Hundasoglús finnst á ref í fyrsta sinn
Svokölluð hundasoglús hefur í fyrsta sinn fundist í feldi refs hér á landi.
Í lok mars bárust Náttúrustofu Austurlands sýni úr ref sem skotinn var í Skagafirði í febrúar 2025. Tilkynnandi var Reimar Ásgeirsson, uppstoppari á Egilsstöðum, en hann hafði veitt því athygli að feldur dýrsins virtist nokkuð appelsínugulur á kviði. Við nánari skoðun kom í ljós að feldurinn var alsettur smávöxnum skordýrum, bæði fullorðnum og ungviði sem virtust loða við hár dýrsins.
Ekki fundist áður í refum
Linognathus setosus er soglús sem finnst stöku sinnum á hundum (sérstaklega hjá langhærðum kynjum) og villtum hundum um allan heim. Hún veldur lítilli ertingu nema í miklum sýkingum, þar sem lúsin getur valdið blóðleysi. Hún er ekki mjög skaðleg heilsu dýra.
Lúsin er ekki talin berast í menn. Sagði í tilkynningu á vef Náttúrustofunnar um miðjan apríl að starfsmaður Náttúrustofunnar hefði myndað dýrin undir smásjá og eftir samtal við Karl Skírnisson, dýrafræðing á Keldum, talið líklegast að um væri að ræða Linognathus setosus sem sé mjög sjaldgæf hérlendis og hafi ekki áður fundist í refum á Íslandi svo vitað sé.
Aukin tíðni soglúsasmita
Sýni voru í kjölfarið send á Tilraunastöð Háskóla Íslands í meinafræði að Keldum, til frekari rannsókna. Greint er frá því að í samtali starfsmanns náttúrustofunnar við Guðnýju Rut Pálsdóttur, sníkjudýrasérfræðing á Keldum, hafi hún sagt frá nýlegri grein þar sem m.a. er lýst aukinni tíðni soglúsamita eftir 2019, bæði í refum í Kanada og á Svalbarða. Einnig eru þar leiddar að því líkur að þær soglýs sem fundust á refum séu það frábrugðnar hundasoglús, bæði erfðafræðilega og útlitslega, að þær geti tilheyrt annarri tegund.