Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 8 ára.
Hver er tilgangur verðlagsnefndar búvara?
Leiðari 23. júlí 2015

Hver er tilgangur verðlagsnefndar búvara?

Höfundur: Sindri Sigurgeirsson

Mikil umræða skapaðist á dögunum um ákvörðun verðlagsnefndar búvara um að hækka verð á mjólk. Þekktir gagnrýnendur landbúnaðarkerfisins voru eins og vænta mátti fljótir að taka við sér. Misskilningur og rangfærslur runnu greiðlega og gagnrýnislaust í gegnum fjölmiðla og því ekki vanþörf á því að skýra nokkur atriði varðandi verðlagningu á mjólkurvörum.

Verðlagsnefnd búvara starfar á grunni búvöru­laga nr. 99/1993. Samtök launþega, BSRB og ASÍ eiga að tilnefna tvo fulltrúa í nefndina. Bændasamtökin og Landssamband kúabænda tilnefna tvo fulltrúa sameiginlega og Samtök afurðastöðva í mjólkuriðnaði tilnefna tvo fulltrúa. Ráðherra landbúnaðarmála tilnefnir einn fulltrúa í nefndina og er hann formaður hennar, með tvöfalt atkvæðavægi.

Þegar óskað var eftir tilnefningum í nefndina nú í vor ákváðu launþegasamtökin að tilnefna ekki fulltrúa. Skýrt er kveðið á um það í lögunum hvernig brugðist skuli við slíku enda hefur sú staða komið upp áður. Það varð úr að ráðherra vinnumarkaðarins, eða velferðarráðherra, tilnefndi þessa tvo fulltrúa.

Nefndin er svo skipuð: Fulltrúar velferðar­ráðuneytis eru Björg Bjarnadóttir, skrifstofustjóri Verkalýðsfélags Akraness, og Sverrir Björn Björnsson, formaður Landssambands slökkviliðs- og sjúkra­flutningamanna. Fulltrúar Bændasamtakanna eru Sindri Sigurgeirsson, formaður BÍ, og Sigurður Loftsson, formaður Landssambands kúabænda. Fulltrúar Samtaka afurðastöðva í mjólkuriðnaði eru Guðrún Sigurjónsdóttir kúabóndi og Jóhannes Ævar Jónsson, varaformaður SAM. Formaður nefndarinnar og fulltrúi atvinnuvegaráðuneytisins er Ólafur Friðriksson.

Starf verðlagsnefndar er skýrt afmarkað í búvörulögum

Það kann að vera að einhver haldi að starf nefndarinnar beri einkenni kaffiklúbbs sem dílar og vílar um mjólkurverð eftir geðþótta og dagsformi. Því fer fjarri. Starf nefndarinnar er skýrt afmarkað í áðurnefndum búvörulögum. Tvö megin vinnugögn eru til umræðu í nefndinni hverju sinni. Annars vegar verðlagsgrundvöllur kúabús og hins vegar samantekt kostnaðar við vinnslu og dreifingu mjólkur. Það sem hins vegar snýr hvað mest að bændum er verðlagsgrundvöllur kúabús.

Hagstofa Íslands sér um að uppreikna verðlagsgrundvöllinn ársfjórðungslega sem síðan er tekinn fyrir í verðlagsnefnd til afgreiðslu. Núverandi verðlagsgrundvöllur kúabús var tekinn í notkun í ársbyrjun 2001 og er því vissulega kominn til ára sinna. Grunnurinn byggir einfaldlega á kostnaðarsamsetningu á vel reknu kúabúi með 40 árskýr og 188.000 lítra framleiðslu. Með ítarlegri gagnaöflun og mælingum á vinnuframlagi var fundið út hvað slíkt kúabú þyrfti mikið af aðföngum eins og áburði, kjarnfóðri, rekstrarvörum og þjónustu. Einnig er tekið tillit til afskrifta og vaxtakostnaðar. Á grundvelli vinnumælinga reiknast svo það vinnuframlag sem inna þarf af hendi á slíku búi. Tekjur búsins taka, auk mjólkurframleiðslu, mið af áætlaðri kjötframleiðslu slíks bús og stuðningsgreiðslna.

Frá árinu 2001 hefur kostnaðarsamsetningu þessa grundvallarbús ekki verið breytt. Hagstofan mælir þær breytingar sem verða á öllum liðum á þriggja mánaða fresti, með nokkrum undantekningum eins og t.d. verð áburðar sem reiknast í júní ár hvert.  Verðlagsgrunnurinn er aðgengilegur á heimasíðu atvinnuvegaráðuneytisins ásamt fundargerðum nefndarinnar.

Þegar rýnt er í niðurstöðutölur verðlagsgrunnsins sést að í áranna rás hafa gjöldin aukist umfram tekjurnar, t.d. var í mars 2014 tapið á rekstri búsins orðið tæpar átta milljónir á ársgrundvelli. Eðlilega velta margir því fyrir sér hvernig þetta megi vera. Meginástæða fyrir þessum mun er að finna í eðli þess starfs sem unnið er í nefndinni. Þar þurfa menn að ná sátt um verðbreytingar til að þær verði að veruleika. Í gegnum tíðina hefur oft verið gengið skemur í hækkunum en útreikningar grundvallarins hafa sýnt til að ná sátt milli allra aðila í nefndinni.

Verðlagning á mjólkurvörum ekki óumdeild

Fulltrúar bænda í verðlagsnefnd hafa sjaldnast fengið klapp á bakið fyrir framgöngu sýna við verðákvarðanir í nefndinni. Kúabændur hér á landi hafa undanfarin misseri margir lagt í mikinn kostnað við að auka sína framleiðslu til að halda í við vaxandi eftirspurn eftir mjólkurvörum. Samfara því er framleiðsluskylda aukin. Það er því eðlilegt að sumir þeirra séu vonsviknir.

taðreyndin er hins vegar sú þegar mjólk var verðlögð 1. október 2013 þá hafði gjaldaliður verðlagsgrundvallar hækkað um 3,1% og afurðaverð til bænda hækkaði um sama hlutfall. Við ákvörðun um verðlagningu fyrir 1. ágúst nk. hafði gjaldaliður verðlagsgrundvallar hækkað um 1,77% og afurðaverð hækkaði um sama hlutfall.

Það er vissulega kominn tími til að endurskoða kostnaðarsamsetningu verðlagsgrunnsins. Miklar breytingar hafa orðið í kúabúskap hér á landi frá árinu 2001 og segja má að sá munur sem er á milli gjalda og tekna í grunninum endurspegli í raun þá hagræðingarkröfu sem verðlagsnefnd hefur gert á íslenska kúabændur. Enn fremur er eðlilegt nú þegar rætt verður um næstu búvörusamninga að skoða hvort skynsamlegt sé að gera einhverjar breytingar á verðlagningu mjólkur.

Hlutverk nefndarinnar er að tryggja hagsmuni allra í virðiskeðjunni

Í umræðunni hefur komið fram gagnrýni á hvernig verðlagningu mjólkur er háttað. En það gleymist í þeirri umræðu að þessi þáttur er aðeins einn af mörgum samhangandi þáttum sem mynda starfsskilyrði mjólkurframleiðslu og aðgengi neytenda að góðum mjólkurvörum á góðu verði. Hefur einhver velt því fyrir sér að verslunin fær mjólkina á sama verði inn á lager hjá sér hvort sem sú verslun er staðsett á Kópaskeri eða í Kópavogi?  Bændur um allt land borga sama flutningskostnað, óháð búsetu. Hlutverk nefndarinnar hefur verið að tryggja hagsmuni allra í virðiskeðjunni frá bónda til neytenda. Það hefur tekist.

Nýleg skýrsla Hagfræðistofnunar segir að raunverð á nýmjólk, rjóma, skyri, jógúrt, smjöri og osti hafi verið lægra árið 2013 en 2003. Lágmarksverð til bænda hefur jafnframt hækkað umfram almennt verðlag síðan 2003. Bæði neytendur og bændur hafa því haft ávinning af núverandi fyrirkomulagi.

Tilboðsmarkaður opinn
Fréttir 4. mars 2024

Tilboðsmarkaður opinn

Markaður fyrir greiðslumark mjólkur verður haldinn þann 1. apríl næstkomandi.

Ríkt af B12-vítamíni, fólati, kalíum og sinki
Fréttir 1. mars 2024

Ríkt af B12-vítamíni, fólati, kalíum og sinki

Samkvæmt niðurstöðum verkefnis sem nýlega var unnið hjá Matís, um nýtingu og nær...

Vaxtalækkun lána
Fréttir 1. mars 2024

Vaxtalækkun lána

Fram kom í frétt Bændablaðsins, 2. nóvember 2023, að stjórn Byggðastofnunar hefð...

Endurvinnslan er mest innanlands
Fréttir 29. febrúar 2024

Endurvinnslan er mest innanlands

Guðlaugur Gylfi Sverrisson, rekstrarstjóri Úrvinnslusjóðs, segir stjórn sjóðsins...

Háskóladagurinn á fjórum stöðum
Fréttir 29. febrúar 2024

Háskóladagurinn á fjórum stöðum

Háskóladagurinn verður haldinn í Reykjavík laugardaginn 2. mars.Þá gefst fólki k...

Rýnt í lagaumgjörð hvalveiða
Fréttir 29. febrúar 2024

Rýnt í lagaumgjörð hvalveiða

Forsætisráðherra hefur skipað starfshóp sem falið er að skoða lagaumgjörð hvalve...

Rækta má hundruð kílóa kjöts af einni stofnfrumu
Fréttir 28. febrúar 2024

Rækta má hundruð kílóa kjöts af einni stofnfrumu

Vistkjöt var boðið til smökkunar í Kópavoginum um miðjan mánuð, í fyrsta sinn í ...

Lambhagi notar „Íslenskt staðfest“
Fréttir 28. febrúar 2024

Lambhagi notar „Íslenskt staðfest“

Vigdís Häsler, framkvæmdastjóri Bændasamtaka Íslands, og Hafberg Þórisson, eigan...