Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 1 árs.
Garðyrkjuskólinn á Reykjum skilinn frá Landbúnaðarháskóla Íslands
Fréttir 14. janúar 2021

Garðyrkjuskólinn á Reykjum skilinn frá Landbúnaðarháskóla Íslands

Höfundur: Vilmundur Hansen

Að fengnum niðurstöðum starfs­hóps um starfsmenntanám við Landbúnaðarháskóla Íslands hefur mennta- og menningar­málaráðherra ákveðið að hefja skuli undirbúning að tilfærslu starfsmenntanáms í garðyrkju og skyldum greinum við LbhÍ á Reykjum í Ölfusi undir yfirstjórn og ábyrgð Fjölbrautaskóla Suðurlands.

Í bréfi sem ráðherra sendi rektor LbhÍ þann 23. desember síða­st­liðinn segir að til að vinna að þessum áformum sé stefnt að því að gera sérstakan þríhliða samning um yfirfærslu námsins á milli LbhÍ, FSU og mennta- og menningarmálaráðuneytis.

Óánægja innan garðyrkjunnar

Talsverð óánægja hefur verið um stöðu starfsmenntanáms garð­yrkjunnar innan Landbúnaðar­háskóla Íslands.

Fulltrúar greinar­innar hafa bent á að starfsmenntanám eins og er í boði á Reykjum sé á framhaldsskólastigi og eigi því ekki að vera kennt við háskóla.

Í samþykkt félagsfundar Sam­bands garðyrkjubænda 23. október 2019 var samþykkt eftirfarandi ályktun:
„Garðyrkjuskóli ríkisins að Reykjum í Ölfusi, sem starfað hafði sjálfstætt frá stofnun hans 1939, var sameinaður Landbúnaðarháskóla Íslands (LbhÍ) fyrir 15 árum. Hefur garðyrkjunám verið starfrækt innan starfs- og endurmenntunardeildar skólans. Þær breytingar hafa ekki skilað þeim árangri sem vænst var. Garðyrkjunámið hefur frá sameiningu liðið fyrir þær tilraunir LbhÍ að leggja skólahald að Reykjum niður og dreifa því á ýmsar deildir innan skólans.

Garðyrkjunámið að Reykjum er starfsmenntanám í nánum tengslum við atvinnugreinina. Það er algjört lykilatriði í sókn og áframhaldandi uppbyggingu garðyrkjunnar á Íslandi að vel sé staðið að þessu námi, og því sinnt af metnaði og þekkingu á þörfum atvinnulífsins.

Samband garðyrkjubænda telur núverandi aðstæður óviðunandi og að brýn nauðsyn sé á að starfsmenntanám í garðyrkju á Íslandi verði fært undan LbhÍ, og verði framvegis sjálfstæð rekstrareining. Það er eindreginn vilji þeirra sem starfa innan vébanda Sambands garðyrkjubænda að þegar í stað verði gengið til þeirra verka.“

Fagnar ákvörðun ráðherra

Guðríður Helgadóttir, starfsmennta­námsstjóri og starfsmaður á Reykjum, segir í tengslum um tilfærslu starfsmenntanáms garð­yrk­j­­­­­unnar frá LbhÍ til FSU.

„Um leið og ég fagna því að ráðherra sé búinn að taka ákvörðun um að færa starfsmenntanám í garðyrkju og skyldum greinum undan stjórn LbhÍ er ljóst að tilfærslan er flókið verkefni sem þarf að leysa í góðri sátt við námið á Reykjum og atvinnulíf garðyrkjunnar.

Guðríður Helgadóttir, starfsmennta­námsstjóri og starfsmaður á Reykjum.

Í mínum huga er lykilatriði að tryggja að kjarnastarfsemin á Reykjum verði áfram garðyrkjunám á framhaldsskólastigi, eins og verið hefur allt frá stofnun Garðyrkjuskóla ríkisins árið 1939, en ríkið færði Reykjatorfuna á þeim tíma gagngert undir starfsemi garðyrkjuskóla. Nauðsynlegt er að garðyrkju- og umhverfisnám sé fóstrað í góðri starfs­aðstöðu og hefur sú aðstaða byggst upp á Reykjum undanfarna áratugi, meðal annars með stuðningi atvinnulífs garðyrkjunnar. Hér er jafnframt eina sérhæfða aðstaðan sem til er í landinu fyrir þessar greinar, en alls er garðyrkjunám kennt á sex mismunandi náms­brautum. Mikilvægt er að rýra ekki framtíðarmöguleika garð­yrkju- og umhverfisnáms á framhalds­skólastigi því þessar greinar skipta samfélagið öllu máli á tímum þegar ræktun, umhverfis- og loftslagsmál eru í brennidepli.

Mikill uppgangur er í þessum greinum og nauðsynlegt að tryggja að til staðar sé vel menntað fagfólk sem kann til verka. Á síðustu árum hefur innihald allra námsbrauta garðyrkjunáms verið endurskoðað í samstarfi við viðkomandi atvinnu­greinar og er nú unnið eftir nýrri námskrá sem samþykkt var af mennta- og menningarmálaráðherra sumarið 2018. Gott og farsælt samstarf við atvinnulíf garðyrkjunnar er forsenda fyrir því að námið og garðyrkjugreinarnar blómstri áfram enda fer verknám í garðyrkju fram úti í atvinnulífinu.

Rætur Garðyrkjuskólans eru á Reykjum og mikilvægt að þær haldi þó námið færist frá LbhÍ til FSu enda er eðlilegast að skólinn færist í heild sinni yfir, að húsnæði, landareignir og allir starfsmenn á staðnum fylgi með. Það er forsendan fyrir því að tryggja hagfellda tilfærslu námsins, farsæla framtíð garðyrkjumenntunar í landinu og áframhaldandi vöxt á svæðinu.

Jafnframt má geta þess að kennsla hefst aftur í skólahúsnæðinu á Reykjum mánudaginn 18. janúar en allt síðastliðið ár hafa staðið yfir umfangsmiklar endurbætur á húsnæði skólans. Er það mikið fagnaðarefni fyrir okkur starfsmenn að fá nemendur aftur í Garðyrkjuskólann en kennsla á haustönn fór fram í húsnæði LbhÍ á Keldnaholti í Reykjavík.

Þríhliða samningur

Ragnheiður I. Þórarinsdóttir, rektor Landbúnaðarháskóla Íslands, sagði í svari við fyrirspurn Bænda­blaðsins um ákvörðun ráð­herra að flytja starfsmenntanámið frá Landbúnaðarháskólanum til Fjölbrauta­skóla Suðurlands:
„Samhliða þessu er lögð áhersla á að efla rannsóknir og ný­sköpun á vegum LbhÍ.“ Auk þess sem hún endurtók að „til að vinna að þessum áformum er stefnt að því að gera sérstakan þrí­hliða samning um yfir­færslu námsins á milli LbhÍ, FSU og mennta- og menningarmálaráðuneytis.“ Ragnheiður vildi ekki tjá sig frekar um málið að svo stöddu.

Ragnheiður I. Þórarinsdóttir, rektor Landbúnaðarháskóla Íslands.

FSU ekki með í ákvörðuninni

Olga Lísa Ólafsdóttir, skólameistari Fjölbrautaskóla Suðurlands, sagði í svari til Bændablaðsins um tilfærslu starfsmenntanáms í garðyrkju og skyldum greinum undir yfirstjórn og ábyrgð Fjölbrauta­skóla Suðurlands:
„Forsendur mínar eru mjög takmarkaðar til að taka afstöðu til þessa verkefnis, því á ég erfitt með að segja mikið. Við vorum ekki með í þessari ákvörðun.

Olga Lísa Ólafsdóttir, skólameistari Fjölbrautaskóla Suðurlands.

Þetta er spennandi verkefni sem ég samþykkti að taka þátt í en á alveg eftir að sjá hvað er í pakkanum.“

KFC fékk mest úthlutað
Fréttir 24. janúar 2022

KFC fékk mest úthlutað

Atvinnuvega- og nýsköpunar­ráðuneytið hefur birt niðurstöðu úthlutunar á tollkvó...

Kostnaður við að fjölga neyðarstöðvum í Vaðlaheiðargöngum yfir 10 milljónir króna
Fréttir 24. janúar 2022

Kostnaður við að fjölga neyðarstöðvum í Vaðlaheiðargöngum yfir 10 milljónir króna

Kostnaður við að setja upp nýjar neyðarstöðvar í Vaðlaheiða­r­göng­um nemur 10 t...

Markmið um að 12 mánaða börn fái leikskólapláss í Sveitarfélaginu Skagafirði
Fréttir 21. janúar 2022

Markmið um að 12 mánaða börn fái leikskólapláss í Sveitarfélaginu Skagafirði

Sveitarfélagið Skagafjörður hefur um nokkurt skeið unnið að því að koma til móts...

Gat á sjókví í Reyðarfirði
Fréttir 21. janúar 2022

Gat á sjókví í Reyðarfirði

Matvælastofnun barst tilkynning frá Löxum Fiskeldi fimmtudaginn 20. janúar um ga...

Skoða alla möguleika til að mæta mikilli eftirspurn eftir lóðum
Fréttir 20. janúar 2022

Skoða alla möguleika til að mæta mikilli eftirspurn eftir lóðum

„Við erum hvergi nærri hætt með okkar uppbyggingu, en stefnan er að íbúar í svei...

„Fyrir okkur öll“ er nýtt slagorð Rangárþings ytra
Fréttir 19. janúar 2022

„Fyrir okkur öll“ er nýtt slagorð Rangárþings ytra

Rangárþing ytra efndi nýlega til slagorðakeppnis um slagorð fyrir sveitarfélagið...

Mikilvægt skref í uppbyggingu Akureyrarflugvallar
Fréttir 19. janúar 2022

Mikilvægt skref í uppbyggingu Akureyrarflugvallar

Samningur um smíði á 1.100 fermetra viðbyggingu við Flug­stöðina á Akureyri var ...

Byggðasaga Skagafjarðar tók 26 ár í vinnslu og í verkið fóru um 50 starfsár
Fréttir 19. janúar 2022

Byggðasaga Skagafjarðar tók 26 ár í vinnslu og í verkið fóru um 50 starfsár

Hjalti Pálsson frá Hofi, ritstjóri og aðalhöfundur Byggðasögu Skagafjarðar, skil...