Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 3 ára.
Horft yfir að Hrafnagili í Eyjafjarðarsveit.
Horft yfir að Hrafnagili í Eyjafjarðarsveit.
Mynd / HKr.
Fréttir 27. október 2020

Hugsanleg sameining rædd í Svalbarðsstrandarhreppi og Eyjafjarðarsveit

Höfundur: Margrét Þóra Þórsdóttir

Fulltrúar sveitarstjórna tveggja sveitarfélaga í Eyjafirði, Eyjafjarðarsveitar og Svalbarðsstrandarhrepps hittust í september og báru saman bækur sínar varðandi hugsanlega sameiningu.

„Þetta er í raun upphafið að langri vegferð þar sem ekkert er ákveðið um útkomuna. Sveitarstjórn er því að huga að framtíðarhagsmunum íbúa og fyrirtækja á svæðinu, hvernig hægt sé að tryggja og efla svæðið, segir Björg Erlingsdóttir, sveitarstjóri í Svalbarðsstrandarhreppi.  

Skólar og aðrar starfsstöðvar sveitarfélaganna voru heimsótt, farið var yfir fjárhagslega stöðu þeirra og það umfangsmikla verkefni sem sameining sveitarfélaga er. Björg segir fundinn hafa verið upplýsandi fyrir þátttakendur og verið fyrsta skrefið í kortlagningu þeirra möguleika sem hægt er að skapa með auknu samstarfi eða sameiningu. Hún nefnir að næstu skref í málinu verði að bjóða sveitarstjórnum Hörgársveitar og Grýtubakkahrepps til fundar á sömu forsendum. „Það er mikilvægt að eiga samtalið hvort sem það leiðir til formlegra viðræðna síðar meir, aukins samstarfs, þátttöku fleiri sveitarfélaga eða að fyrirkomulagið verði áfram óbreytt, segir Björg en sveitarfélögin eiga nú þegar í þó nokkru samstarfi um ýmis mál.

Yrði þriðja stærsta sveitarfélagið

Sveitarstjórn Svalbarðsstrandarhrepps stóð fyrir íbúaþingi í byrjun árs þar sem velt var upp spurningum um hugmyndir íbúa um sameiningu sveitarfélaga, tækifæri og ógnanir. „Það var rætt um hvað við  viljum fá út úr sameiningu og hvaða þjónustu við viljum ef til hennar kæmi, segir Björg, en verði af sameiningu fjögurrra sveitarfélaga í nágrenni Akureyrar yrði þar um að ræða sveitarfélag með um 2.500 íbúa sem yrði þriðja stærsta sveitarfélagið á Norðurlandi eystra.

Fjöldinn ekki afgerandi þáttur

Bendir Björg á að ráðgert sé að lágmarksíbúafjöldi sveitarfélaga verði eitt þúsund íbúar árið 2026 og gert ráð fyrir að sameiningar verði lögbundnar samkvæmt nýrri þingsályktunartillögu samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra. Sveitarstjórn Svalbarðsstrandarhrepps hafi lýst sig andsnúna lögbundinni sameiningu þar sem miðað verði við íbúafjölda. Hún segir að á sama tíma hafi sveitarstjórn Svalbarðsstrandarhrepps velt fyrir sér sameininga- og eða samstarfsforsendum út frá því hvernig megi styrkja sveitarfélagið og efla þjónustu við íbúa frekar en að fylla 1.000 íbúa markið.

„Það er í raun viðmiðið sem á að hafa í huga við sameiningu sveitarfélaga, hvernig hægt sé að efla þjónustu og lífsgæði íbúa. Fjöldinn er ekki afgerandi þáttur í þeirri jöfnu, fjarlægðir milli staða, landfræðilegar stærðir sveitarfélaga, aldursdreifing íbúa, atvinnutækifæri og atvinnuuppbygging, þjónusta sveitarfélaga og nálægð við aðra þjónustukjarna skipta hér mestu,“ segir Björg. Hún segir Svalbarðsstrandarhrepp standa vel þrátt fyrir að íbúar séu innan þessara marka um íbúafjölda en þar skipti miklu samstarf milli sveitarfélaga og sterkur þjónustukjarni sem er innan seilingar og þjónusta er keypt af.

Greinum styrkleika og tækifæri

„Sveitarstjórn Svalbarðsstrandarhrepps ákvað því að hefja samræður við nágrannasveitarfélögin Eyjafjarðarsveit, Grýtubakkahrepp og Hörgársveit með það verkefni í farteskinu að greina hvar styrkleikar okkar og tækifæri liggja, hvort aukið samstarf sé leiðin eða sameining og þá sameining hverra. Markmiðið er að efla sveitarfélagið og krafta þess til framkvæmda og þá er mikilvægt að kortleggja núverandi stöðu um leið og sú kortlagning gefur okkur tækifæri til þess að skoða ólíkar sviðsmyndir,“ segir Björg. 

Skoða alla möguleika með opnum huga

Þröstur Friðfinnsson, sveitarstjóri í Grýtubakkahreppi, segir málið ekki hafa verið rætt núna.

„Ef svo fer að við verðum þvinguð í sameiningu verða allir möguleikar skoðaðir með opnum huga, en ég tel ólíklegt að farið verði í sameiningarviðræður við óbreyttar aðstæður,“ segir hann og bætir við að Grýtubakkahreppur eigi gott samstarf við þessi sveitarfélög og málin séu rædd reglulega. 

Björg Erlingsdóttir, sveitarstjóri í Svalbarðsstrandarhreppi.

Rækta má hundruð kílóa kjöts af einni stofnfrumu
Fréttir 28. febrúar 2024

Rækta má hundruð kílóa kjöts af einni stofnfrumu

Vistkjöt var boðið til smökkunar í Kópavoginum um miðjan mánuð, í fyrsta sinn í ...

Lambhagi notar „Íslenskt staðfest“
Fréttir 28. febrúar 2024

Lambhagi notar „Íslenskt staðfest“

Vigdís Häsler, framkvæmdastjóri Bændasamtaka Íslands, og Hafberg Þórisson, eigan...

Samræmt söfnunarkerfi
Fréttir 27. febrúar 2024

Samræmt söfnunarkerfi

Vinna á tillögu um útfærslu fyrir samræmt söfnunarkerfi dýraleifa á landsvísu se...

Áhyggjur af myglu, tollum og garðyrkjunámi
Fréttir 27. febrúar 2024

Áhyggjur af myglu, tollum og garðyrkjunámi

Deildarfundur garðyrkjubænda innan Bændasamtaka Íslands var haldinn 12. febrúar ...

Fjölbreytt verkefni
Fréttir 27. febrúar 2024

Fjölbreytt verkefni

Margþættar umræður sköpuðust á deildarfundi hrossabænda. Stofnverndarsjóður, hro...

Hugað að nýrri afurðastöð
Fréttir 27. febrúar 2024

Hugað að nýrri afurðastöð

Sláturfélag Suðurlands (SS) undirbýr nú uppbyggingu á nýrri afurðastöð fyrirtæki...

Ákall um meiri stuðning
Fréttir 27. febrúar 2024

Ákall um meiri stuðning

Deildarfundur geitfjárbænda innan Bændasamtaka Íslands var haldinn 12. febrúar. ...

Óberon besta nautið
Fréttir 26. febrúar 2024

Óberon besta nautið

Óberon 17046 frá Skeiðháholti 1 á Skeiðum hlaut nafnbótina besta naut fætt árið ...