Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 9 ára.
Íslensku kúalitirnir eru mikil verðmæti
Á faglegum nótum 6. janúar 2015

Íslensku kúalitirnir eru mikil verðmæti

Höfundur: Atli Vigfússon

Kýrnar eru þau húsdýr sem Íslendingar hafa lengi og vel lifað á, enda hefur þeim verið ætlað fóður fremur en öðrum skepnum frá alda öðli. Sjaldan er getið um kúafelli nema í móðuharðindunum og kýrnar hafa þolað súrt og sætt með íbúum landsins í meira en þúsund ár.

Hver meðalnyt kúa hefur verið á fyrstu öldum Íslandsbyggðar er ekki vitað með vissu, en trauðla hefur hún verið yfir 1000 lítrar. Búalög frá 16. öld segja að það sé kölluð leigufær kýr sem kemst til 6 marka mjólkur, þá hún sé best, eður mjólki hún 5 merkur á sumri jöfnum höndum.

Nythæð kúnna var lengi vel nokkuð misjöfn áður en ræktunarstarfið hófst fyrir alvöru. Séra Björn Halldórsson ætlaði meðalkú að mjólka 2008 potta á ári, en Skúli landfógeti lét þær mjólka 1672 potta. Kýr Ólafs stiftamtmanns mjólkuðu að meðaltali 1300 potta. Meðaltal þessara bestu búmanna 18. aldarinnar var um 1660 pottar og þætti það heldur lítið nú á dögum.
Eftir að augu manna opnuðust fyrir gildi mjólkurinnar í baráttunni við útmánaðahungrið, skildist þeim að bjargráðið væri vonlaust nema til kæmi bætt meðferð og kynbætur sem ekki voru teljandi fyrr en á 19. öld.

Árið 1902 réðst Guðjón Guðmundsson til starfa hjá Búnaðarfélagi Íslands sem búfjárræktarráðunautur og upp úr því var frumvarp til laga um nautgriparæktarfélög birt í Búnaðarritinu. Guðjón talaði mikið um byggingu gripa, fóðrun, húsakynni, mjaltir og uppeldi kálfa. Taldi hann íslensku kýrnar meira sveigðar til mjólkur en holda og vann að því að koma á skýrsluhaldi. Árið eftir að hann byrjaði var talið að meðaltal kúa væri um 2339 kg af mjólk og voru það fyrstu opinberu kúaskýrslurnar sem gáfu það til kynna.

Margbreytileiki í litum

Árið 1928 tók Páll Zóphoníasson til starfa hjá Búnaðarfélagi Íslands og hvatti hann bændur til þess að bæta búfénaðinn auk þess sem hann skrifaði mjög fræðilegar greinar um búfjárrækt. Páll skrifaði mikið um íslensku kýrnar í Búnaðarritið þar sem hann talaði m.a. um liti. Árið 1948 skrifaði hann grein og sagði að allir kúalitirnir gætu verið með mismunandi blæbrigðum, en athyglisvert væri að í byrjun aldarinnar hefðu ekki verið þrjár kýr eða fleiri með sama litinn í íslenskum fjósum. Venjan hefði verið sú að þær væru ólíkar á litinn. Hins vegar var þetta orðið allt öðruvísi 50 árum síðar þegar allt upp í tíu kýr eins litar fundust á bæjunum, enda hafði kúm þá fjölgað mikið. 

Páll talaði um litasamsteypur og oft væru þá hvítir flekkir á kúnum. Skjöldótti liturinn hefði ákveðin heiti eftir því hvar bletturinn væri. Þegar hvítu flekkirnir væru á höfði kýrinnar þá væri hún kölluð, baugótt, bíldótt, blesótt, hjálmótt, húfótt, kinnótt, krossótt, laufótt, mánótt og stjörnótt. Oft var þá gefið nafn eftir litunum.

Væru hvítu flekkirnir á skrokknum sjálfum þá var talað um dílóttar, dröfnóttar, flekkóttar, hryggjóttar, huppóttar, kápóttar, síðóttar og skjöldóttar kýr eftir því hvernig hvíti liturinn dreifðist um kroppinn.

Kýr með hvítan haladúsk kölluðust oft skottur eða týrur og var nafnið dregið af litnum. Hefðu kýrnar hvíta fætur eða hluta af þeim voru þær sagðar sokkóttar eða leistóttar.

Páll gerði grein fyrir því á sínum fyrstu 20 starfsárum hvernig kúalitirnir breyttust og sagði að rauðum og rauðskjöldóttum kúm fjölgaði á kostnað svartra og svartskjöldóttra kúa. Þá fjölgaði kolóttum kúm, en kúm í gráa litarflokknum tók að fækka.

Árið 2011 er tíðni grunnlita samkv. sumarrannsókn þessi:

Svart    8.9 %
Rautt  42.8 %
Kolótt 16.3 %
Bröndótt 28.8 %
Sægrátt   1.4 %
Grátt           1.8 %
Heimild: BS-ritgerð Söru Maríu Davíðsd.  Landb.háskóla Íslands  2012.


Eins og sjá má eru gráu litirnir neðarlega á blaði og því þarf að huga að þeim sérstaklega. Von er til þess að úr rætist, en nokkur grá og sægrá naut hafa verið inni í ræktunarstarfinu undanfarið og eru dætur þeirra að koma inn sem mjólkurkýr. Einn þeirra á nú þegar 90 dætur sem búið er að dæma og eru þó nokkrar þeirra gráar.

Það er gríðarlegur breytileiki í gráa litnum, en nauðsynlegt er að greina á milli gráa og sægráa litarins. Erfðafræðilega eru þessir litir alls óskyldir. Sægráa litinn er að finna víða sem dulinn lit í stofninum og getur hann því dúkkað upp ákaflega víða. Grái liturinn erfist mun þrengra, en öðru hvoru koma fram svört naut sem gefa grátt.

Litfagrir kúahópar eru prýði í landslaginu

Gríðarlegur árangur hefur náðst á síðustu áratugum hvað varðar framleiðslugetu íslensku kúnna og þær geta mjólkað ótrúlega mikið miðað við líkamsþyngd. Auk þess að mjólka mikið þá hefur mjólk þeirra sérstaka próteinsamsetningu sem er til þess að mjólkin hentar mjög vel til ostagerðar. Þá er lítið af óæskilegum betakaseinum í mjólk íslensku kúnna sé miðað við rauðu norrænu kúakynin og eykur það e.t.v. á hollustuna.

Þó svo að litir hafi ekki verið yfirlýst markmið þá eru margir sem hafa áhuga á litunum, því það er alltaf spennandi að vita hvernig kálfurinn sem er að fæðast er á litinn. Fjölbreytileikinn í litunum er skemmtileg viðbót við það sem er að gerast í fjósunum og alltaf er gaman að horfa á kúalitina á túnunum þegar keyrt er um sveitir landsins að sumarlagi, enda eru ferðamenn áfjáðir í að mynda fallega kúahópa.

Það er ljóst að ekkert kúakyn í Evrópu býr yfir jafn miklum fjölbreytileika hvað liti varðar sem íslenska kúakynið. Fyrir það eitt er kynið sérstakt og kúalitirnir eru mikið verðmæti sem hefur mikið gildi fyrir búgreinina.

Skylt efni: Kýr | búfé.

Fyrsti umplöntunarróbóti landsins
Fréttir 19. apríl 2024

Fyrsti umplöntunarróbóti landsins

Í maí í fyrra var settur upp umplöntunarróbóti á gróðrarstöðinni Sólskógum í Kja...

Ólöglegur frágangur á dýrahræjum
Fréttir 19. apríl 2024

Ólöglegur frágangur á dýrahræjum

Opinn gámur, yfirfullur af dýrahræjum, stóð á dögunum á steyptu bílastæði við in...

Verslunarrekstur í dreifbýli er samfélagsverkefni
Fréttir 18. apríl 2024

Verslunarrekstur í dreifbýli er samfélagsverkefni

Vegamót á Bíldudal er matvöruverslun og veitingastaður. Gísli Ægir Ágústsson, ve...

„Allt of fáar messur“
Fréttir 18. apríl 2024

„Allt of fáar messur“

Tryggvi Sveinn Eyjólfsson, sem er á sautjánda aldursári, hefur vakið athygli fyr...

Íslenskar sængur um allan heim
Fréttir 18. apríl 2024

Íslenskar sængur um allan heim

Íslenskur dúnn ehf. selur æðardúnsængur beint til viðskiptavina um heim allan. Þ...

Vörðust ásælni ríkisins í jarðareign
Fréttir 17. apríl 2024

Vörðust ásælni ríkisins í jarðareign

Kristín Lárusdóttir og Guðbrandur Magnússon, bændur að Syðri- Fljótum í Meðallan...

Breyttar reglur um flutning líflamba
Fréttir 17. apríl 2024

Breyttar reglur um flutning líflamba

Verklagsreglur hafa verið endurskoðaðar um flutning á lömbum með verndandi eða m...

Gýgjarhólskot ræktunarbú ársins
Fréttir 16. apríl 2024

Gýgjarhólskot ræktunarbú ársins

Á fagfundi sauðfjárræktarinnar sem haldinn var á dögunum var Gýgjarhólskot í Bis...