Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 6 ára.
Ítalir komnir með IVECO metangas-trukk sem mengar 95% minna en dísilbíll
Fréttir 31. maí 2018

Ítalir komnir með IVECO metangas-trukk sem mengar 95% minna en dísilbíll

Höfundur: Hörður Kristjánsson
Í nýrri umhverfisvænni fram­leiðslu­stefnu ítalska bíla­framleiðandans IVECO er auk rafbíla lögð áhersla á metangasknúnar bifreiðar og dísilbíla sem miða við Evrópustaðal í mengunarmálum.
 
Athyglisvert er að skoða hvað ítölsku vélahönnuðirnir eru að gera til að draga úr loftmengun frá dísilbílum eins og IVECO Daily dísil Euro 6 RDE2 ready (staðall sem á að ganga í gildi 2020). 
 
Þetta er sögð vera þróaðasta dísilvélin á markaðnum í dag með tilliti til losunar CO2 og NOx sem ekki notar aukaefnið Add blue í pústkerfið til að draga úr mengun. Þá eyðir hún um 7% minna eldsneyti en forverinn. Hjá IVECO hafa stór stökk verið tekin en Ítalir hafa áratugum saman staðið framarlega í hönnun dísilvéla. 
 
Byltingarkenndur umhverfisvænn og hljóðlátur Stralis gas-trukkur
 
Metangasknúni trukkurinn IVECO Stralis-NP-460 er síðan flaggskipið í þeirri viðleitni fyrirtækisins að draga úr mengun stórra atvinnubíla. Samkvæmt vefsíðu fyrirtækisins er þegar búið að panta yfir 1.600 slíka trukka. 
 
Kolefnisfótsporið af notkun bílsins er 95% minna en nýjustu sambærilegra dísilbíla samkvæmt tölum framleiðanda. IVECO hefur yfir 20 ára reynslu af framleiðslu gasknúinna bifreiða og þjónustar fyrirtækið nú um 22 þúsund gasknúin ökutæki í Evrópu. 
 
Stralis-NP-460  er með 460 hestafla Pure Power, Cursor 13 NP 12,9 lítra vél, sem brennir gasi en er í raun byggð á dísilvél. Hann notar eingöngu 100% náttúrulegt gas (IVECO Cursor 13 NP single-fuel engine) og er ekki háður því að vera gangsettur á öðru eldsneyti eins og þekkt er með aðra stóra bíla sem hannaðir hafa verið fyrir gasnotkun. 
 
Vélin í Stralis-NP-460 er sögð eyða 15% minna eldsneyti en vél í sams konar dísiltrukk og er 9% ódýrari í rekstri. Þá er hann líka merkilegur fyrir þær sakir að hann kemst heila 1.600 kílómetra á einni tankfyllingu, en til viðmiðunar þá er þjóðvegur 1, hringvegurinn um hluta Íslands, 1.337 km.
 
Langdrægnin skýrist af því að hann notar fljótandi gas (LNG) sem geymt er á tveim kútum. Hægt er að velja um þrjár tankstærðir. Fljótandi gasið er mun þjappaðra og orkuríkara á rúmmálseiningu en þekkist í þeim metangasbílum sem nú aka um á Íslandi. Gallinn við þetta er að sem stendur er dreifikerfi ekki til staðar hér á landi og víðast ekki erlendis heldur. 
 
Tregða í innviðauppbyggingu fyrir gas
 
Reyndar er stórfurðulegt hvað menn hafa verið seinir til að byggja upp dreifikerfi fyrir gasátöppun hér á landi miðað við umhverfisávinninginn sem hægt er að ná út úr aukinni notkun gasdrifinna ökutækja. Þá er hægt að framleiða metangas mjög víða, bæði úr ruslahaugum og úr skít og lífmassa í sveitum eins og grasi, þara, korni og öðrum gróðri.    
 
Vélin í Stralis-NP-460 dregur úr sótagnaútblæstri um 99% miðað við dísilbíl sem stenst mengunarkröfur Euro 6 og notar lífdísil. Þá skilar hann 60% minna af nituroxíði NOx út í andrúmsloftið.
 
Koltvísýringsmengun CO2 er líka sáralítil, eða 95% minni en í dísilbílnum. Þá er bíllinn afar hljóðlátur og heyrist lítið hærra í honum en þegar fólk talar saman og er hljóðstyrkurinn undir álagi aðeins um 71dB.
Trukkurinn er með 12 gíra Hi-Tronix sjálfskiptingu með fjórum bakkgírum. Hún er afar mjúk, með 99,7% skilvirkni og býður líka upp á að hægt sé að rugga bílnum, t.d. úr festu (rocking function). Skiptingin kemur með vökvastýrðri viðnámsbremsu (retarder) og „hill-holder“.
 
Varð til við samruna
 
IVECO varð til 1. janúar 1975 við samruna Fiat Veicoli Industriali, OM (Brescia á Italíu), Lancia Veicoli Speciali á Ítalíu, Unic í Frakklandi og Magirus-Deutz  í Þýskalandi. Í dag er IVEVO undir stjórn CNH Industrial sem skráð er í Hollandi en er í eigu fjárfestingafélagsins Exor sem er í eigu Agnelli fjölskyldunnar, en Giovanni Agnelli var einn af stofnendum Piedmont árið 1899 sem síðar varð að FIAT motor company. Undir þessum hatti eru svo m.a. líka Alfa Romeo og Ferrari. Einnig Case IH og New Holland dráttarvélarnar. 
 
Höfundar nútíma common-rail kerfisins
 
Úr smiðju Fiat samsteypunnar er upprunnin nútíma „common-rail“ eldsneytiskerfið með beinni háþrýstri innspýtingu fyrir dísilvélar. Þetta kerfi var hannað upp úr 1990 í samstarfi Magneti Marelli, Centro Ricerche Fiat og Elasis. Fyrsti fólksbíllinn sem var með common-rail kerfi var Alfa Romeo 156 2.4 af árgerð 1997. Síðar sama ár kom Mercedes-Benz W202 á markað með sams konar kerfi. 
 
FIAT seldi framleiðsluleyfið af þessu eldsneytiskerfi til þýska fyrirtækisins Robert Bosch GmbH sem lagði lokahönd á hönnunina til fjöldaframleiðslu. Var salan talin mikið klúður fyrir FIAT sem varð þar af gríðarlegu viðskiptatækifæri. Hafa nær allir dísilvélaframleiðendur í heimi nýtt sér slík kerfi. 
 
Upphaflega hugmyndin að common-rail eldsneytiskerfi er þó enn eldri og frumgerð af common rail kerfi var smíðuð af Svisslendingnum Robert Huber á sjöunda áratug síðustu aldar. Fyrsta nothæfa common-rail kerfið af svipuðum toga var svo hannað í Japan af dr. Shohei Itoh og Masahiko Miyaki hjá Denso Corporation um miðjan tíunda áratuginn. Voru vélar með þeirra ECD-U2 common-rail  búnaði settar í Hino Ranger vörubíla sem seldir voru á almennum markaði árið 1995. 
 
Mikill umhverfisávinningur af brennslu á metangasi
 
Enn athyglisverðara er þróun IVECO á vélum sem brenna metangasi. Við bruna á metangasi losnar um 95% minna af CO2 heldur en við bruna á dísilolíu.
 
Það er mikið til vinnandi og í raun mun meiri ávinningur af því að nota gas en jafnvel rafmagn til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Ástæðan er einföld. Metangas er 20 sinnum skaðlegri sem gróðurhúsalofttegund en koltvísýringur CO2. Það er því mjög umhverfisvæn aðgerð að brenna gasið í stað þess að hleypa því óheftu út í andrúmsloftið, eins og gerist í miklum mæli á hverri einustu sekúndu.
 
Metangas verður til í náttúrunni við rotnun m.a. jurtaleifa og bæði menn og jórturdýr losa frá sér mikið af metangasi. Með því að vinna metangas úr kúamykju og nytjajurtum og nýta það síðan til að knýja bifreiðar og ljósavélar er verið að draga stórlega úr losun gróðurhúsalofttegunda. 
 
Samkvæmt tölum frá Sorpu er framleiðsla á metani hjá þeim ígildi 2000 metanbíla á markaðnum. Án mikilla breytinga gæti Sorpa aukið magn metans upp í ígildi 4000 fólksbíla.
 
Eftir tvö ár mun verða tekin í gagnið gas- og jarðgerðastöð, mun magn metans aukast í ígildi 8000 fólksbíla. Í undirbúningi er  framleiðslan á fljótandi gasi (LNG) og er hluti af búnaðinum kominn. Stutt mun vera í að farið verði að setja upp slíka stöð hér á landi, en engar tímasetningar hafa þó verið gefnar út. 

Skylt efni: Iveco | metan

Hvað hefur áhrif á líðan bænda?
Fréttir 6. desember 2024

Hvað hefur áhrif á líðan bænda?

Valgerður Friðriksdóttir stendur fyrir rafrænni könnun þar sem hún skoðar hefðir...

Lök kornuppskera á landinu
Fréttir 6. desember 2024

Lök kornuppskera á landinu

Samkvæmt bráðabirgðatölum bendir allt til að uppskera af þurru korni sé umtalsve...

Erlend kúakyn myndu skila mun meiri framlegð
Fréttir 5. desember 2024

Erlend kúakyn myndu skila mun meiri framlegð

Ný skýrsla Landbúnaðarháskóla Íslands, þar sem fjögur erlend kúakyn voru borin s...

Skrásetja sögu brautryðjenda
Fréttir 5. desember 2024

Skrásetja sögu brautryðjenda

Sögur brautryðjenda í garðyrkju varpa ljósi á þá miklu þróun sem hefur átt sér s...

Friðheimar kaupa Jarðarberjaland
Fréttir 5. desember 2024

Friðheimar kaupa Jarðarberjaland

Eigendur Friðheima, Knútur Rafn Ármann og Helena Hermundardóttir, munu taka við ...

Áfrýjar dómi
Fréttir 5. desember 2024

Áfrýjar dómi

Undanþágur kjötafurðastöðva frá samkeppnislögum féllu úr gildi með dómi Héraðsdó...

Fuglaflensa á íslensku búi
Fréttir 5. desember 2024

Fuglaflensa á íslensku búi

Á þriðjudaginn greindist fuglaflensa af gerðinni H5N5 á kalkúnabúi Reykjabúsins ...

Mismunur bændum í óhag
Fréttir 5. desember 2024

Mismunur bændum í óhag

Í dag kostar 306 krónur að framleiða lítra af mjólk samkvæmt nýsamþykktum verðla...