Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 5 ára.
Avena sativa er sú tegund hafra sem mest er ræktuð í heiminum, hvort sem það er til manneldis eða sem skepnufóður.
Avena sativa er sú tegund hafra sem mest er ræktuð í heiminum, hvort sem það er til manneldis eða sem skepnufóður.
Á faglegum nótum 6. júlí 2018

Hringlandi hafrabjöllur

Höfundur: Vilmundur Hansen

Hafrar voru í árdaga meinlegt illgresi við ræktun á hveiti. Plantan er harðgerðari en aðrar korntegundir og eftir að kornrækt hófst í Norður-Evrópu skutu hafrar hveiti ref fyrir rass og illgresið varð að nytjaplöntu.

Tölfræðinördar FAOSTAD, tölfræðideildar Matvæla- og landbúnaðarstofnunar Sameinuðu þjóðanna, áætla að heimsframleiðsla á höfrum árið 2016 hafi verið rétt tæp 30 milljón tonn. Mest var framleiðslan í Rússlandi rúm 4,7 milljón tonn og næstmest í Kanada rétt rúm 3 milljón tonn. Pólland var í þriðja sæti með rúm 1,3 milljón tonn. Ástralía í því fjórða með rétt tæp 1,3 og  Finnland í fimmta sæti með rúm milljón tonn. Bandaríki Norður-Ameríku var sjötti stærsti framleiðandi hafra í heiminum árið 2016 og framleiddi 940 þúsund tonn.

Áætluð heimsframleiðsla á höfrum árið 2016 var um 30 milljón tonn.

Samkvæmt upplýsingum á vef Hagstofu Íslands voru flutt inn 94,1 tonn af hafrasáðkorni árið 2016 og mest frá Svíþjóð. Sama ár voru flutt inn 147,4 tonn af höfrum til fóðurs, einnig mest frá Svíþjóð. Af höfrum til manneldis voru flutt inn 532 tonn og valsaðir eða flagaðir hafrar í undir fimm kílóa smásöluumbúðum 779,5 tonn og þar af tæp 331 tonn, hvoru tveggja mest frá Bretlandseyjum.

Ættkvíslin Avena

Innan ættkvíslarinnar Avena teljast vera 22 einærar grastegundir sem eiga náttúruleg heimkynni á Evrasíu og Afríku. Tegundir innan ættkvíslarinnar þrífast best í tempraða beltinu og tegundir í ræktun þola lægri sumarhita og meira regn en aðrar korntegundir, eins og rúgur, hveiti og bygg. Hafrar dafna því ágætlega í Norðvestur-Evrópu og á Íslandi við góðar aðstæður.

Villtir ættingjar ræktaðra hafra geta verið erfiðir viðfangs við ræktun nytjahafra þar sem erfitt er að uppræta villingana og ómögulegt er að eitra fyrir þeim þar sem eitrið sem vinnur á þeim drepur nytjaplöntuna líka.

Sex þessara tegunda, sem allar eru í daglegu tali kallaðar hafrar, eru ræktaðar til manneldis eða sem skepnufóður. A. abyssinica er mest ræktað í Eþíópíu, Jemen og Sádi-Arabíu, A. byzantina er þekkt í ræktun í Mið-Austurlöndum, á Grikklandi, Spáni, Indlandi, Nýja-Sjálandi og Suður-Afríku. A. nuda er talsvert ræktað í Evrópu og ræktun þess fer vaxandi, sérstaklega hjá þeim sem leggja stund á lífræna ræktun en A. strigosa er mest ræktað sem fóðurjurt í Brasilíu og Vestur-Evrópu.

Sú tegund sem mest er ræktuð kallast A. sativa og stundum kölluð akurhafri.

Hafrafræ.

Akurhafrar

Avena sativa er sú tegund hafra sem mest er ræktuð í heiminum, hvort sem það er til manneldis eða sem skepnufóður. Nánasti villti ættingi A. sativa er A. byzantina.

Gísli Kristjánsson og Ingólfur Davíðsson sömdu að áeggjan Búnaðarþings rit sem kallast Fóðurjurtir og gefið var út árið 1956. Þar segir meðal annars um hafra: „Plantan er um einn metri að hæð og með breið, hangandi og snörp blöð og blaðoddurinn eilítið snúinn til vinstri. Blómöxin í gisnum punti sem stendur á langri grein. Hvert smáax sem er drjúpandi ber tvö til þrjú blóm sem eru sjálffrjóvgandi. Í þurrki og vindi er eins og hringli í öxunum og þau kölluð hafrabjöllur.“ Hafrar hafa öflugar trefjarætur.

Höfrum er skipt í sumar- og vetrarafbrigði eftir lengd vaxtartíma og fjöldi yrkja til af hvoru afbrigði.

Nafnaspeki

Latneska heitið Avena þýðir strá og sativa að planta sé ræktuð. Á spænsku kallast hafrar avena. Á engilsaxnesku kölluðust hafrar ate og atan í fleirtölu en uppruni heitisins er óþekktur en í dag kallast hafrar oats á ensku. Á eistnesku er heitið kaer, á finnski kaura og á þýsku hafer. Danir og Svíar kalla plöntuna havre og þaðan er íslenska heitið hafrar komið. Samkvæmt íslenskri orðsifjabók er talið að heitið hafrar sé leitt af hafur, samanber geithafur, og að upphafleg merking hafi verið fóðurjurt fyrir geitur.

Akurhafrar eru um einn metri að hæð.

Uppruni og saga

Til eru minjar um lítils háttar ræktun hafra í Egyptalandi 2000 árum fyrir Krist. Talið er að í fyrstu hafi hafrar verið meinlegt illgresi sem erfitt var að hemja við kornrækt. Smám saman mun plantan hafa verið tekin í sátt og til ræktunar án þess að hafa nokkurn tímann hlotið virðingarsess við hlið helstu korntegunda heims. Hafrar voru því lengi og eru líklega enn í dag korn fátæka mannsins.

Rómverjar litu á hafra sem úrkynjað hveiti og í besta falli hestafóður og kölluðu Kelta og Germani í Norður-Evrópu barbarískar hafraætur. Mögulegt er að hafrar hafi borist norður eftir Evrópu sem fóður fyrir hesta herdeilda Rómverja.

Strádúkka ofin úr hafrablöðum.

Fjöldi hafrayrkja í ræktun í dag er mikill og eiga þau flest uppruna sinn að rekja til Litlu-Asíu en erfitt hefur reynst að greina eldri yrki í sundur vegna þess hversu lík þau eru. Vegna þessa er einnig vandasamt að rekja ræktunarsögu þeirra.

Elstu þekktar minjar um ræktaða hafra í Evrópu fundust í helli í Sviss og eru þær aldursgreindar frá því á bronsöld.

Í árdaga hafraræktunar í Norður-Evrópu fyrir um 2000 árum urðu hafrar vinsæl ræktunarplanta vegna þess hversu harðgerðir þeir eru. Mest var ræktun þeirra í löndunum við Eystrasaltið sunnanvert, Póllandi, Eistlandi, Lettlandi og Litáen, og sunnanverðri Skandinavíu, Finnlandi og Suður-Svíþjóð. Líklegt er að tegundin A. fatua, sem vex víða villt í Evrópu og Asíu í dag, hafi verið fyrsta hafrategundin í ræktun í norðanverðri Evrópu.

Á tólftu öld greiddu leiguliðar í Skandinavíu skatta að landskuld til landeigenda meðal annars með höfrum.

Skoskir innflytjendur fluttu með sér hafra til Norður-Ameríku og var þeim fyrst sáð á Elísabetareyju við strönd Massachusettes árið 1602. Sagt er að George Washington, fyrsti forseti Bandaríkjanna, hafi sáð höfrum í 235 hektara lands 1786. Frá lokum 19. aldar hefur ræktun hafra í Bandaríkjum Norður-Ameríku verið mest í Mississippi-ríki.

Hafraskurður í Noregi skömmu fyrir aldamótin 1900.

Neysla fólks á höfrum tók kipp fyrst eftir tilkomu einkabílsins og dráttarvéla. Samhliða aukinni vélvæðingu í landbúnaði dróst ræktun hafra síðan saman þar sem þörfin fyrir þá minnkaði vegna fækkunar hrossa. Samhliða minni ræktun dróst neysla þeirra til manneldis einnig saman.

Nytjar á höfrum

Fræin eru þeir hlutar plöntunnar sem mest eru nýttir til manneldis og sem skepnufóður. Eftir uppskeru eru fræin þurrkuð og yfirleitt mulin og nýtt þannig, auk þess sem fræhýðið er valsað og nýtt þannig.

Hér á landi eru hafrar líklega þekktastir sem undirstöðuhráefnið í hafragraut, hafrakexi og sem fóður fyrir búfé. Þeir eru einnig mikið notaðir í múslí og eru meginuppistaðan í morgunkorni.sem líkist kleinuhringjafræjum.

Á Bretlandseyjum, sérstaklega í Skotlandi, er rík hefð fyrir neyslu á hafrabrauði og það nokkurs konar þjóðarbrauð Skota og þar er iðulega í boði sem hversdagsmatur hafrasúpa. Bruggaður er bjór og viskí úr höfrum.

Hafrar þykja gott fóður fyrir hesta og einnig jórturdýr sem eiga auðvelt með að melta þá. Stráin eru góð sem undirlag í gripahúsum þar sem þeim fylgir lítið ryk eða að þau eru plægð niður í ræktunarjarðveg til að auka frjósemi hans. Stráin eru einnig bundin eða ofin saman í strádúkkur.

Stráin þóttu góð til að vefa úr gólfmottur og stráhatta og gott bindiefni í drullu við húsbyggingar og endingargóð í stráþök.

Í eina tíð voru hafrastrá lögð í baðvatn til að mýkja það og í dag eru hafraafurðir notaðar í mýkingarkrem og ýmiss konar snyrtivörur. Í alþýðulækningum þótti hafraseyði gott til að stilla tíðir, lægja tíðaverki, styrkja bein og draga úr beinkröm og þrálátum þvagfærasýkingum.

Í Kína og Mongólíu eru hafrar muldir í duft og úr þeim búnar til núðlur eða þunnar vefjur.
Hafrar eru trefjaríkir, saðsamir og bæta meltinguna og sagðir bráðhollur andskoti sem dragi úr kólesteróli í blóði.

Hafrar tengdust brúðkaupssiðum í Skandinavíu sem frjósemis­tákn og sums staðar kallað ástar­gras og soðið úr þeim frjósemiste. Í Danmörku var leikur ungra kvenna að kasta hnefafylli af þurrum hafrafræjum upp í loftið og reyna að grípa eins mörg og hægt var. Fjöldi korna sem var gripinn sagði til um fjölda þeirra kærasta sem ungu konurnar mundu eignast.

Danir höfðu fyrir sið að setja þurrkaða hafra undir þröskuld útidyra til að fæla burt Möru og vonda drauma.

Hafrar og hestalækninga

Talsverð trú var á hafra til lækninga, bæði hérlendis og annars staðar, á hinum ýmsu meinsemdum hrossa. Gegn hrossasótt þótti gott að gefa lús með hafrakorninu og að fóðra ormaveik hross með höfrum og baunum. Fátt þótti betra gegn lifrarbólgu í hrossum en heitur bakstur, hafragrjón og flóuð mjólk.

Ræktun

Fyrstu tilraunir til hafraræktunar hér á landi eru frá því um lok átjándu aldar. Samkvæmt því sem segir í Land­búnaðarsögu Íslands sendi Konung­lega danska landbúnaðarfélagið og danska stjórnin fjölda plóga til Íslands til að reyna að bæta kjör landsmanna á árunum 1770 til 1780. Plógunum fylgdu fræ byggs og hafra en þrátt fyrir góðan vilja var uppskeran rýr.

Talsvert var flutt inn af höfrum til landsins á nítjándu öld og í Nýjum félagsritum frá 1847 er að finna varningsskrá um það sem flutt var til landsins 1846 og verð vörunnar. Þar kemur fram að tunna af höfrum kosti frá 5 ríkisdölun og 32 skildinga upp í 6 ríkisdali.

Samkvæmt upplýsingum á vef Landbúnaðarháskóla Ísland segir að hafrar séu fyrst og fremst ræktaðir hér á landi sem grænfóður til sláttar en einnig að hluta til kornþroska. Þeim er einnig skjólsáð með sáðgresi eða ræktaðir með ertum eða flækjum sem grænfóður. Til þroska eru eingöngu ræktuð snemmþroska sumarafbrigði en til grænfóðurs eru mest ræktuð vetrarafbrigði eða seinþroska sumarafbrigði. Fóðurgildi hafrakorns er heldur lægra en í byggkorni. Fóðurgildi grænfóðurhafra er afar breytilegt og ræðst nánast eingöngu af þroskastigi þeirra við nýtingu. Líkt og í öðrum grösum fellur fóðurgildið hratt eftir skrið.

Hámarksgæði nást með því að nýta hafrana fyrir skrið en það er á kostnað þurrefnisuppskerunnar. Hafrar gefa örugga grænfóðuruppskeru sem er oft á bilinu 4 til 8 þurrefnistonn á hektara.

Samkvæmt ræktunar­leiðbeiningum Landbúnaðar­háskólans má rækta hafra í margs konar jarðvegi og þar segir að þeir séu auðveldir í ræktun. Fullt sáðmagn er 180 til 200 kíló á hektara. Í blöndu með öðru grænfóðri eða grasfræi er oftast miðað við hálfan skammt.

Æskileg sáðdýpt er tveir til fjórir sentímetrar og sáðbeðið á að vera vel unnið, plægt, herfað og valtað.

Hafra til þroska á að sá eins snemma vors og mögulegt er, lok apríl eða byrjun maí, og í þungu landi getur verið skynsamlegt að haustplægja. Hafrar til grænfóðurs eða sem skjólsæði má sá seinna á vorinu og á öll jarðvinnsla að fara fram sem næst sáningu. Best er að raðsá en dreifsáning er einnig möguleg.

Ræktun á Íslandi árið 2017

Samkvæmt upplýsingum frá Ráðgjafarmiðstöð landbúnaðarins voru rétt tæplega 1005 hektarar lands nýttir til ræktunar á höfrum hér á landi árið 2017. Á 470 hekturum voru hafrar ræktaðir sem gras, sem grænfóður á um 484 hekturum og til korns á 52 hekturum.

Yrkið Belinda er algengast  við ræktun grass og grænfóðurrækt en Cilla til korns. Af öðrum yrkjum í ræktun hér á landi má nefna Nike, Domenic og Akseli.

Í Noregi var sagt upplagt ráð að gefa kálfablóð eða steyttan tígulstein blandað höfrum gegn heymæði. Í Finnlandi var talið þjóðráð að gefa strokgjörnum hestum hafra sem lykillinn af hesthúsinu hafði legið í.

 

Ota indíánadúkkulísa með höfuðleður og annar að senda reykmerki.

Hafrar og dúkkulísur

Á sjötta áratug síðustu aldar var danskt Ota haframjöl, hafragrjón eða sólgrjón eins og margir kölluðu það feikilega vinsæll morgunmatur hér á landi.

Vinsældirnar stöfuðu ekki síst af rauðhvítu umbúðunum dönsku fánalitanna, með hlaupandi dreng í stuttbuxum, veifandi kúrekahatti í annarri hönd og með pakka af Sol Gryn í hinni inn í sólinni. Það var þó bakhliðin sem flestir sóttust eftir. Á bakhliðinni voru myndir, eða öllu heldur dúkkulísur, af indíánum, indíánatjöldum, kúrekum, hestvögnum og ýmsum öðrum fígúrum sem endalaust var hægt að horfa á og skoða og svo mátti klippa þær út og leika sér með. Dúkkulísurnar voru feikilega vinsælar og styttu mörgum stundir þegar minna var um afþreyingu fyrir börn en í dag.

 Eva dúkkulísustelpa sem var ein af þeim fígúrum sem var á haframjölspökkunum frá Ota á sjötta áratug síðustu aldar.

Sama sláturhús sektað þrisvar
Fréttir 17. maí 2024

Sama sláturhús sektað þrisvar

Matvælastofnun (MAST) hefur þrisvar sinnum á þessu ári lagt stjórnvaldssekt á sv...

KS hagnaðist um 5,5 milljarða króna
Fréttir 17. maí 2024

KS hagnaðist um 5,5 milljarða króna

Hagnaður Kaupfélags Skagfirðinga af rekstri félagsins á árinu 2023 reyndist rúml...

Vorverkum bænda seinkar
Fréttir 16. maí 2024

Vorverkum bænda seinkar

Veturinn sem leið var sá kaldasti frá vetrinum 1998 til 1999, samkvæmt tíðindum ...

Riðuveiki útrýmt innan 20 ára
Fréttir 16. maí 2024

Riðuveiki útrýmt innan 20 ára

Landsáætlun um riðuveikilaust Ísland hefur verið sett í samráðsgátt stjórnvalda.

Kornþurrkstöð reist í Eyjafirði
Fréttir 16. maí 2024

Kornþurrkstöð reist í Eyjafirði

Grunnur undir kornþurrkstöð í Eyjafirði er nú að taka á sig mynd í landi Laugala...

Mjólkurframleiðendur fá arðgreiðslu
Fréttir 16. maí 2024

Mjólkurframleiðendur fá arðgreiðslu

Kúabændur á starfssvæði Auðhumlu mega gera ráð fyrir arðgreiðslu frá samstæðunni...

Vetnisknúin skip í smíðum
Fréttir 15. maí 2024

Vetnisknúin skip í smíðum

Smíði er hafin á tveimur vetnis­ skipum á vegum Samskipa. Áætlað er að þeim verð...

Drómasýki í hrossum
Fréttir 13. maí 2024

Drómasýki í hrossum

Drómasýki er vaxandi vandamál í íslenskri hrossarækt. Til stendur að stofna star...