Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 8 mánaða.
Kornrækt hefur verið stunduð hérlendis frá landnámi, þó með mislöngum hléum, en frá árinu 1990 tók kornrækt verulega að aukast sem náði hámarki kringum 2010.
Kornrækt hefur verið stunduð hérlendis frá landnámi, þó með mislöngum hléum, en frá árinu 1990 tók kornrækt verulega að aukast sem náði hámarki kringum 2010.
Mynd / Hrannar Smári Hilmarsson
Fréttaskýring 8. september 2023

Í sókn eftir erfiðleika

Höfundur: Þórdís Anna Gylfadóttir

Kornrækt virðist vera í sókn á nýjan leik og hefur ákvörðun stjórnvalda að setja töluvert fjármagn inn í greinina hjálpað mikið til. Starfshópur á vegum matvælaráðuneytis framkvæmdi ítarlega úttekt á stöðu kornræktar á Íslandi sem leiddi til umbreytinga.

Veðurfar leikur eitt stærsta hlutverkið í kornrækt og því er ekki hægt að stýra, ekki frekar en annars staðar, en hér er allra veðra von allan ársins hring. Norðlæg lega landsins gerir það að verkum að sumrin eru stutt og hitastigið svalt. Hérlendis höfum við þó töluvert af landi og vatni, sem er takmarkandi þáttur víðs vegar annars staðar í heiminum.

Innflutningur á byggi og hveiti árið 2022 var um 60 þúsund tonn, sem mögulega væri hægt að rækta hérlendis og anna þar með eftirspurn markaðarins, að því gefnu að íslenskt korn verði samkeppnishæft í verði og gæðum. Að ekki sé talað um ávinning þess að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og ná markmiðum um kolefnishlutleysi, að minnsta kosti að minnka kolefnisspor, með því að rækta vöruna hérlendis sem næst neytandanum þar sem yfirvofandi loftslagsvá og hamfarahlýnun skal ekki taka af léttúð.

Kornrækt eykur fæðuöryggi

Til að íslenskt korn geti tekið við af innfluttu korni þarf hins vegar fyrst að þróa og skapa umgjörð fyrir innlendan kornmarkað. Bændur hafa kallað eftir einhvers konar tryggingakerfi svo kornræktin verði áhættunnar virði. Það er til mikils að vinna ef vel tekst til, m.a. að auka fæðuöryggi, tryggja sjálfbærni og efla íslenskan landbúnað.

Skýrslan „Bleikir akrar – aðgerðaáætlun um aukna kornrækt“ er afurð starfshóps matvælaráðherra sem var útgefin fyrr á árinu. Þar er tekið fram að kornrækt hefur verið stunduð hérlendis frá landnámi, þó með mislöngum hléum, en frá árinu 1990 tók kornrækt verulega að aukast sem náði hámarki kringum 2010.

Þá fór örlítið að halla undan fæti en hefur svo farið vaxandi á nýjan leik. Síðastliðin ár hefur uppskera aukist og er nú um 10.000 tonn, mestmegnis bygg. Talið er að um 300 bændur standi að kornrækt hérlendis. Það korn sem ræktað er fer mest til fóðrunar eigin skepna heima á bæjum.

Áætlanir segja til um að á næstu 20 árum geti markaður fyrir bygg og hveiti hérlendis farið yfir 100.000 tonn, sem sagt tífaldast að stærð.

Aðkoma stjórnvalda

Einstaklingsframtak bænda hefur vegið þungt í kornrækt hérlendis en ríkið hefur hingað til lítið komið að stuðningi við greinina, sem er sérstakt í ljósi þess að um 25% af orkuneyslu mannsins kemur frá korntegundum.

En nú kveður við nýjan tón hjá stjórnvöldum og eflaust hafa þættir eins og heimsfaraldur kórónuveiru, stríðsátök í heiminum og loftslagsvá ýtt við ráðamönnum því samkvæmt fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar verða tveir milljarðar, á árunum 2024–2028, nýttir til þess að hrinda aðgerðaáætlun um aukna kornrækt í framkvæmd. Nú eru einungis fjórir mánuðir eftir af árinu, eða þangað til þessir fjármunir, eða hluti þeirra, eiga að koma inn í greinina.

Leitað var eftir svörum um ráðstöfun þessara fjármuna til kornræktar á Íslandi hjá matvælaráðuneytinu en ekki fengust svör í tæka tíð fyrir prentun.

Hrannar Smári, tilraunastjóri Jarðræktarmiðstöðvar LbhÍ.

Álit sérfræðinga

Hrannar Smári Hilmarsson starfar sem tilraunastjóri Jarðræktarmiðstöðvar Landbúnaðarháskóla Íslands (LbhÍ) og er einn höfunda skýrslunnar Bleikir akrar.

„Fyrsta forgangsmál kornræktar á Íslandi er að það þarf að kynbæta korn. Allt annað verður til einskis ef ekki verða til kynbætur á korni, eins og annars staðar í heiminum.“ Hrannar segir kynbætur á korni hafa legið í dvala hérlendis, alveg síðan kynbótaverkefni Jónatans Hermannssonar lögðust af fyrir mörgum árum og í samanburði við nágrannalönd okkar erum við langt á eftir í plöntukynbótum.

„Á þessari öld hefur þróun í plöntukynbótum verið gríðarlega hröð sem við höfum algjörlega farið á mis við. Þegar kornkynbætur hérlendis hefðu átt að eflast lögðust þær nánast af.“

Hrannar telur ástæðuna hafa verið skipulagsleysi og skort á fjármagni. Hann bendir jafnframt á að erlendis eru einkarekin fyrirtæki sem starfa að plöntukynbótum en slíkt er ekki raunhæft hérlendis. Það hafi svo ekki verið fyrr en ráðherra matvæla, Svandís Svavarsdóttir, skipaði starfshóp sem skrifaði áðurnefnda skýrslu, Bleikir akrar, að hjólin fóru að snúast á nýjan leik.

Hrannar fagnar því hversu vel ráðherra hefur tekið í skýrsluna og að hún sýni það í verki en áætluð er tveggja milljarða innspýting í greinina næstu fjögur ár, 2024 til 2028.

Kynbótahvelfing Lantmännen

Nú í vor var LbhÍ úthlutað styrk frá matvælaráðuneytinu til að hefjast strax handa við kynbætur á byggi, en einnig er stefnt að því að hefja hveitikynbætur á næsta ári. „Okkur bauðst að taka þátt í samstarfi við sænskt kynbótafyrirtæki, Lantmännen, sem er í eigu sænskra bænda. Fyrirtækið býr yfir nýrri kynbótahvelfingu, með þjörkum og fyrsta flokks búnaði, og mun starfshópur nýja byggkynbótaverkefnisins fá aðgang að þeirri starfsemi sem þar fer fram.“ Hrannar telur að í samstarfinu felist hagkvæmni og sparnaður við kynbætur korns og muni hraða þróun þess fyrir íslenskar aðstæður. „Það er ákveðin bylting að eiga sér stað sem felur í sér aðferðafræði, sem hefur verið notuð við kynbætur húsdýra síðastliðin ár, og er núna beitt við plöntukynbætur.“ Hrannar segir frá því í stuttu máli að nú verði hægt að erfðagreina gríðarlegan fjölda plantna og reikna kynbótamat fyrir þær áður en þær hafa verið prófaðar við íslenskar aðstæður. Það hefur ekki verið gert áður.

Bylting í aðferðafræði

Hrannar greinir frá því að þessi aðferð, erfðamengjaúrval, sé að hefja innrás sína inn í flest kynbótaverkefni víða um heim og er notuð við nautgripakynbætur á Íslandi. „Það er einnig hægt að nýta aðferðina við plöntukynbætur hér heima en alls ekki af þeirri stærðargráðu sem okkur býðst í Svíþjóð.“ Milli 10 og 20 víxlanir voru framkvæmdar í sumar þar sem hver var framkvæmd 15 sinnum, en fjöldi einstaklinga sem kemur úr hverri og einni víxlun er gríðarlega mikill og vinnan við að greina alla þessa einstaklinga er gífurleg. Með þátttöku LbhÍ í þessu samstarfi fæst kynbótamat á tugþúsundir einstaklinga, byggt á erfðamengjaspá, sem eru svo ræktaðir í gróðurklefum innan kynbótahvelfingarinnar þar sem kornið fer í gegnum sex kynslóðir á ári. Kynbótamat byggt á erfða­ greiningum og niðurstöðum tilrauna á Íslandi hefur þegar verið þróuð innan LbhÍ af Hrannari og Agli Gautasyni og sýnir nokkuð gott öryggi, sem er ákveðið afrek.

„Af þessum þúsundum afkvæma tökum við 1.000 einstaklinga til prófunar á Íslandi vorið 2024. Það mun svo leiða til þess að haustið 2024 munu 100 bestu einstaklingarnir fara í fjölgun og fara í dreifðar tilraunir í ökrum bænda vorið 2025. Þannig mun þetta halda áfram ár eftir ár og þrisvar á ári fara fram víxlanir byggðar á kynbótaspá og erfðamengjapörun. Með henni er hægt að framkvæma víxlanir einstaklinga sem eru líklegastir til að gefa af sér afburðaafkvæmi.“

Kynbótaverkefnið og erfða­ mengjaspáin tekur til þriggja eiginleika í endurnýjaða byggkyn­ bótaverkefninu. Þar vegur þyngst uppskera, rúmþyngd og þurrefnishlutfall við skurð, því þessir eiginleikar eru hagrænir fyrir bændur. Aðspurður hversu langt ferlið er frá fyrstu tilraunum þar til kornið sé komið í akra hjá bændum, segir Hrannar að það líði töluverður tími. „Þetta er 10 ára ferli ef allt gengur upp, en eftir það er hægt aðfánýttyrkiá4árafresti–sem verður alltaf betra og betra.“

Helgi Eyleifur Þorvaldsson, brautarstjóri og aðjunkt við LbhÍ.

Ísland sjálfbært í kornrækt

Helgi Eyleifur Þorvaldsson, brautar­stjóri búfræðibrautar og aðjunkt við Landbúnaðarháskóla Íslands, leiddi vinnu starfshóps ráðherra. Helgi telur að framtíðarhorfur íslenskrar kornræktar séu góðar en fari að miklu leyti eftir því hvernig stjórnvöldum takist að vinna úr öllum þeim tillögum sem settar voru fram í skýrslunni Bleikir akrar. „Niðurstaðan var sú að mikilvægast væri að byrja á nýjan leik á kynbótum korns. Sú vinna er hafin sem er mjög ánægjulegt. Við eigum svo von á því með haustinu að stjórnvöld útfæri með hvaða hætti fjármagnið, sem búið er að gefa vilyrði fyrir, komi inn í greinina.”

Í skýrslunni er tekið fram að Ísland geti orðið sjálfbært í kornrækt og annað eftirspurn markaðarins hérlendis. Aðspurður hvort að það sé raunhæft markmið svarar Helgi því játandi. „Það er raunhæft, ef skýrslan verður útfærð og framkvæmd, þá já.“ Helgi talar einnig um að það sé samfélagsleg ábyrgð okkar að reyna að rækta allt það sem við getum hér á landi. „Besta ræktunarlandið er víða búið í heiminum en hérlendis höfum við enn nóg af landi. Mannfólki fjölgar enn þá í heiminum og því ber okkur skylda að reyna að rækta allt það sem við getum hérlendis.“

Engin ein töfralausn

Hvað varðar leiðir og útfærslur til að auka ræktunaröryggi hérlendis, s.s skjólbelti, skjólskóga, notkun varnarefna og annað slíkt, telur Helgi að það verði næstu skref. „Það þarf ólíkar aðferðir og ólíkar lausnir á hverjum stað fyrir sig, það er því miður ekki til nein ein töfralausn fyrir allt landið því land er svo misjafnt.“ Hann bætir því þó við að kornræktin sé áhættusöm landbúnaðargrein og krefjist þolinmæðis. „Það er líka mikilvægt að stjórnvöld hafi þolinmæði fyrir kornræktinni og haldi áfram stuðningi við greinina, sérstaklega fyrstu tíu árin til að koma stöðugum fótum undir kornræktina hérlendis.“ Til að kornræktin vaxi og dafni hér sé það líka afar mikilvægt að setja á laggirnar fagráð í jarðrækt og tryggingakerfi fyrir bændur.

Það er ljóst að hér er hægt að rækta korn sem gæti verið stór liður í því að tryggja fæðuöryggi og efla íslenskan landbúnað. Spennandi verður að sjá hvernig næstu ár þróast í íslenskri kornrækt.

Skylt efni: kornrækt

Rýnt í endurskinshæfni skóga
Fréttaskýring 24. maí 2024

Rýnt í endurskinshæfni skóga

Komið hefur fram í vísindagreinum að breyting á endurvarpi sólargeislunar gæti m...

Upprunamerki matvæla skipta máli
Fréttaskýring 7. maí 2024

Upprunamerki matvæla skipta máli

Þegar kemur að því að versla matvæli horfa neytendur mikið til upprunalands fram...

Heimild kjötafurðastöðva til sameiningar og samstarfs
Fréttaskýring 18. apríl 2024

Heimild kjötafurðastöðva til sameiningar og samstarfs

Alþingi samþykkti 21. mars sl. breytingu á búvörulögum sem felur í sér undanþágu...

Mikilvægasta rými jarðar
Fréttaskýring 29. mars 2024

Mikilvægasta rými jarðar

Stærsta innlögn nýrra fræsafna í Alþjóðlegu fræhvelfinguna á Svalbarða átti sér ...

Umræða um geðheilsu bænda mikilvæg
Fréttaskýring 8. mars 2024

Umræða um geðheilsu bænda mikilvæg

Vísbendingar eru um að bændur séu líklegri til að þjást af einkennum streitu og ...

Framtíðarlandbúnaður á eftir að stökkbreytast
Fréttaskýring 23. febrúar 2024

Framtíðarlandbúnaður á eftir að stökkbreytast

Á komandi áratugum er líklegt að landbúnaður breytist verulega. Þættir eins og t...

Úrgangsmálin í ólestri
Fréttaskýring 9. febrúar 2024

Úrgangsmálin í ólestri

Í byrjun síðasta árs tóku gildi lög hér á landi þar sem bann er lagt við urðun á...

Bændur telja samningsstöðu sína gagnvart afurðastöðvum veika
Fréttaskýring 30. janúar 2024

Bændur telja samningsstöðu sína gagnvart afurðastöðvum veika

Aðstöðumunur kúabænda vegna mismunandi stuðnings við kvótakaup milli landsvæða h...