Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 5 ára.
Er nauðsynlegt að friða þá?
Fréttaskýring 26. júní 2018

Er nauðsynlegt að friða þá?

Höfundur: Guðjón Einarsson

Þjóðin skiptist í þrjá jafnstóra hópa í afstöðu til áframhaldandi hvalveiða við Ísland. Einn hópurinn styður veiðarnar, annar er andvígur þeim og sá þriðji tekur ekki afstöðu. Erlendir andstæðingar veiðanna hamra á því að verið sé að veiða úr hvalastofnum í útrýmingarhættu sem er vísindalega rangt.

Íslendingar sem eru mótfallnir veiðunum segjast óttast að ímynd og efnahagur Íslands skaðist af veiðunum sem ekki virðist vera raunin svo teljandi sé. Og svo eru þeir sem af tilfinningalegum ástæðum vilja ekki láta drepa svona tignarlegar skepnur.

Það kom nokkuð á óvart í vor þegar Kristján Loftsson, forstjóri Hvals hf., tilkynnti að fyrirtækið ætlaði að hefja veiðar á langreyði að nýju eftir tveggja ára hlé. Margir töldu að þessar veiðar væru úr sögunni vegna innflutningshindrana í Japan sem verið hefur eini markaðurinn fyrir langreyðarkjöt frá Íslandi.

Á árinu 2016 lýsti Kristján því yfir að veiðunum væri sjálfhætt ef ekki yrði breyting á þessum hindrunum sem sneru m.a. að úreltum aðferðum við efnagreiningar á afurðunum að hans sögn. Nú hafa hins vegar skapast nýjar forsendur fyrir veiðunum, að mati Kristjáns. Hvalur hf. hefur síðustu misserin unnið að rannsóknum í samstarfi við Nýsköpunarmiðstöð Íslands og Háskóla Íslands á möguleikum þess að nýta langreyðarkjöt í járnríkt fæðubótarefni fyrir fólk sem þjáist af blóðleysi. Einnig gelatín úr beinum og hvalspiki til lækninga og í matvæli. Jafnframt gerir Kristján sér vonir um að dregið verði úr markaðshindrunum í Japan.

Vilji þjóðarinnar

Í framhaldi af tilkynningu um þessa ákvörðun gerði MMR skoðunarkönnun meðal þjóðarinnar um afstöðu hennar til þess að hvalveiðar hæfust að nýju. Hún leiddi í ljós að 34% voru annað hvort mjög eða frekar andvíg áframhaldandi hvalveiðum, 34% voru mjög eða frekar hlynnt því að veiðarnar yrðu teknar upp á ný en 32% tóku ekki afstöðu. Þá kom einnig fram að karlar voru hlynntari veiðunum en konur og fólk úti á landi jákvæðari gagnvart þeim en íbúar á höfuðborgarsvæðinu. Sú var tíðin að yfirgnæfandi meirihluti þjóðarinnar var hlynntur hvalveiðum en stuðningurinn hefur verið að minnka hin síðari ár.

Er nauðsynlegt að skjóta þá?

„Er nauðsynlegt að skjóta þá?“ segir í vinsælu lagi Bubba Morthens sem flestir kannast við og lýsir á dramatískan hátt örlögum hvals sem eltur er af hvalveiðiskip. Auðvitað er ekki bráðnauðsynlegt að skjóta hvali, en á móti má spyrja: Er nauðsynlegt að friða þá?

Allar veiðar fela í sér dráp á dýrum. Er nauðsynlegt að skjóta hreindýr á heiðum uppi? Eða gæs og rjúpu?
Ef menn eru á annað borð þeirrar skoðunar að það sé siðferðilega réttlætanlegt að drepa villt dýr, þá er eðlilegt að miða við að ekki sé gengið svo nærri viðkomandi dýrastofnum að þeir geti ekki viðhaldið sér. Það heitir að veiðarnar séu sjálfbærar.

Helstu rök erlendra aðila gegn hvalveiðum Íslendinga eru þau að langreyðurin sé í útrýmingarhættu. Þótt ítrekað hafi verið reynt að leiðrétta þessa rangfærslu ratar hún aftur og aftur inn í erlenda fjölmiðla. Þannig segir hið virta blað The Guardian í Bretlandi í vefútgáfu sinni í apríl sl. að Íslendingar séu að hefja að nýju veiðar á „the endangered fin whale“, sem sagt langreyði sem sé í útrýmingarhættu.

Stofn í góðu standi

Staðreyndin er sú að enda þótt langreyðarstofninn á suðurhveli jarðar sé álitinn í slæmu ástandi á það hreint ekki við um langreyðina í Norður-Atlantshafi, þvert á móti. Enginn samgangur er á milli þessara stofna.

Í skýrslu Hafrannsóknastofnunar kemur fram að langreyði hafi fjölgað jafnt og þétt við Ísland frá upphafi hvalatalninga árið 1987 og var fjöldinn í síðustu talningu (2015) sá mesti síðan talningar hófust. Besta leiðrétta mat fyrir allt talningasvæði Íslands og Færeyja árið 2015 var um 41 þúsund langreyðar, þar af 33 þúsund á Austur Grænlands-Íslands stofnsvæðinu þar sem veiðar Íslendinga fara fram.

Hafrannsóknastofnun hefur ráðlagt að ekki verði veitt meira en 161 dýr á því svæði árlega tímabilið 2018-2025.

Að beita þeim rökum að vegna þess að langreyður á suðurhveli jarðar sé álitin í útrýmingarhættu hljóti að þurfa að friða langreyðarstofninn í Norður-Atlantshafi er svona álíka rökrétt og að segja að friða þurfi hreindýrastofninn á Íslandi vegna þess að hreindýrastofninn á Grænlandi standi höllum fæti.

Ímynd Íslands og efnahagur

Íslendingar vita flestir að lang­reyðurin er ekki í útrýmingarhættu. Andstæðingar hvalveiða hérlendis hafa á hinn bóginn lýst áhyggjum sínum af því að ímynd Íslands og þar með efnahagur landsins skaðist af veiðunum. Fólk í útlöndum hætti að kaupa íslenskan fisk og hætti að heimsækja landið.

Þessir þættir voru til athugunar í nýlegri skýrslu (2015/2016) sem utanríkisráðherra lét taka saman um áhrif hvalveiða á samskipti og viðskipti Íslands og annarra ríkja. Þar kemur vissulega fram að fjölmargar þjóðir hafi lýst sig andvígar hvalveiðum Íslendinga og hvatt til þess að þeim yrði hætt en engin þjóð hefur gripið til neinna afgerandi aðgerða til að fylgja því eftir. Íslensk stjórnvöld hafa staðfastlega haldið því fram að veiðarnar væru löglegar að þjóðarrétti og viðskipti með hvalaafurðir væru í samræmi við alþjóðaskuldbindingar.

Ferðaþjónustan skaðast ekki

Í skýrslunni segir ennfremur að einstök fyrirtæki og erlendir samstarfsaðilar hafi orðið fyrir barðinu á tímanbundum aðgerðum samtaka sem berjast gegn hvalveiðum en „til þessa er ekki talið að verulegt tjón á hagsmunum Íslands til skemmri eða lengri tíma hafi orðið,“ segir í skýrslunni. Þá segir að ekkert benti til þess að hvalveiðarnar hafi áhrif á straum ferðamanna til Íslands. Orðrétt segir:

„Af reynslu undanfarinna ára að dæma mun ferðaþjónustan á Íslandi ekki verða fyrir búsifjum vegna hvalveiða.“

Langreyðurin er önnur af tveimur hvalategundum sem leyft er að veiða hér við land, sem kunnugt er. Hin er hrefnan. Af einhverjum ástæðum vekja hrefnuveiðarnar ekki eins miklar deilur, ef frá er talið að íslensku hvalaskoðunarfyrirtækin setja sig upp á móti veiðunum. Ekki verður þó séð að veiðarnar hafi haft telandi áhrif á aðsókn að hvalaskoðun.

Hvalir éta milljónir tonna

Útflutningstekjur af hvalveiðum vega ekki þungt í efnahag Íslendinga og ef afurðirnar seljast ekki er veiðunum sjálfhætt. Þeir sem hlynntir eru áframhaldandi hvalveiðum leggja meiri áherslu á þann þátt að stemma verði stigu við fjölgun hvala því þeir keppi við fiskistofnana um fæðu í hafinu og éti auk þess óhemjumikið af fiski.

Nýlegt mat á þessu liggur ekki fyrir en samkvæmt 20 ára gömlu mati var áætlað að hvalir á Íslandsmiðum ætu 6 milljónir tonna á ári þar af tvær milljónir tonna af fiski. Síðan þá hefur orðið mikil fjölgun hvala á svæðinu við Ísland. Á hinn bóginn má kannski deila um það hvort veiðar á 160 langreyðum á ári og nokkrum tugum hrefna hafi einhver afgerandi áhrif hvað þetta varðar til eða frá.

Seint skapast sátt

Ekki skal gert lítið úr skoðunum þeirra og tilfinningum sem vilja stöðva hvalveiðar út frá dýraverndunarsjónarmiðum. Þau sjónarmið eru alveg gild, hvort sem í hlut eiga hvalir eða fuglar eða villt landdýr. Það er ekki nauðsynlegt að skjóta þessi dýr. En þá á líka að heyja baráttuna á þeim forsendum en ekki að beita rangfærslum eins og þeim að hvalirnir hér séu í útrýmingarhættu og að efnahagur Íslands hafi stórskaðast af veiðunum.

Orðspor og ímynd landsins til lengri tíma litið er hins vegar erfiðara að mæla. Í niðurstöðum skýrslunnar segir að seint muni skapast sátt um hvalveiðar Íslendinga á alþjóðavettvangi miðað við óbreytt ástand, einkum og sér í lagi með tilliti til stórhvalaveiða.

„Því er ekki loku fyrir það skotið að með því að draga saman í veiðum á stórhvelum náist aukin sátt um stefnu Íslendinga í þessum málaflokki á alþjóðavettvangi á yfirstandandi kvótatímabili [2018-2025]. Þá má ætla að efnahagslegar forsendur og aðgangur að erlendum mörkuðum verði hafður til hliðsjónar við mat á framhaldi stórhvalaveiða þegar núverandi kvótatímabili lýkur,“ segir í niðurlagi skýrslu utanríkisráðherra. 

Skylt efni: hvalveiðar

Umræða um geðheilsu bænda mikilvæg
Fréttaskýring 8. mars 2024

Umræða um geðheilsu bænda mikilvæg

Vísbendingar eru um að bændur séu líklegri til að þjást af einkennum streitu og ...

Framtíðarlandbúnaður á eftir að stökkbreytast
Fréttaskýring 23. febrúar 2024

Framtíðarlandbúnaður á eftir að stökkbreytast

Á komandi áratugum er líklegt að landbúnaður breytist verulega. Þættir eins og t...

Úrgangsmálin í ólestri
Fréttaskýring 9. febrúar 2024

Úrgangsmálin í ólestri

Í byrjun síðasta árs tóku gildi lög hér á landi þar sem bann er lagt við urðun á...

Bændur telja samningsstöðu sína gagnvart afurðastöðvum veika
Fréttaskýring 30. janúar 2024

Bændur telja samningsstöðu sína gagnvart afurðastöðvum veika

Aðstöðumunur kúabænda vegna mismunandi stuðnings við kvótakaup milli landsvæða h...

Auður, kvóti, mjólk og skuld
Fréttaskýring 26. janúar 2024

Auður, kvóti, mjólk og skuld

Þegar tiltekinn hópur bænda hefur tök á að eignast mjólkurkvóta með því að vera ...

Dýrmæt erfðaefni dreifast víða
Fréttaskýring 13. janúar 2024

Dýrmæt erfðaefni dreifast víða

Eyþór Einarsson, ráðunautur hjá Ráðgjafarmiðstöð landbúnaðarins (RML), segir að ...

Ræktunarland verður kortlagt
Fréttaskýring 8. desember 2023

Ræktunarland verður kortlagt

Gert er ráð fyrir að þingsályktunartillaga um nýja landsskipulagsstefnu til 15 á...

Mikilvægi sjálfsaflahlutfalls
Fréttaskýring 17. nóvember 2023

Mikilvægi sjálfsaflahlutfalls

Hugtakið „fæðuöryggi“ hefur verið mikið til umræðu undanfarin misseri. Ef litið ...