Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 1 árs.
Borgar Páll Bragason, fagstjóri á rekstrar- og umhverfissviði Ráðgjafarmiðstöðvar landbúnaðarins.
Borgar Páll Bragason, fagstjóri á rekstrar- og umhverfissviði Ráðgjafarmiðstöðvar landbúnaðarins.
Í deiglunni 2. febrúar 2023

Bændur áhugasamir um jarðrækt og betri nýtingu áburðar

Höfundur: Sigurður Már Harðarson

Frá síðasta vori hefur á jarðræktarsviði Ráðgjafarmiðstöðvar landbúnaðarins (RML) verið unnið að verkefni sem miðar að bættri áburðarnýtingu í landbúnaði á Íslandi. Unnið er að verkefninu með stuðningi matvælaráðuneytisins í kjölfar tillagna spretthópsins frá því í júní á síðasta ári, vegna alvarlegrar stöðu í matvælaframleiðslu á Íslandi.

RML fékk þannig hlutdeild í jarðræktarstuðningi stjórnvalda í febrúar á síðasta ári vegna hækkunar áburðarverðs, um 50 milljónir úr 700 milljóna króna potti til að leita leiða um bætta nýtingu áburðar og möguleika á því að draga úr notkun á tilbúnum áburði. „Við gerðum samning við matvælaráðuneytið um bætta áburðarnýtingu í landbúnaði síðasta vor.

Sá samningur byggir fyrst og fremst á meiri þunga á jarðræktarráðgjöf í okkar starfi og með markmiðum um meiri gögn, til dæmis með hey- og jarðvegssýnum, til að byggja á allar áætlanir um bætta nýtingu áburðarefna,“ segir Borgar Páll Bragason, fagstjóri á rekstrar- og umhverfissviði Ráðgjafarmiðstöðvar landbúnaðarins.

Vegvísir um bætta nýtingu lífrænna efna

Borgar segir að í kjölfar undirritunar samningsins við ráðuneytið hafi þrír jarðræktarráðunautar verið ráðnir til starfa hjá RML, þau Elena Westerhoff, Baldur Örn Samúelsson og Sigurður Max Jónsson, sem bætast við reynslumikinn hóp sem er fyrir.

Teymið hafi farið í tvær umfangsmiklar hringferðir um landið með fræðslufundi um bætta nýtingu áburðar. Fyrst í apríl og svo aftur núna í nóvember.

„Samningurinn er til tveggja ára en skilar sér í raun til mun lengri tíma,“ segir hann.

„Við höfum einnig unnið talsvert í vegvísi um bætta nýtingu lífrænna efna sem er að fara í samráðsgátt stjórnvalda, undirbúið bændahóparáðgjöf í samstarfi við Anu Ellä, grasræktarráðgjafa hjá ProAgria í Finnlandi, og fyrstu tveir hóparnir byrja núna í febrúar. Þá hefur þátttakendum í Sprotanum fjölgað sem er ráðgjafarpakki hjá okkur í jarðrækt.“

Aukinn áhugi bænda á jarðrækt

„Það er greinilegur aukinn áhugi bænda á jarðrækt og að leita leiða við að nýta allan áburð sem best og þá ekki síst búfjáráburðinn,“ segir Borgar. „Það sýnir sig meðal annars í aukinni þátttöku í Sprotanum sem meðal annars innifelur sýnatöku og áburðaráætlun, en þeim fjölgaði um tíu á síðasta ári og þar eru núna um 70 þátttakendur.

Bændur eru duglegri við að efnagreina hjá sér bæði hey og jarðveg sem nýtist vel til að leiðbeina sem best um kölkun og áburðargjöf. Í sumum tilfellum sjáum við tækifæri í því að draga úr áburðargjöf en oft þarf að huga að endurræktun, kölkun, viðhaldi framræslu og tækjabúnaði við dreifingu. Mikið til snýst þetta um að finna leiðir með bændum sem geta gengið upp fjárhagslega, án þess þó að verið sé að spara til skaða.

Þátttaka bænda á fundunum í haust var almennt mjög góð. Við hvöttum áburðarsalana til að koma á fundina sem og þeir gerðu sem var mjög gott fyrir umræður eftir fyrirlestrana. Við höfum fengið mjög jákvæð viðbrögð frá bæði bændum og áburðarsölum eftir þessa fundi og við stefnum á að endurtaka leikinn að ári.“

Farvegurinn fyrir lífræna úrganginn

Að sögn Borgars verða stóru málin varðandi farveginn fyrir nýtingu á lífrænum efnum, til framleiðslu á lífrænum áburði, tekin til umfjöllunar í áðurnefndum vegvísi sem von er á fljótlega inn í samráðsgátt stjórnvalda.

„Þetta skýrist á næstu dögum, en RML hefur fyrst og fremst komið með faglegt innlegg í þessa vinnu sem hefur reynst mjög mikilvægt. Við höfum lagt áherslu á að lífræn efni sem eru auðnýtanleg sem áburðarefni í landbúnaði verði fyrst og fremst nýtt þar og hvatar verði þá frekar í þá átt að þau efni sem innihalda minni áburðarefni verði nýtt til landgræðslu.“

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, þáverandi umhverfis- og auðlindaráðherra, lagði árið 2021 fram stefnu sína í úrgangsmálum, Í átt að hringrásarhagkerfi“, fyrir árin 2021 til 2032. Nú starfar stýrihópur Guðlaugs Þórs Þórðarsonar umhverfis-, orku- og loftslag - ráðherra að því að vinna að framgangi stefnunnar. Borgar segir að þýðingarmikill hluti hennar sé að ná betri árangri við nýtingu á lífrænum efnum. Með lagabreytingu sem tók gildi um síðustu áramót er bannað að urða tiltekinn lífrænan úrgang, í þeim tilgangi að koma í veg fyrir myndun metans þegar úrgangurinn rotnar við urðunina, sem veldur skaðlegum loftslagsáhrifum.

Með því að minnka sóun lífrænna efna aukist möguleikarnir á nýtingu þeirra umtalsvert, sérstaklega til skemmri tíma í landgræðslu og til lengri tíma litið einnig í landbúnaði.

Mikilvægasta rými jarðar
Fréttaskýring 29. mars 2024

Mikilvægasta rými jarðar

Stærsta innlögn nýrra fræsafna í Alþjóðlegu fræhvelfinguna á Svalbarða átti sér ...

Umræða um geðheilsu bænda mikilvæg
Fréttaskýring 8. mars 2024

Umræða um geðheilsu bænda mikilvæg

Vísbendingar eru um að bændur séu líklegri til að þjást af einkennum streitu og ...

Framtíðarlandbúnaður á eftir að stökkbreytast
Fréttaskýring 23. febrúar 2024

Framtíðarlandbúnaður á eftir að stökkbreytast

Á komandi áratugum er líklegt að landbúnaður breytist verulega. Þættir eins og t...

Úrgangsmálin í ólestri
Fréttaskýring 9. febrúar 2024

Úrgangsmálin í ólestri

Í byrjun síðasta árs tóku gildi lög hér á landi þar sem bann er lagt við urðun á...

Bændur telja samningsstöðu sína gagnvart afurðastöðvum veika
Fréttaskýring 30. janúar 2024

Bændur telja samningsstöðu sína gagnvart afurðastöðvum veika

Aðstöðumunur kúabænda vegna mismunandi stuðnings við kvótakaup milli landsvæða h...

Auður, kvóti, mjólk og skuld
Fréttaskýring 26. janúar 2024

Auður, kvóti, mjólk og skuld

Þegar tiltekinn hópur bænda hefur tök á að eignast mjólkurkvóta með því að vera ...

Dýrmæt erfðaefni dreifast víða
Fréttaskýring 13. janúar 2024

Dýrmæt erfðaefni dreifast víða

Eyþór Einarsson, ráðunautur hjá Ráðgjafarmiðstöð landbúnaðarins (RML), segir að ...

Ræktunarland verður kortlagt
Fréttaskýring 8. desember 2023

Ræktunarland verður kortlagt

Gert er ráð fyrir að þingsályktunartillaga um nýja landsskipulagsstefnu til 15 á...