Innviðafélag til að hraða samgönguúrbótum
Á vorþingi hyggst innviðaráðherra leggja fram frumvarp um stofnun ríkisrekins innviðafélags til að hraða samgönguúrbótum.
Innviðaráðherra hyggst skv. framlagðri þingmálaskrá leggja fram frumvarp í febrúar nk. um stofnun innviðafélags. Verður lagt til að stofnað verði sérstakt innviðafélag eða ríkisaðili sem sjái um fjármögnun stærri samgönguframkvæmda, s.s. vegna jarðganga og sambærilegra flýtiframkvæmda. Skv. fyrirhuguðu frumvarpi verður lagt til að umgjörð um fjármögnun, framkvæmd og rekstur umferðarmannvirkja, sem myndu falla undir fyrirkomulag af þessu tagi, verði vel skilgreind með fjárhagslega sjálfbærni að leiðarljósi.
Á næstu vikum er áætlað að starfshópur á vegum innviðaráðherra skili af sér nánari útfærslu á slíku ríkisreknu innviðafélagi. Bundnar eru vonir við að það hraði ýmsum framkvæmdum í samgöngukerfinu og auðveldi fjármögnun þess.
