Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 4 ára.
Grafargil og Álftaskálará (Álka). Meðal virkjanakosta á Norðurlandi vestra sem nefndir eru í skýrslu Mannvits er Álftaskálará-efri sem rennur í Vatnsdalsá.
Grafargil og Álftaskálará (Álka). Meðal virkjanakosta á Norðurlandi vestra sem nefndir eru í skýrslu Mannvits er Álftaskálará-efri sem rennur í Vatnsdalsá.
Mynd / HKr.
Fréttaskýring 30. janúar 2019

Í það minnsta 82 virkjanakostir með 49.601 kílówatti í uppsettu afli

Höfundur: Hörður Kristjánsson
Möguleikar í uppsetningu lítilla vatnsaflsvirkjana eru miklir víða um land. Margvísleg tækni hefur komið fram á sjónarsviðið á liðnum árum sem gerir mönnum kleift að framleiða raforku jafnvel án stíflugerðar og með því að nýta hægrennsli lækjarfarvega. Í desember 2016 kynnti Orkustofnun fyrir atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti hugmynd að smávirkjanaverkefni sem hefði það að markmiði að stuðla að aukinni raforkuframleiðslu á landsbyggðinni. 
 
Hugmynd að verkefninu er til komin vegna alvarlegrar stöðu í raforkuöryggismálum landsins. Fáir álitlegir virkjunarkostir eru í nýtingarflokki í þeirri tillögu sem lögð hefur verið fram á Alþingi, auk þess sem erfiðlega gengur að gera endurbætur á flutningskerfi raforku. Kerfið eins og það er í dag getur ekki staðið undir frekari uppbyggingu á atvinnustarfsemi út um land.
 
Það er mat Orkustofnunar að nauðsynlegt sé að horfa til staðbundinna lausna og kanna hvaða smærri virkjunarkostir í vatnsafli eru í boði. Hugmyndinni var vel tekið og fékkst fjármagn til verkefnisins í ársbyrjun 2018. Smærri virkjanir geta orðið lyftistöng fyrir bæði bændur og aðra atvinnustarfsemi víða um land, auk þess sem þær geta stuðlað að auknu orkuöryggi í landinu.
 
Smávirkjanaverkefni Orku­stofnunar hefur það að markmiði að stuðla að aukinni raforkuframleiðslu sem víðast á landsbyggðinni og er verkefnið fjórþætt.
 
  1. Safnað er saman gagnlegum upplýsingum og þeim miðlað áfram.
  2. Boðið er upp á að stilla upp frumhugmynd að vatnsaflsvirkjun.
  3. Veittir eru styrkir til meistaraprófsverkefna á sviði smávirkjana. 
  4. Haldnir eru fundir og kynningar úti um land.
Yfirlitsmynd yfir smávirkjanakosti og vatnasvið á Norðurlandi vestra. Mynd / Mannvit
 
Fjölmargir smávirkjanakostir á Norðurlandi vestra
 
Síðla hausts 2017 ákváðu Samtök sveitarfélaga á Norðurlandi vestra að láta vinna úttekt á smávirkjanakostum á Norðurlandi vestra, óháð áformum landeigenda.  Var verkfræðistofan Mannvit fengin til verksins. Úttektin náði til virkjunarkosta innan sveitarfélaganna Akrahrepps, Sveitarfélagsins Skagafjarðar, Skagabyggðar, Sveitarfélagsins Skagastrandar, Blönduósbæjar, Húnavatnshrepps og Húnaþings vestra.  
 
Tilgangurinn var að gera grófa könnun á hvaða möguleikar væru á smávirkjunum af ýmsum stærðum, ekki síst virkjunum sem gætu selt rafmagn inn á dreifikerfið og stuðlað að atvinnuuppbyggingu í sveitarfélögunum. 
 
Í úttekt Mannvits kemur fram að virkjanir hafa verið starfræktar um langt skeið á Norðurlandi vestra, en fyrsta virkjunin sem skýrsluhöfundum er kunnugt um er Laxárvatnsvirkjun sem byggð var 1933.  Í dag eru nokkrar virkjanir í rekstri í landshlutanum og ber þar helst að nefna Blönduvirkjun (180.000 kW), Skeiðsfossvirkjun (4.800 kW), Gönguskarðsárvirkjun (1.750 kW) og Sleitustaðavirkjun (218 kW).  Þetta er ekki tæmandi listi og eru eflaust bæði minni og stærri virkjanir í rekstri á Norðurlandi vestra, sem skýrsluhöfunum var ekki kunnugt um. 
 
Nokkrir virkjunarkostir eru til umfjöllunar í rammaáætlun en í þessari skýrslu verður ekki fjallað um þá né aðra fyrirhugaða virkjunarkosti, sem ekki falla undir rammaáætlun.  
 
Mannvit skoðaði virkjunarkosti í vel flestum af stærri vatnsföllum sveitarfélaganna.  Ekki var hægt að skoða öll vatnsföll, né heldur hægt að skoða margar útfærslur í hverju vatnsfalli.  
 
Bent er á í skýrslunni að hvert og eitt vatnsfall má virkja á marga mismunandi vegu.  
Mikilvægast sé þó að sem víðtækust sátt ríki um þá virkjunarkosti sem skoðaðir verða nánar.
 
82 virkjanakostir með 49.601 kílówatti í uppsettu afli
 
Þó úttektin sé ekki tæmandi er bent á 82 virkjanakosti á svæðinu sem gætu verið samtals í uppsettu afli 49.601 kílówatt. Þær gætu mögulega skilað orkuframleiðslu upp á  361.330 megawattstundir. Orkuframleiðslan miðast við tvöfalt lágmarksrennsli í viðkomandi vatnsföllum en gæti þó mögulega verið meiri. Það mun þó væntanlega ráðast af frekari rannsóknum. Margir virkjunarkostir sem fjallað er um í þessari skýrslu eru hagkvæmir og væri áhugavert að skoða þá betur að mati skýrsluhöfunda.
 
Getur tekið 4–8 ár að reisa litla smávirkjun
 
Gera má ráð fyrir að það taki á bilinu  4–8 ár frá því fyrstu skref eru stigin í undirbúningsvinnu að lítilli smávirkjun þar til hún geti verið komin í gagnið. Stærri smávirkjun tæki lengri tíma.
 
Fyrsta skref: 
Æskilegt væri að fara í vettvangsferð á virkjunarsvæðið, skoða það m.t.t. staðsetningar
mannvirkja og kanna hug landeigenda til virkjunaráforma. Þá væri æskilegt að hefja rennslismælingar en þær þurfa almennt að standa í að lágmarki tvö ár áður en frekari ákvarðanir eru teknar, þrjú ár ef vel á að vera.
 
Annað skref:
Virkjunin yrði frumhönnuð og stofnkostnaður áætlaður og einnig tengikostnaður við raforkukerfið. Gerð yrði hagkvæmnigreining. Hér væri einnig eðlilegt að gera matsskyldufyrirspurn. Þessi vinna þarf að byggja á nákvæmari gögnum um t.d. vatnsrennsli og almenna staðhætti.
 
Þriðja skref:
Virkjunin yrði útboðs- eða fullnaðarhönnuð en það fer eftir stærð virkjunar og virkjunaraðila hvor leiðin er valin. Hér þyrfti einnig að huga að aðal- og deiliskipulagsbreytingum og í framhaldi af því er sótt um virkjunar- og framkvæmdaleyfi.
 
Fjórða skref: 
Virkjun byggð og sett í rekstur.
 
Tengingar við orkukerfið
 
Á Norðurlandi vestra sjá þrír aðilar um rekstur raforkukerfisins en það eru Landsnet, Orkubú Vestfjarða (OV) og Rarik. Tenging virkjana við raforkukerfið getur bæði verið um nærliggjandi dreifikerfi eða í aðveitustöð/tengivirki en það fer eftir stærð virkjana og flutningsgetu nærliggjandi dreifikerfis. Gera má ráð fyrir því, að virkjanir með uppsett afl meira en 2.500 kW þurfi í öllum tilfellum að tengjast við aðveitustöð/tengivirki.
 
Á Norðurlandi vestra eru átta aðveitustöðvar/tengivirki og er spennustig mismunandi í aðveitustöð eða tengivirki. 
 
Tengikostnaður virkjana getur verið mjög mismunandi, eða allt frá því að vera lítið brot af stofnkostnaði yfir í margfaldan stofnkostnað virkjana. Ávinningur rekstraraðila raforkukerfis af tengingu virkjunar inn á dreifikerfið getur í sumum tilfellum verið það mikill að enginn tengikostnaður fellur á virkjunaraðila. Tengikostnað virkjana við raforkukerfið þarf að skoða í hverju tilviki fyrir sig og er hann því ekki áætlaður í þessari skýrslu Mannvits. 
Heitt vatn finnst á Ströndum
Fréttir 1. desember 2023

Heitt vatn finnst á Ströndum

Heitt vatn fannst nýlega við borun á Drangsnesi á Ströndum.

Tímamót í baráttunni gegn riðuveiki
Fréttir 1. desember 2023

Tímamót í baráttunni gegn riðuveiki

Tímamót eru í baráttunni gegn riðuveiki í sauðfé með nýrri nálgun stjórnvalda þa...

Birgðir kindakjöts aldrei minni
Fréttir 1. desember 2023

Birgðir kindakjöts aldrei minni

Birgðir kindakjöts í lok ágústmánaðar hafa aldrei verið minni en á þessu ári.

Samningaviðræðum við Miðfjarðarbændur ekki lokið
Fréttir 30. nóvember 2023

Samningaviðræðum við Miðfjarðarbændur ekki lokið

Í umræðum á Alþingi á mánudaginn um riðuveiki í sauðfé og bætur vegna niðurskurð...

Sala sýklalyfja dregst saman
Fréttir 30. nóvember 2023

Sala sýklalyfja dregst saman

Sala sýklalyfja fyrir búfé og eldisfiska í Evrópu dróst saman um 12,7% milli ára...

Stefnir í að tap verði 525 krónur á kílóið
Fréttir 30. nóvember 2023

Stefnir í að tap verði 525 krónur á kílóið

Í nýlegri skýrslu Ráðgjafar­miðstöðvar land­búnaðarins um rekstrarafkomu nautakj...

Kortlagning ræktunarlands
Fréttir 30. nóvember 2023

Kortlagning ræktunarlands

Gert er ráð fyrir að þings­ályktunar­tillaga um nýja lands­skipulagsstefnu til 1...

Fagstaðlaráð í umhverfis- og loftslagsmálum
Fréttir 27. nóvember 2023

Fagstaðlaráð í umhverfis- og loftslagsmálum

Nýtt fagstaðlaráð hefur verið stofnað undir hatti Staðlaráðs Íslands. Það verður...