Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 7 ára.
Halldór Runólfsson, frá skrifstofu matvæla-, landbúnaðar- og byggðamála í atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu, setur ársfund Matvælastofnunar 2016.
Halldór Runólfsson, frá skrifstofu matvæla-, landbúnaðar- og byggðamála í atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu, setur ársfund Matvælastofnunar 2016.
Fréttir 3. maí 2016

Hagur neytenda í brennidepli á ársfundi Matvælastofnunar

Matvælastofnun (MAST) hélt ársfund sinn þann 5. apríl síðastliðinn á Hótel Reykjavík Natura. Viðfangsefni fundarins var hagur neytenda í samhengi við matvælaframleiðslu. Ræddar voru hugmyndir um það hvernig hagur neytenda væri tryggður þegar kemur að öryggi matvæla og upplýsingagjöf um þau.
 
Neytendamál hafa orðið sífellt meira áberandi í þjóðfélagsumræðunni á undanförnum árum samhliða aukinni meðvitund neytenda um matvælin sem þeir neyta. Matvælastofnun hefur mætt auknum kröfum um gegnsæjar upplýsingar um matvælin með betri upplýsingagjöf, til að mynda í gegnum vef stofnunarinnar. Ný reglugerð um miðlun upplýsinga um matvæli tók nýlega gildi og auðveldar neytendum líka mjög að átta sig á innihaldi matvæla. 
 
Hluti af þessari vakningu neytenda eru hollustusjónarmið; krafa neytenda um að geta valið sér hollari og „hreinni“ fæðu. Á vef MAST má finna upplýsingar um Skráargatið, samnorrænt merki sem er viðleitni til að gera neytendum auðveldara að finna vörur innan vöruflokka sem innihalda minna salt, minni sykur, minni og hollari fitu og meiri trefjar og heilkorn.  
 
Ný upplýsingareglugerð og Skráargatið
 
Nýja upplýsingareglugerðin og Skráargatið var til umfjöllunar á fundinum, ásamt upplýsingastefnu Matvælastofnunar og fyrirhugaðri Facebook-síðu – sem verður virkjuð í haust og er tileinkuð hagsmunum neytenda. Markmið hennar verður að gera neytendum kleift að forðast neyslu á varasömum matvælum á markaði, að leiðbeina neytendum þannig að þeir geti sjálfir tryggt öryggi matvæla sem þeir neyta eftir fremsta megni og að gera neytendum kleift að taka upplýsta ákvörðun um þann mat sem þeir neyta.
 
Á fundinum var fjallað um hvenær og hvernig matvæli eru innkölluð af markaði og hvaða reglur gilda um plast og aðrar umbúðir sem komast í snertingu við matvælin. Í grunnreglugerð kemur fram að matvælasnertiefni mega ekki gefa frá sér efni þannig að það geti stofnað heilbrigði manna í hættu eða spillt skynmatseinkennum þeirra. 
 
Þá var frammistöðuflokkun MAST kynnt sem gengur út á það að neytendur hafi aðgang að flokkunarkerfi sem setur matvælaframleiðendur í gæðaflokkana A, B og C – eftir því hversu vel fyrirtækjunum gengur að  uppfylla lögbundnar skyldur sínar og tryggja örugg matvæli, fóður, heilsu og velferð dýra.
 
Á ársfundinum voru jafnframt kynntar nýjar niðurstöður mælinga Matvælastofnunar á ýmsum efnum í matvælum eins og salti og transfitusýrum í matvælum; nítríti og saltpétri í kjöti; og þungmálmum, histamíni og PAH-efnum og listeríu í dýraafurðum. Farið var yfir niðurstöður mælinga á illgresiseyðum og skordýraeitri í grænmeti og ávöxtum og lyfjaleifum í dýraafurðum. Sýklalyfjaþol baktería er vaxandi vandamál á heimsvísu og á ársfundinum var farið yfir stöðuna á Íslandi hvað varðar sýklalyfjanotkun og lyfjaþol. 
 
Ekki hætta af varnarefnum í grænmeti og ávöxtum
 
Í stuttu máli má segja að afar fá tilvik af efnum yfir leyfilegum mörkum hafi greinst í sýnum úr landbúnaðarafurðum á Íslandi. Í leit að óæskilegum efnum sem berast úr umhverfi, eins og til dæmis þrávirkum lífrænum efnum, PCB-efnum, þungmálmum, sveppaeitri og ólöglegum lyfjum, voru engar mælingar yfir hámarksgildum sem settar eru í reglugerðum. Um sýnatökur varðandi leit að varnarefnum í grænmeti og ávöxtum segir í niðurstöðum að hámarksgildi varnarefna séu lág, sjaldan greinist efni yfir hámarksgildum og magn sem greinist í matvælum sé langt undir því sem er varasamt heilsu manna. Ekki stafi hætta af varnarefnum í grænmeti og ávöxtum fyrir neytendur.
 
Glærur frá fundinum og helstu niðurstöður eru aðgengilegar í gegnum vef MAST á slóðinni http://www.mast.is/matvaelastofnun/utgafa/fraedslufundir. 

3 myndir:

Bæta má orkunýtingu í landbúnaði talsvert
Fréttir 8. desember 2023

Bæta má orkunýtingu í landbúnaði talsvert

Unnt er að spara allt að 1.500 GWst árlega á Íslandi og þar af um 43 GWst í land...

Opnunarhóf í Miðskógi
Fréttir 8. desember 2023

Opnunarhóf í Miðskógi

Byggingu nýs kjúklingahúss í Dölunum er lokið og verður tekið í notkun 1. desemb...

Skilgreina opinbera grunnþjónustu
Fréttir 8. desember 2023

Skilgreina opinbera grunnþjónustu

Unnin hafa verið drög að skilgreiningu á opinberri grunnþjónustu, ásamt greinarg...

Innleiða þarf vistkerfisnálgun
Fréttir 7. desember 2023

Innleiða þarf vistkerfisnálgun

Tímabært þykir að innleiða vistkerfisnálgun á Íslandi með skipulögðum hætti. Fræ...

Verðmætasköpun eykst og mikil sala
Fréttir 7. desember 2023

Verðmætasköpun eykst og mikil sala

Æðarræktarfélag Íslands (ÆÍ) hélt aðalfund að Keldnaholti 18. nóvember. Alls mæt...

Tilraun til að bjarga færeyska hrossakyninu
Fréttir 6. desember 2023

Tilraun til að bjarga færeyska hrossakyninu

Færeyska hestakynið er í útrýmingarhættu en í dag eru til 89 færeysk hross og af...

Nýr stjórnarformaður
Fréttir 6. desember 2023

Nýr stjórnarformaður

Daði Guðjónsson er nýr stjórnarformaður markaðsstofunnar Icelandic Lamb, sem fer...

Margir fengu vel í soðið
Fréttir 6. desember 2023

Margir fengu vel í soðið

Útlit er fyrir að rjúpnaveiði hafi í ár verið allt að 20% meiri en í fyrra. Meða...