Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 8 ára.
Íslendingar greiða fyrir kjarnorku-, kola- og olíuframleidda raforku
Fréttir 25. júní 2015

Íslendingar greiða fyrir kjarnorku-, kola- og olíuframleidda raforku

Höfundur: Hörður Kristjánsson

Til langs tíma hafa ríkisstjórnir, forseti vor, embættismenn og orkufyrirtæki haldið á lofti hreinleika íslenskrar orkuframleiðslu. Ísland er sagt einstakt á heimsvísu hvað þetta varðar, en frá 2011 hefur þeim staðreyndum algjörlega verið snúið á haus fyrir tilstuðlan innleiðingar á tilskipun ESB.

Ísland og Íslendingar geta ekki lengur stært sig af þessari hreinu ímynd, þar sem orkufyrirtækin selja á hverju ári erlendum orkufyrirtækjum hreinleikavottorð í orkuframleiðslu í skiptum fyrir ávísun á orku sem ekki er framleidd á vistvænan hátt. Þetta má sjá á orkureikningum landsmanna þar sem nú er tekið fram að meirihluti af orkunni sé framleiddur með kjarnorku, olíu, kolum og gasi. Þrátt fyrir að hér á landi séu hvorki kola- né kjarnorkuver til raforkuframleiðslu, þá geta Íslendingar sjálfir ekki fengið skráð hjá sér kaup á hreinni orku nema greiða orkufyrirtækjunum sérstaklega fyrir það. Það sem meira er, að framboðið á þessum hreinleikavottorðum fer þverrandi vegna sölu til útlendinga.

Vel er hugsanlegt að þetta eigi eftir að koma illilega í bakið á þeim sem framleiða matvæli eins og fisk og kjöt til útflutnings á forsendum hreinleikans. Víða er farið að krefjast vottunar fyrir slíka framleiðslu og ef íslenska ríkið getur ekki lengur ábyrgst að orkan sem hér er seld sé fullkomlega hrein, þá er komin upp skrítin staða. 
Kjarnorkuhlutfallið í íslensku raforkunni komið í 23–24%

Skýringin á þessari skilgreiningu á uppruna orkunnar mun vera sala íslenskra orkufyrirtækja á grænum vottorðum til útlanda sem hófst 2011. Í þessum viðskiptum er m.a. skilgreint hlutfall kjarnorkuframleiðslunnar í viðkomandi landi og vegna þessarar sölu hefur sams konar skilgreiningum verið bætt inn í á sölu á raforku hér á landi.

Orkuveita Reykjavíkur var t.d. komin með þá skýringu á sínum reikningum 2012 að endurnýjanleg orka stæði undir um 89% af rafmagninu og jarðefnaeldsneyti stæði fyrir sex prósentum. Þau fimm prósent sem eftir eru komi frá kjarnorku. Árið 2012 var kjarnorkuhlutinn kominn í 16% og jarðefnaeldsneyti í 21%. Árið 2013 var kjarnorkuhlutfallið svo komið í 24% og jarðefnaeldsneytið í 37%. Vegna aukinnar raforkuframleiðslu með vatnsafli og heldur minni sölu hreinleikavottorða minnkaði kjarnorkuhlutfallið í 23% árið 2014 og jarðefnaeldsneytishlutinn í 32%. 

Vegna þessarar útlistunar á samsetningu orkunnar er útilokað að t.d. íslensk gróðurhús geti fengið það vottað að þau séu að nota 100% endurnýjanlega orku við sína framleiðslu – nema þá gegn umtalsverðri þóknun.

Sveinn A. Sæland, fyrrverandi formaður Sambands garðyrkjubænda, sem rekur garðyrkjustöðina Espiflöt með fjölskyldu sinni, staðfesti þetta í samtali við Bændablaðið. Hann segist hafa fengið tilboð frá Orku náttúrunnar, dótturfélagi Orkuveitu Reykjavíkur, um að garðyrkjubændur sem þar eiga viðskipti gætu keypt sig frá þessari óhreinu orku og fengið stimpil um að þeir notuðu aðeins hreina orku.

Hægt að fá hreinleikavottorð fyrir 5,1 eyri á kílówattstund

„Okkur var boðið að kaupa okkur frá þessari vitleysu fyrir sem nemur 5,1 eyri á kílówattstund. Þannig gætum við keypt kjarnorku og jarðefnaeldsneytið út af reikningum hjá okkur og fengið rafrænt „lógó“ inn á heimasíðuna sem segir að við séum að kaupa hreina orku. Ég var bara ekki tilbúinn að taka þátt í svona skrípaleik.“

Þetta getur numið um 4,2 milljónum króna á ári hjá allri garðyrkjunni sem kaupir árlega um 82 milljónir kílówattstunda. Sagði Sveinn að í samtali við fulltrúa ON hafi komið fram að öllum öðrum Íslendingum væri einnig boðið upp á sömu „kostakjör“ á hreinleikanum. Það er að segja svo lengi sem hreinleikavottorðin seldust ekki upp. 

Bíta höfuðið af skömminni

„Mér fannst að þarna væru menn að bíta höfuðið af skömminni. Við sem höfum verið að berja okkur á brjóst í gegnum tíðina að við séum með svo æðislega flotta atvinnugrein og með hreina orku og vatn og enga koltvísýringsmengun. Nú er okkur sagt að þetta sé allt koldrullugt. Svo leyfa menn sér að bjóða okkur að borga okkur frá þessu,“ segir Sveinn.
Einn góður maður setti fram þá samlíkingu að þetta væri eins og einhver kæmi og skiti á tröppurnar hjá manni, bankaði svo á útidyrnar og byði húsráðanda að borga viðkomandi fyrir að þrífa upp skítinn eftir sig.

Bændablaðið fékk það staðfest hjá Orku náttúrunnar að hægt sé að  fá keypt slík „syndaaflausnabréf“ eins og viðmælandi orðaði það. Þá hafi ferðaþjónustuaðilum sem eiga við þau viðskipti verið boðinn sérstakur samningur þar sem vottun um hreina orku er innifalinn. Því fylgir útprentað skjal sem fyrirtækin geta hengt upp á vegg hjá sér sem staðfestingu á að þau séu að kaupa 100% hreina orku. Þá fá þau einnig merki sem hægt er að setja á heimasíðu fyrirtækisins. Ekki fékkst útlistun á því áður en blaðið fór í prentun hversu hátt gjald orkukaupendur þurfi nákvæmlega að greiða fyrir hverja kílówattstund.

Gert að borga sjálfsblekkingarskatt

Sala á grænum vottorðum til útlanda hefur valdið því að í raun er opinberlega verið að ljúga til um uppruna orkuframleiðslunnar á Íslandi. Það sem verra er, að í skjóli þessara skilgreininga eru orkufyrirtækin farin að stilla framleiðendum á borð við garðyrkjubændur og öðrum upp við vegg. Er þeim nú boðið að kaupa sig frá þessari kjarnorku-, olíu-, gas- og kolaskilgreiningu til að fá vottun fyrir notkun á 100% hreinni raforku. Þeim er sem sagt gert að borga eins konar sjálfsblekkingarskatt til orkufyrirtækjanna fyrir að kaupa þá hreinu orku sem hér er framleidd.

Undan rifjum ESB og Kyoto

Þessi furðulegi leikur með orkusölu er tilkominn vegna innleiðingar á tilskipun Evrópusambandsins númer 2009/28/EB þar sem Ísland er orðinn hluti af innri markaði ESB. Nær sú tilskipun til upprunaábyrgðar á raforku. Sett voru um þetta lög nr. 30/2008 samkvæmt stjórnarfrumvarpi frá 27. nóvember 2007 í tíð Össurar Skarphéðinssonar, þáverandi iðnaðarráðherra. Málið var afgreitt frá iðnaðarnefnd 29. febrúar 2008 og samþykkt af 48 alþingismönnum þann 7. apríl sama ár og þar með öllum helstu náttúruverndarforkólfunum í íslenskri pólitík. Þar var enginn þingmaður á móti en 15 fjarstaddir, þar á meðal Össur. Síðan var sett reglugerð um málið nr. 757/2012.

Upprunaábyrgðir eða uppruna­vottorð raforku koma til í kjölfar Kyoto-bókunarinnar og þeirrar ákvörðunar ríkja að láta loftslagsmál sig varða. Opinbert markmið er að auka hlut endurnýjanlegra orkugjafa í heiminum og spyrna þar með gegn auknum gróðurhúsaáhrifum. Hvernig íslenskum stjórnmála- og embættismönnum dettur svo einróma í hug að innleiða þetta hér á landi og nota til að ljúga sér til tjóns um uppruna orku sem hér er framleidd, er erfitt að skilja nema kannski að beita blindri röksemdafærslu Mammons.

Sjálfvirk peningavél orkufyrirtækjanna

Samkvæmt skilgreiningu um upprunaábyrgð á upprunavottorð að vera opinber staðfesting á því hvernig raforka er framleidd. Allir vita að hér eru engin kjarnorkuver, en samt er kjarnorka orðinn óumbeðinn hluti af orkukaupum íslenskra heimila. Ef menn vilja ekki raforku sem skilgreind er með uppruna í kjarnorku þá verða menn eins og fyrr segir að kaupa sig frá því með sérstöku gjaldi. Þannig eru orkufyrirtækin búin að koma hér upp sjálfvirkri peningavél sem byggir á að gjaldfella sannleikann um orkuframleiðslu og um leið að gjaldfella hreinleikaímynd Íslands.

Alþjóðlegur blekkingaleikur og peningaplokk

Þegar betur er að gáð er þetta ekkert annað en liður í heljarmiklum alþjóðlegum blekkingarleik sem gerir þjóðum kleift að kaupa sig undan kvöðum um að framleiða orku með vistvænum hætti. 

Fyrirtæki sem heitir Orka náttúrunnar er afsprengi Orkuveitu Reykjavíkur og var stofnað í kjölfar þess að þetta fyrirkomulag var innleitt hér á landi. Það hefur ásamt Landsvirkjun og fleiri  orkuframleiðendum á Íslandi tekið þátt í viðskiptum með upprunaábyrgðir sem seldar hafa verið til raforkusölufyrirtækja í Evrópu. Reglugerðin tekur til sölu á upprunaábyrgðum en heimilar einnig kaup á þeim frá Evrópu.

Geta fengið keypta græna orku gegn aukagjaldi

Markaðurinn fyrir upprunaábyrgðir raforku virkar þannig að þeir sem framleiða endurnýjanlega orku geta selt upprunavottorð til orkusölufyrirtækja í öðrum löndum sem síðan bjóða upp á sérstakan grænan taxta til sinna viðskiptavina. Kaupendur geta því „valið sér“ að kaupa raforku sem framleidd er með endurnýjanlegum hætti og borga aukalega fyrir það.

Til að styrkja ímyndina

Í raun er samt raforkan úr strengjunum öll úr sömu súpunni hvernig svo sem hún er framleidd. Hins vegar er sagt að þetta eigi að vera hvati fyrir orkuframleiðendur til að framleiða annaðhvort svokallaða græna orku, eða hvítþvo kjarnorku- kola- og gasframleiðslu sína á raforku með upprunavottorðum frá öðrum ríkjum. Gengið er út frá því að fólk og fyrirtæki séu tilbúin til að greiða hærra verð fyrir slíkt til að styrkja ímynd sína mitt í öllu talinu um loftmengun og hlýnun jarðar. Virðist markaðssetning á þessum blekkingarleik reyndar hafa heppnast ansi vel. Er markaður með upprunaábyrgðir þegar orðinn mjög virkur á Evrópska efnahagssvæðinu, þar á meðal á Íslandi.

Stærsti hluti upprunavottorða á markaðnum kemur í dag frá norskum vatnsaflsvirkjunum, en þau geta komið frá hvaða „græna“ orkuframleiðanda sem er í Evrópu.

Nær 100% hrein raforka orðin drulluskítug

Á Íslandi er raforka að 99,99% hluta framleidd með endurnýjanlegum orkugjöfum, vatnsafli, jarðhita og vindorku. Reyndar er vindorkan hverfandi í heildartölunum þar sem vatnsorka stendur fyrir 71% framleiðslunnar og jarðhiti fyrir 29%. Einungis 0,01% raforkunnar er framleidd með dísilvélum.

Samkvæmt ítarlegri athugun Bændablaðsins hefur aldrei verið byggt kjarnorkuver til raforkuframleiðslu á Íslandi þrátt fyrir að annað mætti ætla við skoðun á orkureikningum. Sala á upprunaábyrgðum frá Íslandi til útlanda þýðir að íslensk orkufyrirtæki verða að taka í staðinn á sig huglægan flutning á óhreinni orku til Íslands og er þeim óþverra nú klínt inn í íslenska orkureikninga.

23–24% orkunnar á landsvísu framleidd með kjarnorku!

Hjá Orkuveitu Reykjavíkur var því svo komið árið 2013 að uppruni skilgreindrar raforkusölu sem garðyrkjufyrirtæki var að borga fyrir var að endurnýjanleg orka var komin niður í aðeins 39%, jarðefnaeldsneyti 37%. Kjarnorka stóð fyrir hvorki meira né minna en 24% raforkusölunnar.

Nýjar tölur Orkustofnunar fyrir alla raforkusölu á Íslandi árið 2014 sýna að endurnýjanleg orka stóð fyrir 45% orkusölunnar. Jarðefnaeldsneyti stóð undir 32% sölunnar og raforka framleidd með kjarnorku nam 23%. Að sögn Sigurðar H. Magnússonar hjá Orkustofnun er þetta samkvæmt staðlaðri yfirlýsingu sem byggist á tölum um sölu orkufyrirtækjanna á upprunaábyrgðum. Orkufyrir-tækjunum er heimilt að gefa sjálf út sínar yfirlýsingar um sína sölu. Orkuveita Reykjavíkur gerði það í eitt ár en hefur nú horfið frá því og styðst við þessa yfirlýsingu Orkustofnunar. Gildir yfirlýsingin því jafnt fyrir stöðu allra orkufyrirtækja á landinu.

Eru Íslendingar að sóða út umhverfið með geislavirkum úrgangi?

Vegna þessarar stöðluðu skil­greiningar eru Íslendingar sagðir vera að losa 0,65 milligrömm af geislavirkum úrgangi á kílówattstund.

Þessi staða var augljóslega farin  að gera hreinleikaímynd Orkuveitu Reykjavíkur og annarra íslenskra orkufyrirtækja ansi dapra. Í kjölfarið var stofnað sérstakt dótturfyrirtæki OR sem heitir því blekkjandi nafni Orka náttúrunnar (ON) og eru kjarnorkureikningarnir nú gefnir út í þess nafni. Þar virðist þó hafa verið reynt að hífa upp ímyndina á ný með því að hvetja til rafbílavæðingar og setja upp rafhleðslustöðvar vítt og breitt. Lítið fer þó fyrir umræðu um að raforkan á „vistvænu“ rafbílana er ímyndarlega komin í flokk með kolum og kjarnorku.

Reiknað inn í alla orkusölu á Íslandi

Orkustofnun er með umfjöllun um uppruna orkunnar á vefsíðu sinni. Þar segir m.a.:
„Íslensk raforkufyrirtæki geta selt upprunaábyrgðir til evrópskra fyrirtækja. Upplýsingar um upprunaábyrgðir koma fram á rafmagnsreikningum íslenskra neytenda einu sinni á ári.
Íslensk raforka er nánast öll framleidd úr endurnýjanlegum orkugjöfum og því geta íslensku raforkufyrirtækin selt upprunaábyrgðir raforku til fyrirtækja á Evrópska efnahagssvæðinu. Á móti kemur að íslensku orkufyrirtækin þurfa að gera grein fyrir þessum viðskiptum með því að taka á sig í staðinn ígildi samsvarandi magns  raforku sem ekki er framleidd með endurnýjanlegum orkugjöfum. Íslenskir raforkukaupendur fá upplýsingar um upprunaábyrgðir með raforkureikningi sínum einu sinni á ári.

Upprunaábyrgðir á raforku eru til þess að orkusali geti fullvissað orkukaupanda um að framleidd hafi verið orka með endurnýjanlegum orkugjöfum. [einhvers staðar í heiminum. – innskot blm].“

Sala upprunavottorða á raforku hófst á Íslandi 2011

Frá því í desember 2011 hafa íslensk orkufyrirtæki gefið út og selt upprunaábyrgðir og voru það ár seldar upprunaábyrgðir fyrir um það bil 2 teravattstundir [TWst] vegna raforkuframleiðslu á Íslandi en heildarframleiðslan nam 16,8 TWst., eða 16.800 gígawattstundir.  Árið 2013 voru fluttar út upprunaábyrgðir fyrir 11,8 TWh sem er ca 62% af heildarframleiðslu ársins. Á árinu 2014 var endurnýjanleg orka á Íslandi 18.120 gígawattstundir (GWst., eða 18,1 TWst.) og raforka framleidd með jarðefnaeldsneyti 2,4 GWst. Samkvæmt skilgreiningu OS var verið að selja úr landi upprunaábyrgðir 2014 sem nam um 53% af heildarframleiðslunni.

Í staðinn fyrir útgefnar og seldar upprunaábyrgðir þarf að færa inn sama magn í hlutföllum samkvæmt vegnu meðaltali á samsetningu raforkuframleiðslu í Evrópu. Þannig er endanleg raforkusala á Íslandi eftir orkugjöfum reiknuð út.

Inn í þessa umræðu má síðan bæta við staðföstum áformum Landsvirkjunar um að semja við Breta eða aðrar þjóðir um lagningu á sæstreng til að selja raforku frá Íslandi til Evrópu. Það mun festa Ísland enn frekar í þessu orkuforarpytti. Vegna mögulegs flæðis orku um strenginn fram og til baka verður Ísland beintengt við evrópsk kola-, olíu-, gas- og kjarnorkuver. Því verður engan veginn  hægt að halda því fram eftir slíka tengingu að hér sé eingöngu framleidd raforka með endurnýjanlegum hætti. Öll frekari sala á upprunavottorðum þeirrar hreinu orku sem hér er framleidd gerir stöðuna svo enn verri. Þar með yrði kominn varanlegur skítugur blettur á hreinleikaímynd Íslands í orkuframleiðslu sem getur skipt hreinleikaímynd íslenskrar matvælaframleiðslu verulegu máli til lengri tíma litið. 

Ísteka í yfirburðastöðu
Fréttir 15. apríl 2024

Ísteka í yfirburðastöðu

Í nýrri ályktun Samkeppniseftirlitsins kemur fram að Ísteka beiti sterkri stöðu ...

Hverfandi líkur á riðusmiti árið 2032
Fréttir 15. apríl 2024

Hverfandi líkur á riðusmiti árið 2032

Í nýrri landsáætlun verður stefnt að því að hverfandi líkur verði að upp komi ri...

Hrútaverðlaun fyrir Gullmola og Blossa
Fréttir 15. apríl 2024

Hrútaverðlaun fyrir Gullmola og Blossa

Á fagfundi sauðfjárræktarinnar sem haldinn var í Ásgarði Landbúnaðarháskóla Ísla...

Sláturhús brann til grunna
Fréttir 12. apríl 2024

Sláturhús brann til grunna

Sláturhúsið í Seglbúðum í Landbroti brann til grunna þann 1. apríl.

Ekki farið að lögum um útivist nautgripa
Fréttir 12. apríl 2024

Ekki farið að lögum um útivist nautgripa

Matvælastofnun lagði stjórnvaldssektir á þrjú kúabú á Vesturlandi á dögunum vegn...

Dregur úr kaupvilja
Fréttir 12. apríl 2024

Dregur úr kaupvilja

Niðurstöður tilboðsmarkaðar fyrir greiðslumark mjólkur í byrjun apríl sýna að ja...

Staða framkvæmdastjóra BÍ auglýst innan tíðar
Fréttir 11. apríl 2024

Staða framkvæmdastjóra BÍ auglýst innan tíðar

Vigdís Häsler hefur látið af störfum sem framkvæmdastjóri Bændasamtaka Íslands. ...

Erfiðara verður að fá sphagnum og innfluttur jarðvegur CE-vottaður
Fréttir 11. apríl 2024

Erfiðara verður að fá sphagnum og innfluttur jarðvegur CE-vottaður

Búast má við að innflutningur á mómosamold (sphagnumríkri mold) fari minnkandi á...