fyrir yfirstandandi ár og hið næsta er gert ráð fyrir verðlækkunum á hrávörumarkaði, 5% lækkun í ár og 2% lækkun 2026. Hrávöruverð hækkaði skart í Covid- faraldrinum og vegna innrásarstríðs Rússa í Úkraínu en mikið hefur dregið úr hækkunum flestra hrávara síðan og sumar núllast út.

Samkvæmt Rannsóknasetri verslunarinnar (RSV) er líklegt að olíuverð leiði þessa þróun til lækkunar, en verð á jarðgasi gæti hækkað og búist er við stöðugu verði á landbúnaðarhráefnum og málmum. Talin er hætta á að aukin spenna í Mið- Austurlöndum geti hækkað orkuverð til skemmri tíma, sem hefði áhrif á aðrar hrávörur. Hins vegar eru til lengri tíma litið taldar sterkar líkur á verðlækkun á olíu.

Kakóskortur á heimsvísu

RSV segir kakó halda áfram að hækka í verði og hafi það ekki fyrr mælst hærra, en mælingar nái aftur til ársins 2000. Hið sama sé upp á teningnum með kaffi og appelsínur. Miklar hækkanir hafi átt sér stað á báðum vörum síðustu misseri og uppskerubrestur í helstu útflutningslöndum talin helsta orsökin. Í nóvember sl. voru til dæmis aðeins gull, kókosolía og appelsínur hærri en kakó miðað við hæstu vísitölu hrávöruverðs. Á tímum Maya voru kakóbaunir enda notaðar sem gjaldmiðill.

Í dag er heimsframleiðsla á kakói rúmlega fimm milljónir tonna á ári. Meira en helmingur af kakóbirgðum heimsins er ræktaður í Vestur-Afríku; á Fílabeinsströndinni og í Gana, og í kjölfarið fylgir Ekvador með um 9% af heimsmarkaði. Kakó er einnig framleitt á Karíbahafseyjunum, Indlandi og í Ástralíu.

Sveppasjúkdómar hafa herjað á kakótré, m.a. í Suður-Ameríku, í áratugi. Vísindamenn leita leiða til að gera þau ónæmari eða þolnari fyrir veiru- og sveppasjúkdómum og hefur orðið nokkuð ágengt. Hitar hafa einnig reynst kakóræktendum þungir í skauti. Útlit er fyrir að í Vestur- Afríku minnki land undir kakórækt með vaxandi þurrkum og hitum, sem aftur getur aukið útbreiðslu þeirra sjúkdóma sem herja á plönturnar.

Um skeið hefur kvittur verið á kreiki um að kakó verði horfið sem hrávara í kringum árið 2050 vegna hlýnunar jarðar og þurrka. Um þetta fer þó tvennum sögum og aðrir segja mikil sóknarfæri í kakórækt, sé vel haldið á spilunum.

Kakóverð hækkar meðal annars vegna skorts á framboði á heimsvísu og langvarandi vanfjárfestingar í kakóbúum. Útlit er þó fyrir að kakóverð haldist hátt til meðallangs tíma, og fari í kringum $6.000/ tonn-markið þegar jafnvægi er náð á markaði.

Arabica og Robusta loftslagsbreytingum að bráð

Kaffibaunir eru sömuleiðis hrávara sem ýmsir hafa áhyggjur af að eigi verulega undir högg að sækja í harðnandi veðuraðstæðum á heimsvísu, auk þess sem sjúkdómar herja á kaffibaunatrén og heppilegt ræktarland minnkar. Því hefur verið spáð að um 2050 gætu loftslagsbreytingar hafa drepið tvær helstu kaffitegundir heimsins (Arabica og Canephora, eða Robusta) og að um 60% af 124 villtum kaffiplöntum jarðar séu í hættu.

Á eftir hráolíu hefur kaffi lengi verið verðmætasta varan í milliríkjaviðskiptum í heiminum. Heimsframleiðslan nam 178 milljónum 60 kg sekkja árið 2023 og vex um 6,9 milljónir sekkja 2024–5, einkum vegna aukinnar framleiðslu í Víetnam og Indónesíu. Brasilía er þó stærsti kaffiframleiðandi heims, með 38% heimsframleiðslu skv. USDA Foreign Agricultural Service. Önnur stærstu framleiðslulönd kaffibauna eru Kólumbía, Hondúras, Perú, Gvatemala, Eþíópía, Úganda, Víetnam, Indónesía og Indland.

Spáð er að heimsframleiðslan á kaffi muni nema andvirði 102,15 milljarða Bandaríkjadala í ár og hefur þá vaxið um 5,5% frá árinu 2020. Skortur er þegar orðinn á Robusta- baunum og stórfyrirtækin í auknum mæli að snúa sér að Arabica-kaffi á lágu verði til að mæta eftirspurn.

Kaffibaunir eru hrávara sem ýmsir hafa áhyggjur af að eigi verulega undir högg að sækja í harðnandi veðuraðstæðum á heimsvísu.

Vanilla í útrýmingarhættu

Enn ein hrávaran sem sögð er í hættu er Vanilla planifolia. Vanilla er ilmandi krydd sem fæst úr brönugrösum sem tilheyra vanillu-ættkvíslinni. Vanilla planifolia er upprunnin í Mexíkó og aðeins þar verður náttúruleg frævun. Í hinum 14 löndunum sem rækta vanillu þarf að handfræva plönturnar. Yfir 150 tegundir finnast af vanilluplöntum. Stofn tegundarinnar er sagður hafa minnkað og búsvæði víða verið tekin undir aðra ræktun. Alþjóðlegu náttúruverndarsamtökin IUCN meta Vanillu planifolia sem plöntu í útrýmingarhættu.

Alþjóðlegu náttúruverndarsamtökin IUCN meta Vanillu planifolia sem plöntu í útrýmingarhættu.

Ekta vanilla er dýrasta krydd heims á eftir saffran. Vanillín, aðalbragðefnið í vanillu, er unnt að búa til á rannsóknarstofu en þykir ekki hafa sömu bragðeiginleika og vanilla.

Mest er framleiðsla á vanillu á Madagaskar, rúmar þrjár milljónir tonna í fyrra, helmingi meira en Indónesía sem er í næsta sæti, í Kína, Mexíkó og Nýju-Gíneu. Eftir því sem jörðin hlýnar, eru hvirfilbyljir og stormar á þessum svæðum að aukast og falla þá orkídeublómin og vanillubaunirnar áður en þau fá tækifæri til að þroskast að fullu.

Heimsmarkaður vanillu var metinn á 3.189.73 milljónir Bandaríkjadala árið 2023. Því er spáð að heimsmarkaðsvirðið vaxi um 5,7% fram til ársins 2032.

Í grein í Guardian er því haldið fram að vanilla sé það krydd sem fyrst muni verða útrýmingu að bráð. Næst á eftir verði villt bómull og þar næst þrjár af hverjum fimm villtum tegundum lárperu. Þá er að auki greint frá að 23% villtra kartöflutegunda séu að deyja út.

Á síðustu tveimur áratugum hefur samdráttur í sítrusframleiðslu í heiminum numið um 75%.
Mikill samdráttur í sítrusframleiðslu

Við þetta má svo bæta að appelsínur eiga einnig við ramman reip að draga og raunar allir sítrusávextir. Á síðustu tveimur áratugum hefur samdráttur í sítrusframleiðslu á heimsvísu numið um 75%. Alvarlegur plöntusjúkdómur (Huanglongbing/guldrekasjúkdómur) í formi bakteríusýkingar herjar á sítrusávaxtatré víða um heim, í yfir fjörutíu ræktunarlöndum. Er jafnvel talið að sjúkdómurinn geti valdið útrýmingu sítrusávaxta verði ekki gripið til róttækra og hraðra aðgerða.

Brasilía framleiðir 32% af appelsínum á heimsvísu, Kína 16%, lönd innan Evrópusambandsins 12% og Mexíkó 10%. Önnur framleiðslu- ríki eru helst Egyptaland, Bandaríkin, Tyrkland, Suður-Afríka, Víetnam og Marokkó. Í fyrra nam heimsframleiðsla á appelsínum um 47,4 milljónum tonna og hafði þá stigið um 1% milli ára en samdráttur um rúmar þrjár milljónir tonna orðið frá árinu 2022.

Skylt efni: kakó

Plastbrúsar framleiddir úr endurunnu rúlluplasti
Fréttir 25. apríl 2025

Plastbrúsar framleiddir úr endurunnu rúlluplasti

Fyrirtækið Pure North í Hveragerði hefur nú náð að loka hringrás endurvinnslu á ...

Reykjavík Open 2025 – Friðriki til heiðurs
Fréttir 25. apríl 2025

Reykjavík Open 2025 – Friðriki til heiðurs

Reykjavík Open, sem hófst miðvikudaginn 9. apríl í Hörpu, hefur fyrir löngu fest...

Málstofa um áburðarmöguleika fiskeldisseyrunnar
Fréttir 24. apríl 2025

Málstofa um áburðarmöguleika fiskeldisseyrunnar

Fiskeldi á landi er vaxandi atvinnugrein, allnokkur stór eldisfyrirtæki eru í up...

Framleiðsla á Hrym í Búðardal
Fréttir 23. apríl 2025

Framleiðsla á Hrym í Búðardal

Fyrirhuguð er stórtæk framleiðsla á lerkiafbrigðinu Hrymi í Dalabyggð á næstu mi...

Skógur alltaf til bóta
Fréttir 22. apríl 2025

Skógur alltaf til bóta

Rannsóknir sýna að áhrif skógræktar á kolefnisforða jarðvegs eru nær alltaf orði...

Fjársjóður fjalla og fjarða
Fréttir 22. apríl 2025

Fjársjóður fjalla og fjarða

Tveggja daga íbúaþing, undir stjórn Sigurborgar Kr. Hannesdóttur, fór fram í Rey...

Er plantað nóg?
Fréttir 16. apríl 2025

Er plantað nóg?

Skógarbændur gegna mikilvægu hlutverki við landgræðslu og skógrækt. Þannig er sk...

Trump skellir í lás
Fréttir 16. apríl 2025

Trump skellir í lás

Alþjóðasamfélagið er skekið eftir tollahækkanir Trumps í þarsíðustu viku.