Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 3 ára.
Anna María Flygenring, formaður Geitfjárræktarfélags Íslands.
Anna María Flygenring, formaður Geitfjárræktarfélags Íslands.
Fréttir 12. mars 2021

Hefur áhyggjur af hvað verður um lítið félag í nýju félagskerfi

Höfundur: Margrét Þóra Þórsdótttir

„Mér hefði þótt það styrkja okkar málstað ef formaður Bændasamtaka Íslands hefði sýnt þessu einhvern áhuga. Frá honum hefur ekki neitt heyrst,“ segir Anna María Flygenring, formaður Geitfjárræktarfélags Íslands.

Umfjöllun um höfnun styrks úr Matvælasjóði til eina umsækjandans innan þess félags og frá var sagt í Bændablaðinu síðast vakti mikla athygli. Anna María lýsti umsögn með höfnuninni á þann veg að um hefði verið að ræða fádæma fordóma og fákunnáttu um geitur og geitfjárrækt. Umfjöllun vakti mikla athygli og voru flestir sama sinnis, þ.e. þótti umsögnin sérkennileg.

Anna María bendir á að á Búnaðarþingi sem efnt verður til innan skamms verði félagskerfi innan landbúnaðarins rætt og kosið um nýtt fyrirkomulag í því kerfi. Þannig verði allir bændur, hvaða búgrein svo sem þeir stunda, ein heild og henni verður skipt upp í deildir. „Menn tala núna um að með breytingunni náist aukinn slagkraftur og slá um sig með alls kyns orðalagi í þeim dúr, en ég er satt best að segja frekar áhyggjufull yfir því hvað verður um lítið félag eins og Geitfjárræktarfélag Íslands í þessu nýja félagskerfi,“ segir hún.

Geitur á 116 býlum á Íslandi

Anna María segir að félagsmenn í Geitfjárræktarfélagi Íslands séu 63 talsins. Í landinu voru um áramótin 2019 til 2020 alls 1.471 geit. Niðurskurður vegna riðu sem upp kom í Skagafirði í fyrrahaust leiddi til þess að geitur lágu einnig í valnum og því má búast við að þær séu eitthvað færri nú. Alls eru geitur á 116 býlum. „Það kom mér ekki á óvart á hve mörgum býlum eru haldnar geitur, miklu frekar hve margir eru nú þegar utan GFFÍ. Sem segir að fólk hefur ekki séð sér hag í að vera í félaginu. Eða geiturnar eru í aukahlutverki í búskapnum. Samt er það hlutverk ekki ómerkilegra en önnur, svo sem að veita fólki félagsskap og gleði,“ segir Anna María.

Allt fjármagn verður sótt til BÍ

Hún velti því í kjölfarið fyrir sér hvort einhverjir muni detta út úr félaginu við breytingu og þá jafnvel líka hvort aðrir komi inn. Árgjaldið muni renna til Bændasamtaka Íslands, BÍ, þannig að tekjuöflun verði engin fyrir Geitfjárræktarfélagið. „Við munum þá þurfa að sækja allt fjármagn til BÍ ef eitthvað á að gera,“ segir hún og bendir á að BÍ hafi styrkt t.d. útgáfu bóka um efni sem tengist sauðfjárrækt og því muni þau eflaust líka styrkja Geitfjárræktarfélagið á 30 ára afmælisári sínu. Til stendur af því tilefni að gefa út bók sem jafnframt á að þjóna sem kennslubók en slíka bók vantar sárlega við Landbúnaðarháskólann á Hvanneyri.