Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en mánaðar gamalt.
Tryggvi Már Ingvarsson, framkvæmdastjóri fasteignasviðs Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar. Hann bendir á að stærðir jarða þurfi að liggja fyrir svo hægt sé að beita takmörkunum um hámarkseignarhald.
Tryggvi Már Ingvarsson, framkvæmdastjóri fasteignasviðs Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar. Hann bendir á að stærðir jarða þurfi að liggja fyrir svo hægt sé að beita takmörkunum um hámarkseignarhald.
Mynd / ghp
Fréttir 7. febrúar 2025

Hver á Ísland?

Höfundur: Guðrún Hulda Pálsdóttir

Húsnæðis- og mannvirkjastofnun stendur að átaksverkefni við að áætla eignarmörk jarða. Um helmingur af flatarmáli Íslands eru ókortlagðar jarðir.

Í vikunni munu þrjú til fjögur þúsund manns fá bréf á Ísland.is frá Húsnæðis- og mannvirkjastofnun (HMS). Þessir aðilar munu eiga það sameiginlegt að vera eigendur eða leigjendur jarða á Norðurlandi og Norðurlandi vestra, nánar tiltekið milli Hrútafjarðarár og Skjálfandafljóts.

„Fyrst og fremst erum við að reyna að svara þeirri spurningu hver eigi Ísland,“ segir Tryggvi Már Ingvarsson, framkvæmdastjóri fasteignasviðs HMS, sem leiðir átaksverkefni við áætlun eignamarka jarða. Tilgangur þess er að ná fram heildstæðri mynd af eignarhaldi fasteigna á Íslandi og gera afmarkanir aðgengilegar í kortaviðmóti landeignarskrár. HMS kynnti verkefnið á fundi miðvikudaginn 5. febrúar sl.

Á vef HMS má nú nálgast vefsjá landeigna. Á henni má sjá að yfir helmingur landsins er ókortlagður. Á þessu vilja stjórnvöld gera bragarbót. „Við höfum safnað saman opinberum upplýsingum á borð við landamerkjalýsingar, þinglýst gögn og örnefnalýsingar, auk þess að nýta nýjustu tækni í hágæðaloftmyndum, hæðarlíkönum til að staðsetja útmörk jarða,“ segir Tryggvi en út frá þeim heimildum hefur HMS nú áætlað eignamörk um 2.000 jarða.

Skilvirk leið til að kortleggja eignarhaldið

Þeir sem tengjast jörðunum, og fá bréf frá HMS, geta í framhaldi opnað vefsjá og séð áætlun HMS og þær forsendur sem liggja að baki ásamt athugasemdum þeirra sem unnið hafa að kortlagningunni. „Hlutaðeigendur geta svo haft samband við okkur, helst í gegnum athugasemdaform á Ísland.is ef það hefur eitthvað til málanna að leggja. Við gerum okkur fulla grein fyrir því að þarna gætu verið fullt af hlutum sem okkur hafa yfirsést,“ segir Tryggvi og nefnir sem dæmi að til gætu verið skjöl sem eru ekki í opinberum skjalasöfnum en ætti að taka mið af.

Áætlun á merkjum jarða er eigendum þeirra að kostnaðarlausu. Áætlunin hefur ekki áhrif á tilvist eða efni eignarréttinda jarðeigenda. Til þess þarf að færa inn fullnaðarskráningu og ráðast í hnitsetningu með gerð merkjalýsingar. „Einhvers staðar verðum við að byrja og það er að nota þau gögn sem liggja fyrir. Þegar við fáum svo ábendingar og gögn frá landeigendum þá bregðumst við við þeim og uppfærum kortið samkvæmt því. Með þessu erum við að reyna að draga fram með eins skilvirkum hætti kortlagningu eignarhalds á Íslandi.“

Ný leið sáttarmeðferðar

Ætlunin er ekki að leysa ágreining sem kann að vera til staðar. „Ef upp kemur að ólík sjónarmið séu um legu eignarmarka milli tveggja jarða þá er okkar markmið að draga fram ágreininginn og birta hann, en ekki að skera úr um hann,“ segir Tryggvi.

Þeir landeigendur sem vilja fullnaðarskrá eign sína með hnitsetningu og merkjalýsingu geta farið þá leið og fellur kostnaður við það á eiganda. Sé uppi ágreiningur milli tveggja landeigenda um eignarmörk er nú hægt að fara í sáttameðferð hjá sýslumanni.

„Þar geta landeigendur lagt fram rök sín og kröfur og sýslumaður getur komið með miðlunartillögu. Ef landeigendur sættast ekki þar þá geta þeir leitað til dómstóla, sem getur þá tekið afstöðu til deilumálsins.“ Með þessu sé verið að reyna að gera ferla skilvirkari öllum til velfarnaðar.

Ótvírætt gildi fyrir bændur

Tryggvi vonast til þess að landeigendur taki þessu verkefni með jákvæðum hug enda sé slík kortlagning mikilvæg, bæði fyrir ríkið og landeigendur.

„Þetta hefur heilmikið gildi fyrir landeigendur. Betri upplýsingar um afmörkun eigna og samspil þeirra við skipulag ætti að auðvelda fjármögnun verkefna fyrir landeigendur og bændur. Slíkt gæti bætt gæðastýringu í ræktun og ræktaráætlanir og styrki og bætur þeim tengdum, s.s. tryggingabætur og styrki fyrir skóga, tún og endurheimt votlendis. Einnig styrkir kortlagning markað með land og að nýting lands sé í samræmi við skipulagsáætlanir sveitarfélaga,“ segir Tryggvi sem dæmi.

Trausti Hjálmarsson, formaður Bændasamtaka Íslands, segir verkefni HMS gott innlegg í átt að verndun landbúnaðarlands.

„Það má segja að bændur geti ekki annað en fagnað því að það sé verið að áætla eignamörk jarða á Íslandi. Það er mikilvægt að ná yfirsýn yfir eignarhald lands hér á landi.

Það liggur jafnframt fyrir að það er nauðsynlegt fyrir okkur sem þjóð að skipuleggja land betur og verja og varðveita landbúnaðarland. Áætlun eignamarka jarða er þar gott fyrsta skref.“

Hámarkseignarhald í jarðalögum

Skýr kortlagning lands og landeignaskrá er einnig nauðsynleg fyrir stjórnsýslu og nefnir Tryggvi sem dæmi stefnumörkun um eignarhald lands og skipulag landnýtingar.

Árið 2020 var sett í jarðalög að samþykki ráðherra þurfi að liggja fyrir ráðstöfun eigna þar sem kaupandi á fyrir fasteignir sem eru samanlagt yfir 1.500 hektara að stærð. Einnig var því bætt í jarðalög að ráðherra skuli almennt ekki veita samþykki fyrir ráðstöfun jarðar ef viðtakandi (kaupandi) á fyrir eignir sem eru samanlagt 10.000 hektarar eða meira að stærð.

Tryggvi bendir á að stærð jarða þurfi að liggja fyrir svo hægt sé að beita þessum takmörkunum.

„Til að ná utan um eignarrétt á landi þá þarftu alltaf að vita afmörkun á fasteigninni, til að vita hvað hún er stór. Þá þarftu einnig að geta rakið eignarhaldið til einstaklings, raunverulegs eiganda. Þessar upplýsingar þurfa að liggja fyrir ef ráðherra ætlar að setja þessar takmarkanir.“

Helmingur landsins ókortlagður

Þjóðlendur Íslands eru um 200 talsins og munu þær fullfrágengnar þekja tæplega 40 prósent af heildarflatarmáli Íslands. Flatarmál allra lóða á Íslandi, sem eru um 107.000 talsins og eru aðallega í þéttbýli, telja um 2,5–5 prósent af heildarflatarmálinu.

Það sem eftir er, meira en helmingur af heildarflatarmáli landsins, eru 7.828 jarðir í eigu 14.214 aðila. HMS hefur áætlað að flatarmál þeirra sé í kringum 56 þúsund ferkílómetrar en afmörkun þeirra er víðast hvar ókortlögð.

Rekstrarfélag um lífgas- og áburðarver
Fréttir 26. mars 2025

Rekstrarfélag um lífgas- og áburðarver

Í byrjun mars var rekstrarfélag stofnað utan um starfsemi á lífgas- og áburðarve...

Ætlunin að jafna leikinn
Fréttir 25. mars 2025

Ætlunin að jafna leikinn

Markmið nýs jarðhitaátaks er að jafna leikinn á milli þeirra 90% landsmanna sem ...

Heimafólk lítt hrifið af áformum Zephyr
Fréttir 25. mars 2025

Heimafólk lítt hrifið af áformum Zephyr

Matsáætlun um vindorkuver á Þorvaldsstöðum í Borgarbyggð er nú í skipulagsgátt. ...

Jóhannes nýr bústjóri
Fréttir 24. mars 2025

Jóhannes nýr bústjóri

Jóhannes Kristjánsson hefur verið ráðinn bústjóri Hvanneyrarbúsins.

Umfang útiræktunar dregst saman
Fréttir 21. mars 2025

Umfang útiræktunar dregst saman

Matvælaráðuneytið hefur afgreitt jarðræktarstyrki til garðyrkjubænda vegna útiræ...

Fleiri svínum slátrað
Fréttir 21. mars 2025

Fleiri svínum slátrað

Mikil aukning var í svínaslátrun hjá Sláturfélagi Suðurlands árið 2024 en mismik...

Bændablað úr frjóum jarðvegi
Fréttir 21. mars 2025

Bændablað úr frjóum jarðvegi

Áskell Þórisson, blaðamaður og ljósmyndari, varð fyrsti ritstjóri Bændablaðsins ...

Eignast allt Lífland
Fréttir 21. mars 2025

Eignast allt Lífland

Þórir Haraldsson hefur skrifað undir kaup á 50 prósenta hlut í Líflandi ehf. af ...