Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 6 ára.
Graham Bradley–framúrstefnuhönnun
Fræðsluhornið 7. september 2016

Graham Bradley–framúrstefnuhönnun

Höfundur: Vilmundur Hansen

Fjármálakreppan sem herjaði á Vesturlandabúa á fjórða áratug síðustu aldar hafði gríðarleg áhrif í miðríkjum Bandaríkjanna. Þrátt fyrir að bændur þar hefðu flestir til hnífs og skeiðar var fjárhagsstaða þeirra í bullandi mínus og margir misstu jarðnæði sitt í skuldafen banka og fjármálastofnana.

Framleiðendur landbúnaðartækja fundu einnig fyrir samdrættinum og mörg fyrirtæki sem staðið höfðu ágætlega fóru hratt og örugglega á hliðina. Undir lok kreppunnar settu eigendur Graham-Paige Motors Corporation í Detroit í  Michigan-ríki í Bandaríkjunum á markað sína fyrstu dráttarvél. Traktorinn sem kallaðist Graham-Bradley 503 var hugvitssamlega hannaður og von framleiðendana að hann mundi reisa fjárhag fyrirtækisins við þegar fjármálakerfið rétti úr kútnum.
Framleiðsla á bílum

Aðkoma fyrirtækisins, sem hét upphaflega Graham Brothers, að vélaframleiðslu hófst árið 1927 þegar það yfirtók bifreiðaframleiðandann Paige-Detroit Motor Car Company. Með kaupunum ætlaði fyrirtækið sér stóran sess í sívaxandi bifreiðaframleiðslu en fyrir þann tíma hafði það hagnast vel á framleiðslu á gleri og glerflöskum.

Framleiðsla á bílum gekk vel fyrstu árin en eftir að kreppan skall á fór að halla verulega undan fæti.

Fyrsti traktorinn

Hönnun á Graham-Bradley traktorum hófst 1937 og fyrsta vélin var sett á markað ári síðar. 1939 sá uppfærð týpa af Graham-Bradley 503, Model 104, dagsins ljós. Kramið í vélunum var svipað en nýja týpan náði meiri hraða og allt að 30 kílómetrum á klukkustund á góðum vegi og þótti mikil spíttkerra á þeim tíma.

Hönnun Graham-Bradley var straumlínulaga og einkennislitur þeirra hárauður. Húddið var óvenjulegt og framan á því áberandi bogalagað grill sem gaf traktornum fútúrískt útlit.

Graham-Bradley dráttarvélarnar voru frá upphafi á gúmmíhjólum og hjólabreidd þeirra auðstillanleg. Mótorinn var af gerðinni Continenta, 217 kúbik og rétt rúmlega 25 hestöfl.

Ágæt sala

Sala á dráttarvélunum var ágæt þrátt fyrir að fyrirtækið væri með fáa sölu- og þjónustuaðila á sínum snærum og auglýsti þær aðallega til sölu í Sears- og Roebuck innkaupalistum sem sendir voru á bændabýli í miðríkjum Bandaríkjanna.

Um tíma voru framleiddir Graham-Bradley leikfangatraktorar úr harðplasti sem fyrirtækið sendi bændasonum í jólagjöf og voru seldir í gegnum póstverslanir.

Árið 1938 sendi fyrirtækið frá sér yfirlýsingu þess eðlis að stórauka ætti dráttarvélaframleiðslu þess og að tíu þúsund slíkir yrðu settir á markað næstu fimm árin. Ekkert varð af þeim áformum.

Framleiðslu Graham-Bradley dráttarvéla var hætt 1940 og fyrirtækið sneri sér að framleiðslu stríðstóla fyrir bandaríska sjó- og loftherinn.

Draumurinn um Frazer

Sex árum síðar, 1946, stóð til að fyrirtækið reyndi aftur fyrir sér á dráttarvélamarkaði með traktor sem kallaðist Frazer.

Hugmyndin að baki Frazer dráttarvélunum var stór og til stóð að framleiða fjölda fylgihluta eins og jarð- og heyvinnslutæki sérstaklega fyrir þær vélar. Frazerinn reyndist pípudraumur og hætt var við áformin áður en framleiðslan hófst.

Fyrirtækið hætti öllum afskiptum af vélaframleiðslu á miðjum fimmta áratug síðustu aldar og sneri sér að fasteignaviðskiptum með góðum árangri. Það átti meðal annarra eigna íþrótta- og tónleikahöllina Madison Square Garden í New York um tíma.

Jóhannes Hreiðar ráðinn framkvæmdastjóri
Fréttir 8. desember 2022

Jóhannes Hreiðar ráðinn framkvæmdastjóri

Auðhumla hefur ráðið Jóhannes Hreiðar Símonarson framkvæmdastjóra Auðhumlu svf.

Gátu ekki gert grein fyrir rúmlega 81.000 löxum
Fréttir 8. desember 2022

Gátu ekki gert grein fyrir rúmlega 81.000 löxum

Matvælastofnun hefur lagt stjórn­valdssekt á Arnarlax ehf. upp á 120 milljón kró...

Dominique kveður eftir rúm 20 ár í stjórn
Fréttir 7. desember 2022

Dominique kveður eftir rúm 20 ár í stjórn

Talsverðar breytingar urðu á stjórn samtakanna Slow Food Reykjavík á aðalfundi þ...

Fjármunir til frekari þróunar á smáforriti
Fréttir 7. desember 2022

Fjármunir til frekari þróunar á smáforriti

Íslenska nýsköpunarfyrirtækið HorseDay rekur samnefnt smáforrit um flest allt se...

Framleiðsla á krefjandi tímum
Fréttir 6. desember 2022

Framleiðsla á krefjandi tímum

Fyrir skemmstu komu tveir fulltrúar frá landbúnaðartækjaframleiðandanum Kuhn í h...

Samvinna möguleg
Fréttir 6. desember 2022

Samvinna möguleg

Á Matvælaþingi matvælaráðuneytisins í Hörpu 22. nóvember flutti gestafyrirlesari...

Gúrkuútflutningur hefur fest sig í sessi
Fréttir 6. desember 2022

Gúrkuútflutningur hefur fest sig í sessi

Útflutningur á íslenskum gúrkum til Grænlands og Færeyja virðist hafa fest sig í...

Notkun á„lambatöflum“ mjög algeng á Íslandi
Fréttir 5. desember 2022

Notkun á„lambatöflum“ mjög algeng á Íslandi

Þrír starfsmenn Matvælastofnunar vekja athygli á nýjum lögum um dýralyf, í grein...