Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 7 ára.
Jörundur og Sif gera að höltu kiði í Hrísakoti sem staðsett er í einu af hreinustu hólfum landsins í Helgafellssveit. Geitahjörðin þeirra stækkaði umtalsvert í vor og eiga þau nú um 60 skepnur.
Jörundur og Sif gera að höltu kiði í Hrísakoti sem staðsett er í einu af hreinustu hólfum landsins í Helgafellssveit. Geitahjörðin þeirra stækkaði umtalsvert í vor og eiga þau nú um 60 skepnur.
Mynd / ghp
Fréttir 7. júlí 2017

Geitaafurðir tryggja tilveru stofnsins

Höfundur: Guðrún Hulda Pálsdóttir
„Tilvera geitarinnar verður tryggð með því að skapa eftirspurn eftir afurðum hennar,“ segir Sif Matthíasdóttir, formaður Geitfjárræktarfélags Íslands. Hún rekur, ásamt Jörundi Svavarssyni, eiginmanni sínum, geitabú að Hrísakoti í Helgafellssveit undir Ljósufjöllum. Geitfjárræktendur horfa fram á spennandi tíma. Samstarf við Matís og fleiri getur skapað athyglisverða möguleika varðandi nýsköpun í afurðaframleiðslu og um leið stuðlað að breyttum hugsunarhætti varðandi landbúnað. 
 
Íslenski geitastofninn er enn í útrýmingarhættu, en hann telur 1.123 vetrarfóðraðar skepnur í dag, samkvæmt Heiðrúnu, skýrsluhaldskerfi fyrir geitur. Geitaeigendur eru, samkvæmt sömu skýrslu, 823 talsins og því er ljóst að margir eiga fáar skepnur.
 
Brýnasta verkefni geitfjárbúskaparins er að koma upp sæðisbanka, að mati Sifjar. Það myndi auðvelda ræktunarstarf og viðhalda stofninum ef illa færi.Hér eru hafrarnir Kolur og Snær.
 
Til að koma geitinni úr útrýmingarhættu þarf fjöldinn að ná 4.700 dýrum, samkvæmt reglum Matvæla- og landbúnaðarstofnunar Sameinuðu þjóðanna (FAO). Til þess að nálgast þá tölu og viðhalda stofninum þarf að skapa grundvöll fyrir afurðasölu og nýta geitina meira og betur, að mati Sifjar Matthíasdóttur, formanns Geitfjárræktarfélags Íslands. 
 
Í dag er framleitt kjöt, mjólkurvörur, snyrtivörur og ull í afar smáum stíl en sú staðreynd að allar þessar vörur seljast upp gefur vísbendingar um að bæta megi verulega í vöruframboð. Til þess þarf hins vegar fleiri geitur, fleiri og stærri geitabændur, ásamt góðum stuðningi og fræðslu. 
 
Kveða niður gamla drauga
 
Sif telur þó allra brýnasta verkefni geitfjárbúskaparins í dag að koma upp sæðisbanka.
„Við stöndum frammi fyrir því vandamáli að geitastofninn er lítill og innan hvers varnarhólfs eru enn minni hjarðir. Allt ræktunarstarf reynist því afar erfitt. Samkvæmt búfjársamningum BÍ og ríkisins mun 15% af fé til geitfjárræktar fara í vinnu við að koma upp sæðisbanka. Við gerðum samning við Nautastöðina á Hesti í Borgarfirði um töku, geymslu og frystingu sæðis, en aðalmálið er að fá aðstöðu fyrir sæðistöku,“ segir Sif og leggur áherslu á þýðingu þess að slík aðstaða sé tryggð. 
 
Geitfjárræktarfélagið vill stuðla að aukinni afurðasölu og hyggst standa fyrir vinnustofum fyrir verðandi smáframleiðendur geitaafurða.
 
„Við verðum að gera okkur grein fyrir því að við erum ofboðslega tæp á að missa þessa tegund af landinu. Ef við lítum til ferðamannastraumsins og allan mögulegan innflutning er fræðilegur möguleiki að smit í stofninn geti leitt af sér ófyrirsjáanlegan skaða. Það þarf ekki nema eina „hestapest“ og stofninn gæti horfið.“
 
Merkum áfanga var náð í sögu geitfjárræktar þegar Geitfjárræktarfélag Íslands fékk aðild að Bændasamtökum Íslands árið 2015. 
 
„Með því breyttist viðhorfið til geitarinnar, úr gæludýri í nytjadýr. Reyndar virðast margir íslenskir bændur enn neikvæðir gagnvart geitinni, telja hana óalandi og óferjandi skepnu. Margir setja samasemmerki milli sauðfjár og geitar. Þetta eru hins vegar ólíkar skepnur, sem haga sér á ólíkan máta. Þú smalar til dæmis ekki geitum, þær elta þig,“ segir Sif og bætir við að kveða þurfi niður fordóma. 
 
„Það er algjör mýta að engar girðingar haldi þeim. Ef við hugsum um þá milljónir kílómetra af girðingum sem settar eru upp til að halda sauðfénu frá, en samt komast alltaf einhverjar kindur inn á tún. Það sama er að segja um geitur. Góðar girðingar halda þeim og fullorðin geit hoppar ekki einu sinni yfir skurð ef þeim líst svo á. Kiðin hoppa, klifra og troða sér alls staðar sem þau komast. En það gera lömb líka,“ segir Sif.
 
Vinnustofur um nýtingu og framleiðslu geitaafurða
 
Viljayfirlýsing um samstarf milli Geitfjárræktarfélags Íslands og Matís var undirrituð 14. febrúar sl. um samstarf um auknar rannsóknir í tengslum við ræktum geitarinnar,  verðmætasköpun, vöruþróun og kynningu á geitinni og afurðum að markmiði. Sif segir viljayfirlýsinguna strax hafa haft jákvæð áhrif, því nokkrum spennandi verkefnum verði ýtt úr vör á næstunni. 
 
Meðal annars sé verið að vinna að heimasíðu og hönnun vörumerkis fyrir íslenskar geitaafurðir. Þar með verði allar íslenskar geitaafurðir merktar einu vörumerki. Verkefnið Matarauður Íslands, sem atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið kom á fót árið 2015, hjálpar til við það. Tilgangur þess er m.a. að hefja matarmenningu og matarframleiðslu til vegs og virðingar gegnum samstarf og með samþættu kynningar- og markaðsstarfi.
 
Sif og heimalningurinn Gæfa.
 
Í tengslum við það hyggst Geitfjárræktarfélagið halda vinnustofur um nýtingu og framleiðslu geitaafurða. „Við sjáum fyrir okkur mismunandi vinnustofur fyrir mjólk, kjöt og ullarvinnslu, þar sem við fengjum innsýn inn í reynslu frá fólki sem þekkir og kann að gera hlutina, meðal annars frá öðrum löndum. Þetta yrði vettvangur sem gæti hjálpað smáframleiðendum að fara af stað með vöru,” segir Sif. Hún nefnir að margir séu tilbúnir til þess að hefja framleiðslu á vörum, en stofnkostnaður við að setja vinnslur aftri framkvæmdinni. Því þurfi fjármagn og stuðning til að hrinda hugmyndum af stað. 
 
„Við höfum alla þekkinguna og aðstöðuna í landinu, en í mismunandi stofnunum; RML, MAST, MATÍS, LbhÍ svo eitthvað sé nefnt. Það þyrfti að koma þessari þekkingu saman í einn pakka. Við viljum sjá hvort það sé einhver möguleiki á slíku með því að setja upp vinnustofur til að byrja með,“ segir Sif.
 
Kallað eftir breyttum sláturaðferðum
 
Fáein tonn af geitakjöti eru framleidd í sláturhúsum árlega, en mest allt kjöt er selt í heimasölu, í sérverslunum og til einstakra veitingastaða. Sjálf hafa Sif og Jörundur verið að þróa kjötvinnslu. 
 
„Við höfum verið að prófa okkur áfram með að slátra á mismunandi aldri og vinna kjötið með ýmsu móti. Kjötið er magurt og eldamennskan á því viðkvæm. Bragðið getur markast af því á hvernig landi geiturnar nærast. Hér ganga þær í birki og á lyngi og kjötinu hefur verið lýst sem hreindýralambi með villibráðakeimi,“ segir Sif.
 
Íslenski geitastofninn er enn í útrýmingarhættu, en hann telur 1.123 vetrarfóðraðar skepnur í dag. Til að koma geitinni úr hættu þarf fjöldin að ná 4.700 dýrum. 
 
Hún segir geitfjáreigendum mikið í mun að sláturaðferðir geita batni en í samstarfi við MATÍS hefur Geitfjárræktarfélagið hug á að upplýsa og fræða starfsfólk sláturhúsa. 
 
„Geitur þola ekki vatn. Flest sláturhús í dag stuða dýrin með rafmagni áður en þeim er slátrað og í því felst að setja vatn á hausinn á þeim, er mér sagt. Mörgum finnst ótækt að bjóða geitinni upp á slíkar aðferðir og þætti æskilegra, út frá dýravelferðarsjónarmiðum, að taka upp aðrar aðferðir.“
 
Í lykilstöðu fyrir útbreiðslu
 
Geitahjörð Sifjar og Jörundar telur rúmlega 60 skepnur en þeim fjölgaði verulega í vor.
 
„Við áttuðum okkur ekki á því, þegar við keyptum Hrísakot, að við værum stödd á einu hreinasta svæði landsins. Við fengum til að mynda aðeins að kaupa skepnur frá einum bæ á landinu, Fjallalækjarseli í Þistilfirði. Hugsjónin okkar var upphaflega að fjölga skepnum og viðhalda þannig þessum stofni. Síðan að vinna úr kjöti og ull, því við komum henni ekki úr útrýmingarhættu nema hún sé nýtt. Við ákváðum því að fara út í sæðingar, en það kom lítið sem ekkert út úr því í fjögur ár. Síðastliðið haust ákváðum við því að vera ekkert að vesenast og fórum náttúrulegu leiðina. Þá höfðum við eignast nokkuð fjarskyldan hafur úr sæðingum. Flestar huðnurnar voru hjá honum og það skilaði svona vel, við fengum alls 38 kið,“ segir Sif.
 
„Við erum í lykilstöðu með því að vera á þessu hreina svæði. Okkur ber eiginlega skylda til að koma upp hjörð með eins fjölbreyttu genamengi og mögulegt er og þess vegna eru sæðingar svo mikilvægar. Héðan væri svo hægt að dreifa geitum um allt land.“ 
 
 
Íslenska geitin og afurðir hennar
 
Íslenska geitféð (Capra hircus) er talið vera af norskum eða norrænum uppruna sem hafi komið hingað með landnámsmönnum. Í fræðsluritinu Geitfjárrækt eftir Birnu K. Baldursdóttur er talið að engin innblöndun hafi átt sér stað frá landnámi og því er stofninn einstakur á heimsmælikvarða. 
 
„Elstu heimildir um fjölda geita í landinu eru frá 1703 en þá voru þær 818. Í harðindunum á seinni hluta 19. aldar lá við að geitastofninn yrði aldauða og fór niður í 62 dýr á árunum 1881-1890 (meðaltal). Á fyrri hluta 20. aldar fór geitum að fjölga á ný og stærstur hefur geitfjárstofninn orðið tæplega 3.000 dýr árið 1930. Geit­um fækk­aði aftur samfara breytingum á búskaparháttum og niðurskurðar vegna fjárskipta og upp úr miðri síðustu öld var geitfjárstofninn aftur kominn í útrýmingar­hættu og taldi 87 dýr árið 1962. Upp úr því fóru menn að hafa verulegar áhyggjur af því að stofninn yrði útdauður og 1965 var farið að greiða stofnverndarframlag fyrir vetrarfóðraðar, skýrslufærðar geitur til að reyna að sporna við frekari fækkun í stofn­inum og til að stuðla að verndun hans,” segir í Geitfjárrækt.
 
Íslenski geitastofninn telur 1.123  vetrar­fóðraðar skepnur í dag samkvæmt Heiðrúnu, skýrsluhaldskerfi fyrir geitur. Flestir halda 1–20 geitur en stærsti geitfjárbóndi á landinu er Jóhanna B. Þorvaldsdóttir á Háafelli í Hvítársíðu.
 
Afurðir geitarinnar eru helst þrjár, mjólkin, ullin og kjötið. 
 
Mjaltaskeið getur verið um 300 dagar og dagsnyt á bilinu 1–2 lítrar að sumri en nytin minnkar í 0,5–1 lítra þegar haustar. Geitamjólk mun vera auðmeltari en kúa­mjólk og minni hætta mun vera á óþoli af völdum hennar, en fyrirhuguð er rannsókn á eðli og áhrifum geitamjólkur. Úr geitamjólk hafa einnig verið framleiddir ostar hér á landi.
 
Íslenskar geitur hafa bæði strý og fiðu og er töluvert meira af fiðu en hjá erlend­um geitum. Fínleiki þess er mikill og flokk­ast undir kasmírull.
 
Geitkjöt er afar magurt, en próteininnihald þess svipar til nautakjöts. Bragðgæði ákvarðast meðal annars af fóðurvali geitarinnar og aldur við slátrun. Kjötafurðir hafa verið framleiddar hér í litlu magni en eftirspurn mun vera mikil.
 
Tólgin hefur einnig verið notuð í matargerð, til sápugerðar og í húðkrem. Gömul húsráð segja hana góða fyrir þurra húð og útbrot, samkvæmt upplýsingum úr Geitfjárrækt.

 

Mögulegur milliliður í kjötinnflutningi
Fréttir 17. júlí 2024

Mögulegur milliliður í kjötinnflutningi

Ýmislegt bendir til þess að fyrirtækið Háihólmi sé milliliður í innflutningi Kau...

Hestamennska gefur lífinu lit
Fréttir 17. júlí 2024

Hestamennska gefur lífinu lit

Það gustaði um hross kennd við Vöðla í Rangárþingi ytra á Landsmóti hestamanna.

Skrifað undir landsáætlun um útrýmingu á sauðfjárriðu
Fréttir 17. júlí 2024

Skrifað undir landsáætlun um útrýmingu á sauðfjárriðu

Skrifað var undir nýja landsáætlun um útrýmingu á sauðfjárriðu í Hörpu á mánudag...

Ársgamall kjúklingur enn í verslunum
Fréttir 16. júlí 2024

Ársgamall kjúklingur enn í verslunum

Þrátt fyrir að meira en ár er liðið frá síðustu sendingu kjúklingakjöts frá Úkra...

Mannelski og sjálfsöruggi gæðingafaðirinn
Fréttir 16. júlí 2024

Mannelski og sjálfsöruggi gæðingafaðirinn

Olil Amble og Bergur Jónsson á Syðri-Gegnishólum hafa náð einstökum árangri í hr...

Ráðuneytið svarar ESA um óvissuatriði
Fréttir 15. júlí 2024

Ráðuneytið svarar ESA um óvissuatriði

Matvælaráðuneytið segir í svari við fyrirspurn ESA, Eftirlitsstofnun EFTA, að sa...

Farsæll áhugaræktandi
Fréttir 15. júlí 2024

Farsæll áhugaræktandi

Þrír synir undan heiðursverðlaunahryssunni Álöfu frá Ketilsstöðum komu fram á La...

Hundrað hesta setningarathöfn
Fréttir 12. júlí 2024

Hundrað hesta setningarathöfn

Setningarathöfn Landsmóts hestasmanna er alla jafna hátíðleg.