Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 7 ára.
Jurtir Karlamagnúsar – flóamyntan
Á faglegum nótum 24. október 2016

Jurtir Karlamagnúsar – flóamyntan

Höfundur: Hafsteinn Hafliðason

Flóamyntan, Mentha pulegium, var ein af þeim jurtum sem Karlamagnús vildi sjá í görðum sínum. Hún er eina myntan sem okkur finnst nú varasamt að nota sem krydd í matargerð. Gildi hennar fólst mest í því hversu mikilvæg hún var í baráttunni við óværu á fólki og fénaði.

Læknar notuðu hana líka til að vinna bug á ýmsum kvillum sem ásækja fólk. Og enn munu sumir grasalæknar brúka hana eitthvað í byrlanir sínar.

Í elstu heimildum grískra og rómverskra höfunda er flóamyntunnar getið og sænski grasafræðingurinn Carl von Linné notaði hið rómverska heiti hennar sem viðurnefni tegundarinnar þegar hann var að skilgreina og koma skikki á nafnakerfi sem allir gætu sameinast um þegar rætt væri eða ritað um verur lífríkisins.

Plöntunöfn aðlagast á langri leið

Viðurnefnið „pulegium“ er latneskt og gat líka átt við timían. Það er skylt latneska heitinu „pulex“ sem þýðir fló. Úr báðum tegundum var auðvelt að vinna efni sem gögnuðust gegn fló og lús.

Í plöntulista Karlamagnúsar í Capitulare de Villis stendur reyndar „puledium“ og nafnið tók breytingum gegn um anglo-normanska frönsku og varð „puliol“ og hafði fengið á sig myndina „polej“ þegar farið var að rækta flóamyntuna í þýskum og norrænum klausturgörðum. Það nafn stendur enn í hinum germönsku málum Norður-Evrópu.

Í ensku normananna á Bretlandi var bætt við að hún væri ekta og skrifað „puliol real“, sem svo breyttist í „pennyroyal“ um miðja sextándu öld. Því miður slysaðist góður þýðandi til að kalla hana „hagamyntu“ þegar evrópskri flóru­bók var snarað á íslensku fyrir nokkrum árum. Líklega var það í flaustri og án þess að huga að bakgrunninum. Og víst er um að flóamyntan þrífst illa úti um haga og grundir þegar til Norður-Evrópu kemur. Þar er hún fyrst og fremst garðjurt sem gengur illa að lifa veturna af norðan Eyrarsunds. Á Íslandi má rækta hana sem einæra sumarjurt sem sáð er árlega á vorin ellegar yfirvetra hana í frostlausu gróðurhúsi.

Uppruni og eðli

Uppruna flóamyntunnar er ekki auðvelt að staðsetja. Vegna ræktunar í nokkur þúsund ár hefur hún dreifst með fólksflutningum um stórt svæði sem nú spannar eiginlega allan heiminn. Hvarvetna þar sem vetur eru nokkurn veginn mildir þrífst hún vel. Jafnvel það vel að í mörgum löndum hefur hún verið sett á lista yfir ágengar plöntur.

Í eðli sínu er flóamyntan fjölær jurt. Hið náttúrulega kjörlendi hennar er í deiglendi, gjarna við tjarnarbakka eða meðfram lækjum. Kýs fremur leirkenndan jarðveg en þolir samt vel að jarðvegurinn þorni tímabundið um hásumarið. Blöðin eru fremur smágerð, nokkuð ílöng og sporbaugótt, heilrennd eða gistennt á jöðrunum. Oftast örlítið hærð á neðraborði. Blómin eru rauðfjólublá, mörg saman í nokkrum hvirfingum á uppréttum stönglum. Af henni leggur sérkennilega og megna myntulykt þegar hún er strokin. Þessi lykt stafar af efnasambandinu púlegóni sem er olíukenndur vessi sem veldur hinni dæmigerðu piparmyntulykt sem aðrar myntutegundir státa líka af. En alls ekki í sama máta og flóamyntan. Af henni er „piparmyntulyktin“ eiginlega óþolandi. Auk þess inniheldur flóamyntan urmul annarra efnasambanda sem vinna saman í varnarkerfi hennar.

Sterkt skordýraeitur

Það er efnið púlegón í flóamyntunni, og dregur nafn sitt af henni, sem veldur „piparmyntulyktinni“ og var lykillinn að vinsældum hennar og gerðu hana ómissandi í hinum eilífa bardaga gegn flóm og lúsum sem herjuðu á menn og mannabústaði. Þótt aðrar myntur og reyndar fleiri plöntutegundir, eins og t.d. rúða, innihaldi púlegón, þá er innihald þess í flóamyntunni margfalt meira.

Púlegón er sterkt skordýraeitur sem drepur við snertingu og áhrif þess vara í nokkuð langan tíma þar sem því hefur verið dreift. Púlegón leysist ekki upp í vatni en með eimingu er hægt að vinna það úr jurtinni og fá það sem olíu sem síðan má þynna út með vínanda eða volgu vatni.

Flóamyntuolía – Pulegone-oil eða bara Mint-oil á ensku – er enn framleidd og seld sem ilmkjarnaolía. Hún er mjög eitruð sé hún tekin inn óblönduð. Það er því ekki á allra færi að fara með hana og hana þarf að geyma þar sem óvitar geta ekki náð til hennar. Hún er líka oft seld sem „piparmyntuolía“ til að úða utan á hús eða á gróður til að verjast og fæla frá meindýr og óværu. Olían loðir lengi við og lyktin hefur fælimátt á margs konar kvikindi. En þrátt fyrir eitureiginleikana er hún engu að síður nokkuð notuð í sælgætisiðnaði til að fá fram sterkt piparmyntubragð. Piparmyntuolía sem almennt er seld sem bragðefni í verslunum er mildari og ekki eins hættuleg, þótt alltaf þurfi að hafa varann á.

Sem lúsameðal var plantan samt oftast lögð í volgt sápuvatn sem látið var standa nokkra hríð og síðan notað til þvotta á þeim hlutum líkamans sem lýs höfðu lagst á og eins til að bleyta með veggi, gólf og glufur þar sem flær og veggjalýs áttu sér fylgsni. Jurtin þurrkuð og mulin gerði líka sitt gagn á slíkum stöðum og eins þótti gott að hafa þurrkaða flóamyntu í fatakistum og línskápum til að verjast möl.

Fornar heimildir

Elstu heimildir um flóamyntu sem ég hef undir höndum eru úr Materia Media hins gríska Díoskoríðesar sem uppi var á árunum um 40–90 fyrir okkar tímatal. Hann kallar flóamyntuna GLECHON en það nafn hefur færst yfir á aðra, en náskylda tegund, Glechoma hederacea sem oft sést hér sem pottaplanta og margir kalla „malarann og konuna hans“. Sú er ræktuð sem kerplanta utanhúss á sumrin en hengiplanta innanhúss á veturna og þykir skemmtileg vegna smáplantnanna sem vaxa á „úthlaupurum“ frá henni.

Díoskoríðes segir flóamyntuna ylja og bæta meltinguna sé hún notuð í mat. Seyði af henni komi tíðum kvenna af stað og hraði losun fylgjunnar eftir barnsburð. Það gagnist einnig til að losa konur við óviljandi þungun. Sé salti og hunangi bætt í seyðið losi það lungnaslím og lagi svima. Til að ráða bót á ógleði og magakveisu ráðlagði hann að drekka upphitað súrt vín blandað með flóamyntu. Þetta lagar líka ef þunglyndi þjakar.

Vín blandað með flóamyntu er til bjargar ef menn hafa verið bitnir af snákum. Og ef að edik blandað flóamyntu er borið í nasir fólks sem fallið hefur í yfirlið kemur það því strax á réttan kjöl aftur. Við vindverkjum, harðlífi og þöndum kvið segir Díoskoríðes gott að strjúka magann með klút vættum í flóamyntuseyði. Sama ráð dugar líka við kláða á hörundinu.

Rómverjinn Pliníus eldri (23–79 ekr) segir í náttúrusögu sinni að flóamyntan sé betri til að hreinsa loftið í híbýlum manna heldur en kippur af rósablómum. Og að bera flóamyntukrans um höfuðið hindraði höfuðverk og skerpti hugsunina. Ilmurinn af flóamyntunni, einn og sér, nægði til að hindra ásókn kvefs eða hitasóttar og drægi mjög úr þorsta. Nokkrir kvistir af flóamyntunni sem menn kæmu fyrir á bak við eyrun gerðu ferðir í sólarbreyskju léttari og hindruðu að menn fengju sólsting. Deig blandað flóamyntu og ediki lagt sem bakstur á aum svæði linar verki. Að setja flóamyntu í óheilnæmt drykkjarvatn gerði það aftur drykkjarhæft og að skola munninn með flóamyntuvatni slægi á hæsi og hósta. Annars er flest það sem Pliníus segir um flóamyntuna samhljóma við rit Díoskoríðesar. En hann bætir við að flóamyntan gagnist líka við niðurfallssýki, sporðdrekabitum og til að drepa flær.

Launhelgar og töfradrykkir

Flóamyntan var líka mikilvæg fyrir ýmiss konar launhelgar og töfradrykki. Hún mun hafa verið í uppskriftinni að drykknum kykeon sem stjórnendur Elevsísku launhelganna létu nýliða sína bergja á við vígsluhátíðir í „Hofi gyðjanna beggja“ í Elevsis (nú bærinn Eluisis rétt norðan við Aþenu). Þessar hátíðir voru launhelgar miklar í bland við sjónleik sem lýsti örlögum þeirra mæðgna, gyðjanna Demeter og Persefone. Enginn mátti vitna um hvað þar fór fram, en menn hafa getið sér til um að þarna hafi verið farið yfir líkurnar á ódauðleika sálarinnar og lífinu eftir dauðann. Eiginlega eins konar allsherjar miðilstrans þar sem ýmissa efna var neytt til að koma þátttakendum í annarlegt ástand svo að þeir væru móttækilegri fyrir skilaboðum úr handanheiminum.

Flóamyntan var einnig notuð í svokallaða ástardrykki sem áttu að greiða fyrir samgangi kynjanna. En ekki á neinn þann rómantíska hátt sem lesa má um í mansöngvum og riddarakvæðum. Heldur var þetta nokkurs konar staðalmjöður sem boðið var upp á í „sér­stökum húsum“ rómverskra bæja. Flóamyntan var þar fulltrúi fyrir sköp kvenna og átti að tryggja að viðskiptunum fylgdu ekki óæskileg eftirköst. Og ekki nóg með það, heldur var hún þar að auki ávísun á langdregnari unað og frammistöðu viðskiptavinanna.

Klausturjurt

Flóamyntan var ein af klausturjurtunum. Bæði hjá munkum og nunnum. Fyrst og fremst sem vörn gegn fló og lús en ekki síður vegna þeirra verðleika sem fornu grasafræðingarnir höfðu lýst. Hin heilaga Hildegard frá Bingen, sem ég hef áður vitnað til í þessum pistlum, skrifaði eitthvað á þessa leið um flóamyntuna: „Sá sem hefur þá veilu í heila að honum liggi við sturlun skal taka flóamyntu og sjóða í víni. Svo taki hann vínið og beri í höfuð sér meðan það enn er heitt. Yfir þetta vefji hann svo klút til að heilinn haldist heitur og kæfi geggjun hans.“

Varnaðarorð

Allar ilmkjarnaolíur eru í eðli sínu vörn plantnanna gegn narti skordýra eða annarra skepna og oftast hættulega eitraðar eins og þær koma samþjappaðar á markaðinn. Myntuolía ekki síst. Ein teskeið af henni óblandaðri getur hæglega drepið mann, hross eða hund. Margar heimildir eru til um dapurlegan dauða fólks sem hefur glapist til að taka hana inn óblandaða. Tveir til þrír dropar út í glas af vatni gera varla neinum illt og fara skal nákvæmlega eftir uppgefnu magni þegar hún er gefin upp sem bragðbætir í matargerð. Hið sama gildir sé hún borin á hörund sem vörn gegn mýbiti. Hana verður ávallt að blanda dauft í meinlausar olíur, t.d. ólífuolíu eða kókosolíu ef ætlunin er að bera hana á hörundið. Einn til tveir dropar í matskeið af burðarolíunni nægir oftast til tryggja árangurinn.

Gýgjarhólskot ræktunarbú ársins
Fréttir 16. apríl 2024

Gýgjarhólskot ræktunarbú ársins

Á fagfundi sauðfjárræktarinnar sem haldinn var á dögunum var Gýgjarhólskot í Bis...

Verulegur samdráttur í innflutningi á áburði
Fréttir 16. apríl 2024

Verulegur samdráttur í innflutningi á áburði

Matvælastofnun hefur birt leiðrétta skýrslu yfir áburðareftirlit síðasta árs.

Ísteka í yfirburðastöðu
Fréttir 15. apríl 2024

Ísteka í yfirburðastöðu

Í nýrri ályktun Samkeppniseftirlitsins kemur fram að Ísteka beiti sterkri stöðu ...

Hverfandi líkur á riðusmiti árið 2032
Fréttir 15. apríl 2024

Hverfandi líkur á riðusmiti árið 2032

Í nýrri landsáætlun verður stefnt að því að hverfandi líkur verði að upp komi ri...

Hrútaverðlaun fyrir Gullmola og Blossa
Fréttir 15. apríl 2024

Hrútaverðlaun fyrir Gullmola og Blossa

Á fagfundi sauðfjárræktarinnar sem haldinn var í Ásgarði Landbúnaðarháskóla Ísla...

Sláturhús brann til grunna
Fréttir 12. apríl 2024

Sláturhús brann til grunna

Sláturhúsið í Seglbúðum í Landbroti brann til grunna þann 1. apríl.

Ekki farið að lögum um útivist nautgripa
Fréttir 12. apríl 2024

Ekki farið að lögum um útivist nautgripa

Matvælastofnun lagði stjórnvaldssektir á þrjú kúabú á Vesturlandi á dögunum vegn...

Dregur úr kaupvilja
Fréttir 12. apríl 2024

Dregur úr kaupvilja

Niðurstöður tilboðsmarkaðar fyrir greiðslumark mjólkur í byrjun apríl sýna að ja...