Sjórinn étur jafnt og þétt af strandlengju Suðurlands, enda hún eitt útsettasta strandsvæði heims fyrir ágangi sjávar. Hér má sjá hafrót á ströndinni undan Jökulsárlóni og klakastykki úr Breiðamerkurjökli byltast í ölduganginum.
Sjórinn étur jafnt og þétt af strandlengju Suðurlands, enda hún eitt útsettasta strandsvæði heims fyrir ágangi sjávar. Hér má sjá hafrót á ströndinni undan Jökulsárlóni og klakastykki úr Breiðamerkurjökli byltast í ölduganginum.
Mynd / sá
Fréttaskýring 6. júní 2025

Yfirborð sjávar hækkar – útlit er fyrir aukin sjávarflóð og landbrot

Höfundur: Steinunn Ásmundsdóttir

Yfirborð sjávar fer hækkandi og við blasir að Íslendingar þurfa að undirbúa sig fyrir það, m.a. í sjóvörnum og öllu skipulagi við strendur. Sjávarstaða spilar stóran þátt í hættu á ágjöf og því talið að sjávarflóð færist í aukana með tilheyrandi landbroti og tjóni.

Hækkandi sjávarstaða af völdum hlýnunar jarðar mun að öllum líkindum leiða til aukinnar tíðni sjávarflóða, hér á landi sem annars staðar í veröldinni. Þá er útlit fyrir að landbrot aukist vegna vaxandi ágangs sjávar með hærri sjávarstöðu.

Veðurstofa Íslands hefur niðurreiknað sviðsmyndir frá Milliríkjanefnd Sameinuðu þjóðanna um loftslagsmál (IPCC), á skala sem hentar Íslandi, og birt í fyrstu útgáfu nýs loftslagsatlass. Hann er á vefnum gottvedur.is. Í atlasnum eru gildi borin saman við viðmiðunartímabilið 1981-2010. Þar er t.d. hægt að skoða tímaraðir fyrir 77 byggðakjarna við eða nálægt ströndum Íslands. Loftslagsatlasinn nýtist m.a. til að meta áhættu og viðkvæmni einstakra svæða gagnvart loftslagsbreytingum og undirbyggja þannig ákvarðanatöku og stefnumótun með tilliti til breyttrar framtíðar. Sagt er áríðandi að taka breytta sjávarstöðu inn í alla skipulagsvinnu.

Veðurstofan vinnur einnig, ásamt íslenskum ráðuneytum, að fyrstu landsáætlun fyrir Ísland um aðlögun að loftslagsbreytingum, þ.m.t. breyttri sjávarstöðu. Það virðist einsýnt að ríkið og sveitarfélög þurfa að undirbúa sig fyrir vaxandi sjávarflóð og óveður og þörf er á auknum rannsóknum til að undirbyggja varnir.

Áhrif víða um land

Á Suðurnesjum hafa, sem kunnugt er, orðið alvarleg sjávarflóð sem ógnað hafa byggð og innviðum. Víða er að étast úr ströndum fyrir norðan og gróðurlendi breytist í skörðótt rofsvæði. Sjórinn étur jafnt og þétt af strandlengju Suðurlands, enda hún eitt útsettasta strandsvæði heims. Höfuðborgarsvæðið er heldur ekki óhult og er Sæbrautin dæmi um það. Þá eru veitukerfi miðborgarinnar víða viðkvæm fyrir hækkandi sjávarstöðu.

Vegagerðin hefur metið aðstæður svæða sem orðið hafa illa úti í sjógangi og lagt til úrbætur. Er oftast um að ræða hækkun og breikkun sjóvarnargarða, flóðvarnargarða, sandfangara, hækkun gólfflata og aðgerðir til að sjór geti runnið til baka en safnist ekki fyrir á t.a.m. hafnarsvæðum.

Þegar saman fara há sjávarstaða og há ölduhæð, eins og hefur iðulega gerst í stórviðrum undanfarin ár, verður ágangur sjávar á land mikill og sjór gengur á land með ófyrirsjáanlegum afleiðingum og tjóni. Er það samspil sjávarhæðar og ölduhæðar við ströndina sem ráða magni og afli ágjafar yfir sjóvarnir og náttúrulega sjávarkamba.

Farið er að líta á sjávarflóð sem náttúruvá og kallað eftir aðgerðum til varna. Nauðsynlegt þykir að setja upp öflugar sjóvarnir þar sem það á við, og bæta um betur þar sem varnir eru fyrir. Alls verða framlög ríkisins vegna hafna og sjóvarna rúmur 1,6 ma.kr. árið 2025. Á eftirtöldum stöðum verður unnið við framkvæmdir við hafnir og sjóvarnir í ár m.v. áætlun: Snæfellsbæ, Grundarfirði, Stykkishólmi, Reykhólahreppi, Bíldudal, Súðavík, Ísafirði, Bolungarvík, Skagaströnd, Sauðárkróki, Siglufirði, Dalvík, Húsavík, Vopnafirði, Borgarfirði eystri, Djúpavogi, Hornafirði, Vestmannaeyjum, Þorlákshöfn, Sandgerði og Njarðvík.

Samgönguáætlun undanfarin ár hefur gert ráð fyrir 150 milljónum króna árlega beinlínis í sjóvarnir á landsvísu. Þykir ljóst að það sé hvergi fullnægjandi. Hefur komið fram hugmynd um að stofna sérstakan sjávarflóðasjóð, að fyrirmynd ofanflóðasjóðs.

Óveður og hlýrri sjór

Skemmst er að minnast óveðra í vetur þegar sjór gekk víða á land og olli stórtjóni. Mikið illviðri gekk yfir landið dagana 5.-6. febrúar og 1.-3. mars 2025 og bættist í hóp verstu óveðra síðustu ára. Slík veður eru þó ekki óalgeng hér á landi og koma á fárra ára fresti, skv. Veðurstofu.

Sjór er að hlýna við landið og hefur það m.a. áhrif á fiskgengd. Nýjar upplýsingar af veðurvefnum Bliku gefa t.a.m. til kynna óvenjulega hlýnun sjávar út af Norðurlandi. Þannig var sjávarhiti fyrir norðan land langt yfir meðalhita í maí og fór sjávarhiti við Grímsey t.d. yfir 10°C og var fyrstu 19 dagana í maí 4,5 stigum hærri en meðalhiti síðustu tíu ára. Í Skagafirði og Eyjafirði er sjávarhiti jafnan 2-3 °C á þessum árstíma en mældist yfir 8 °C í maí. Einar Sveinbjörnsson veðurfræðingur sagði að hluta til mega rekja þetta til mikilla hlýinda í veðri, en hitafrávikið hefði þó byrjað áður en góðviðrið gekk í garð. Aðrir kraftar séu því einnig að verki.

Anna Hulda Ólafsdóttir, skrifstofustjóri loftslagsþjónustu og aðlögunar hjá Veðurstofu Íslands, segir að samkvæmt mælingum í Reykjavík frá 1956-2022 hafi sjávarstaða að jafnaði hækkað um 2,3 mm á ári [1,8-2,8 mm] á því tímabili. „Þetta er örlítið meiri hækkun en áður var metin (2,0 mm/ ári 1957-2014) og bendir til aukinnar hækkunar á síðustu árum,“ segir hún.

Áhrif sjávarstöðuhækkunar ráðist af samspili landhæðarbreytinga og hnattrænnar hækkunar. „Áframhaldandi hækkun er mjög líkleg – spár sýna að afstæð sjávarstaða við Ísland gæti hækkað um 1-2 metra til ársins 2150 í verstu sviðsmyndum. Þar sem landsig á sér stað (t.d. sums staðar á Reykjanesi) gæti sjávarstaða hækkað um allt að 1,2 metra til aldamóta. Þar sem landris er hvað mest, t.d. við suðaustur- og suðurströnd landsins, gæti það leitt til þess sjávarstaða falli,“ bætir hún við. Hækkun gæti náð 0,4-1,0 metra við stendur Íslands.

„Þetta getur haft veruleg áhrif á strandsvæði Íslands, sérstaklega þar sem landsig er til staðar. Í sumum tilvikum gætu sameiginleg áhrif landsigs og sjávarhækkunar þýtt allt að 1,7 metra hækkun fyrir lok þessarar aldar við suðvestur- og vesturströnd landsins, sé horft á efri óvissumörk og verstu sviðsmynd,“ segir hún. Aukinn sjógangur og rof við strendur séu vel þekktar afleiðingar hækkandi sjávarstöðu og öfgafullra veðurfyrirbæra. „Aukin tíðni og styrkur lægða, storma og „rakaelfa“ (atmospheric rivers) tengjast loftslagsbreytingum og geta valdið auknum sjávarágangi,“ segir Anna Hulda enn fremur.

Landbrot á suðurströndinni

Bryndís Tryggvadóttir og Sigurður Sigurðarson, sérfræðingar hjá Vegagerðinni, segja að yfirborð sjávar hafi vissulega hækkað við Ísland. Vegna landhæðabreytinga sé afstöðubreyting sjávar mismunandi milli landshluta, til dæmis sé land að rísa víða í nágrenni jökla, þar á meðal Vatnajökuls, en land er að síga á Reykjanesi og yst á Tröllaskaga. Eina langa tímaröðin af mældum sjávarhæðum sé frá Reykjavíkurhöfn. Þar greinist um 3,3 mm hækkun á ári en þegar landhæðabreytingar eru dregnar frá þá reynist hækkun sjávar vera nær því um 2,3 mm á ári. Unnið sé að rannsóknum á afstöðubreytingum lands og sjávar í samstarfi við Náttúrufræðistofnun og Háskóla Íslands.

„Við verðum mest vör við ágang sjávar þar sem þétt byggð liggur á lágsvæðum við strendur. Við háar sjávarstöður og brim gefur yfir varnargarða og sjávarkamba sem getur valdið tjóni. Þess vegna verðum við mest vör við ágang sjávar á Faxaflóasvæðinu enda liggur byggð þar þétt við strandlengjuna. Flest þéttbýli á landi eru við sjó og því útsett fyrir sjávarflóðum.

Landbrot á sér stað víða á suðurströndinni, til að mynda við Vík í Mýrdal en það er af öðrum orsökum. Þar hefur sandströndin aldrei verið stöðug. Við Kötlugos 1918 barst gífurlegt magn af efni til sjávar sem varð til þess að ströndin við Vík gekk fram um 500 m og er ströndin enn að jafna sig eftir þann atburð. Landbrotið við Vík stjórnast ekki af hækkandi sjávarstöðu, því þar rís land í takt við hækkun sjávarborðs,“ segja þau Bryndís og Sigurður.

Með hækkandi sjávarstöðu og auknum veðurofsa vegna hnattrænnar hlýnunar megi búast við auknum ágangi sjávar, af hvaða stærðargráðu sé þó erfitt að segja. „Það var slæmur atburður síðasta vetur sem mun sennilegast lifa lengi í manna minnum, þ.e. óveðrið 1.-3. mars. Í þeim atburði gaf víða á land á sunnanverðum Faxaflóanum með tilheyrandi tjóni og raski á daglegu lífi. Það er þó margt sem bendir til þess að atburður af þessari stærðargráðu sé sjaldgæfur,“ segja þau enn fremur.

Suðurskautsísinn skiptir mestu

Svo vill til að sjávarstaða við Ísland hækkar meira eftir því sem vaxandi bráðnun verður á Suðurskautinu, en bráðnun Grænlandsjökuls hefur aftur á móti meiri áhrif sunnar á hnettinum. Eins og er bráðnar jökulhvel Grænlands hraðar en ísmassi Suðurskautsins, en hið síðarnefnda er afar óstöðugt og talið líklegt að um tímabundinn samdrátt í massatapi sé að ræða, einkum vegna snjósöfnunar. Fari bráðnun Suðurskautsins vaxandi mun það hafa gríðarlegar viðbótarafleiðingar um allan heim og þ.á.m. á Íslandi.

Bráðnun jökla hefur einnig í för með sér breytingar á þyngdarsviði næst jöklunum sem dregur úr hækkun sjávar á nærliggjandi svæði. Samkvæmt skýrslu vísindanefndar árið 2018, um loftslagsbreytingar og áhrif þeirra á Íslandi, má búast við því að hækkun sjávarstöðu við Íslandsstrendur verði um 30-40% af hækkun meðalsjávarstöðu á heimsvísu. Óvissumörkin eru þó rífleg og aukið massatap á Suðurskautslandinu gæti bætt tugum cm við hækkun hér við land.

Tap íshvelanna fjórfaldast

Mjög mikil óvissa er því uppi varðandi sjávarstöðubreytingar. Sjávarborð hækkaði hraðar en búist var við árið 2024, aðallega vegna útþenslu sjávarvatns vegna varmaþenslu. Samkvæmt greiningu m.a. NASA var hækkunin á síðasta ári 0,59 cm á ári, samanborið við væntan hraða upp á 0,43 cm á ári. Taldar eru yfirgnæfandi líkur á að breytingar hraðist mikið eftir að yfirstandandi öld lýkur, s.s. eftir árið 2100.

Tap íss frá hinum risavöxnu Grænlands- og Suðurskautsjökum hefur fjórfaldast frá tíunda áratugnum vegna loftslagskreppunnar. Varmaþensla sjávar veldur tæplega 40% af heildarhækkun og massatap jökla veldur næstmestu um hækkun yfirborðs, eða tæpum þriðjungi af sjávarstöðuhækkun undanfarinna áratuga.

Athuganir og endurgerðir á massajafnvægi jökla virðast benda til skýrrar þróunar vaxandi massataps síðustu áratugi, sem er fordæmalaust á að minnsta kosti síðustu 3.000 árum. Gögn úr fornleifarannsóknum sýna greinilega að meðalhiti jarðar sem fer +1°C yfir hitastig fyrir iðnbyltingu leiði til nokkurra metra hækkunar sjávarmáls, þar sem hærri algildi sjávarstöðu verða sífellt líklegri eftir því sem hlýnunin er meiri og varir lengur.

Tilflutningur milljóna manna

Um 230 milljónir manna búa innan við einum metra hærra en núverandi sjávarborð og milljarður manna í undir tíu metra hæð yfir sjávarmáli. Í nýrri rannsóknarskýrslu Communications Earth & Environment, sem birt var 20. maí sl., vara vísindamenn við hækkun sjávarborðs og segja allt stefna í mikla tilflutninga fólks frá strandsvæðum og inn til landsins. Hækkandi sjávarborð muni neyða milljónir manna frá ströndum víða um heim, og það jafnvel þótt hækkun hitastigs jarðar haldist undir 1,5 °C. Meðalhækkun hitastigs á jörðinni náði 1,5 °C í fyrsta skipti árið 2024. Alþjóðlega markmiðið er mælt sem meðaltal yfir 20 ár, þannig að 1,5 °C er ekki talið hafa verið náð enn þá m.v. það.

Hækkun sjávarborðs veldur mestu langtímaáhrifum loftslagskreppunnar og rannsóknir á undanförnum árum hafa sýnt að hækkunin gerist mun hraðar en áður var talið. 1,5°C mörkin voru talin leið til að forðast verstu afleiðingar hnattrænnar hlýnunar, en nýjar rannsóknir sýna að svo er ekki um hækkun sjávarborðs.

Varað er við að hækkun sjávarborðs verði óviðráðanleg við aðeins 1,5°C hnattræna hlýnun. Sú atburðarás geti þróast jafnvel þótt meðalhækkun síðasta áratugar, sem er 1,2 °C, haldi áfram. Alþjóðlegt markmið um að halda hækkun hitastigs jarðar undir 1,5 °C er nú þegar nánast utan seilingar, að sögn skýrsluhöfunda. Hin nýja greining leiði í ljós að jafnvel þótt losun jarðefnaeldsneytis yrði skrúfuð mjög hratt niður, til að halda í við 1,5 °C-markmiðið, muni sjávarborð hækka um 1 cm á ári fyrir lok aldarinnar, hraðar en þjóðir geti byggt strandvarnir.

Verstu möguleikar raungerast

„Heimurinn stefnir í 2,5 °C til 2,9 °C aukningu á hnattrænni hlýnun, sem er næstum örugglega meira en vendipunktur fyrir hrun jökulbreiðanna á Grænlandi og vestanverðu Suðurskautslandinu. Bráðnun þessara jökla myndi leiða til hrikalegrar 12 metra hækkunar sjávarborðs,“ segir í skýrslunni. Jafnvel aðeins 20 cm hækkun sjávarmáls fyrir árið 2050 muni leiða til flóðatjóns upp á að minnsta kosti billjónar Bandaríkjadala á ári fyrir 136 stærstu strandborgir heims, og hafa gríðarleg áhrif á líf og lífsviðurværi fólks.

Vísindamennirnir lögðu þó áherslu á að hvert brot af gráðu hnattrænnar hlýnunar, sem komið er í veg fyrir með loftslagsaðgerðum, skipti enn máli, því það hægi á hækkun sjávarmáls og gefi meira svigrúm til undirbúnings og aðgerða. Hækkun sjávarborðs upp á að minnsta kosti 1-2 metra virðist þó óhjákvæmileg, sögðu vísindamennirnir.

„Við erum farin að sjá nokkrar af verstu hugsanlegu sviðsmyndunum verða að veruleika, næstum fyrir augum okkar. Við núverandi hlýnun upp á 1,2 °C er hækkun sjávarborðs að aukast á hraða sem verður nánast óviðráðanlegur fyrir lok þessarar aldar, haldi þetta áfram, og sem er innan líftíma unga fólksins okkar,“ sagði Chris Stokes, prófessor við Durham-háskóla og aðalhöfundur rannsóknarinnar, í viðtali við Guardian í kjölfar birtingar skýrslunnar.

Jafnvel þótt mannkynið geti náð aftur hitastigi jarðarinnar fyrir iðnbyltingu, með því að fjarlægja CO2 úr andrúmsloftinu, þá mun það samt taka hundruð til þúsundir ára fyrir ísbreiðurnar að jafna sig, sögðu vísindamennirnir. Það þýði að land sem tapast vegna hækkandi sjávarmáls muni haldast þannig í langan tíma, mögulega þar til jörðin gengur í gegnum næstu ísöld.

Kötluvatn og t.v. rýrnandi malareiðið sem skilur að vatn og hafið úti fyrir. Mynd / Aðsend

Vötn breytast í firði

Gunnþór Kristjánsson, eigandi Núpskötlu I á Melrakkasléttu, nyrsta byggða bóli á meginlandi Íslands, segir að eiðið milli sjávar og Kötluvatns hafi stöðugt rýrnað sl. tíu ár. Hann spáir því að eftir 50-100 ár verði Kötluvatn orðið að firði. Vatnið er 3,8 km langt og 10 m djúpt þar sem dýpst er. Það er í rauninni sprunga, nyrsti hluti misgengisins sem gengur þvert í gegnum landið allt frá Reykjanesi. Yfirborð vatnsins er nokkrum metrum hærra en stórstraumsflóð en það er þó flokkað sem sjávarlón. Lítill fiskur er orðið í því núorðið og veiði nánast engin, er það jafnvel rakið til hornsíla.

Þegar gerir verulegt hafrót gengur sjór inn í vatnið og það er salt undir. Haft var eftir fyrri eiganda jarðarinnar að í einu briminu hefði hækkað í vatninu um heilt fet.

Árið 1934 eyðilögðust tún á kambinum og braut niður hýbýli og fjárhús í óveðri og sjávargangi. Bæjarstæðið var fært af eiðinu upp á austurbakka Kötluvatns 1950.

Gunnþór nefnir einnig Kollavík, hinum megin á Melrakkasléttunni, en þar gaf malareiðið sig og sjór flæddi inn. „Þar var ég búinn að spá því í 60 ár að mölin væri að fara. Þetta er bara alls staðar. Það er búið að taka burtu 40-50 metra af landinu. Ef þú ferð innst í Þistilfjörðinn að vestanverðu þá er Kollavíkin þar. Þar var vatn sem var ákaflega gott veiðivatn og nú er allt farið úr því. Mölin er alveg horfin þar,“ segir hann.

„Það hefur verið íslaust norður undan og þá koma mikið stærri öldur, eftir því sem lengra er í hafísinn þess stærri verða öldurnar sem koma að landi. Þetta er ekki hlýnunin að öðru leyti en því að ísinn er minni af því að það er hlýnun. Óveðrin koma svo auðvitað reglulega og ekkert við því að gera,“ segir Gunnþór.

mynd/sá

Sjóvarnir á Íslandi

Sjóvarnir eru varnir gegn sjávarflóðum og landbroti af völdum ágangs sjávar.

Byggð svæði og svæði þar sem til staðar eru dýrmæt mannvirki eða menningarminjar skulu að jafnaði njóta forgangs við gerð sjóvarna. Áætlun um sjóvarnir er gerð samkvæmt lögum um samgönguáætlun og tilgreind í siglingamálaáætlunarkafla hennar. Við gerð áætlana um sjóvarnir hefur Vegagerðin samvinnu og samráð við hlutaðeigandi sveitarstjórn, landeigendur og aðra aðila sem að málinu koma.

Vegagerðin er lögbundinn umsagnaraðili á lágmarksland- og gólfhæð á lágsvæðum við strendur þar sem hætta er á sjávarflóðum. Því leita Skipulagsstofnun og sveitafélög til Vegagerðarinnar þegar kemur að skipulagsmálum á lágsvæðum við strendur. Við mat á lágmarksland- og gólfhæð er fyrst ákvörðuð flóðhæð með 100 ára endurkomutíma miðað við núverandi afstöðu lands og sjávar. Síðan er tekið tillit til hækkandi sjávarstöðu sem er byggð á niðurstöðum íslensku vísindanefndarinnar um áhrif loftlagsbreytingar á Ísland. Sú vinna byggir á grunni IPCC alþjóðanefndar Sameinuðu þjóðanna. Fyrir hverja fyrirspurn gefur Vegagerðin út töflu með lágmarksland- og gólfhæð miðað við landhæðabreytingar og sjávarstöðuhækkana til næstu 100 ára.

Samkvæmt samgönguáætlun er gert ráð fyrir áframhaldandi vinnu að sjóvörnum. Unnið er í samvinnu við sveitarfélög eða landeigendur sem greiða a.m.k. 1/8 hluta kostnaðar. Við útdeilingu fjármagns er notað forgangsröðunarlíkan sem tekur tillit til sjávarrofs og verðmæta lands sem hverfur. Gert er ráð fyrir að framkvæmdaþörf í sjóvörnum aukist vegna hækkandi sjávarstöðu sem orsakast af hnattrænni hlýnun og jarðskorpuhreyfingum. Þá er töluvert um að sjóvarnir séu orðnar gamlar og þörf sé á endurbyggingu og styrkingu.

Ríkissjóður greiðir allt að 7/8 hlutum kostnaðar við undirbúning og framkvæmdir við sjóvarnir. Landeigendur og sveitarfélög, sem hag hafa af varnaraðgerðum á landi sínu, greiða minnst 1/8 hluta og skiptist kostnaður á milli landeigenda að tiltölu við stærð þess lands og strandlengju sem verja. (Stjórnarráðið/Vegagerðin)

Skylt efni: loftslagsmál

Yfirborð sjávar hækkar – útlit er fyrir aukin sjávarflóð og landbrot
Fréttaskýring 6. júní 2025

Yfirborð sjávar hækkar – útlit er fyrir aukin sjávarflóð og landbrot

Yfirborð sjávar fer hækkandi og við blasir að Íslendingar þurfa að undirbúa sig ...

Horfur afar góðar í íslensku landeldi
Fréttaskýring 20. maí 2025

Horfur afar góðar í íslensku landeldi

Ef áætlanir ganga eftir hjá íslenskum fyrirtækjum í landeldi er ekki ósennilegt ...

Langvarandi áhrif ótíðarinnar koma í ljós
Fréttaskýring 1. maí 2025

Langvarandi áhrif ótíðarinnar koma í ljós

Sauðfjárbændur glíma enn við veruleg áhrif af ótíðinni á síðasta ári. Að vori va...

Lóum og spóum fækkar ógnvænlega
Fréttaskýring 16. apríl 2025

Lóum og spóum fækkar ógnvænlega

Heiðlóu og spóa fækkar ört. Ástæðan er rakin til samþættra áhrifa hér á landi, e...

Gömul saga og ný
Fréttaskýring 24. mars 2025

Gömul saga og ný

Í niðurstöðum ráðuneytisstjórahóps matvælaráðuneytisins um fjárhagsvanda landbún...

Mikil þörf á afleysingafólki
Fréttaskýring 21. mars 2025

Mikil þörf á afleysingafólki

Mikil þörf er á fleira afleysingafólki fyrir bændur. Fáir virðast hafa afleysing...

Tekist á um hvar málefni dýravelferðar eigi að liggja
Fréttaskýring 12. mars 2025

Tekist á um hvar málefni dýravelferðar eigi að liggja

Dýraverndarsamtök Íslands telja að færa eigi stjórnsýslu dýravelferðar frá Matvæ...

Meirihluti dýrahræja urðaður ólöglega
Fréttaskýring 25. febrúar 2025

Meirihluti dýrahræja urðaður ólöglega

Dýrahræ og -leifar flokkast sem „aukaafurð dýra“ í regluverki úrgangsmála, sem e...