Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 9 ára.
Huðnan er 50% blendingur og kiðið 75%.
Huðnan er 50% blendingur og kiðið 75%.
Fréttir 27. október 2014

Íslenskar geitur í útrás

Höfundur: Ólafur R. Dýrmundsson

Íslenska geitin er eitt hinna gömlu og verðmætu landnámskynja. Þótt þeim hafi fjölgað verulega síðustu áratugina, eða úr 300 í 900 á 30 árum, eru þær enn í útrýmingarhættu samkvæmt alþjóðlegum viðmiðum.


Íslenskar geitur hafa aðeins einu sinni verið fluttar út á fæti, til Skotlands 1986, en nú er verið að byggja upp stofn íslensks geitfjár í Bandaríkjunum með flutningi sæðis úr íslenskum höfrum.

Skoska kasmírgeitin

Skömmu eftir að ég tók að mér málefni geitfjárræktar hjá Búnaðarfélagi Íslands árið 1985, kom ég nokkuð að undirbúningi útflutnings sex geita úr hjörð Rannsóknastofnunar landbúnaðarins í Þormóðsdal.

Greindi ég frá þeim útflutningi í starfsskýrslu minni í Búnaðarriti, 100. árg., bls. 74–75, 1987 og einnig í greininni „Íslenskt sauðfé og geitfé á erlendri grund“ í Frey, 86. árg., 13.–14. tbl., bls. 528–531, 1990.

Rannsóknir í Edinborg staðfestu þær niðurstöður dr. Stefáns Aðalsteinssonar að íslenska geitin hafi mjög fínt þel með „kasmír“-eiginleika og þar ytra var ræktað upp nýtt geitfjárkyn, the Scottish Cashmere Goat, þar sem íslenska kynið var eitt fjögurra kynja sem komu við sögu.

Framlag íslensku geitarinnar var fyrst og fremst fínleiki þelsins og er þetta gott dæmi um nýtingu tiltekins erfðaeiginleika á erlendri grundu þótt hann hafi ekki öðlast hagnýtt gildi í heimalandinu. Því skiptir miklu máli að varðveita allar erfðaauðlindir, ekki síst í kynjum sem eru í útrýmingarhættu.

Nánari upplýsingar um „kasmír“-ræktunina er að finna í grein minni „The Iceland goat: past and present“ í vísindaritinu Animal Genetic Resources Information, 36. hefti, bls. 53–59, 2005.

Listakonan Anna María Lind Geirsdóttir hefur sýnt söfnun þels og nýtingu þess mikinn áhuga um árabil og hefur, það ég best veit, kynnt sér öðrum betur stöðu skosku kasmírgeitarinnar á Bretlandseyjum.

Nýr stofn byggður upp í Bandaríkjunum

Þá er komið að öðru stigi útflutnings erfðaefnis íslenska geitfjárkynsins; til Maine í Bandaríkjunum sem hófst haustið 2011 eftir töluverðan aðdraganda. Hann var þannig að á árinu 2008 höfðu samband við mig hjónin JoAnn og Wayne Myers frá Maine í Bandaríkjunum sem þá voru farin að reka ræktunar- og sýnisbú með sjaldgæfum búfjárkynjum af ýmsu tagi. Áður höfðu þau starfað við heilbrigðisþjónustu í Alaska og víðar. Svo sem fram kemur í starfsskýrslu minni í ritinu Til Búnaðarþings 2010, bls. 65–66, skipulagði ég fyrir þau ferð til landsins í lok febrúar 2009, átti fyrst fund með þeim í Bændahöllinni, og kom þeim síðan í samband við helstu aðila sem gætu komið við sögu, yrði af útflutningi.

Tvennt virtist helst koma til greina, annars vegar að flytja út lífdýr líkt og gert var 1986, hins vegar að flytja út hafrasæði og sæða huðnur á búi þeirra hjóna. Kostnaður við söfnun og flutning fósturvísa var talinn allt of hár.

Þar sem ekki fékkst leyfi til innflutnings geita á fæti lögðu þau hjón áherslu á djúpfryst sæði. Eins og meðfylgjandi myndir gefa til kynna er ræktunin komin vel af stað og eru huðnur með 75% íslenskt blóð furðu líkar hreinræktuðum íslenskum geitum.

Allt frá 2008 höfum við JoAnn skipst á tölvupóstum og hér þýði ég og endursegi það helsta sem hefur verið að gerast og hvernig staðan er um þessar mundir.

„Við viljum stuðla að verndun hinnar fallegu, íslensku geitar“

Þannig kemst JoAnn að orði nú í haust en fram kemur að þau hjón hafi stofnað Beau Chemin Preservation Farm í Maine árið1998 og nú séu þau með gripi í ræktun og verndun af 10 þekktum búfjárkynjum í útrýmingarhættu. Þeirra á meðal er hið sérstæða Soay stuttrófufé sem er af sama stofni og íslenska féð (með stuttan dindil) og er gjarnan kennt við eyjuna St. Kilda við Skotland. Auk þess að rækta þessi búfjárkyn er gestum veitt fræðsla um þau og verndun gamalla kynja almennt sem mörg hver eru því miður í útrýmingarhættu.

Hjónin hafa sérstakan áhuga á „kasmír“-eiginleikum íslensku geitarinnar en engar geitur í útrýmingarhættu hafa verið til í Bandaríkjunum með þá eiginleika. JoAnn minnist með þakklæti þess fólks sem með einum eða öðrum hætti kom að útflutningsmálinu á sínum tíma og ég hafði komið henni í samband við. Ber þar helst að nefna Þorstein Ólafsson dýralækni og Halldór Runólfsson, fv. yfirdýralækni, þá á Matvælastofnun, Kristbjörgu Eyvindsdóttur hrossaútflytjanda og Jóhönnu B. Þorvaldsdóttur, geitfjárbónda á Háafelli í Hvítársíðu. Síðar komu við sögu Guðmundur Jóhannesson hjá Sauðfjársæðingastöð Suðurlands vegna útflutnings sæðisins haustið 2011 og Birna Baldursdóttir hjá Erfðaauðlindasetrinu á Hvanneyri varðandi skyldleika geitanna o.fl.

Samtals voru send 100 strá með hafrasæði og voru nokkrar huðnur af Oberhasli geitfjárkyninu sæddar haustið 2011. Kyn þetta er af svissneskum uppruna en dr. Phillip Sponenberg, dýralæknir og sérfræðingur um verndun erfðaefnis í Bandaríkjunum, mælti með notkun þessa kyns þar sem það væri einna líkast íslenskum geitum af þeim geitfjárkynjum sem til eru í Bandaríkjunum.

Góðum áfanga náð

Nú eru þau komin með fimm 50% og fjórar 75% blendingshuðnur undan fimm íslenskum höfrum frá 2011-innflutningnum (sæðinu safnað 2010). Þau vonast til að geta heimsótt Ísland aftur bráðlega til að þiggja frekari ráð um framræktunina og kaupa sæði úr nýjum höfrum því að skyldleikarækt verður að forðast. Enn er nokkuð í land því að það þarf sjö kynslóðir til þess að ná fram 97% íslenskum geitum, sem næst okkar gamla, góða landnámskyni.

Nánari upplýsingar um verndunarstarf Myer-hjónanna má finna á heimasíðu þeirra, www.beaucheminpreservationfarm.com. Þess ber að geta að í Bandaríkjunum og víðar færist í vöxt að fólk fylgi sömu stefnu og Mayer-hjónin. Fólk sem af hugsjón tekur virkan þátt í alþjóðlegri baráttu gegn eyðingu erfðaefnis og fræðir almenning um gildi slíks verndunarstarfs.

Mugga bar þremur kvígum
Fréttir 26. júlí 2024

Mugga bar þremur kvígum

Kýrin Mugga 985 frá bænum Steindyrum í Svarfaðardal í Dalvíkurbyggð bar þríkelfi...

Innleiða kolefnisgjald á landbúnað í Danmörku
Fréttir 25. júlí 2024

Innleiða kolefnisgjald á landbúnað í Danmörku

Þann 24. júní náðist sögulegt samkomulag í Danmörku, á milli stjórnvalda og nokk...

Er endurheimt vistkerfa skilvirkari en skógrækt?
Fréttir 25. júlí 2024

Er endurheimt vistkerfa skilvirkari en skógrækt?

Því hefur verið varpað fram að þegar kemur að kolefnisbindingu ætti að leggja me...

Snikka til lög um flutningsjöfnuð
Fréttir 25. júlí 2024

Snikka til lög um flutningsjöfnuð

Áform eru uppi um breytingu á lögum um svæðisbundna flutningsjöfnun.

Stofnanir út á land
Fréttir 24. júlí 2024

Stofnanir út á land

Aðsetur nýrra stofnana umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytisins verður utan h...

Lundaveiðar leyfðar
Fréttir 24. júlí 2024

Lundaveiðar leyfðar

Umhverfis- og skipulagsráð Vestmannaeyja hefur samþykkt að heimila lundaveiði 27...

Óska eftir sýnum úr dauðum kálfum
Fréttir 23. júlí 2024

Óska eftir sýnum úr dauðum kálfum

Rannsóknamiðstöð landbúnaðarins, RML, rannsakar nú erfðaorsakir kálfadauða.

Upphreinsun skurða
Fréttir 23. júlí 2024

Upphreinsun skurða

Búnaðarfélag Austur-Landeyja hefur sent sveitarstjórn Rangárþings eystra erindi ...