Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 10 mánaða.
Baldur Helgi telur eðlilegt að líta til kúakyns í Noregi.
Baldur Helgi telur eðlilegt að líta til kúakyns í Noregi.
Mynd / Luseby in the Kvamsfjella Mountainss
Fréttir 28. janúar 2025

Íslenska kýrin standi stallsystrum langt að baki

Höfundur: Sigurður Már Harðarson

Í kjölfar útgáfu skýrslu Landbúnaðarháskóla Íslands, sem sýndi fram á möguleika til mikillar aukningar í framlegð í íslenskri mjólkurframleiðslu með því að flytja inn norrænt kúakyn, hefur færst þungi í þá umræðu enn á ný.

Baldur Helgi Benjamínsson

Baldur Helgi Benjamínsson, kúabóndi á Ytri-Tjörnum í Eyjafjarðarsveit og fyrrum framkvæmdastjóri Landssambands kúabænda, segir aðalrökin fyrir innleiðingu á norrænu kúakyni vera að íslenska kýrin standi stallsystrum sínum í nálægum löndum langt að baki í flestum eiginleikum, eins og nythæð, júgurheilbrigði, byggingu, mjöltum, skapi og frjósemi.

Getum sótt í öflugt norrænt ræktunarstarf

Í síðasta tölublaði var rætt við Egil Gautason, erfðafræðing og lektor við Landbúnaðarháskóla Íslands, sem taldi að fara þyrfti mjög varlega með allar hugmyndir í þá átt að taka inn nýtt kúakyn á Íslandi. Hallaðist hann í þá átt að nýta ætti frekar þá fjárfestingu sem farið hefði verið í með upptöku á erfðamengisúrvali og þá sérstöðu sem íslenska kúakynið hefði með langtíma einangrun.

Baldur segir hins vegar að Norðurlöndin hafi stundað feikilega öflugt ræktunarstarf, einkum gagnvart heilsufarsþáttum, í nærri hálfa öld og í það er mjög mikið að sækja sem við höfum enga möguleika á að gera hér. „Hér á landi þurfum við dýrar og vandaðar byggingar, laun eru há og vextir líka. Ef mjólkurframleiðslan á að eiga efnahagslegan grundvöll, vera samkeppnishæf við sívaxandi innflutning á mjólkurafurðum og bjóða bændum upp á viðunandi afkomu, þarf að auka framleiðni greinarinnar mjög mikið frá því sem nú er,“ segir Baldur.

Eðlilegast að líta til Noregs

Spurður um hvaða kúakyn honum þyki álitlegast, segir Baldur að fyrsta kastið telji hann eðlilegt að líta til Noregs. „Hjá ræktunarfélaginu þar standa okkur allar dyr opnar og hafa gert lengi. Þaðan er líka heimilt að flytja inn erfðaefni í holdanautgripi. Það hefur verið unnið ítarlegt áhættumat gagnvart því og farvegurinn er tilbúinn.“

Varðandi galla þess að flytja inn nýtt kúakyn segir Baldur að innflutningur á nýju kúakyni sé stór pólitísk ákvörðun, íslenska kúakynið hafi verið hér frá landnámi og sé mjög lítið blandað – og í því felist ákveðin sérstaða. „Greinin verður hins vegar að hafa í huga hvaða hlutverk hún hefur. Að mínu mati hefur hún það meginhlutverk að framleiða undirstöðuneysluvörur fyrir almenning á Íslandi og þá sem hingað koma. Til að rækja það hlutverk þarf hinn efnahagslegi grundvöllur að vera til staðar eins og áður.“

Í áðurnefndu viðtali við Egil Gautason sagði hann að eftir eigi að meta til fjár ýmsa kosti íslenska kúakynsins, sem ekki hafi verið nýttir. Eins og til dæmis upprunavottun mjólkurafurða. „Ég sé fyrir mér að íslenska kýrin verði haldin í talsverðum mæli þó af innflutningi verði. Þeir framleiðendur sem geta nýtt sér þá sérstöðu í markaðssetningu munu örugglega gera það,“ segir Baldur um þá hlið mála.

Tíðni júgurbólgu mun minni

Egill tiltók einnig í viðtalinu að sjúkdómatíðni í innfluttu kúakyni væri óvissuþáttur. Baldur telur engar líkur á að sjúkdómar berist með innfluttu erfðaefni í nautgripi. „Reynslan af Angus-innflutningnum sýnir það og heilbrigðiseftirlit með kynbótagripum á Norðurlöndunum er eitthvað það mesta sem þekkist.

Ég hef væntingar um að tíðni framleiðslusjúkdóma á borð við júgurbólgu, sem veldur íslenskum kúabændum þungum búsifjum, verði minni en nú er. Tíðni hennar í Noregi er til dæmis um þriðjungur af því sem hér gerist, samkvæmt skýrslu Landbúnaðarháskólans.“

Meira fylgi við hugmyndirnar núna

„Þetta mál hefur verið til umræðu í aldarþriðjung. Það er ómögulegt að segja hvað verður, en staða nautgriparæktarinnar er ekki góð og pólitíska landslagið er gerbreytt. Við því verður að bregðast með raunhæfum aðgerðum,“ heldur Baldur áfram.

„Ég mun beita mér fyrir því, hér eftir sem hingað til, að bændur íhugi þennan kost mjög alvarlega. Geri þeir það ekki, kalla ég eftir að þeir hinir sömu komi með lausnir sem eru svipaðar að umfangi og skýrslan sýnir fram á.

Að mínu mati er heldur meira fylgi við þessar hugmyndir núna en oft áður. Ég geri mér líka grein fyrir að við þetta er hörð andstaða meðal hluta bænda. Mér finnst umræðan um þetta þó vera ívið málefnalegri nú en stundum áður.“

Góður árangur náðst
Fréttir 4. desember 2025

Góður árangur náðst

Hluti af áburðarráðgjöf Ráðgjafarmiðstöðvar landbúnaðarins (RML) til bænda hefur...

Ávinningur felist í því að lækka rekstrarkostnað
Fréttir 4. desember 2025

Ávinningur felist í því að lækka rekstrarkostnað

Stjórnir Frjálsa lífeyrissjóðsins og Lífeyrissjóðs bænda hafa undirritað viljayf...

Heilbrigð mold í frískum borgum
Fréttir 4. desember 2025

Heilbrigð mold í frískum borgum

Alþjóðlegur dagur jarðvegs er haldinn 5. desember ár hvert til að vekja athygli ...

Kúabændur andvígir breytingum á búvörulögum
Fréttir 4. desember 2025

Kúabændur andvígir breytingum á búvörulögum

Á föstudaginn í síðustu viku hélt hópur kúabænda á fund ráðherra þar sem mótmælt...

Gríðarlega mikilvægur vettvangur
Fréttir 4. desember 2025

Gríðarlega mikilvægur vettvangur

Framkvæmdastjóri Loftslagsráðs, Anna Sigurveig Ragnarsdóttir, segir COP enn gríð...

Loðdýraeldi leggst af á Íslandi
Fréttir 4. desember 2025

Loðdýraeldi leggst af á Íslandi

Allir loðdýrabændur á Suðurlandi, fimm að tölu, eru nú að hætta minkarækt þar se...

Breytingar á erfðafjárskatti dýr erfingjum bænda
Fréttir 4. desember 2025

Breytingar á erfðafjárskatti dýr erfingjum bænda

Frumvarp fjármálaráðherra um breytingu á ýmsum lögum um skatta, gjöld o.fl. felu...

Úthlutun í fyrsta sinn
Fréttir 28. nóvember 2025

Úthlutun í fyrsta sinn

Fyrsta úthlutun úr frumkvæðissjóðnum Fjársjóði fjalla og fjarða fór fram á dögun...