Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 8 ára.
Hin misvinsæla Sveipjurtaætt – fyrsta grein
Á faglegum nótum 28. apríl 2016

Hin misvinsæla Sveipjurtaætt – fyrsta grein

Höfundur: Hafsteinn Hafliðason

Sveipjurtaættin, Apiaceae eða Umbelliferae, leggur okkur til margar mat-, krydd- og krásjurtir. Af þeirri ætt eru til dæmis gulrætur, nípur (pastínakka), seljurót og stilkselja. Allar þeirra þekktar matjurtir. Til þessarar ættar teljast líka hreinar kryddjurtir eins og kúmen, anís og kóríander.

Aðrar nytjajurtir af þessari ætt eru hvönn, spánarkerfill, skessujurt, dilla, steinselja og fennil, svo eitthvað sé nefnt. Flestar tegundir sveipjurta mynda töluvert magn af eins konar kvenhormónum, s.k. fýtóestrógenum, sem styrkja ónæmiskerfi þeirra og vernda þær gegn óblíðum vaxtarskilyrðum. Því þrífast þær ágætlega í okkar karga veðurfari, sumar um of að okkur finnst stundum, og láta lítt bugast þótt ýmislegt bjáti á.

Nytjajurtir sem fara þarf varlega að

Annað eiga sveipjurtir sameiginlegt, það er það að í plöntusafa þeirra eru efni sem valda ljósofnæmi, og jafnvel stórbruna, á hörundi þeirra sem fara óvarlega að þeim. Því borgar sig ekki að umgangast þær varnarlaust.

Sveipjurtaættin nær yfir stórt útbreiðslusvæði og þær tegundir hennar sem við ræktum koma víða að. Þær eiga þó það sameiginlegt að kjósa djúpan, frjóan og ögn rakan jarðveg til að vaxa í. Sveipjurtir eru ýmist einærar; svo sem kerfill, anís og kóríander. Tvíærar eru t. d. hvönn, kúmen og gulrætur. Ellegar fjölærar, svo sem skessujurt og spánarkerfill. Af ætt sveipjurta eru líka nokkrar tegundir sem við viljum síður sjá leggja undir sig gróðurlendi þar sem ekkert viðnám er. Dæmi um það eru t.d. skógarkerfill og risahvannir. En hér verður fjallað í nokkrum pistlum um nokkrar tegundir sveipjurta sem við ræktum og nytjum til manneldis. Og byrjað á þeim sem hér hafa verið í ræktun í meira en hundrað ár.

Spánarkerfill

Myrrhis odorata er stórvaxin fjölær jurt sem, þrátt fyrir íslenska nafnið, kemur upphaflega sunnan úr Appenínafjöllum. Rómverjar hinir fornu héldu mikið upp á plöntuna og gáfu henni nafn eftir sætukeimnum. Hér á landi nær spánarkerfill að þroska fræ á haustin og getur lagt undir sig vænar spildur og kæft annan gróður sem undir er ef ekki er hafður vari á. Hins vegar gerir hann trjám og runnum ekkert til og er þess vegna kjörinn undirgróður í trjáreitum og skjólbeltum því hann er mjög jarðvegsbætandi.
Auðveldast er að útvega sér spánarkerfil með því að stinga upp einn eða tvo hnausa að vorlagi og flytja í garðinn sinn. Þar má líka sá honum á haustin.

Spánarkerfillinn er ekki vandur að jarðvegi. Hann kemst það sem hann ætlar sér og skapar sér vaxtarskilyrði að vild. Blöð spánarkerfils má nota eins og hinn einæra garðakerfil. Þau eru best meðan þau eru ung. Ræturnar má einnig sjóða, þær eru saðsamar og með sætum anískeim eins og reyndar öll jurtin. Henta í pottrétti eins og pastínakka. Ef á að rækta spánarkerfil vegna rótarinnar er best að sá fræinu strax við þroska á hausti. Hafa um 30 cm milli plantna í röð og 50 cm á milli raða. Rótin á tveggja ára plöntum hefur þá ekki greint sig og er þykk og matarmikil með sætu anísbragði.

Þegar blöðin byrja að bæra á sér á vorin er tími til að elda af þeim kerfilsúpu.

Besta uppskriftin er svona: 1 meðalstór matlaukur, 2–3 ný blöð af spánarkerfli,1 msk. smjör, 1 lítri vatn + súputeningar að smekk (eins má nota gott kjötsoð eða fiskisoð), salt og pipar eftir smekk. Jafnað með smjörbollu (jafnir hlutar af hveiti og smjöri hnoðað saman) ef vill.

Laukurinn brytjaður smátt og látinn fræsa létt í smjörinu við vægan hita uns hann verður glær. Tími u.þ.b. 5 mínútur. Kerfilsblöðin söxuð smátt og sett út í. Soðinu blandað hægt í og hrært í meðan suðan kemur upp. Látið sjóða í 2–3 mínútur. Ef súpan þykir of þunn má þykkja hana með smjörbollu og láta sjóða saman rúmlega mínútu til viðbótar. Súpan er borin fram með brauði og það er mjög gott að hafa rjómaslettu, þeytta eða sýrða, út á hana.

Hvönn eða ætihvönn

Angelica archangelica er hánorræn, stórvaxin, skammær jurt og hefur verið manneldisjurt frá upphafi okkar sögu. Elstu norrænu lögin, hin norsku Gulaþingslög, vernda hvannir og hvannastóð. Hvönn var tekjulind og útflutningsvara frá Noregi á Víkingaöld. Bæði rætur og blöð voru þurrkuð ellegar lögð í skyr og höfð til vetrarins. Sjálft norræna nafnið „Hvönn“ er samt álitið að sé tökuorð úr hinni Fennó-úgrísku málaætt, t.d. samísku eða finnsku. Orðið hvönn er ekki samstofna neinu norrænu orði, en plantan heitir „kvanni“ í ýmsum útgáfum fennó-úgrísku málunum allt frá Lapplandi í norðri til Volgubakka í suðri. Sé þetta rétt ætti framburður nafnsins og ritháttur að vera „kvönn“ eins og er reyndar á norsku, sænsku og dönsku.

Hvönn er best að sá að hausti til á einhvern upprifinn stað sem hún má hafa til frambúðar. Hafa 30 cm á milli plantna í röð og síðan einn metra á milli raða.

Hvönnin vex upp vorið eftir og blómgast svo á öðru eða þriðja ári en deyr eftir að hún hefur þroskað fræ. Eftir þörfum er hægt að halda henni í skefjum á þann hátt að skera af henni fræsveipina um leið og þeir byrja að skipta um lit frá ljósgrænu yfir í gult. Þá deyr hún út án þess að sá sér. Hvannarækt er sem sagt afar auðveld, og það er vel hægt að rækta hvannir í pottum úti á svölum.

Hvannarætur verða heillegri í djúpri, sendinni mold en tægjast mjög í grýttu landi. Ef við viljum rækta hvannarætur þarf moldin að vera djúp, jafnrök og frjó, þá greinast þær síður. Nokkur eftirspurn er nú á hvannaafurðum, blöðum, fræjum og rótum fyrir íslenskan lyfjaiðnað, t.d. Sagamedica sem framleiðir ýmsar heilsubótarvörur úr hvönnum og greiðir víst nokkuð vel fyrir vel verkað hráefni.

Mikil trú var á krafti hvanna. Með hvannaáti hvarf allt slen og bágindi til baks og kviðar. Hvannir í baðvatnið róaði taugarnar og linaði höfuðverk. Hvannaolía er undirstaða í mörgum ilmvötnum fyrir konur, frísklega virðuleg, höfug og róandi allt í senn.

Það eru því ekki undur að hin latneska nafngift bendli hana við engla og erkiengla.

Hvannakál var haft í súpur (t.d. sama uppskrift og spánarkerfill) eða soðið með fiski og kjöti til bragðbætis. Hvannarætur voru soðnar og etnar með smjöri.

Einnig hafðar hráar sem krydd í brennivín. Í nútímanum má benda á kryddsmjör úr hvönn til að hafa með harðfiski eða nautasteik. Smá bútur af hvannarblaði saxaður saman við hrásalat gefur nýstárlegt bragð af því. Hvannaleggi má skera í hringi og þurrka í sykri. Látið liggja nokkrar mínútur í heitum, þykkum sykurlegi. Svo velt upp úr strásykri eða flórsykri. Að lokum þurrkað á bökunarpappír og geymt í loftþéttu íláti á svölum stað. Notað eins og sælgæti. Rabarbarasulta með íblöndun af hvannablöðum þykir mörgum mjög bragðgóð.

Hvannastilka er líka hægt að nota eins og stilkselju. Þurrkuð hvannablöð, mulin smátt, ein teskeið saman við morgunjógúrtina er sögð koma sér vel fyrir karla með blöðruhálskirtilsstækkun.

Fersk hvannafræ lögð í hreint brennivín, koníak eða vodka, sama rúmmál af hvoru, geymt við stofuhita í svo sem mánuð minnst, þykir gera mjöð sem styrkir ónæmiskerfið. Ein teskeið af vökvanum sett út í vatnsglas og drukkið á morgnana er sagt kveða niður marga kvilla. Hvannafræ er líka góður bragðgjafi í brauðbakstur.

Skessujurt

Levisticum officinale er komin frá héraðinu Lígúríu á Norður-Ítalíu og dregur sitt latneska heiti af því. En þetta nafn hefur aldeilis fengið að kenna á breytingum og afbökunum bæði í mæltu máli og rituðu. Upphaflega nafnið er Ligusticum.

Í þeim tungumálum sem skyldust eru íslensku eru orðmyndirnar Libsticka, Liebstoekel og Lovage ærið gamlar, frá miðbiki 16. aldar en þá átti skessujurtin sitt blómaskeið í vinsældunum. Á þessum árum ríkti nokkur upplausn og frjálslyndi í kjölfar siðaskipta í kirkju- og þjóðfélagsmálum.

Opinber baðhús voru vel sóttir skemmtistaðir og siðprýðin þar þætti okkur hvorki fínpússuð né ofan við siðgæðismark. Enda tók nú að blossa upp skelfilegur sjúkdómur, lekandinn. Hann þekktu menn ekki áður og kunnu engin ráð við honum. Sumir töldu hann kominn frá Vesturheimi; refsing Guðs fyrir sjálfbirgingshátt landafundatímans og ódyggðugt líferni. En baðhúsaeigendur töldu sig hafa fundið lausn á þessum vanda. Skessujurtin var borin í tonnatali í baðvatn gesta og átti að vera ein allsherjar smitunarvörn. En að sjálfsögðu dugði hún skammt. Lekandafaraldrinum linnti ekki fyrr en baðhúsunum var lokað með lagaboðum og tekin var upp traustari stefna í trúariðkun og hreinlífi, þar sem meiri áhersla var lögð á tærleika sálarinnar og tryggð við yfirvöld.

En frá fornu fari er sú trú rótgróin að skessujurtin lækni alla kvilla kvenna, létti klæðaföll, bæti brjóstagjöf og tempri truflanir „yfirgangsáranna“. Karlmönnum var hún einnig notadrjúg á á líkum nótum. Vatn með skessujurt hreinsar húð, opnar svitaholur og yljar vel. Öruggt ráð til vinsælda var að bera skessujurt á sér. Ekki rýrði það heldur gildi skessujurtarinnar að með henni var hægt að stugga burt höggormum, snákum, músum, rottum og öllum skorkvikindum.

Skessujurt hefur alltaf verið notuð nokkuð við matargerð. Hún var sett í kjötkatlana þegar soðið var stórgripakjöt. Þótti þá bæta meltinguna og koma í veg fyrir matareitrun. Það var ekki svo lítils virði þegar heil herfylki áttu í hlut. Þetta vissu Rómverjar og fluttu þess vegna skessujurtina með sér í herförum sínum norður og vestur um Evrópu. Nú á dögum notum við skessujurtina frekar lítið. Hún er samt uppistaðan sem gefur bragð í margar pakkasúpur og súputeninga. Sé hún höfð í hófi út í kjötsúpu eða fisksoð styrkir hún keim annarra bragðefna líkt og „þriðja kryddið“ (Monosodium glutamat, MSG) án þess að vera sjálf ríkjandi. Gott er að eiga þurrkað skessujurtarfræ til vetrarins og nota í gróft brauð, súpur og pottrétti.

Það er auðvelt að rækta skessujurt. Einu heimili dugar ein til tvær plöntur.

Fræ af henni fæst yfirleitt í fræbúðunum á vorin og er sáð í potta inni til að byrja með en svo má færa hana út í garð þegar plönturnar eru orðnar stálpaðar og þar er hún gróðursett á endanlegan stað þegar tíð leyfir. Einnig má fá hnausa af skessujurt hjá nágrönnum eða í gróðrarstöðvum. En skessujurtin þroskar hér líka fræ og getur sáð sér út af sjálfsdáðum. Skessujurtin er fjölær, afar harðger planta sem oft nær tveggja metra hæð. Hún þrífst vandræðalaust um allt land og er ekki vönd að aðbúnaði, fái hún bara frjóa og jafnraka mold.

Vegaframkvæmdum forgangsraðað
Fréttir 4. desember 2024

Vegaframkvæmdum forgangsraðað

Alls verður rúmum 27 milljörðum króna ráðstafað til framkvæmda og viðhalds á veg...

Hrossafeitin mýkri fyrir húðina
Fréttir 4. desember 2024

Hrossafeitin mýkri fyrir húðina

Fremur mun fátítt að hrossafeiti sé notuð í sápuframleiðslu hérlendis. Úr tíu kí...

Nýr skóli byggður
Fréttir 3. desember 2024

Nýr skóli byggður

Fyrsta skóflustungan var tekin á dögunum að nýjum Bíldudalsskóla sem verður samr...

Ávextir beint frá spænskum bónda
Fréttir 3. desember 2024

Ávextir beint frá spænskum bónda

Rekstur norðlenska innflutnings­fyrirtækisins Fincafresh hefur vaxið jafnt og þé...

Félagssálfræðilegur munur milli sveitarfélaga
Fréttir 2. desember 2024

Félagssálfræðilegur munur milli sveitarfélaga

Vonast er til að að aukin þekking á sálfræðilegum hliðum byggðamála geti stuðlað...

Ráðinn slökkviliðsstjóri í Fjarðabyggð
Fréttir 29. nóvember 2024

Ráðinn slökkviliðsstjóri í Fjarðabyggð

Suðurnesjamaðurinn Ingvar Georg Georgsson hefur verið ráðinn í starf slökkviliðs...

Rannsókn ungra bænda
Fréttir 29. nóvember 2024

Rannsókn ungra bænda

Samtök ungra bænda (SUB) eru að kortleggja hindranir og hvata nýliðunar og kynsl...

Haustrúningur í fullum gangi
Fréttir 29. nóvember 2024

Haustrúningur í fullum gangi

Baldur Stefánsson, rúningsmaður frá Klifshaga í Öxarfirði, klippir tólf til þret...