Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 7 ára.
Jurtir Karlamagnúsar – rúðan
Á faglegum nótum 6. október 2016

Jurtir Karlamagnúsar – rúðan

Höfundur: Hafsteinn Hafliðason

Frá örófi alda hefur sígrænn hálfrunni með bláleitum, stakfjöðruðum blöðum og grængulum blómum í gisnum skúf haldið athygli lækna jafnt sem kennimanna. Og eiginlega óslitið allt fram á okkar tíma.

Þessi hálfrunni, eiginlega bara einær jurt þegar hann vex norðan sinna eiginlegu heimkynna, komst fyrst á prent með íslenskuðu nafni í þýðingu Nýja testamentisins. Þar sendur í Lúkasarguðspjalli ellefta kafla, fertugasta og öðru versi: „Vei yður, þér Farísear, því að þér gjaldið tíund af myntu og rúðu og öllum matjurtum, en gangið framhjá réttvísinni og kærleikanum til Guðs; …“

Þarna kemur rúðan fyrst inn í íslenskan raunveruleika. En sennilega lítið síðan, því ólíklegt er að nokkur Íslendingur hafi haft kynni af henni fyrr en á allra síðustu árum flakks og ferðalaga um suðlæg lönd. Samt gæti skeð að rúðu hafi verið að finna í klausturgörðunum hér meðan þeir voru. Engar vísbendingar liggja þó fyrir um það frekar en flest annað sem þar var ræktað.

Tvær tegundir af stórri ætt

Rúða, Ruta graveolens, er ein af þeim plöntum sem Karlamagnús lét lista upp í Capitullare de Villis, sem var eiginlega tilskipun hans um hvernig gróðurvali og ræktun skyldi hagað í görðum hans og klausturhaldarar höfðu síðan sem fyrirmynd í görðum klaustranna vítt um Evrópu. Heimkynni rúðunnar er í stórum dráttum umhverfis Miðjarðarhaf og austur til stranda Svartahafs. Þar austan við og suður eftir Arabíuskaganum vex önnur rúðutegund, Ruta chalepensis, keimlík en betur aðlöguð hitabreyskjum og eyðimerkurloftslagi. Þótt hún vaxi villt á söguslóðum guðspjallana, þá er líklegra að þar sé til hinnar ræktuðu rúðu vísað úr því að hún er talin með myntunni og matjurtunum.

Rúða tilheyrir stórri og fjölbreyttri ætt sem kennd er við hana sjálfa og kallast Rúðuætt eða Rutaceae á fræðimálinu. Ættin greinist í nokkrar undirættir sem dreifast um hin heittempruðu gróðurbelti jarðar. Ein undirættin er Appelsínuættin, „Aurantioideae“, sem leggur okkur til appelsínur, sítrónur og aðra sítrusávexti. Og þeir sem unna japanskri eða kínverskri matargerðarlist kannast eflaust við japanskan roðapipar og kínverskan sichuan-pipar og eflaust fleiri gerðir svipaðra austurasískra kryddtegunda af ættkvísl gulviðartrjánna, Zanthoxylum, sem líka eru einkar vinsæl hjá þeim sem dunda sér við að rækta dvergtré.

Í heimkynnum sínum við Miðjarðarhaf nær rúðan um 60 cm hæð og heldur sínum blágrænu blöðum á hálftrénuðum greinum árið um kring. Þar blómgast hún snemmsumars með grængulum, blómhlífarlausum blómum í gisnum skúfum snemma vors. Fræþroski verður þar nokkru áður en sumarbreyskjan fellur á af fullum þunga.

Sjálfsáin dafnar hún norður til Rínarhéraðanna og vestur til Englands en nær þar sjaldan eðlilegri hæð. Þar blómgast hún allt sumarið. Norðar en þetta getur rúðan haldið sér við sem einær jurt en oftast er henni sáð með sumarblómunum og forræktuð seinnipart vetrar. Hér á Íslandi dafnar rúða sem sumarblóm útivið en nær ekki að þroska fræ. En í frostlausum garðskála er hægt að halda henni sem pottaplöntu í mörg ár.

Ótrúlegt efnamagn í litlum kroppi

Af rúðu leggur afar sterka og sérkennilega lykt sem erfitt er að lýsa. Kannski er einna helst hægt að segja að lyktin minni á allt í senn trjátjöru, klóróform, kamfóru, vanillu og rósir. Sumum þykir lyktin góð en aðrir forðast hana. En það er einmitt þessi sterka lykt sem gefur ábendingu um að í rúðuna sé eitthvað spunnið. Og satt að segja finnast fáar plöntutegundir sem innihalda annan eins fjölda efnasambanda. Hátt á annað hundrað slíkra hafa fundist í ekki stærri jurt. Þarna eru terpenar, rokgjarnar olíur, sýrusambönd og alkaólíðar, sölt og sykrungar sem allt of langt mál væri að telja upp hér.

En sérstæðasta efnasambandið er rútín, sem er aðal varnarefni rúðunnar og ver hana gegn skordýrum, sóttkveikjum og sveppaárásum. Rútínið er semsagt allt í senn skordýraeitur, sótthreinsandi og sveppadrepandi. Og það gerir líka alla meðferð á rúðu varasama í og á mannlega líkama. Of sterkir skammtar geta valdið kvalafullum dauðdaga. Þess vegna er það ekki á almannafæri að vinna smyrsl og önnur preparöt úr rúðu til heimabrúks. En hómópatar og grasalæknar kunna á henni tökin, þannig að þeim má treysta. Og nokkur lyfjafyrirtæki verja starfskröftum og fjármagni í að rannsaka hinn flókna efnasjóð rúðunnar í von um að finna þar eftirsótt lyf.

Ein við öllu

Eiginlega var það fáum takmörkunum háð hverju rúðan átti að geta áorkað. Elstu heimildir um hana, notkun hennar og eiginleika er að finna assýrískum leirtöflum. Forngrísku höfundarnir Þeofrastos og Dioskorídes skrifa báðir um hana í grasabókum sínum.

Hið sama gerir Plíníus hinn eldri, sá sami og lýsti sem sjónarvottur Vesúvíusargosinu sem lagði borgina Pompei í rúst. Mengunin af því gosi varð honum sjálfum að aldurtila nokkrum dögum síðar.

Díoskorídes segir villta rúðu úr fjöllunum vera óhæfa til nokkurs brúks vegna þess hve mögnuð hún er. Hann telur ræktuðu rúðuna mun betri, einkum hafi hún vaxið í námunda við fíkjutré. Hann segir hana opna sár og hreinsa þau, hún sé vermandi og þvaglosandi. Hún hjálpi konum til að koma klæðaföllum af stað. Það getur skilist að hún gagnist þeim líka til að valda fósturlosi. Rúðan var nefnilega ein af þeim jurtum sem konur notuðu til að þeim leystist höfn við ótímabæra þungun. En við þá iðkun munaði oft mjóu á hinu hárfína einstigi milli lífs og dauða móðurinnar. Hinn virki skammtur þurfti nefnilega að vera stór. Oft fór illa.

Og Díoskorídes heldur áfram að telja. Vægt rúðuseyði, drukkið sem te, bætti meltinguna og dró saman meltingarveginn. Ediksblanda með rúðu, tekin í víni, virkaði sem mótefni gegn rangri lyfjagjöf. Væru blöðin étin með gráfíkjum gögnuðust þau sem vörn gegn öllum eiturbyrlunum. Svo gott var að hafa fyrirhyggju á og gera þetta áður en menn lögðu upp í vafasöm stefnumót. Eins var þetta fullkomin vörn gegn höggormsbitum. Svona telur hann upp endalaust og tínir til hvern kvillann á fætur öðrum sem rúðan gat bætt úr væri hún rétt fram reidd. Og alveg fram á síðustu öld voru remedíur úr rúðu staðalvara í apótekum. Og að mestu gerðar eftir forskriftum Díoskorídesar, þótt margir læknar og lyfjameistarar hafi komið fram og betrumbætt þær á þeim tvö þúsund árum sem liðin eru frá fráfalli hans.

Rúðan  ̶  skírlífisjurtin

Allt frá upphafi klausturgarðanna var rúðan mikil áherslujurt. Fyrir utan alla þá kvilla sem Díoskorídes og aðrir meistarar sögðu að hún gæti bætt, bættist við einn þáttur sem siðsamir kirkjufeður prísuðu sem himnasendingu og lofuðu guð fyrir. Með rúðunni var nefnilega hægt að slá á vandræðalegan óróa meðal munkanna. En oft vildi brenna við að líferni tengt tímgunarhvötinni og svölun hennar stefndi í óefni meðal þeirra, að mati kirkjufeðranna, svo að starfsandinn og bænahaldið í klaustrunum var ekki alveg eins bljúgt, einbeitt og flekklaust eins og til var ætlast.

Rúðan gat bætt úr þessu. Meðal efnasambanda hennar er nefnilega drjúgur slatti af svokölluðum fýtóestrógenum, sem eru ígildi þeirra estrógena eða kvenhormóna sem dýrategundir framleiða í skrokki sínum, einkum kvendýrin og þar með konur. Karldýr framleiða þessa hormóna líka og geta ekki án þeirra verið en karlhormónarnir, hin svokölluðu testósteron, halda þeim niðri. Í plöntum tengjast estrógenin þoli plantnanna til að takast á við erfiðar aðstæður, fyrir utan að ýta undir blómgun og fræþroska. Líklega tengjast þau líka úthaldi og átökum við álag af öllu tagi, bæði hjá plöntum og dýrum, konum og körlum.
Rúða hafði fyrr á öldum lengi verið notuð til að krydda vín, einkum ódýr vín og eftirhreytur sem alþýða manna hafði efni á að drekka. Rúðan kom í veg fyrir ofgerjun í borðvínunum þannig að þau geymdust betur með henni innanborðs. Í fyrstu héldu klaustrin sig við óblönduð eðalvín. En svo kom harðæri og þá þurfti að grípa til ódýrari, rúðublönduðu vínanna.

Þá brá svo við að munkarnir byrjuðu að finna á sér mun. Það sljákkaði í votu draumunum og upprisa holdsins varð þeim ekki jafn áþreifanleg og áður. Lífið varð friðsælla og bænir og störf einbeittari. Upp frá þessu var allt vín í klaustrum kryddað með rúðu. Ekki þurfti mikið af henni, svo bragðið var dauft og vandist vel. Í nágrannamálunum kallast rúðan vínrúða eða vínrúta vegna þessarar notkunar.

Við tilraunir hefur komið í ljós að sæðisfrumur heilbrigðs karlmanns lamast ef dauf upplausn af rúðuvatni er drukkin nokkru fyrir sáðlos. Og satt að segja getur verið erfitt að fullgera slíkar rannsóknir vegna risvandamála viðfanganna. Í tilraunadýrum dregur mjög úr sæðisfrumumyndun ef dýrin eru fóðruð á rúðublönduðu fóðri og rúðuhlutfallið þarf ekki að vera hátt, langt innan við eitt prósent. Langtímaneysla á rúðu veldur getuleysi hjá körlum. Af þessu má draga þá ályktun að daglegur skammtur af rúðublönduðu víni hafi verið meðvituð og markviss, en lítið áberandi, vönunaraðferð sem kirkjufeðurnir beittu munkana.

Kryddjurtin rúða í okkar görðum

En rúða er engu að síður enn notuð sem krydd í mat á mörgum svæðum heimsins, einkum á Balkanskaga, í Tyrklandi, Austurlöndum nær og norðanverðri Afríku. Einkum í sterkar sósur og baunarétti. Hér í Evrópu gefur rúðan keim í vinsæl vínföng eins og Underberg snafsinn og aðra „bittera” af líku tagi. Svo það er eins gott að fara varlega með þá, þótt þeir mýki sálina stundum, og ánetjast þeim ekki.

Bragðið af rúðu er afar beiskt en mildnar við eldun. Ekki má nota nema agnarögn af því til að krydda mat. Til að finna út rétta magnið þarf hver og einn að þreifa sig áfram með, en gæta þess bara að nota ekki meira en nemur einu laufblaði í hvert sinn. Það passar vel með öðrum kryddum og styrkir bragð þeirra án þess að vera yfirgnæfandi. Rúðan gefur góðan keim í eggjahrærur, pylsugerð, kæfu og sætsúrar grænmetisinnlagnir. Safi rúðunnar getur valdið útbrotum á húð, einkum í sólskini. Farið því varlega ef verið er að hanskast með hana.

Hundrað hesta setningarathöfn
Fréttir 12. júlí 2024

Hundrað hesta setningarathöfn

Setningarathöfn Landsmóts hestasmanna er alla jafna hátíðleg.

Til þess var leikurinn gerður
Fréttir 11. júlí 2024

Til þess var leikurinn gerður

Stjórn Búsældar hefur fyrir sitt leyti samþykkt söluna á Kjarnafæði Norðlenska t...

Skammur aðdragandi að sölunni
Fréttir 11. júlí 2024

Skammur aðdragandi að sölunni

Bræðurnir Eiður og Hreinn Gunnlaugssynir hafa sem áður segir samþykkt kauptilboð...

Kaup Skagfirðinga á Kjarnafæði Norðlenska
Fréttir 11. júlí 2024

Kaup Skagfirðinga á Kjarnafæði Norðlenska

Meginmarkmið kaupa Kaupfélags Skagfirðinga (KS) á Kjarnafæði Norðlenska (KN) er ...

Tilþrif á Landsmóti
Fréttir 11. júlí 2024

Tilþrif á Landsmóti

Enginn skortur var á glæsilegum tilþrifum stólpafáka sem komu fram í gæðingakepp...

Verður langstærsta kjötafurðastöð landsins
Fréttir 11. júlí 2024

Verður langstærsta kjötafurðastöð landsins

Kaupfélag Skagfirðinga (KS) hefur gert kauptilboð í allt hlutafé Kjarnafæðis Nor...

Ullarvika á Suðurlandi
Fréttir 10. júlí 2024

Ullarvika á Suðurlandi

Ullarvika á Suðurlandi verður haldin í þriðja sinn dagana 29. september til 5. o...

Mesta hamingjan í Skagafirði, á Snæfellsnesi og á Héraði
Fréttir 10. júlí 2024

Mesta hamingjan í Skagafirði, á Snæfellsnesi og á Héraði

Hamingja íbúa í Skagafirði, á Snæfellsnesi og á Héraði mælist mest á landinu í n...

Bænder
12. júlí 2024

Bænder

Skammur aðdragandi að sölunni
11. júlí 2024

Skammur aðdragandi að sölunni

Svín og korn
12. júlí 2024

Svín og korn

Magnað Landsmót 2024
12. júlí 2024

Magnað Landsmót 2024

Gerum okkur dagamun
12. júlí 2024

Gerum okkur dagamun