Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 8 ára.
Bára Eyfjörð Heimisdóttir, gæðastjóri hjá Norðlenska.
Bára Eyfjörð Heimisdóttir, gæðastjóri hjá Norðlenska.
Fréttir 11. apríl 2017

Gæði, öryggi og arðsemi í framleiðslu

Höfundur: Vilmundur Hansen

Norðlenska er kjötvinnslufyrirtæki í eigu bænda. Fyrirtækið rekur tvær kjötvinnslur og þrjú sláturhús. Slátrað er nautgripum, svínum og sauðfé hjá Norðlenska og eingöngu eru unnar afurðir úr þessum dýrategundum. 

Bára Eyfjörð Heimisdóttir, gæðastjóri hjá Norðlenska, segir að gæði og öryggi matvælanna sé forsenda þess að rekstur fyrirtækisins sé arðbær. „Þessir þættir eru grunnstoðir í því að viðskiptavinurinn beri traust til fyrirtækisins og trúverðugleiki þess haldist út á við.“

Margir ferlar og vörulínur

„Í kjötvinnslufyrirtæki eins og Norðlenska eru margir ferlar og vörulínur þar sem hver hlekkur í keðjunni skiptir miklu máli. Ef eitthvað fer úrskeiðis í ferlinu þá getur það leitt til þess að óánægður viðskiptavinur situr uppi með gallaða vöru sem ekki er sambærileg við þá vöru sem hann á að venjast. 

Góð samskipti, fræðsla og þjálfun er lykillinn að því að fækka frávikum í framleiðsluferlum.“

Erfitt að fá Íslendinga í vinnu

„Ég tel að helsta áskorun matvælafyrirtækja eins og Norðlenska síðustu ár hafi verið að fá íslenska starfsmenn til vinnu. En það reynist sífellt erfiðara. Áskoranirnar verða meiri þegar starfsmannahópurinn verður fjölþjóðlegur og samskiptin verða erfiðari vegna tungumálaörðugleika. Einnig minnir það okkur á mikilvægi iðnnáms. Það að halda við og endurnýja í hópi kjötiðnaðarmanna er afar mikilvægt til þess að þekking og færni viðhaldist í fyrirtæki eins og Norðlenska.“

Upphafið hjá bóndanum

Bára segir að upphafið, eða uppeldið, hjá bóndanum sé einnig afar mikilvægur hlekkur þegar kemur að lokaútkomu hvað varðar gæði matvælanna.

„Íslendingar eru mjög lánsamir og hafa haft aðgang að góðri og heilnæmri vöru þegar kemur að kjöti. En það breytir ekki því að við getum alltaf gert betur. Á það bæði við þegar kemur að kjötgæðum og heilnæmi afurðanna. Við þurfum að vera samkeppnishæf við innflutt kjöt hvað varðar alla þætti. 
Hvað varðar heilnæmi afurðanna þá erum við í algjörum sérflokki ásamt Noregi og snýr það meðal annars að notkun sýklalyfja í matvælaframleiðslu. Sú sérstaða sem við höfum er eitthvað sem við fáum ekki keypt og við megum ekki tapa eða glata. Það er einnig áskorun að upplýsa neytandann hvers vegna þetta er svo mikilvægt.

Þar sem sýklalyfjaónæmi er eitthvað sem kannski er ekki svo áþreifanlegt fyrr en viðkomandi lendir í því þá vill þessi þáttur oft verða undir í umræðunni. 

En þrátt fyrir að við séum góð þarna þá má alltaf gera betur og ég held að nú síðustu ár hafi bændur og dýralæknar unnið enn markvissara  að því að minnka notkun sýklalyfja. Skilningur meðal bænda varðandi aðhaldssemi í lyfjaávísunum dýralækna er sífellt að aukast.“

Gæðavottun til að gera betur

„Síðastliðið haust fékk Norðlenska gæðavottun ISO/FSSC 22000 sem er matvælaöryggisstaðall. En það er liður í því að gera enn betur í öllu matvælaferlinu. Slíkur staðall stuðlar að meira aðhaldi og agaðri vinnubrögðum. Nokkuð sem allir hafa gott af að fara í gegnum. 

Þekking og færni í matvælafyrirtæki eins og Norðlenska fæst með því að hlúa að og tryggja endurnýjun í greininni. Þar er mikilvægi iðn­námsins mikið auk þess að við náum að eiga góð samskipti við þá erlendu starfsmenn sem sækja til okkar,“ segir Bára Eyfjörð Heimisdóttir, gæðastjóri hjá Norðlenska. 

Mikil aukning í notkun lífrænna áburðargjafa
Fréttir 5. desember 2025

Mikil aukning í notkun lífrænna áburðargjafa

Frá 2009 hefur hlutfall þess niturs sem kemur úr lífrænum úrgangi í öllum landgr...

Fimm loðdýrabú leggjast af og eitt stendur eftir
Fréttir 5. desember 2025

Fimm loðdýrabú leggjast af og eitt stendur eftir

Fimm loðdýrabú á Suðurlandi eru nú hætt starfsemi og búið er að loka sameiginleg...

Góður árangur náðst
Fréttir 4. desember 2025

Góður árangur náðst

Hluti af áburðarráðgjöf Ráðgjafarmiðstöðvar landbúnaðarins (RML) til bænda hefur...

Ávinningur felist í því að lækka rekstrarkostnað
Fréttir 4. desember 2025

Ávinningur felist í því að lækka rekstrarkostnað

Stjórnir Frjálsa lífeyrissjóðsins og Lífeyrissjóðs bænda hafa undirritað viljayf...

Heilbrigð mold í frískum borgum
Fréttir 4. desember 2025

Heilbrigð mold í frískum borgum

Alþjóðlegur dagur jarðvegs er haldinn 5. desember ár hvert til að vekja athygli ...

Kúabændur andvígir breytingum á búvörulögum
Fréttir 4. desember 2025

Kúabændur andvígir breytingum á búvörulögum

Á föstudaginn í síðustu viku hélt hópur kúabænda á fund ráðherra þar sem mótmælt...

Gríðarlega mikilvægur vettvangur
Fréttir 4. desember 2025

Gríðarlega mikilvægur vettvangur

Framkvæmdastjóri Loftslagsráðs, Anna Sigurveig Ragnarsdóttir, segir COP enn gríð...

Loðdýraeldi leggst af á Íslandi
Fréttir 4. desember 2025

Loðdýraeldi leggst af á Íslandi

Allir loðdýrabændur á Suðurlandi, fimm að tölu, eru nú að hætta minkarækt þar se...

https://bestun.airserve.net/banner_bundles/de3e87e0d8dde67f98882b3ac12f8b2f