Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 5 ára.
Úðun skordýraeiturs, llgresiseyðis og fleiri efna er greinilega ekki hættuminni en svo að þeir sem það gera verða að vera íklæddir sérstökum varnarbúnaði.
Úðun skordýraeiturs, llgresiseyðis og fleiri efna er greinilega ekki hættuminni en svo að þeir sem það gera verða að vera íklæddir sérstökum varnarbúnaði.
Fréttaskýring 11. október 2018

Um 390 þúsund tonn af eitur- og varnarefnum eru notuð í landbúnaði ESB-ríkjanna á ári

Höfundur: Hörður Kristjánsson
Sala eiturefna í landbúnaði í löndum Evrópusambandsins jókst umtalsvert á árunum frá 2011 til  2016 samkvæmt tölum Eurostat, hagstofu ESB. Þar vekur notkun á sveppa- og bakteríueitri sérstaka athygli sem og á illgresis- og mosaeyði sem og skordýraeitri. 
 
Frá þessum þjóðum kemur einmitt mikið af þeirri kjötvöru, grænmeti og ávöxtum sem flutt eru til Íslands. 
 
Þó ekki séu öll hjálparefni skaðleg náttúrunni, er samt vitað að ýmis innihaldsefni sumra hjálparefna eru þrávirk og safnast því upp í jarðvegi. Geta þau því hæglega endað í grunnvatni og neysluvatni manna og dýra. Vaxandi áhyggjur hafa einmitt verið meðal vísindamanna um að mögulega sé verið að eyðileggja jarðveg í stórum stíl, bæði með óhóflegri notkun eiturefna og ofnýtingu. Það geti leitt til  niðurbrots jarðvegs þannig að hann verði ónothæfur til ræktunar. 
 
Massaframleiðslan kallar á eiturefni, stera og sýklalyf
 
Vandinn er að til að ná hámarks framleiðni og afköstum sem verið er að kreista á methraða út úr lífríkinu í tæknivæddum landbúnaði, verður að beita margvíslegum efnafræðilegum töfrabrögðum. Allt er þetta sagt gert neytendum til hagsbóta, þeir kalli á sífellt ódýrari vörur. Það þekkjum við vel af áróðri og rökum hagsmunaaðila fyrir óheftum innflutningi á matvörum til Íslands. Þar hafa ýmis eiturefni reynst afar skilvirk, eins og glyfosat, skordýraeitur, sýklalyf og sterar. Ef þessi „hjálparefni“ eru notuð, þá verða menn um leið að líta framhjá mögulegum slæmum afleiðingum fyrir náttúru og menn. 
 
Vitundarvakning fyrir lífrænum landbúnaði
 
Fjölmargir bændur og vaxandi fjöldi neytenda er af þessum sökum farinn að horfa til lífræns landbúnaðar, eða til hugmyndafræði Slow Food sem leyfir ekki notkun allra þessar aðskotaefna og allra síst eiturefna. Er þó oft reynt í staðinn að styrkja lífrænar varnir með aðstoð ýmissa skordýra eins og t.d. er gert í íslenskum gróðurhúsum. Framleiðsla á lífrænum afurðum getur samt aldrei náð sömu afköstum og massaframleiðsla með aðstoð kemískra efna. Hún er alltaf á náttúrulegum forsendum og með raunverulegri afkastagetu við náttúrulegar aðstæður á hverjum stað. Það þýðir að kostnaður verður í takt við það og ekki hægt að undirbjóða þær staðreyndir með töfrabrögðum efnaiðnaðarins.  
 
171 þúsund tonn af  sveppa- og bakteríueitri
 
Sveppa- og bakteríueitur voru mest notuðu hjálparefnin í evrópskum landbúnaði árið 2016 sam­kvæmt tölum Euro­stat. Af þeim voru seld 167.643 tonn, en inn í þær tölur vantaði söluna í Lúxemborg sem notaði 92 tonn af þeim árið 2011 og Holland sem notaði 4.238 tonn af slíkum efnum árið 2011. Má því ætla að heildarsalan á sveppa- og bakteríueitri í ESB-löndunum árið 2016 hafi verið ríflega 171 þúsund tonn. Slík efni í duftformi geta innihaldið um 90% brennistein sem er mjög eitraður, en önnur innihaldsefni geta verið óskaðlegar jurtaolíur en einnig sérhæfðar bakteríur. 
 
127 þúsund tonn af gróðureyðingarefnum
 
Efnin sem hér um ræðir eru oft nefnd hjálparefni og er ýmist ætlað að verjast plöntusjúkdómum eða ágangi óæskilegra jurta og skordýra. Mest er þar notað af gróður­eyðingar­efnum og mosaeitri. Af slíkum efnum voru samkvæmt tölum Eurostat, notuð árið 2016 í ríkjum ESB samtals 124.295 tonn. Þar vantaði þó inn tölur frá Hollandi sem notaði 3.025 tonn af slíkum efnum árið 2011. Einnig vantaði tölur frá Lúxem­borg sem notaði 102 tonn af gróður­eyðingar­efnum og mosa­eitri árið 2011. Má því ætla að heildarnotkunin í ESB-ríkjunum hafi vart verið minni en 127 þúsund tonn árið 2016.  
 
Sum þessara efna, eins og gróðureyðingarefnið Roundup, innihalda virka efnið glyfosat sem valdið hefur miklum deilum á liðnum árum og misserum. Fjöldi lögfræðinga og vísindamanna á vegum efnaframleiðslurisa á borð við Monsanto, sem nú er komið í eigu þýska fyrir­tækisins Byern, hafa haldið fram skaðleysi glyfosats. Nokkrir íslenskir vísinda­menn hafa líka lagst á þá sveif. Sífellt eru þó að koma fram rann­sóknir sem sýna fram á skaðlegar verk­anir glyfosats á umhverfið og ekki síst býflugur.
Glyfosat skaðar meltingarveg býflugna
 
Þann 24. sept­ember sl. var m.a. birt hjá vísindarita­útgáfu PNAS ítarleg vís­inda­­rannsókn í Bandarík­j­unum sem fjallar um áhrif glyfosats á býflugur. Um 3.200 vísindagreinar eru birtar hjá PNAS á ári hverju. Þar kemur fram að bakteríur í meltingarvegi býflugna, sem eru þeim lífsnauðsynlegar til vaxtar, skaðast af glyfosati sem býflugurnar komast í snertingu við. Þetta leiðir til dauða býflugnanna, en þol einstakra bakteríutegunda í meltingarvegi býflugna gagnvart glyfosati geti þó verið mismunandi mikið.
 
Í niðurlagi greinarinnar segir að hunangsflugur eins og fleiri lífverur reiði sig á virkni þarmaflórunnar m.a. við að melta fæðu og halda ónæmiskerfinu gangandi. Einnig sem sýklavörn. Truflun á þessari virkni hafi afger­andi afleið­ingar á hraust­leika flug­unnar og þar hafi glyfosat áhrif. Ný­legar endur­­teknar tilraunir og rannsóknir hafi komið fram með sannanir fyrir þessum áhrifum. Þá kemur einnig fram í greininni að glyfosat sé vatnsleysan­legt efni og áhrif þess geti haldist í náttúrunni í langan tíma. Það þýðir væntanlega líka að glyfosat getur borist í grunnvatn og mögulega í drykkjarvatn manna. 
 
37 þúsund tonn af skordýraeitri
 
Skordýraeitur er þriðji mest notaði hjálparefnaflokkurinn í landbúnaði í ESB-ríkjunum. Af slíkum efnum voru notuð, samkvæmt tölum Eurostat, 36.888 tonn árið 2016. Þar vantaði þó inn tölur frá Lúxemborg og Hollandi, en í síðarnefnda ríkinu voru seld 270 tonn af skordýraeitri árið 2011. Heildarsala á skordýraeitri í ESB-löndunum árið 2016 hefur því vart verið undir 37 þúsund tonnum. Skordýraeitur hefur m.a. áhrif á taugakerfi skordýra. Taugagas sem notað hefur verið í hernaði er í grunninn af líkum toga.
 
Þarna er um að ræða efni sem enginn deilir líklega um að séu eitruð og geta verið mjög skaðleg mönnum. Enda er þeim beinlínis ætlað að drepa skordýr og önnur sníkjudýr sem kunna að sækja á nytjajurtir.  
 
1.400 tonn af lindýraeitri
 
Af lindýraeitri voru seld 1.377 tonn samkvæmt tölum Eurostat sem eru þó ekki tæmandi. Þar vantar tölur frá fimm ríkjum. Mögulega gæti vantað inn í þessar tölur í það minnsta tugi eða jafnvel nokkur hundruð tonn. 
 
Um 13.600 tonn af plöntuhormónum
 
Vaxtastýriefni (Plant grow regulators), eða plöntuhormónar, eru meðal þeirra hjálparefna sem notuð eru í evrópskum landbúnaði. Af þeim voru seld samkvæmt tölum Eurostat 13.465 tonn árið 2016. Þar vantar þó tölur frá Eistlandi, Lúxemborg og Hollandi svo munað gæti ríflega 200 tonnum. Heildarsalan var því líklega nærri 13.600 tonn. 
 
Um 38 þúsund tonn af öðrum óskilgreindum hjálparefnum
 
Af öðrum ótilgreindum hjálparefnum voru seld í ESB-ríkjunum 35.182 tonn árið 2016. Þar vantar þó tölur frá Lúxemborg og frá Hollandi þar sem salan var 3.182 tonn árið 2011. Því má leiða líkum að því að heildarsala óskilgreindra hjálparefna til landbúnaðar hafi vart numið minna en 38 þúsund tonnum árið 2016. 
 
Á þessari skýringarmynd er reynt að skýra á einfaldan hátt fyrir fólki hvaða eiginleika skordýraeitur hefur. Flest slík efni eitri taugakerfið. Erfitt sé að miða eiturnotkunina við ákveðnar skordýrategundir. Margar eiturtegundirnar valdi skaðlausum dýrum tjóni, villtri náttúru, gæludýrum og mönnum. Sumar tegundir skordýraeiturs skaði vatnsgæði og hafi margvísleg skaðleg áhrif á lífverur.
 
Stórþjóðirnar stórtækar í efnanotkuninni
 
Þegar skoðuð eru einstök ríki í yfirliti Eurostat eru stórþjóðirnar Spánn, Frakkland, Þýskaland og Ítalía stórtækust í notkun eiturefna.
 
Spánverjar 76.040 tonn af eitur- og verndarefnum 2016
 
Á árinu 2011 voru notuð í spænskum landbúnaði 31.343 tonn af sveppa- og bakteríueitri. Sú notkun hafði aukist í 38.905 tonn árið 2006. Þá jókst notkun Spánverja á illgresis- og mosaeyði úr 13.835 tonnum árið 2011 í 15.224 tonn árið 2016. Aðeins dró þó úr notkun Spánverja á skordýraeitri á þessu tímabili, eða úr 8.062 tonnum 2011  í 7.501 tonn árið 2016.
 
Þetta er þó ekki allt því í öðrum eitur- og varnar- og vaxtarstýriefnum svonefndum notuðu Spánverjar 19.873 tonn árið 2011, en það var þó komið í 15.310 tonn árið 2016. 
 
Heildarnotkun eitur- og varnar- og vaxtarstýriefnum í spænskum landbúnaði nam þannig 72.113 tonnum árið 2011. Var sú tala komin í 76.940 tonn árið 2016. 
 
Þjóðverjar með 46.889 tonna notkun árið 2016
 
Þjóðverjar standa okkur ekki síður nærri í kjötinnflutningi en Spánverjar. Þar voru notuð 10.525 tonn af sveppa- og bakteríueitri árið 2011. Notkunin á slíkum efnum var komin í 12.141 tonn árið 2016. Aðeins dró úr notkun Þjóðverja á illgresis- og mosaeyði, og fór notkunin úr 17.955 tonnum árið 2011 í 15.038 tonn árið 2016. Notkunin á skordýraeitri tók hins vegar risastökk í þýskalandi, eða úr 875 tonnum árið 2011 í 15.463 tonn árið 2016.  
 
Af öðrum eitur-, varnar- og vaxtarstýringar­efnum notuðu þýskir bændur 14.501 tonn árið 2011. Sú notkun féll síðan umtalsvert eða niður í 4.247 tonn árið 2016. 
 
Heildarnotkun eitur- og varnar- og vaxtarstýriefna í þýskum landbúnaði nam þannig 43.858 tonnum árið 2011, en var komin upp í 46.889 tonn árið 2016. 
 
Frakkar með 72.037 tonna notkun árið 2016
 
Franskir bændur notuðu 24.524 tonn af sveppa- og bakteríueitri árið 2011. Sú notkun var komin í 31.910 tonn árið 2016. Þá notuðu Frakkar 29.209 tonn af illgresis- og mosaeyði árið 2011. Þar jókst notkunin í 30.043 tonn árið 2016. Af skordýraeitri notuðu Frakkar 2.150 tonn árið 2011, en notkun slíkra efna var komin í 3.637 tonn árið 2016. 
 
Frakkar notuðu síðan samtals 5.454 tonn af öðrum eitur-  varnar- og vaxtarstýringarefnum árið 2011. Jókst notkun slíkra efna í Frakklandi í 6.447 tonn árið 2016. 
 
Heildarnotkun eitur-, varnar- og vaxtarstýringarefna í frönskum landbúnaði nam þannig 61.337 tonnum árið 2011 og 72.037 tonn árið 2016. 
 
Ítalir notuðu 60.216 tonn árið 2016
 
Á Ítalíu minnkaði notkun hjálparefna í landbúnaði í sumum flokkum á milli áranna 2011 til 2016, en heildarnotkunin jókst samt um tæplega 1.600 tonn. Þannig notuðu ítalskir bændur 43.293 tonn af sveppa- og bakteríueitri árið 2011. Var notkun slíkra efna komin í 37.047 tonn ári 2016. Notkun Ítala á illgresis- og mosaeyði nam 8.327 tonnum árið 2011, en var komin í 7.486 tonn árið 2016. Af skordýraeitri notuðu Ítalir 7.028 tonn árið 2011, en notkunin á slíkum efnum var komin niður í 2.022 tonn árið 2016. 
Af öðrum eitur-, varnar- og vaxtarstýringarefnum notuðu Ítalir 10.702 tonn árið 2011. Var sú notkun komin í 13.664 tonn árið 2016. 
 
Heildarnotkun eitur-, varnar- og vaxtarstýringarefna í ítölskum landbúnaði nam 58.648 tonnum árið 2011 og 60.216 tonn árið 2016. 
 
Bretar með um 17–18.000 tonna notkun á ári
 
Í fimmta sæti á listanum yfir efna­notkun í landbúnaði koma svo Bretar. Þar eru tölur ekki alveg tæmandi, en heildarnotkunin lætur þó trúlega nærri að vera 24.500 tonn árið 2011. Þar gæti verið skekkja upp á ca 170 tonn. Var heildarnotkun Breta komin niður í 16.500 tonn á árinu 2016 með mögulegri viðbót upp á um 1.700 tonn miðað við tölur Eurostat. 
 
Hafa má í huga að breska þjóðin er svipuð að mannfjölda og Frakkar. eða nærri 61 milljón í landi sem er 209.331 ferkílómetri, eða tvöföld stærð Íslands. Frakkar eru um 65 milljónir í landi sem er 640.679 ferkílómetrar, eða þreföld stærð Bretlands. Þá er Frakkland með mun meira rými undir landbúnað og á suðlægari breiddargráðu en Bretland, sem skýrir án efa mun meiri efnanotkun. 
 
Ísland ekki á blaði en Noregur með um 800 tonn
 
Ísland kemst ekki á blað í þessari úttekt Eurostat og Noregur er þar sagður vera með heildarnotkun upp á um 800 tonn og þá langmest af mosa- og illgresiseyði.
Betur má ef duga skal
Fréttaskýring 13. september 2024

Betur má ef duga skal

Tæp 2.000 tonn af heyrúlluplasti skiluðu sér í endurvinnslu árið 2023. Enn eru u...

Vindmyllur þyrla upp moldviðri
Fréttaskýring 30. ágúst 2024

Vindmyllur þyrla upp moldviðri

Nú stefnir allt í að fyrsta vindorkuver Íslands rísi á næstu tveimur árum. Lands...

Óeðlileg einokun á koltvísýringsmarkaði
Fréttaskýring 16. ágúst 2024

Óeðlileg einokun á koltvísýringsmarkaði

Skortur á koltvísýringi og óöryggi við afhendingu hans hefur hamlandi áhrif á yl...

Orsakir kals og möguleg viðbrögð
Fréttaskýring 5. júlí 2024

Orsakir kals og möguleg viðbrögð

Talsverðar kalskemmdir eru á Norðurlandi í ár og virðist tjónið vera útbreiddast...

Vanefndir stjórnvalda
Fréttaskýring 21. júní 2024

Vanefndir stjórnvalda

Nýlega bárust fréttir af nípuræktun í Þurranesi í Dölum og á síðasta ári var sag...

Ísland eftirbátur í stuðningi við nýliðun og fjárfestingu
Fréttaskýring 7. júní 2024

Ísland eftirbátur í stuðningi við nýliðun og fjárfestingu

Ísland stendur öðrum löndum að baki þegar kemur að stuðningi við nýliða í landbú...

Rýnt í endurskinshæfni skóga
Fréttaskýring 24. maí 2024

Rýnt í endurskinshæfni skóga

Komið hefur fram í vísindagreinum að breyting á endurvarpi sólargeislunar gæti m...

Upprunamerki matvæla skipta máli
Fréttaskýring 7. maí 2024

Upprunamerki matvæla skipta máli

Þegar kemur að því að versla matvæli horfa neytendur mikið til upprunalands fram...