Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 1 árs.
Samkvæmt núgildandi verðskrá er Ístex að greiða frá 80 til 600 krónur á kílóið eftir gæðum ullarinnar.
Samkvæmt núgildandi verðskrá er Ístex að greiða frá 80 til 600 krónur á kílóið eftir gæðum ullarinnar.
Mynd / smh
Fréttir 16. febrúar 2023

Góð afkoma en ullarverðið gagnrýnt

Höfundur: Sigurður Már Harðarson

Gengi Ístex hefur tekið stakkaskiptum á undanförnum tveimur árum og hefur ullarvinnslufyrirtækið skilað góðum hagnaði á þessu tímabili. Mikil eftirspurn er eftir prjónabandinu frá því og annar það ekki eftirspurn – þrátt fyrir að hafa ráðist í talsverðar fjárfestingar í tækjabúnaði.

Sauðfjárbændur eiga langstærstan hluta í fyrirtækinu, en í kjölfar nýlegra tíðinda af hinu góða gengi létu ýmsir þeirra í ljós óánægju sína með lágt afurðaverð fyrir ullina.

Lýstu sumir sauðfjárbændanna því yfir á Facebook-síðu Bændablaðsins að frekar hendi þeir ullinni en að hafa fyrir því að koma henni í þetta lága verð. Gunnar Þórarinsson, sauðfjárbóndi á Þóroddsstöðum í Hrútafirði og stjórnarformaður Ístex, segist vita af þessari óánægju.

Sumir taka því mjög illa ef ullin er felld

Gunnar Þórarinsson, sauðfjárbóndi á Þóroddsstöðum í Hrútafirði og stjórnarformaður Ístex.

„Í sumum tilfellum eru bændur ekki að skila frá sér þeirri vöru sem skilar miklum verðmætum á mörkuðum,“ segir Gunnar. „Ullin þarf að standast ákveðnar kröfur um hreinleika og gæði til að flokkast í þá flokka sem greitt er mest fyrir, það er þá flokka sem nýttir eru í bandframleiðsluna.

Ef flokkunin frá bændum stenst ekki þær kröfur þarf að fella hana í verðminni flokka. Ég veit að þetta er hluti af vandamálinu, sumir virðast einfaldlega taka þessu afskaplega illa ef ullin er felld í mati í Þvottastöðinni.

Stundum bregðast bændur of harkalega við þessu og segjast hættir að flokka ullina og verða þá af þeim fjármunum sem þeir geta fengið fyrir ullina með því að laga fráganginn – stundum bara lítillega.“

Tvær aðalástæður fyrir því að ull er felld

Gunnar segir ástæðuna fyrir því að ull sé felld geta verið bæði verið vegna þess að búið sé að skemma hana áður en rúið er, en síðan geta líka vinnubrögðin við flokkunina verið ófullnægjandi, til dæmis við að taka gallana í burtu.

„Munurinn á afurðaverði er mjög mikill, fyrir þá ull sem er vinnsluhæf fyrir bandvinnsluna og svo þeirri sem er bara þvegin hér og svo seld út sem hráull. Þannig skiptir til dæmis miklu máli hvort ull sé flokkuð í H1-flokkinn, sem Ístex greiðir nú 425 krónur á kílóið og nýtist í bandframleiðslunni hér, eða ef hún fellur niður í H2, sem ekki er greitt nema 125 krónur á kílóið fyrir og er þvegin hér og seld á mörkuðum erlendis. Það er býsna mikið verðfall.

Hlutur opinbera stuðningsins skiptir líka miklu máli í þessu sambandi og mun fara vaxandi ef ákvæði um hann í núgildandi búvörusamningi halda sér í endurskoðuninni sem er fram undan.

„En svo eru auðvitað einhverjir sem eru bara ekki nógu ánægðir með verðið fyrir ullina sína,“ segir Gunnar og skilur það sjónarmið. 

„En það má líka benda á að í Noregi er mun lægra ullarverð í boði en hér – og einnig í Bretlandi en þar er meðalverð um 70 krónur á kílóið eins og kom fram í Bændablaðinu fyrir stuttu.

Samkvæmt núgildandi verðskrá er Ístex að greiða frá 80 til 600 krónur á kílóið eftir gæðum ullarinnar. Í dag er afkoma Ístex góð, en því má ekki gleyma að fyrir nokkrum árum var staðan í bullandi mínus,“ segir hann.

Stjórnar að ákveða ullarverð

Gunnar segir að það sé stjórn Ístex sem ákveði afurðaverð fyrir ullarinnlegg og vanalega hafi slíkar ákvarðanir verið teknar á haustin, áður en ullarvertíðin byrjar.

„Ég held að það sé nokkuð öruggt að ullarverð til bænda mun hækka talsvert á næstu misserum komi ekkert upp á sem hafi veruleg neikvæð áhrif á rekstur Ístex. Gangi rekstur Ístex vel áfram mun það skila bændum hærra verði fyrir ullina og að því er svo sannarlega stefnt,“ segir hann.

Ullarinnlegg til Ístex hefur dregist saman um fjórðung á síðustu fimm árum, sem að mestu má rekja til fækkunar sauðfjár í landinu. Á sama tíma hefur sala aukist um 50 prósent og er ætlunin að bregðast við þeirri þróun með auknum fjárfestingum í tækjabúnaði, til að mynda í nýrri spunavél frá Ítalíu og kembilínu sem getur aukið framleiðsluafköstin um þriðjung.

Skylt efni: Ístex | ullarverð

Hvað hefur áhrif á líðan bænda?
Fréttir 6. desember 2024

Hvað hefur áhrif á líðan bænda?

Valgerður Friðriksdóttir stendur fyrir rafrænni könnun þar sem hún skoðar hefðir...

Lök kornuppskera á landinu
Fréttir 6. desember 2024

Lök kornuppskera á landinu

Samkvæmt bráðabirgðatölum bendir allt til að uppskera af þurru korni sé umtalsve...

Erlend kúakyn myndu skila mun meiri framlegð
Fréttir 5. desember 2024

Erlend kúakyn myndu skila mun meiri framlegð

Ný skýrsla Landbúnaðarháskóla Íslands, þar sem fjögur erlend kúakyn voru borin s...

Skrásetja sögu brautryðjenda
Fréttir 5. desember 2024

Skrásetja sögu brautryðjenda

Sögur brautryðjenda í garðyrkju varpa ljósi á þá miklu þróun sem hefur átt sér s...

Friðheimar kaupa Jarðarberjaland
Fréttir 5. desember 2024

Friðheimar kaupa Jarðarberjaland

Eigendur Friðheima, Knútur Rafn Ármann og Helena Hermundardóttir, munu taka við ...

Áfrýjar dómi
Fréttir 5. desember 2024

Áfrýjar dómi

Undanþágur kjötafurðastöðva frá samkeppnislögum féllu úr gildi með dómi Héraðsdó...

Fuglaflensa á íslensku búi
Fréttir 5. desember 2024

Fuglaflensa á íslensku búi

Á þriðjudaginn greindist fuglaflensa af gerðinni H5N5 á kalkúnabúi Reykjabúsins ...

Mismunur bændum í óhag
Fréttir 5. desember 2024

Mismunur bændum í óhag

Í dag kostar 306 krónur að framleiða lítra af mjólk samkvæmt nýsamþykktum verðla...