Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 9 ára.
Hvað er búnaðargjald og í hvað er það notað?
Á faglegum nótum 19. maí 2015

Hvað er búnaðargjald og í hvað er það notað?

Höfundur: Vilmundur Hansen

Talsverð umræða hefur verið um búnaðargjald undanfarin misseri og hvort innheimta þess sé lögleg og ef svo er í hvað gjaldið fari. Í lögum um búnaðargjald (nr. 84/1997) segir að innheimta skuli sérstakt búnaðargjald af búvöruframleiðendum, sem nemur 1,2%, af gjaldstofni. 

Gjaldið telst skattur og innheimta þess lýtur sömu lögmálum og innheimta annarra skatta, þó að það renni allt aftur til baka til starfsemi í landbúnaði.

Gjaldstofn búnaðargjalds er velta búvöru og tengdrar þjónustu hjá búvöruframleiðendum. Gjaldið er lagt á alla starfsemi sem flokkast undir ÍSAT atvinnugreinanúmer Hagstofunnar sem byrja á 01 eða 02, með örfáum undantekningum (ÍSAT nr. 01.61 eða hærri og 02.40).  Framleiðendum sem eru bæði með búnaðargjaldsskylda starfsemi og aðra sem ekki er gjaldskyld, ber að halda þeim aðskildum í bókhaldi sínu.

Leysti eldri gjöld af hólmi

Gjaldið var upphaflega tekið upp 1997 og leysti þá af hólmi nokkur eldri sjóðagjöld sem landbúnaðurinn greiddi til að fjármagna sameiginleg verkefni.

Í upphafi var gjaldið 2,65% en þá runnu hlutar þess til Framleiðsluráðs landbúnaðarins og  Lánasjóðs landbúnaðarins. Framleiðsluráð var lagt niður í árslok 1999 og samhliða lækkaði gjaldið, fyrst í 2,55% og síðan í 2%. Ríkið seldi Landsbankanum Lánasjóð landbúnaðarins árið 2005 og sjóðurinn var í kjölfarið sameinaður bankanum, sem þá var í eigu einkaaðila. Samhliða þeim breytingum lækkaði gjaldið í 1,2% og hefur verið óbreytt síðan.

Gjaldið er rekstrarkostnaður

Búnaðargjald er rekstrarkostnaður og frádráttarbært frá tekjum þess árs sem það reiknast af. Búnaðargjald er innheimt fyrirfram og tekur fyrirframgreiðslan mið af álagningu fyrra árs og greiðist með fimm jöfnum mánaðarlegum greiðslum mánuðina ágúst til desember á viðkomandi tekjuári. Ef álagning er hærri en ákvörðuð fyrirframgreiðsla skal greiða mismuninn með sem næst jöfnum greiðslum samhliða innheimtu annarra skatta.

Álagning búnaðargjalds fer fram um leið og álagning annarra opinberra gjalda og kemur til innheimtu um leið og þau. Gjaldskyldir búvöruframleiðendur skulu skila framtali til ríkisskattstjóra þar sem gjaldskyldar fjárhæðir eru sundurliðaðar eftir búgreinum og jafnframt búvöruframleiðandi sundurgreina gjaldstofn eftir starfsstöðvum ef aðsetur þeirra er annað en lögheimili framleiðanda og á starfssvæði annars búnaðarsambands. Þetta er nauðsynlegt til að skipting gjaldsins gangi upp en það rennur bæði til félaga sem starfa á landsvísu, eftir búgreinum og eftir svæðum.

Greiðendur búnaðargjalds 3.156

Árið 2014 greiddu bændur alls 516,7 milljónir króna í búnaðargjald. Samkvæmt því var gjaldskyld velta 43,1 milljarður króna. Greiðendur voru alls 3.156.  Þessir fjármunir renna til Bændasamtakanna, búgreinafélaga, búnaðarsambanda og Bjargráðasjóðs, samkvæmt ákveðnum hlutföllum sem ráðast af því um hvaða búgrein er að ræða.

Bæði Bændasamtökin og búnaðarsamböndin láta hinsvegar talsverðan hluta af sínum skerf renna beint til Ráðgjafarmiðstöðvar landbúnaðarins (RML), sem sinnir ráðgjafastarfi í landbúnaði en því starfi var áður skipt á milli Bændasamtakanna og búnaðar­sambandanna.

Af framangreindum 516,7 milljónum króna runnu því 180,6 til RML í fyrra, 150,4 milljónir skiptust milli búgreinafélaganna ellefu, 102,6 milljónir runnu síðan til Bændasamtakanna, 50,5 milljónir til Bjargráðasjóðs og 32,6 milljónir samtals til búnaðarsambandanna, sem einnig eru ellefu.

Fjármunirnir til Ráðgjafar­miðstöðvarinnar eru nýttir til fræðslustarfs, menntunar- og kynningarmála og til að greiða niður þjónustu fyrirtækisins. Starfsemi RML er um allt landi og er þjónustan í boði fyrir allar bændur óháð búsetu, búnaðargjald nýtist til jöfnunar á þeim kostnaði.  Þeir viðskiptavinir RML sem greiða búnaðargjald fá 50% afslátt af tímagjaldi fyrirtækisins.

Greiðslur í bjargráðasjóð mismunandi eftir búgreinum

Mjög mismunandi er eftir búgreinum hvað hátt hlutfall búnaðargjaldsins rennur til Bjargráðasjóðs. Loðdýra- og skógarbændur greiða ekkert til sjóðsins og ekki heldur grænmetis- eða blómaframleiðendur. Aðrar búgreinar greiða 5 til 30 punkta, en alifuglabændur skera sig úr á hinum endanum því þeir greiða 75 punkta.  Með punktafjölda er miðað við að gjaldið í heild sé 120 punktar (1,2%).  Búgrein sem greiðir 30 punkta til Bjargráðasjóðs er því að láta fjórðung tekna af gjaldinu renna til sjóðsins. Bjargráðasjóður notar tekjurnar til að fjármagna bótagreiðslur úr B-deild sjóðsins. Sjóðurinn veitir ekki tryggingavernd heldur ráðast bótagreiðslur til einstakra búgreina alfarið af fjárhagslegu svigrúm í „potti“ hverrar búgreinar á hverjum tíma. Heildartekjur sjóðsins af búnaðargjaldi voru 50,5 milljónir árið 2014 eins og að framan greinir.

Það á sameiginlega við búgreinafélögin, Bændasamtökin og búnaðarsamböndin að þau hafa litið á tekjur sínar af búnaðargjaldi sem félagsgjöld og þau eru nýtt til þess að fjármagna almenna starfsemi samtakanna svo sem hagsmunagæslu, skrifstofuhald, laun starfsmanna kynningarstarf, aðalfundi og önnur verkefni.  Áherslur  eru mótaðar af félagsmönnum hvers félags fyrir sig og ráðast mjög af þeim málum sem brenna á þeim á hverjum tíma.

Misjafnt er eftir búgreinum hvað mikið þær greiða til sinna búgreinafélaga.  Sauðfjárræktin greiðir minnstan hluta, eða 15 punkta, en mest greiðir eggja-, grænmetis- og blómaframleiðsla eða 75 punkta. Aðrir raða sér þar á milli Búgreinafélögin fengu samtals 150,4 milljónir í fyrra í tekjur af búnaðargjaldi.  Landssamband kúabænda fékk þar stærstan hlut eða 58,4 milljónir, í krafti mikillar veltu í þeirri grein og næst kom Samband garðyrkjubænda með 27,3 milljónir og þar á eftir Landssamtök sauðfjárbænda með 15,3 milljónir, en aðrir minna.

Til Bændasamtakanna renna á bilinu 15 til 40 punktar frá hverri búgrein.  Minnstur hluti eða 15 punktar kemur frá svína-, alifugla- og eggjaframleiðslu en 40 punktar koma frá loðdýra-, sauðfjár-, hrossa- og æðarrækt. Heildartekjur BÍ af búnaðargjaldi voru 102,6 miljónir árið 2014 eins og að framan greinir. Þá er búið að draga frá þau 31% af tekjunum sem renna til RML.

Síðan skiptast 32,6 milljónir á milli búnaðarsambandanna. Hlutur búgreinanna er sem fyrr ólíkur. Nautgripa-, sauðfjár- og hrossarækt greiða 40 punkta, en allar aðrar búgreinar greiða 10 punkta.  Stærsti hlutinn rennur til Búnaðarsambands Suðurlands eða 10,5 milljónir. Næst kemur Búnaðarsamband Eyjafjarðar með 4,2 milljónir og þá Búnaðarsamtök Vesturlands með 4,1 milljón.  Árétta verður að búnaðarsamböndin láta 80% af búnaðargjaldstekjum sínum renna til RML en tölurnar hér að framan miðast við þá fjármuni sem renna beint til þeirra.

Lögmæti búnaðargjalds skoðað

Árið 2010 kvað Mannréttinda­dómstóll Evrópu upp dóm um að innheimta iðnaðarmálagjalds, sem var af svipuðum toga og búnaðargjaldið, stæðust ekki ákvæði um félagafrelsi Mannréttindasáttmála Evrópu. Innheimtu iðnaðarmálagjaldsins var hætt skömmu síðar, en það hafði að hluta runnið til Samtaka iðnaðarins á svipaðan hátt og búnaðargjaldstekjur renna til samtaka bænda.

Mikil líkindi eru með innheimtu búnaðargjalds og iðnaðarmálagjalds og vegna þess fóru Bændasamtökin þess á leit við Lagastofnun Háskóla Íslands að hún tæki að sér að gera lögfræðilega álitsgerð um búnaðargjald. Sigurður Líndal skilaði álitsgerð sinni fyrir hönd. Lagastofnunar Íslands í október 2011. Að mati Bændasamtakanna var niðurstaða álitsgerðarinnar sú að tekjum af búnaðargjaldi mætti verja til þekkingar- og þróunarstarfs í landbúnaði, til dæmis með rekstri Ráðgjafarmiðstöðvar landbúnaðarins, upplýsinga- og kynningarstarfs sem og reksturs Bjargráðasjóðs. En verulegur vafi léki á því að nota mætti tekjurnar til reksturs hagsmunagæslu. Segja má að innheimta gjaldsins hafi verið í nokkurri óvissu síðan þá. Stjórnvöld hafa boðað að innheimtunni verði hætt, en ekkert liggur fyrir um tímasetningu þess eða hvernig það verður útfært það er hvort innheimtan falli alfarið niður eða haldi áfram til þeirra verkefna sem fullvíst er talið að standist lög. Búnaðarþing 2015 markaði þá stefnu að halda ætti áfram innheimtu til slíkra verkefna, en ekki fella gjaldið niður í heild.

Nýrra leiða leitað

Meðal samþykkta sem gerðar voru á síðastliðnu Búnaðarþingi var að leita nýrra leiða til að fjármagna Bændasamtök Íslands fari svo að búnaðargjald verði lagt niður.

Sú stefna var mörkuð hvað varðar Bændasamtökin að þegar og ef tekna af búnaðargjaldi nýtur ekki lengur við skuli fjármagna samtökin með 0,3%  veltutengdu félagsgjaldi. Sú stefna nær bara til BÍ en ekki búnaðarsambanda eða búgreinafélaga, sem ætlað er að móta eigin áherslur um málið eftir því sem félögin sjálf telja ákjósanlegast.

Skylt efni: Búnaðargjald | land

Ráðuneytið svarar ESA um óvissuatriði
Fréttir 15. júlí 2024

Ráðuneytið svarar ESA um óvissuatriði

Matvælaráðuneytið segir í svari við fyrirspurn ESA, Eftirlitsstofnun EFTA, að sa...

Farsæll áhugaræktandi
Fréttir 15. júlí 2024

Farsæll áhugaræktandi

Þrír synir undan heiðursverðlaunahryssunni Álöfu frá Ketilsstöðum komu fram á La...

Hundrað hesta setningarathöfn
Fréttir 12. júlí 2024

Hundrað hesta setningarathöfn

Setningarathöfn Landsmóts hestasmanna er alla jafna hátíðleg.

Til þess var leikurinn gerður
Fréttir 11. júlí 2024

Til þess var leikurinn gerður

Stjórn Búsældar hefur fyrir sitt leyti samþykkt söluna á Kjarnafæði Norðlenska t...

Skammur aðdragandi að sölunni
Fréttir 11. júlí 2024

Skammur aðdragandi að sölunni

Bræðurnir Eiður og Hreinn Gunnlaugssynir hafa sem áður segir samþykkt kauptilboð...

Kaup Skagfirðinga á Kjarnafæði Norðlenska
Fréttir 11. júlí 2024

Kaup Skagfirðinga á Kjarnafæði Norðlenska

Meginmarkmið kaupa Kaupfélags Skagfirðinga (KS) á Kjarnafæði Norðlenska (KN) er ...

Tilþrif á Landsmóti
Fréttir 11. júlí 2024

Tilþrif á Landsmóti

Enginn skortur var á glæsilegum tilþrifum stólpafáka sem komu fram í gæðingakepp...

Verður langstærsta kjötafurðastöð landsins
Fréttir 11. júlí 2024

Verður langstærsta kjötafurðastöð landsins

Kaupfélag Skagfirðinga (KS) hefur gert kauptilboð í allt hlutafé Kjarnafæðis Nor...