Hringlaga fjárhús
Ný hönnun fjárhúsa er með áherslu á hagkvæmni í byggingu og rekstri.
Föstudaginn 31. október boðaði Guðni Ágústsson, fyrrverandi landbúnaðarráðherra, sauðfjárbændur og byggingaverktaka á fund eftir hádegi í fundarsal MS á Selfossi þar sem kynntar voru hugmyndir byggingaverktaka á Höfn í Hornafirði um hringlaga fjárhús á Íslandi.
Verkefnið kallast Fjárborg og gengur út á nýja hugsun í hönnun fjárhúsa en hugmyndasmiðurinn er Gunnar Gunnlaugsson húsasmíðameistari í samstarfi við son sinn, Kristján V. Gunnarsson hjá Mikael ehf. Markmið verkefnisins er að endurskilgreina byggingarlag fjárhúsa með áherslu á hagkvæmni í byggingu og rekstri, bætta vinnuaðstöðu, nýtingu rýma og aukið öryggi og vellíðan búfjár. Í miðju hússins er gert ráð fyrir hlaupaketti, sem flytur fóður og grindur milli stía.
