Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 9 ára.
Innflutningur á holdanautasæði til notkunar á sveitabæjum er leikur að eldi
Lesendarýni 2. júní 2015

Innflutningur á holdanautasæði til notkunar á sveitabæjum er leikur að eldi

Höfundur: Sigurður Sigurðsson

Ég er sammála umsögn ým­issa vel metinna bænda, embættis­manna og sérfræðinga á sviðum dýrasjúkdóma um frumvarp til breytinga á lögum nr 54/1990. Umsögn þeirra var send atvinnuveganefnd 15. maí 2015. Mótmælt er innflutningi á erfðaefni fyrir holdanautastofn okkar með svo ógætilegum hætti, sem að er stefnt.

Smit, sem berst í holdanaut með innflutningi á sæði til sveitabæja, berst fljótlega í mjólkurkýrnar. Á mörgum bæjum eru bæði holdanaut og mjólkurkýr. Ég tek undir álit íslenskra dýralækna (Dýralæknaráð) varðandi þessi efni. Þeir telja frumvarpið gallað, hættulegt vörnum landsins gegn smitsjúkdómum. Það er einnig skoðun mín. Ég vil þó kveða fastar að orði en þar er gert og hafna með öllu innflutningi á erfðaefni fyrir nautgripi.

Ég lít svo á að eftirgjöf í þessum málum sé hættuleg. Brotið yrði skarð í varnarvegg, sem vel hefur reynst gegn því að hingað berist nýir smitsjúkdómar í nautgripi. Þetta er fyrsta skrefið til að koma nýjum mjólkurkúakynjum til Íslands, rauðri Norðurlandablöndu fyrst, síðan svartskjöldóttri heimsblöndu.

Við innflutning í eitt skipti er hægt að vanda til verka, hættan yrði lítil. Þekking okkar á smitsjúkdómum er brotakennd, en opnað yrði fyrir innflutning mörgum sinnum með tilheyrandi margföldun á smithættu. Nýjar kröfur yrðu settar fram um önnur kyn. Það hafa sumir áhugamennirnir gefið í skyn. Varla yrði endir á því.

Menn vilja stytta sér leið til kynbóta á ódýran hátt og gera lítið úr hættunum

Menn vilja stytta sér leið til kynbótanna á ódýrasta hátt, en gera lítið úr hættunum. Það er óábyrg afstaða. Kúabændur hafa staðið sig vel, síðan þeim var neitað um innflutning á norsku kúakyni um 2000. Litla kýrin okkar hefur stórbatnað, nytin hefur aukist og hún passar inn í  nýju vélarnar og mjólka sig sjálfar. Margt er hægt að bæta án innflutnings.

Hópur bænda fær yfir 7.000 lítra mjólkur úr hverri kú og einstaka afrekskýr mjólkar yfir 12.000 lítra á ári. Allt of margir bændur ná ekki 4.000 lítra meðalnyt á ári. Þetta er sama kúakynið, sömu feður á sæðingarstöðvunum. Er ekki eitthvað hér að vinna?

Ég tel að enn sé hægt að bæta þekkingu bænda og þeirra, sem þjóna kúabúum. Fóður og umhirðu er hægt að bæta. Menn eiga líka að vera góðir við kýrnar, tala við þær og strjúka þeim. ,,Ló, ló mín Lappa“.

Holdanautin búa við misjöfn skilyrði úti. Sama meðferð víða og á útigangshrossum, en hafa lakari feld til hlífðar í hrakviðrum. Umhirðan og fóðrið oft lélegt. Með því að bæta þetta mætti auka og bæta framleiðslu á holdanautakjöti án innflutnings á útlendu erfðaefni með tilheyrandi áhættu. Undansláttur frá gildandi reglum hefði, þegar frá liði, áhrif á innflutning erfðaefna annarra dýrategunda einnig.

Hugsum nú, hvernig bregðast ætti við kröfum ,,hagsmunaaðila" við innflutningi á erfðaefni fyrir sauðfé eða fyrir hross. Það er öllum ljóst, sem til þekkja, að slíkt yrði ekki leyft nú. Það gæti orðið seinna, ef gefið verður eftir þessum kröfum. Sama afstaða á einnig að  gilda um nautgripi.

Smitsjúkdómar, sem gætu borist í íslenskt búfé með innflutningi eru 600-700

Mun fleiri smitsjúkdómar herja á nautpening í Noregi en á Íslandi. Þar í landi hefur stundum verið látið undan óskum um innflutning til kynbóta. Með því hafa borist nýir smitsjúkdómar þangað, þrátt fyrir miklar varúðarráðstafanir.

Í öðrum löndum bætast við flokkar smitefna, sem ekki eru í Noregi. Í flestum löndum telja menn nauðsyn að viðhafa varnir, þótt þar séu margfalt fleiri smitsjúkdómar. Menn hætta ekki að verjast smitsjúkdómum, þótt nýir hafi borist að. Af nógu er að taka.

Þekkt eru í heiminum um 600-700 smitefni, sem leggjast á hross, svín, nautgripi, sauðfé og geitur. Á milli 100 og 300 smitefni eru þekkt fyrir hverja húsdýrategund. Örfáar þeirra hafa fundist á Íslandi Víst er talið, að mörg smitefni séu ennþá óþekkt og ný geti orðið til í meiri þéttleika dýra og mikils fjölda. Afleiðingarnar eru óþekktar. Hagsmunir nautabænda eru lítils virði í samanburði við áhættuna fyrir þá auðlind, sem heilbrigði íslenskra nautgripa er.

Það er gott og nauðsynlegt styrkja nautgriparæktina, en með öðru móti en því að taka áhættu og eyðileggja gersemar.  Það að gefa eftir nú, er vont fordæmi.

Innflutningur á erfðaefni svína er ekki það sama og innflutningur á erfðaefni nautgripa

Ég vil undirstrika, að innflutningur á erfðaefni svína er annað en innflutningur á erfðaefni nautgripa. Svín eru langflest á húsi alla ævi og þar er hægt að viðhafa strangar sjúkdómavarnir, sem er vel sinnt og draga úr hættu á að smit berist milli búa. Smitefni svínasjúkdóma eru nær alltaf sérstök fyrir þá tegund og myndu því varla berast í aðrar búfjártegundir eða breiðast þannig út um landið. Svínin okkar eru einnig sömu tegundar og svín í nágrannalöndum okkar og því er strax hægt að fá svín af sömu tegund, ef illa fer.

Smitefni í holdanautasæði myndu fljótt berast í mjólkurkýrnar

Holdanautgripir okkar eru í flestum tilfellum útigöngudýr, mjög oft á sama landi og í snertingu við mjólkurkýrnar okkar. Smitsjúkdómar, sem kynnu að berast til landsins við innflutning á sæði til notkunar í holdanaut geta og munu því margir hverjir berast fljótt í mjólkurkúastofn okkar. Sæði er mun hættulegra en fósturvísar, en flutningur á fósturvísum er alls ekki hættulaus heldur.

Önnur jórturdýr, sauðfé, geitur og jafnvel hreindýr taka marga sömu sjúkdóma og nautgripir. Þeir gætu því breiðst út um stór svæði á stuttum tíma. Eru menn búnir að gleyma því, hvað gerðist með hrossastofn okkar fyrir fáum árum, þegar hingað bárust með nokkurra ára millibili nýir smitsjúkdómar að öllum líkindum vegna ógætni einstakra hestamanna sjálfra. Í guðanna bænum, hestamenn, sýnið varúð og ábyrgðartilfinningu vegna íslenska hestsins og sjálfra ykkar. Sjúkdómarnir fóru eins og eldur í sinu um landið. Flest hross landsins smituðust og lifðu. Hrossin hafa sum hver ekki borið þess bætur.

Einn sjúkdómurinn drap stórt hundrað hrossa. Ég krufði og sjúkdómsgreindi nokkra tugi þeirra á Keldum og víðar. Þessum sjúkdómum verður ekki útrýmt. Þeir munu fylgja okkur.

Heilbrigði íslensku nautgripanna er auðlind, sem ekki má spilla

Heilbrigði íslensku nautgripanna er einstakt á heimsvísu, hvort heldur sem eru holdanaut eða mjólkurkýr. Það er auðlind, sem þakka má banni við innflutningi á lifandi dýrum og hráu kjöti og ströngum reglum um hvað eina, sem smithætta stafar af. Þar með er talinn innflutningur á fósturvísum. Við megum ekki tefla því í tvísýnu.

Leitað var eftir áliti norskra sérfræðinga og stofnana um smithættu. Álit þeirra er gott svo langt sem það nær, en tekur aðeins til ákveðinna afmarkaðra sjúkdóma. Fyrirhugað er að kaupa ,,kynbæturnar“ frá Noregi. Það hefur aldrei þótt skynsamlegt, að fela dómsvaldið í hendur manna, þótt góðir séu, sem eiga hagsmuna að gæta fyrir sitt land. Fyrir því er löng og bitur reynsla. Íslenskir dýralæknar (Dýralæknaráð) hafa næmari skilning en erlendir menn á því, hvað við á hér.

Búkolla býr yfir ýmsum verðmætum eiginleikum og kostun vegna hreinleika stofnsins og heilbrigðis

Mjólkin býr yfir kostum, sem ekki er að finna annars staðar í jafn ríkum mæli t.d. hvað varðar sykursýki í börnum og ostagerð.

Í öðrum löndum hafa menn gert sér verslunarvöru úr þeim. Það hefðum við getað gert sjálf, ef menn hefðu farið eftir ábendingum í fræðandi blaðagreinum eftir Stefán Aðalsteinsson. Margrét Guðnadóttir prófessor hefur bent á aðra kosti, sem byggja á hreinleika stofnsins og sjúkdómaleysi. Við höfum látið erlendum aðilum eftir frumkvæði til  verðmætasköpunar, sem við blasti að auðveldara væri fyrir okkur en aðra. Enn gæti þó verið lag.

Kúastofninn er óbætanlegur, ef illa fer, gagnstætt því sem segja má um svínastofninn. Við eigum skyldum að gegna og skuld að gjalda ,,Búkollu“ íslensku kúnni.

Búkolla mín baular nú og biður menn að hafa trú
á litskrúðugri landnámskú, sem lífið þakka megum.
Hennar mjólk er holl og góð, heilsubrunnur vorri þjóð.
Kynið hreina sýnir sjóð, sem við bestan eigum.

Önnur atlaga hefur verið gerð að Búkollu á síðustu mánuðum. Það er þingsályktunartillaga um innflutning á erfðaefni fyrir mjólkurkýrnar okkar. Hún er vanhugsuð og stórhættuleg að mínum dómi og ætti að fara sömu leið og lagafrumvarpið.

Ég skora á atvinnuveganefnd Alþingis að vísa þessu máli frá eða að láta skoða það mun betur en gert hefur verið. Ég skora á bændur landsins að standa saman um að verja íslensku kúna og ég skora á almenning, að láta sig varða afdrif Búkollu. Þetta frumvarp stefnir íslensku kúnni í útrýmingarhættu. Málþing ætti að halda í Bændahöll hið fyrsta um íslensku kúna og bjóða öllum aðilum málsins.

Skógarfura í Varmahlíð föngulegust
Fréttir 4. október 2024

Skógarfura í Varmahlíð föngulegust

Skógræktarfélag Íslands hefur valið skógarfuru í Varmahlíð tré ársins 2024.

Þrír forstjórar skipaðir fyrir nýjar ríkisstofnanir
Fréttir 4. október 2024

Þrír forstjórar skipaðir fyrir nýjar ríkisstofnanir

Nýlega voru skipaði þrír forstjórar fyrir nýjar ríkisstofnanir sem urðu til með ...

Eftirlíking af hálfri kú
Fréttir 4. október 2024

Eftirlíking af hálfri kú

Nautastöð Bændasamtaka Íslands tók á dögunum í notkun eftirlíkingu af kú sem er ...

Gagnrýna nýjar reglur um hollustuhætti
Fréttir 3. október 2024

Gagnrýna nýjar reglur um hollustuhætti

Heilbrigðisnefndir kringum landið hafa gagnrýnt skort á kynningu á nýrri regluge...

Aðgerðaáætlun gefin út
Fréttir 3. október 2024

Aðgerðaáætlun gefin út

Matvælaráðherra, Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, hefur gefið út aðgerðaáætlun fyrir...

Grasrótin gaumgæfir atvinnulíf og nýsköpun
Fréttir 3. október 2024

Grasrótin gaumgæfir atvinnulíf og nýsköpun

Verkefnið Vatnaskil á Austurlandi miðar að því að efla nýsköpun og stuðla að fjö...

Áburðarverkefni í uppnámi
Fréttir 3. október 2024

Áburðarverkefni í uppnámi

Áburðarverkefni í Syðra-Holti í Svarfaðardal, sem gengur út á moltugerð úr nærsa...

Aukinn innflutningur á lægri tollum
Fréttir 2. október 2024

Aukinn innflutningur á lægri tollum

Ekki er hægt að fá uppgefna þá aðila sem standa að baki innflutningi á landbúnað...