Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 8 ára.
Sigríður Ólöf og Karl Már eru að koma sér fyrir á nýrri skrifstofu Anitar í Borgartúni. Fram undan er mikil vinna við áframhaldandi þróun smáforritsins og framleiðslu á örmerkjalesurum fyrir snjallsíma. Þau munu kynna uppfært forrit á Landsmóti hestamanna
Sigríður Ólöf og Karl Már eru að koma sér fyrir á nýrri skrifstofu Anitar í Borgartúni. Fram undan er mikil vinna við áframhaldandi þróun smáforritsins og framleiðslu á örmerkjalesurum fyrir snjallsíma. Þau munu kynna uppfært forrit á Landsmóti hestamanna
Mynd / GHP
Fréttir 7. mars 2016

Hugmynd sem kviknaði í hrossahaga

Höfundur: Guðrún Hulda Pálsdóttir
Smáforrit sem les örmerki hrossa og heldur utan um skráningar hefur litið dagsins ljós. 
Hugmynd sem kviknaði úti í haga hefur nú fengið byr undir báða vængi því fjármögnun hennar var tryggð nýverið. Bændablaðið kíkti í heimsókn til Anitar ehf.
 
Anitar ehf. er hugbúnaðar- og tæknifyrirtæki á sviði landbúnaðarlausna. ANITAR, sem stendur fyrir Animal Intelligent Tag Reader, er smáforrit og örmerkjalesari sem einfalda lestur, skráningar og utanumhald húsdýra með lestri örmerkja þeirra. Um er að ræða hugbúnaðar- og tæknilausn fyrir landbúnaðinn sem og hinn almenna notanda. Með Anitar smáforritinu verður hægt að sjá allar helstu upplýsingar um dýrið í símanum, strax eftir lestur á örmerki. Örmerkjalesarinn sendir örmerkjanúmerið í appið og flettir því upp í þeim gagnagrunni sem notandi velur. 
 
Auðveldar hestamönnum lífið
 
Hugmyndin fæddist haustið 2014 þegar Karl Már Lárusson var staddur úti í haga að sækja hross og sá þar tvo aðra í sömu erindagjörðum. 
 
„Þeir áttu í vandræðum með að þekkja eigin hross úr hópnum. Þeir notuðust við góðan örmerkjalesara en þurftu þrátt fyrir það að keyra heim að bæ til að fletta upp örmerkinu í gagnagrunni íslenska hestsins, WorldFeng. Eftir að hafa séð þá gera þetta nokkrum sinnum hugsaði ég með mér að það hlyti að vera hægt að gera þetta á einfaldari máta, þ.e. með örmerkjalesara sem myndi sækja upplýsingar beint í WorldFeng. Þegar heim var komið hóf ég leit að þannig lausn án árangurs. Í framhaldi af því kynnti ég fyrir öðrum hestaeigendum hugmyndina að beinum samskiptum milli örmerkjalesara og gagnagrunns. Hestaeigendurnir tóku mjög vel í þessa hugmynd og vildu sjá hana framkvæmda,“ segir Karl Már, sem setti að því búnu saman teymi sem vann að frumþróun hugmyndarinnar. Vinnuhópurinn samanstóð af Jóni Inga Stefánssyni, Níelsi Bjarnasyni og Sigríði ÓlöfuValdimarsdóttur ásamt Karli Má.
 
Uppfæra forritið fyrir Landsmót
 
Forritið, sem nú er aðgengilegt fyrir iOS og Android síma, býður upp á einfalda leit með örkmerjanúmeri, eða FEIF-auðkenni hestsins. Forritið flettir upp hrossinu í WorldFeng. 
 
„Anitar-appið getur komið að góðum notum og verið mjög skemmtilegt á hestamótum. Þá er mjög hentugt að geta flett upp nánari upplýsingum um þau hross sem eru á vellinum hverju sinni. Einnig höfum við séð lausnina virka vel hjá umsjónarmönnum hagagöngu, þeir geta þá sannreynt hvaða hross séu að koma eða fara úr hólfunum,“ segir Karl Már en fyrir Landsmót hestamanna á Hólum í sumar er áætlað að gefa út uppfært forrit með fleiri leitarniðurstöðum, svo sem með einkunnum og afkvæmum. Þá verður einnig hægt að leita eftir nafni hestsins.
 
Styrkur tryggir framtíðina
 
Í lok árs 2015 hlaut Anitar stærsta verkefnastyrk sem Tækni­þróunarsjóður RANNÍS býður upp á og er þróun og starfsemi fyrirtækisins því tryggð næstu þrjú árin. 
 
„Það kom okkur skemmtilega á óvart að hljóta verkefnastyrkinn enda mikil samkeppni um styrkinn meðal annarra frumkvöðla, stofnana og stærri fyrirtækja. Þá þykir afar sjaldgæft að hljóta verkefnastyrk Tækniþróunarsjóðs í fyrstu tilraun. Styrkurinn kemur sér virkilega vel fyrir okkur og gerir okkur kleift að þróa vörur okkar hraðar og koma þeim þannig fyrr til neytenda. Eins mun styrkurinn nýtast okkur til að sækja sýningar á erlendum vettvangi þar sem við getum sótt okkur frekari þekkingar á sviði örmerkinga,“ segir Karl Már en auk Tækniþróunarsjóðs nýtur Anitar góðs af samstarfi við KPMG, Bændasamtökin og Háskóla Íslands.
 
Nýr örmerkjalesari í bígerð
 
Framtíð fyrirtækisins er því tryggð og Karl Már segir að Anitar stefni að því að víkka svið forritsins.
„Við vinnum að heildarlausn til nýskráningar og utanumhald dýra og má þar meðal annars nefna að árið 2017 gerum við ráð fyrir að hefja sölu á nýjum örmerkjalesara sem notendur munu geta tengt við snjallsíma sína, örmerkjalesarinn er bæði hannaður og framleiddur af okkur. Einnig vinnum við að einfaldri lausn fyrir nýskráningar á sauðfé, sú lausn sameinar örmerkjalesarann og hugbúnað okkar á snjalltækjum notenda. Við sjáum fyrir okkur að vinna með íslenskum bændum og almennum notendum næstu 3–4 árin áður en við förum að bjóða upp á lausn okkar á erlendum markaði.“
 
Hvernig virkar Anitar?
 
Anitar er frítt smáforrit sem nálgast má í gegnum vefsíðuna anitar.is. Eigendur hesta og aðrir sem vinna með eða umgangast hesta geta notað appið við uppflettingar í WorldFeng. Eins og appið er í dag er hægt að fletta upp upplýsingum um hesta með því að slá inn örmerkjanúmer eða FEIF ID númer (IS númer) hestsins. Við uppflettingu hests í appinu koma fram eftirfarandi upplýsingar; nafn, IS númer, örgjörvanúmer, fæðingardagur, staðsetning, litur, foreldrar, eigendur og ræktendur. Úr niðurstöðunum er svo hægt að velja foreldrana og sjá sömu upplýsingar um þau. 

 

Sláturhús brann til grunna
Fréttir 12. apríl 2024

Sláturhús brann til grunna

Sláturhúsið í Seglbúðum í Landbroti brann til grunna þann 1. apríl.

Ekki farið að lögum um útivist nautgripa
Fréttir 12. apríl 2024

Ekki farið að lögum um útivist nautgripa

Matvælastofnun lagði stjórnvaldssektir á þrjú kúabú á Vesturlandi á dögunum vegn...

Dregur úr kaupvilja
Fréttir 12. apríl 2024

Dregur úr kaupvilja

Niðurstöður tilboðsmarkaðar fyrir greiðslumark mjólkur í byrjun apríl sýna að ja...

Staða framkvæmdastjóra BÍ auglýst innan tíðar
Fréttir 11. apríl 2024

Staða framkvæmdastjóra BÍ auglýst innan tíðar

Vigdís Häsler hefur látið af störfum sem framkvæmdastjóri Bændasamtaka Íslands. ...

Erfiðara verður að fá sphagnum og innfluttur jarðvegur CE-vottaður
Fréttir 11. apríl 2024

Erfiðara verður að fá sphagnum og innfluttur jarðvegur CE-vottaður

Búast má við að innflutningur á mómosamold (sphagnumríkri mold) fari minnkandi á...

Bjarkey ætlar að skerpa línurnar
Fréttir 11. apríl 2024

Bjarkey ætlar að skerpa línurnar

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir er nýr ráðherra matvælaráðuneytis en Svandís Svavars...

Greiðslumark færist til Norðvesturlands
Fréttir 11. apríl 2024

Greiðslumark færist til Norðvesturlands

Um sjötíu prósent mjólkurkvóta sem skipti um eigendur á síðasta tilboðsmarkaði f...

Nemendur vilja betri hádegismat
Fréttir 10. apríl 2024

Nemendur vilja betri hádegismat

Fulltrúar ungmennaráðs Mýrdalshrepps vöktu máls á skólamáltíðum á sveitarstjórna...