Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 6 ára.
Í dag þekja borgir og innviðir þeirra yfir um 60 milljón hektara og talið að svæðið muni stækka um 100 til 200 milljón hektara næstu fjóra áratugina.
Í dag þekja borgir og innviðir þeirra yfir um 60 milljón hektara og talið að svæðið muni stækka um 100 til 200 milljón hektara næstu fjóra áratugina.
Fréttir 18. desember 2017

Hnignun landgæða og aukin ásókn í náttúruauðlindir

Höfundur: Vilmundur Hansen

Vaxandi eftirspurn eftir mat, fóðri, eldsneyti og hrávöru eykur samkeppni um náttúruauðlindir og álag á land. Á sama tíma dregur landhnignun úr afkastagetu landsins og framboði á landi. Drifkraftar landhnignunar eru oftast ytri þættir sem hafa bein og óbein áhrif á heilbrigði lands, framleiðni þess og auðlindir, eins og jarðveg, vatn og líffræðilegan fjölbreytileika. 

Beinir drifkraftar breytinga eru náttúrufyrirbæri eins og jarðskjálftar, skriður, þurrkar og flóð. Meðal þátta sem áður töldust náttúrufyrirbæri en teljast nú afleiðing mannlegra athafna eru skógareyðing, framræsla votlendis, ofbeit, ósjálfbær landnýting og útþensla ræktarlands, land til iðnaðar og ör vöxtur þéttbýlis. Þessir þættir teljast helstu ástæður landhnignunar í dag.

Nútímaleg stjórnun á ræktun nytjaplantna og eldi búfjár hefur víða leitt til uppblásturs, verri vatnsbúskapar og samdráttar í líffræðilegri fjölbreytni hvort sem er ofanjarðar eða neðan. Á sama tíma hefur námuvinnsla, flutningakerfi, orkuvinnsla og iðnaður sett verulega mark sitt í landslagið og framboð á auðlindum.

Síðastliðin hundrað ár hefur land undir þéttbýli tvöfaldast og gera spár ráð fyrir að slík landnýting eigi eftir að aukast töluvert næstu áratugina. Í dag er nýting á landi undir borgir og þéttbýlissvæði ekki nema 5% af heildar landnýtingu í heiminum. Þéttbýli er þrátt fyrir það yfirleitt á frjósömustu svæðunum og landi sem gefur mest af sér.

Óbein áhrif eru iðulega undirliggjandi orsakavaldar landhnignunar. Ólíkt beinum áhrifum eru óbein áhrif oft flókin og samspil margra ólíkra þátta og eiga upptök sín fjarri svæðinu sem þeir hafa áhrif á. Þetta getur átt við fjölgun íbúa, hvernig landi er ráðstafað, eftirspurn eftir neysluvörum, þjónustu, efnahagslegan vöxt og pólitískri stefnu þjóða og fjárfestingar.

Síðastliðin hundrað ár hefur land undir þéttbýli tvöfaldast og gera spár ráð fyrir að slík landnýting eigi eftir að aukast töluvert næstu áratugina.

Náttúrulegur höfuðstóll

Landhnignun er flókið ferli sem felur í sér eitt eða allt eftirfarandi; framleiðni jarðvegs og gróðurþekja dregst saman og líffræðileg fjölbreytni og þolgæði vistkerfa minnkar. Landhnignun er oft afleiðing slæmrar stjórnunar á landnýtingu, þaulræktunar, ofbeitar og rangrar nýtingar á vatni, ofnotkunar á eiturefnum og áburði í landbúnaði, mengunar og námuvinnslu.

Breytingar á landnýtingu þurfa ekki að hafa í för með sér hnignun landgæða og geta í sumum tilfellum verið jákvæðar og manninum til heilla. Staðan í dag er aftur á móti sú að vistkerfi eru víðast undir miklu álagi vegna vaxandi eftirspurnar eftir auðlindum. Landnýting í dag tengist því yfirleitt hnignun líffræðilegrar fjölbreytni og vistkerfa.

Efnahagslegar breytingar og eftirsókn í auð hafa haft óbein áhrif í átt til beinnar misnotkunar á landi. Samkvæmt skilgreiningu sem sett var fram um síðustu aldamót eru fjögur atriði mikilvæg þegar kemur að nýtingu lands; matur, framboð, stuðningur og stjórnun. Af þessum fjórum þáttum hefur framboð markaðsgildi, til dæmis fæða, olía, trefjar og í minna mæli afþreying og ferðaþjónusta. Eitthvað sem stuðningur og stjórnun hafa ekki. Þættir eins og jarðvegsmyndun, loftslagsbreytingar og öryggi manna hafi í sögulegu samhengi ekki haft neitt efnahagslegt gildi. Hagkerfið hefur því leitt af sér hugmyndafræði skammtímagróða og að litið sé framhjá gildum eins og sjálfbæra nýtingu, varðveislu og endurheimt landgæða.

Upp úr 1990 varð breyting á og umræða um verðmæti náttúrulegs höfuðstóls varð áberandi. Umræðan snerist um nauðsyn þess að leggja viðeigandi mat á gildi vistkerfa og að draga úr óæskilegum áhrifum manna á náttúruna og beita heildrænni nálgun við landnýtingu.

Þrír megin og samtengdir þættir sem valda landhnignun eru lífefnafræðilegir, stofnanatengdir og þjóðhagslegir. Lífefnafræðilegir þættir snúast um það hvernig land er notað, stofnanatengdir þættir ráða stefnunni þegar kemur að landnýtingu og þjóðhagslegir þættir stjórnast af eftirspurn og stefnu stjórnvalda.

Andrúmsloftið, gróður, landslag og aðgengi að vatni eru yfirleitt í forgangi þegar kemur að ákvörðunum um hvernig nýta eigi land. Efnahagsástand þjóða hefur einnig mikil áhrif þegar landnýting er ákveðin og hversu hratt breytingar eiga sér stað. Þegar kemur að stofnanalegum þáttum sem snúa að landnýtingu byggja þeir oft á sögulegum og menningarlegum arfi. Eignaréttur og efnahagsleg aðkoma eru einnig nátengd stofnanalegum þáttum. Eignarhald á landi getur verið hvati til fjárfestinga og efnahagslegs vaxtar og góðrar landnýtingar. Umráðaréttur er flókin og réttindin oft orðið til eftir mörgum form- og óformlegum leiðum, þar á meðal menningu og sögu.

Ekki er víst að sömu lög og reglur gildi í dreif- og þéttbýli í sama landi. Aukin eftirspurn eftir landi á svæðum þar sem formlegur afnota- eða eignarréttur er ekki skilgreindur getur valdið íbúum landsins kvíða og auka spennu.

Hvort sem uppspretta orku er endur- eða óendurnýjanleg hefur vinnsla hennar áhrif á auðlindir náttúrunnar.

Leiði breyting á notkun lands til hnignunar stafar slíkt af mörgum ólíkum en samtengdum svæðisbundnum og alþjóðlegum þáttum. Á komandi áratugum mun skortur á landi sem er ríkt af náttúruauðlindum leiða til samkeppni um hvernig skal nýta það. Flokka má megin áhrifavalda hnignunar lands í tvennt, beina og óbeina þætti. Beinir áhrifavaldar eru mannlegar athafnir sem tengjast breytingum á landi vegna nýtingar þess. Óbeina þætti er erfiðara að greina og mæla og verður að leggja mat á áhrif þeirra út frá félags- og efnahagslegum forsendum.

Beinir áhrifavaldar landhnignunar

Áætlað er að á hverju ári tapist, á heimsvísu, milli ein til sex milljón hektarar af landi vegna hnignunar. Tölurnar sýna stærð vandans og um leið nauðsyn þess að afla nákvæmari upplýsinga um umfang hans.

Helstu ástæður hnignunar náttúrulegs lands eru landbúnaður og skógarnytjar, þéttbýlismyndun, uppbygging innviða í þéttbýli, orkuframleiðsla og námuvinnsla.

Landbúnaður og skógarnytjar

Landnýting fer mest fram á landi sem nytjað er til landbúnaðar. Í dag er um 36% af öllu landi í heiminum, að Grænlandi og Suðurheimsskautslandinu undanskildum, nýtt til land­búnaðar. Land sem tekið er undir landbúnaðarframleiðslu fer sífellt stækkandi og aðallega á kostnað náttúrulegra skóga og engja. Um þessar mundir gætir þessa mest í hitabeltinu og veldur miklu tjóni á náttúrunni og dregur úr líffræðilegum fjölbreytileika. Talið er að hnignun landgæða hafi átt sér stað í um einum fimmta af skógum og ræktunarlandi í latnesku Ameríku og á eyjum Karíbahafsins vegna framleiðslu á nautakjöti, sojabaunum og pálmaolíu.

Í dag er um 36% af öllu landi í heiminum, að Grænlandi og Suðurheimsskauts­landinu undanskildum, nýtt til landbúnaðar.

Þrátt fyrir að land til landbúnaðar haldi áfram að aukast er útþensla þess minni en land sem tapast vegna landhnignunar. Lands sem er yfirgefið vegna uppblásturs, taps á næringarefnum og aukins saltmagns í jarðvegi. Fólk yfirgefur einnig land vegna pólitísks óróa og af efnahagslegum ástæðum. Aukin vélvæðing og notkun efna í landbúnaði eins og niturs, fosfór, skordýra- og illgresiseiturs hefur valdið tímabundinni uppskeruaukningu. Á sama tíma hefur aukin efnanotkun haft verulega neikvæð áhrif á jarðveg, vatnsgæði og vistkerfið sem til lengri tíma ógnar matvælaöryggi íbúa jarðar.

Yfirgefin landbúnaðarsvæði er flokkað sem ein gerð landhnignunar eða að land sé yfirgefið er talin vísbending um hnignun þess. Á sama tíma getur yfirgefið land verið tækifæri til endurheimtar vistkerfis þess. Helstu ástæður þess að land er yfirgefið eru samdráttur í framleiðslu, flutningur íbúa til þéttbýlis, aukinn aldur íbúa, ágengar tegundir og breytingar á styrkjakerfi landbúnaðarins eða aðrir félagslegir þættir sem draga úr gildi landbúnaðar.

Skógrækt og skógarnytjar hafa einnig mikil áhrif á vistkerfið. Felling skóga og sala á timbri er iðulega fyrsta skrefið í átt að ræktarlandi fyrir nytjajurtir eða undir beit. Umbreyting lands með þessum hætti leiðir til mikilla breytinga á vistkerfinu og vatnsbúskapar og að lokum hnignunar landgæða.

Þéttbýlismyndun

Áætlað er að fjöldi íbúa í þéttbýli muni aukast um 2,5 milljarða til ársins 2050. Fjölgunin mun leiða til útþenslu borga og í sumum tilfellum mun frjósamt ræktunarland tapast. Í dag er milli 2 til 3% lands í heiminum flokkað sem borgir en talið að það verði 4 til 5% árið 2050 og að þéttbýli í þróunarlöndum eigi eftir að þrefaldast til 2030. Gert er ráð fyrir að 1,6 til 3,3 milljón hektarar ræktunarland muni glatast vegna útþenslu borga milli 2020 og 2030. Einnig verður að líta til þess að helgunarsvæði borga nær langt út fyrir borgarmörkin. Fylgni er á milli stækkunar borga, skógareyðingar og flutninga á landbúnaðarvörum.

Uppbygging innviða í þéttbýli

Á sama tíma og íbúum í þéttbýli fjölgar eykst þörfin fyrir innviði, samgönguæðar, afrennsli, skolp- og raflagnir. Samtímis þarf að endurnýja innviði margra eldri borga. Uppbygging af þessu tagi er gríðarlega kostnaðarsöm og hún mun verða stór þáttur í vexti hagkerfa víða um heim.

Í dag þekja borgir og innviðir þeirra yfir um 60 milljón hektara, sem er álíka stórt svæði og Úkraína, og talið að svæðið muni stækka um 100 til 200 milljón hektara næstu fjóra áratugina. Slíkar breytingar hafa bæði bein og óbein áhrif á landnýtingu. Bættar samgöngur og betri samgöngumannvirki leiða til útþenslu borga, hnignunar náttúrulegra vistkerfa og auka einnig hættuna á flóðum. Auk þess sem frárennsli borga mun hafa mengandi áhrif á grunnvatn og vistkerfi.

Landhnignun er afleiðing slæmrar stjórnunar á landnýtingu, þaulræktunar, ofbeitar og rangrar nýtingar á vatni, ofnotkunar á eiturefnum og áburði í landbúnaði, mengunar og námuvinnslu.

Útþensla borga breytir einnig endurgeislun og útgufun og mun þannig hafa áhrif á nærvirði þeirra og nærliggjandi svæða. Umfang áætlaðrar uppbyggingar innviða mun laða að sér vinnuafl, draga úr landbúnaði í nærumhverfi borganna og stuðla að því að fólk yfirgefi dreifbýlið.

Utan þéttbýlis valda vegir og járnbrautir um ósnortið land miklu tjóni á vistkerfinu sé verkið ekki vel undirbúið og vel skipulagt. Lagning samgönguæða geta leitt til fiskibeinsáhrifa þar sem margir minni vegir og slóðar liggja útfrá stofnæðum og auka utanvegaakstur. Slíkir hliðarvegir og slóðar geta valdið gríðarlegu tjóni á skógum og graslendi. Í Brasilíu er opinbert vegakerfi landsins 20.000 kílómetrar en óopinberir vegir og slóðar sagðir vera nálægt 200.000 kílómetrar og tengjast margir þeirra ólöglegu skógarhöggi og námuvinnslu. Auk þess sem vatnsaflsvirkjanir hafa gríðarleg áhrif á nærliggjandi vistkerfi.

Orkuvinnsla

Hvort sem uppspretta orku er endur- eða óendurnýjanleg hefur vinnsla hennar áhrif á auðlindir náttúrunnar. Víða í þróunarlöndunum þar sem viður er brenndur til orkuvinnslu er vinnslan stór þáttur í skógar- og jarðvegseyðingu vegna uppblásturs.

Vinnsla og brennsla á olíu og jarðgasi hefur vegna mengunar leitt til gríðarmikilla loftslagsbreytinga sem aftur hefur áhrif á ástand lands og möguleikum til landnýtingar á stórum svæðum. Orkuvinnsla með „fracking“, jarðbrot með vökva til olíuvinnslu, er vatnsfrek og krefst mannvirkja, flutningslagna og samgöngumannvirkja. Margir hafa áhyggjur af aukinni tíðni jarðskjálfta í tengslum við jarðbrot og hugsanlegu heilsutjóni íbúa vegna þeirra. Evrópusambandið veitir styrki til orkuvinnslu úr viði og viðarafgöngum á þeim forsendum að vinnsla sé mikilvæg á sjálfbærri orku.

Kolabrennslustöðvar í Evrópu brenna sífellt meira af viði frá Bandaríkjunum og Kanada, sem hefur leitt til aukinnar fellingar skóga og losunar á koltvísýringi út í andrúmsloftið þar. Þrátt fyrir að einu tré sé plantað fyrir hvert tré sem er fellt tekur milli 20 og 100 ár að ná fullri kolefnisjöfnun.

Framleiðsla á endurnýjanlegri orku hefur einnig áhrif á land, landnýtingu og leiðir til hnignunar landgæða. Ræktun nytjaplantna til framleiðslu á lífdísil er ekki síður þurftarfrek á ræktarland en framleiðsla á pálmaolíu og sojabaunum og oft á kostnað skóga og graslendis. Áætlað er að árið 2010 hafi ræktun til framleiðslu á lífdísil verið á um 45 milljónum hektara og er gert er ráð fyrir að sú tala eigi eftir að tvöfaldast fyrir 2030 og ná til 3 til 4,5% af ræktarlandi heimsins. Uppistöðulón og vatnsaflsvirkjanir kaffæra stór landsvæði með vatni, þurrka önnur og veita aðgang að þeim og gefa kost á annars konar nytjum. Virkjanirnar þurrka upp votlendi og breyta farvegi áa og vatnsbúskapa stórra vistkerfa. Sólarsellur og vindmyllur taka einnig land svo og dreifingarkerfi þeirra.

Opin jarðvinnsla þar sem heilu fjöllin eru grafin burt valda ómældum umhverfisspjöllum.

Jarðefna- og námuvinnsla

Pólitískar og efnahagslegar sviptingar undanfarin ár hafa leitt til aukinna fjárfestinga í jarðefna- og námuvinnslu og samtímis til aukinnar hnignunar jarðvegs vegna skógareyðingar, brennslu gróðursvæða og jarðvinnslu. Sem aftur hefur leitt til gríðarlegs tjóns á umhverfinu og til félagslegra vandamála. Opin jarðvinnsla þar sem heilu fjöllin eru grafin burt valda ómældum umhverfisspjöllum auk þess sem námur sem grafnar eru í fjöll eða jörð falla saman og geta valdið skriðum, jarðvegseyðingu og mengun í jarðvatni. Vinnsla á dýrmætum málmum og steinefnum skilur eftir sig tuga milljóna tonna af úrgangsefnum, mengar vatn vegna notkunar á sýru við vinnsluna, henni fylgir mikil loftmengun sem hefur slæm áhrif á heilsu fólks og dregur úr uppskeru. Ólögleg jarðefna- og námuvinnsla sem fer fram án eftirlits er enn meiri mengunarvaldur. Til dæmis er notað mikið af brennisteinssýru og kvikasilfri við ólöglega gullvinnslu og bæði efnin eru gríðarlega hættuleg mönnum og miklir mengunarvaldar í jarðvegi og vatni.

Óbeinir áhrifavaldar landeyðingar

Síðustu tvær aldir hefur eftirspurn eftir gæðum lands og þjónustu þeim tengdum aukist margfalt. Óbeinar eða undirliggjandi orsakir landhnignunar tengjast því lífsstíl, efnahagskerfi og neyslumunstri sem aftur er flókin samsetning af lýðræðis-, stofnana-, félags- og menningalegum þáttum. Þessir þættir tengjast svo alþjóðaverslun með vörur, vöruverði, auknum fólksfjölda, innanlandsmarkaði, eftirspurn neytenda, stjórnarháttum, þróum samfélaga og efnahag heimila.

Mikið er notað af brennisteinssýru og kvikasilfri við ólöglega gullvinnslu og bæði efnin eru gríðarlega hættuleg mönnum og miklir mengunarvaldur í jarðvegi og vatni. 

Á landsvísu hafa veikburða stjórnarhættir, óstöðugleiki, skortur á samhæfingu, spilling og glæpir víða verið skilgreindir sem óbeinn áhrifavaldur landhnignunar.

Frá því á sjöunda áratug síðustu aldar hafa viðskipti með landbúnaðarvörur á alþjóðamarkaði tífaldast og verslun með timbur sjöfaldast. Ein afleiðing þessa er að eftirspurn eftir góðu ræktunar- og beitarlandi hefur margfaldast. Viðskipti með auðlindir eins og jarðveg, vatn og land eru einnig orðin alþjóðleg. Viðskipti af þessu tagi hafa leitt til aukningar í landbúnaðarframleiðslu í þróunarlöndum þar sem stjórnkerfið er oft veikburða.

Óbeinir áhrifavaldar land­hnignunar geta legið víðs fjarri áhrifasvæðinu. Aukin kjötneysla í Kína hefur leitt til aukinnar ræktunar á soja sem fóður fyrir svín og fiðurfé í Brasilíu. Aukin eftirspurn eftir timbri og friðun skóga í Kína og Finnlandi hefur leitt til vaxandi skógarhöggs í Rússlandi og útflutnings á timbri til Kína. Við hrun Sovétríkjanna dró verulega úr landbúnaði og leiddi til aukins innflutnings á nautakjöti frá Brasilíu til Rússlands og aukinna þarfa fyrir beitiland í Brasilíu.

Eigendur lausafjár eru í auknum mæli farnir að fjárfesta í landi í dreifbýli og þar komið fram nýr óbeinn áhrifavaldur þegar kemur að landnýtingu. Síðustu áratugi hefur hag smærri býla staðið ógn vegna aukinna krafna um lægra matarverð og aukinnar framleiðslu verksmiðjubúa. Krafan er studd af stórum verslanakeðjum og innkaupamunstri neytenda. Þróunin hefur lækkað matvælaverð og komið sér vel fyrir efnaminni neytendur. Lægri tekjur framleiðenda leiða hins vegar til minni fjárfestinga og auka líkur á sameiningu býla og minnka líkurnar á að bændur geti lifað af þeim tekjum sem býli gefa af sér. Þessi þróun getur haft mikil áhrif til aukinnar landhnignunar á komandi áratugum þegar bændur á minni býlum hætta búskap og flytja í þéttbýlið. 

Hvað hefur áhrif á líðan bænda?
Fréttir 6. desember 2024

Hvað hefur áhrif á líðan bænda?

Valgerður Friðriksdóttir stendur fyrir rafrænni könnun þar sem hún skoðar hefðir...

Lök kornuppskera á landinu
Fréttir 6. desember 2024

Lök kornuppskera á landinu

Samkvæmt bráðabirgðatölum bendir allt til að uppskera af þurru korni sé umtalsve...

Erlend kúakyn myndu skila mun meiri framlegð
Fréttir 5. desember 2024

Erlend kúakyn myndu skila mun meiri framlegð

Ný skýrsla Landbúnaðarháskóla Íslands, þar sem fjögur erlend kúakyn voru borin s...

Skrásetja sögu brautryðjenda
Fréttir 5. desember 2024

Skrásetja sögu brautryðjenda

Sögur brautryðjenda í garðyrkju varpa ljósi á þá miklu þróun sem hefur átt sér s...

Friðheimar kaupa Jarðarberjaland
Fréttir 5. desember 2024

Friðheimar kaupa Jarðarberjaland

Eigendur Friðheima, Knútur Rafn Ármann og Helena Hermundardóttir, munu taka við ...

Áfrýjar dómi
Fréttir 5. desember 2024

Áfrýjar dómi

Undanþágur kjötafurðastöðva frá samkeppnislögum féllu úr gildi með dómi Héraðsdó...

Fuglaflensa á íslensku búi
Fréttir 5. desember 2024

Fuglaflensa á íslensku búi

Á þriðjudaginn greindist fuglaflensa af gerðinni H5N5 á kalkúnabúi Reykjabúsins ...

Mismunur bændum í óhag
Fréttir 5. desember 2024

Mismunur bændum í óhag

Í dag kostar 306 krónur að framleiða lítra af mjólk samkvæmt nýsamþykktum verðla...